Sunday, August 4, 2013

Endalokin

Við erum búin að vera á landinu í meira en viku en ekkert búið að heyrast hér þar sem við vorum hreint út sagt bara upptekin, ógurlega erfitt að vera svona vinsæll.
        Helgina eftir að Pétur, Signý og Fannar flugu aftur til Íslands fórum við fjölskyldan með vinum okkar í smá ferðalag. Við skutluðumst til Awaji shima, eyju sem er ekki svo langt í burtu frá Nishinomiya. Við hittumst öll í Kobe. Við fjölskyldan, Moe, Arisa og Jón. Stukkum þar upp í rútu og eftir sennilega klukkutíma langa rútuferð vorum við komin á eyjuna. Þetta var allt öðruvísi Japan en við höfðum vanist. Það voru engin yfirgnæfandi háhýsi, fáir bílar og mikið af gróðri út um allt. Fyrsta stoppið okkar var í skemmtigarði sem heitir Onokoro park. Við vorum nánast eina fólkið á svæðinu og þegar við gengum inn í garðinn hljómaði afslöppuð kántrítónlist í hátalarakerfinu. Við tróðum töskunum okkar í leigðan skáp og skottuðumst út í sólina með þessa súrrealísku tónlist í eyrunum í mannlausum skemmtigarði. Ylfa kom auga á hringekju og við skelltum okkur saman mæðgurnar. Að því loknu fundum við besta faratæki veraldar. Pöndu sem maður getur keyrt um á. Við keyrðum smá rúnt á pöndunni áður en Moe og Arisa drógu Nökkva og stelpurnar með sér í völundarhús. Það leit ekki nógu spennandi út svo við Jón biðum fyrir utan í sólskýli og vinkuðum ævintýragjarna fólkinu við og við. Völundarhúsið byggðist upp á því að maður ætti að byrja á því að labba alveg upp á topp. Þar var hægt að veifa til þeirra sem biðu. Þegar þau ætluðu aftur á móti niður flækti málið aðeins. Við biðum og biðum eftir að þau kæmu út en allt fyrir ekki. Skyndilega skaust Nökkvi út en Moe, Arisa, Ylfa og Iðunn voru ekki með honum. Í ljós kom að eina leiðin til að komast út var að fara í gegnum leynihurð. Moe og Arisa þvældust fram og til baka með stelpurnar en voru ekki að fatta þessa leynihurð sem Nökkvi hafði rambað á. Á einum tímapunkti fór starfsmaður inn til að gefa þeim hint hvert þær ættu að fara. Tíu mínútum eftir að starfsmaðurinn var farinn komust þær loksins í gegn. Eftir það var röltið um garðinn frekar rólegt. Prufuðum að fara í parísarhjól, frystiklefa og svona hitt og þetta. Garðurinn endaði svo á lítilli búð þar sem Nökkvi keypti sér ís með laukbragði en ég fékk mér ís með sætkartöflubragði. Laukísinn var eiginlega eins og að borða sorbet með laukídýfu. Við fórum og funduð hótelið okkar og hentum okkur í alvöru rúm í fyrsta skiptið í laaaaaangan tíma. Ylfa kunni vel að meta að hafa sjónvarp og loftkælingu en ég held að við höfum aðeins tapað okkur í loftkælingunni þar sem fólk vaknaði með hálfgert kvef daginn eftir. Við keyptum okkur bara mat út í búð og borðuðum öll saman upp á hóteli, slöppuðum af spjölluðum. Daginn eftir fórum við á ströndina. Ylfa var alls ekki hrifin af sjónnum og vildi bara vera á öxlunum á foreldrum sínum. Iðunn var hin kátasta þar sem hún var dregin um í bleikum kút. Ströndin var mjög skemmtileg en við sólbrunnum öll, nema Ylfa. Um kvöldið vorum við komin aftur til Kobe og hittum Jun. Við fórum öll saman á yakiniku stað þar sem maður grillar sjálfur kjöt á borðinu. Það var gaman að prófa en ég var ekki að finna mig á þessum stað. Það var mikill reykur í loftinu og kjötið var mjög misjafnt á bragðið. Það var þó nautakjöt og kjúklingabitar sem voru ótrúlega góðir. Við kvöddumst og komum okkur heim í draslið þar sem við vorum hálfpartin byrjuð að pakka en samt ekki komin á það stig að geta séð hvernig eða hvort allt kæmist með í ferðatöskurnar til Íslands.

