Sunday, June 30, 2013

Kvefaða fólkið og Arashiyama

Fyrir þá óþolinmóðu: Það eru myndir fyrir neðann þennan ógnar langa texta
Ó, frelsið! Við erum búin að vera undir ógnarvaldi sumarkvefsins síðustu eina og hálfu vikuna. Nökkvi féll fyrstur og svo ég á eftir. Ég arkaði út í apótek og keypti mér lyf til að stöðva þennan óskunda hið snatrasta. Ég stakk upp á því að Nökkvi gerði það líka en hann var bjartsýnn og sagði að hann héldi að þess væri nú ekki þörf. Svo fór kvefið hans úr hausnum og ofaní háls. Svo hann hefur verið í hitasvalli og hóstakasti síðan. Það hjálpar reyndar ekki að það er frekar heitt í íbúðinni svo stundum er erfitt að greina á milli hvort maður er með hita eða bara að grillast útaf hitanum úti.
        Á sunnudaginn fyrir viku síðan byrjuðum við Ylfa daginn á því að byrla henni eitur í formi appelsínusafa sem hafði staðið opinn of lengi. Það endaði í uppköstum, ópum og óumbeðnum þvotti á sófanum og barninu sjálfu. Hún var í sjokki eftir gubbið og sturtuna og skreið eiginlega bara upp í rúm til Nökkva og dólaði þar að horfa á teiknimyndir. Hún var líka svolítið tuskuleg og um kvöldmatarleitið var orðið ljóst að hún var komin með hita og hor. Við Iðunn stóðum enn en þurtum nú að horfa upp á sveitt og þreytt feðgin.
       Miðvikudagsmorguninn ákváðum við að fara út úr húsi og hitta Megumi og Fumiku í bröns. Það var eins og hellt úr fötu og erfitt að komast á milli hússins og bílsins án þess að vökna. Við skelltum okkur í verslunarmiðstöð í næsta bæjarfélagi. Iðunn hafði leikfélaga þar sem Fumika tók guttan sinn með sér. Þau léku á leiksvæði í smá stund og gæddu sér svo á kleinuhringjum og mjólkurdrykk eftirá. Við kíktum í nokkrar búðir og enduðum inn í gæludýrabúð þar sem fjöldinn allur af hvolpum og kettlingum ýmist kúrðu eða léku sér í búrum. Við mömmurnar vorum að tryllast úr krútti og Megumi sem á nokkra hunda fyrir varð yfir sig hrifin af enn einum hvolpinum. Krakkarnir voru líka mjög hrifnir af kisunum og hvolpunum. Það er þó óhætt að fullyrða að hrænræktuð dýr eru ekki ódýrari hér frekar en annarstaðar. Það er víst líka snobbað mikið fyrir ættbókarfræðinni bakvið hvolpana, sagði Megumi mér. Flottari ættin - dýrari hvuttinn. Og ef hann selst ekki strax þá fellur hann í verði eftir aldri. Dýrin þarna voru alls ekki svo stálpuð svo ég vona að forverar þeirra hafi allir fengið heimili, almættið verður að afsaka en mér finnast svona dýrabúðir alltaf svolítið krípí. En allavega! Miðvikudagskvölinu eyddi ég í japönskutíma, síðasta tímanum af þeim toga í bili. Við í bekknum ákváðum að skella okkur út að borða eftirá til að fagna "útskriftinni". Við fengum meira að segja skjal til að staðfesta að við hefðum stundað kvöldnámskeiðið, sumir fengu meira að segja hrós fyrir afbragðs mætingu (hohoho). Þegar ég hinsvegar kom heim var nokkuð ljóst að Iðunn hafði orðið fyrir kvefpúkanum og átti erfitt með að sofna. Hún er búin að eiga almennt mjög erfitt með að sofa í þessum veikndum en þess í stað hefur hún vilja sitja í fanginu á forledrum sínum linnulaust og kúra upp í sófa með teiknimyndir í gangi. Safakaup heimilisins hefur líka margfaldast þar sem þorstinn er meiri en matarlystin.
       Á fimmtudaginn stungu vinir okkar upp á því að við færum á laugardeginum saman til Arashiyama sem er í/við Kyoto (?) og leigðum okkur kimono eða yukata. Svo gætum við skoðað okkur um og endað daginn með stjörnuljósum og kvöldmat. Okkur langaði auðvitað báðum að fara en ég var svartsýn á að stelpurnar yrðu orðnar góðar fyrir laugardaginn. Ylfa hafði þá verið hitalaus yfir daginn og var nógu hress til að lumbra á systur sinni nokkrum sinnum þegar henni þótti hún vera farin að stela athyglinni full mikið. Nökkvi, Hr.Bjarstýnn, sagði að við skildum allavega segja að við myndum koma og ef allt færi á versta veg gætum við hringt á laugardagsmorguninn og látið vita.
      Föstudagurinn leið og Iðunn var enn með hita, reyndar mjög leiðinlegan hita sem gekk upp og niður yfir allan daginn. Ylfa var orðin vel hress en fór ekki í leikskólann af ótta við að henni myndi slá niður. Um föstudagskvöldið var svo ákveðið að við Ylfa myndum að minnsta kosti fara. Mér tókst að plata vesalings Jón til að vera samferða okkur og við mæltum okkur mót næsta morgun.
      Laugardagsmorguninn rann upp og Ylfa var hitalaus og til í slaginn. Iðunn var enn með hita og Nökkvi var sjálfur mjög þreyttur. Mér datt í hug að það væri krúttlegt að klæða okkur Ylfu í stíl, rauðar buxur og svarta boli. Það var vissulega krúttlegt þangað til við hittum Jón, sem var líka í rauðum buxum og svörtum bol. Þessi samsetning vakti þó lukku hjá hinum ferðafélögum okkar sem fannst þetta ekki lítið fyndið. Við hittum Moe, Jun og Arisu í Arashiyama. Þar fórum við á kimono/yukata leigu og völdum okkur dress fyrir daginn. Ég valdi mér hvítan yukata með fjólubláum fiðrildum en Ylfa fékk bleikan yukata með hvítum kanínum og gulum blómum. Litla dýrið mitt alveg ljómaði af gleði þegar hún var komin í fötin og búið að setja upp á henni hárið með fallegu skrauti. Fyrst ætlaði hún reyndar ekki að trúa að hún mætti fara í svona fín föt en var ekki lengi að henda kinka kolli þegar konan spurði hvort Ylfa vildi fá hann lánaðann. Eftir að við vorum öll tilbúin var okkur skutlað inn í bæ svo við þyrftum ekki að labba óralengt, það skal tekið fram að maður getur ekki beint tekið stór skref í svona klæðnaði.
     Fyrst á dagskrá var lestarferð í útsýnislest. Það var mjög fallegt að keyra um fjöllin og horfa á ánna hlykkjast fyrir neðan. Það var líka fullt af fólki að veiða eða sigla um ánna. Fjöllin eru skógivaxin og Moe sagði mér að það þætti líka mjög vinsælt að koma þarna á haustin til að sjá haustlitina. Við komum sömu leið til baka og röltum af stað í leit að mat. Ylfa vildi bara ís, enda mjög heitt úti, en við hin fengum okkur núðlur. Ég smakkaði soba núðlur, þær smökkuðust óskaplega vel bornar fram kaldar með heitu grænu tei og súpu sem maður dýfir núlunum í áður en maður gæðir sér á þeim. Við kláruðum að borða og trítluðum svo yfir á svæði þar sem voru nokkur lítil altari og svo hefðbundinn japanskur garður (af gamla skólanum). Áður en við vorum komin úr dyrunum á veitingastaðnum vorum við soppuð af konu sem spurði hvort hún mætti fá mynd af sér með Ylfu. Ég sagði að það væri í lagi en hélt í hendina á Ylfu. Ylfa var hinsvegar ekki jafn til í sprellið og ég veit ekki hversu vel myndin heppnaðist fyrir vikið. Svo fórum við og skoðuðum áður nefnd altari. Þegar við fórum þaðan vorum við stoppuð af hóp af fólki sem bað líka um mynd með Ylfu. Nú var hún hinsvegar til í slaginn með sólhlíf og góða skapið. Mér finnst þetta samt alltaf svolítið súrrealískt en hún er jú voða krúttlegur krakki að mínu mati, ekki að ég sé hlutlaus. Eftir að módelstarfinu var lokið fórum við keyptum okkur ís. Á leiðinni keypti Ylfa minjagrip handa sér og Iðunni. Litlar kanínur úr kímónó efni. Svo héldum við aftur til hjónanna með kimonoleiguna. Það er rosalega fallegt um að litast í Arashiyama enda mikið af trjám og falleg áin sem rennur þar í gegn. Fólk var yfir höfuð mjög afslappað og allir í sumarskapi.
       Svo héldum við heim til Jun. Þar borðuðum við kvöldmat, meiri núðlur, spjölluðum og borðuðm góðgæti. Þegar það var orðið nógu dimmt úti trítluðum við út á róló og kveiktum á nokkrum stjörnuljósum. Ylfa var ekki neitt hrædd en fólkið sem stóð næst henni var tvístígandi og til búið að hlaupa þegar hún snéri sér snarlega að þeim. Stjörnuljósin voru þó mjög skammlíf svo við komum okkur aftur upp í íbúð, borðuðum ís og héldum síðan heim á leið. Moe var svo ágæt að vera samferða okkur svo ég hafði félagskap í lestinni meðan Ylfa hékk hrjótandi í fanginu á mér. Við vorum svo komnar inn um dyrnar heima klukkan tólf þar sem Nökkvi tók á móti okkur.
      Í dag höfum við ekki gert margt af okkur. Þvegi þvott aðallega, ég skapp út í búð og nú eru stelpurnar loksins að leika sér. Þá er bara að krossa putta og vona að það endist í nokkrar mínútúr enn.