        Næstu dögum var varið í að pakka í ferðatöskur og kassa, reyna að muna eftir öllu og þrífa eftir okkur. Megumi, Mary, Fumika og hennar börn hittu okkur stelpurnar svo á mánudeginum eftir og við fengum okkur hádegismat saman. Það var mjög gaman en ég var orðin full stressuð yfir flutningunum og fluginu svo ég var hálf utanvið mig og matarlistin mis mikil. Krakkarnir skemmtu sér þó vel og það var markmiðið. Um kvöldið kom Moe svo til okkar í loka heimsókn og hjálpaði okkur að ljúka öllum internetmálum. Megumi hjálpaði okkur svo með restina af reikningunum því við gleymdum auðvitað að ganga frá öllu gas ,rafmagns og vatnsmálum fram á síðustu stundu. Guði sé lof fyrir góða vini! Megumi var svo yndæl að bjóðast til að skutla okkur á rútustoppið okkar svo við þyrftum ekki að fara með ferðatöskurnar okkar í lestina. Við hlóðum bílinn og kvöddum leigusalann okkar. Svo fórum við með Ylfu, Iðunni og Mary í barnabúð rétt hjá rútustoppinu, svo fórum við á McDonalds því Mary og Ylfa voru harðákveðnar að fá sér franskar. Tíminn leið ótrúlega hratt og allt í einu var kominn tími til að fara í rútuna. Miku og Saori, vinkonur Ylfu komu á stoppið til að kveðja. Stelpunum fannst rosa fyndið að hittast utan leikskólans og skemmtu sér konunlega. Ég var hálfgerð taugahrúga og átti erfitt með að halda einbeitingu. Svo voru tár og fyrirfram söknuður og veifað út um rútugluggann. Rútan var farin af stað þegar ég fattaði að burðarpokinn hennar Iðunnar hafði orðið eftir í bílnum hennar Megumi. Hún er frábær og keyrði í loftköstum yfir á síðasta stopp áður en rútan færi á hraðbrautina og kom pokanum til skila. Það var aðeins meira snökt og veifað og svo keyrt upp á flugvöll.
       Þaðan af var allt frekar fljótt að líða. Við vorum komin upp í flugvél áður en við vissum af, stelpurnar sofnuðu, við borðuðum kvöldmatinn okkar og reyndum svo sjálf að sofa. Það var 9 klst flug, við lentum í Dubai og það var enn myrkur úti. Biðin þar var 5 tímar og við höfðum tíma til að kaupa Barbí og dúkku handa stelpunum, fá okkur að borða og ákveða að okkur fyndist Dubai (fluvöllurinn) ekkert voðalega spennandi. Svo tók við flug til London, 7 klst og töluvert hressar stelpur. Þær sofnuðu samt aðeins í því flugi líka. Lendingin á Heathrow var ömurleg, hristingur, tók langan tíma og svo var hópur af unglingum með rosa læti í hvert skipti sem flugvélin hristist. Svo vorum við lent og þurftum að koma okkur yfir í rétta byggingu, það var ágætis rölt en við vorum þó með kerru og burðarpoka (þökk sé Megumi) svo að stelpurnar þurftu ekki að ganga. Við biðum þar í 6 tíma, minnir mig. Svo var komið að fluginu heim. Við vorum rosa þreytt og rugluð eftir allt flakkið svo við rétt náðum að setjast og spenna beltin áður en við steinsofnuðum. Ég rankaði við mér nokkrum sinnum þar sem ég var ýmist búin að tala upp úr svefni, slefa, hrökkva við út af hrotunum í sjálfri mér eða afþví að hausin á mér hafði rúllað af koddanum. Það hefur ábyggilega verið undursamleg sjón. Stelpurnar gátu kúrt á milli okkar Nökkva og sváfu alla leiðina. Við vöktum Ylfu þegar við vorum lent í Keflavík. Ég varð voða aum þegar flugfreyjan sagði svo "Velkomin heim" í kallkerfið. Eftir að hafa verið í risa flugstöðvum síðasta sólahringinn var Leifsstöð ansi lítil og við hreinlega skutumst í gegn og vorum allt í einu búin að ganga í flasið á mömmu, pabba og Ásdísi. Adrenalínið helltist yfir okkur og entist okkur nógu lengi til að geta heilsað upp á Önnu og Ívar í 10 mínútur og sitja upp á Álagranda í um það bil klukkutíma áður en batterýin kláruðust alveg og við sofnuðum aftur, nema núna í okkar eigin rúmi. Allt í allt þá var ferðin og flugið mun bærilegra en það sem ég hafði gert mér í hugarlund.
        Eftir að við komum heim erum við búin að hitta þónokkra fjölskyldumeðlimi, fara í sumarbústað í 3 daga með Önnu, Ívari og stelpunum þeirra, flytja og fara á Þingvelli. Mér fannst persónulega eins og allt japansævintýrið væri ekki búið fyrr en við værum komin með íbúðina okkar langþráðu og helst búin að koma okkur fyrir. Það er enn töluvert drasl sem á eftir að fara í gegnum og vonandi getum við verið búin að koma því öllu fyrir sem fyrst en það er mjög gott að vera komin með vísi að heimili, svona í það minnsta. Ylfa byrjar í leikskólanum á miðvikudaginn næsta og Iðunn á mánudaginn eftir viku. Það var rosa gaman að vera úti í Japan, það var líka rosa einmanalegt á köflum, það var svakalega heitt og hræðilega kalt, það var ruglingslegt og stundum pínu þreytandi að skilja ekki, það var æðislega skemmtilegt að byrja að skilja smá það sem var í gangi, stórkostlegt að ferðast um landið og ómetanlegt að eignast vini sem hjálpuðu okkur í gegnum súrt og sætt. Mikil ósköp sem maður saknar þeirra, en það er alltaf hægt að spjalla á Skype.
        Ferðalagið sannaði það nú samt að það er ótrúlega gott að vera á Íslandi, nú þurfum við bara að klára að koma okkur fyrir og komast inn í venjulega rútínu aftur. Það gæti tekið smá tíma en heima er best!