Jón og Moe mætt til Arashiyama


Brosandi ungi

Aðeins að kitla barnið 

Ótrúlega "kúl" í rauðu buxunum og svörtu bolunum/peysunum


Dúkkulísa


Mæðgur í fullum skrúða


Arisa og Moe, súper fínar


Hópmyndataka


Ylfa og Moe skoða þennan flotta vagn

Arisa og Jun að lóðsa Ylfu um í lestinni


Upprunalega fengum við lánað hárskraut í kimono leigunni en þegar við vorum að fara ákvað konan að gefa Ylfu skrautið sem hún hafi haft í hárinu yfir daginn. Afskaplega fallega gert henni.


Á bakaleiðinni í útsýnisferðinni


Vanilluís í hitanum


Ylfa í módelstarfinu


Óskatré og Jun að gera tilraun til að lesa það sem Jón skrifað


Ég skrifaði líka á einn óska miða. Þetta þarf samt ekki að gerast alveg strax, förum fyrst aðeins heim til Íslands.


Hlunka fugl að slappa af við ánna

Ylfa heima hjá Jun


Pakki af stjörnuljósum

Arisa að hjálpa Ylfu sem var strax alveg yfir sig hrifin


Óhætt að ætla að við verðum að kaupa stjörnuljós um áramótin.
-Jóhanna

Sunday, June 23, 2013

Allt fyrir nefið, bæði gleraugu og kvef

Ha,ha verum svolítið villt á þessu og bloggum aftur þrátt fyrir að hafa bloggað fyrir tvemur dögum síðan.
        Í gær lét ég verða að því og þrammaði inn í gleraugnabúð sem ég hef lengi vel horft löngunar augum á. Eftir að hafa trítlað kringum sama borðið nokkrum sinnum og dáðst af varningnum ákvað ég að spyrja starfsmanninn hvernig þeir færu að því að segja til um hversu dýr gleraugun væru þegar það væri búið að taka glerið sjálft inn í reikninginn. Meina þannig eru þeir á Íslandi, umgjarðirnar kosta x og svo glerið í þau y. Hann horfði á mig blákaldur og sagði að verðmiðinn á gleraugunum stæði fyrir sjónglerið líka. Ég missti andlitið og hann sprakk úr hlátri þegar ég sagði að ég tryði honum ekki. Ég flýtti mér að ná í sjónmælinguna mína í veskið og spurði hvort að það gengi að nota kortið sem ég hafði fengið í Prooptic í Kringlunni. Það var ekkert mál. Á þessum tímapunkti var ég hætt að spá í því hvort mig væri að dreyma og spurði hvort ég mætti máta nokkrar umgjarðir. Það var sjálfsagt mál svo ég tók Iðunni, sem neyddist til þess að fara í búðina með mér, setti hana á gólfið og fór að gramsa á borðinu. Meðan að ég mátaði hljóp Iðunn um og á endanum var hún kominn með starfsmann á eftir sér í gæslu. Það er leiktækjasalur við hliðiná búðinni og þar leiddust þau og skoðuðu í klóarvélar, alltaf þó í augsýn. Ég náði að þrengja leitina niður í tvö pör og fór svo og náði í landkönnuðina. Afgreiðslumaðurinn skrifaði niður upplýsingarnar af kortinu og svo þurfti ég að fylla inn nafn og heimilisfang. Að því loknu sagði hann að ég mætti velja hvor gleraugun ég fengi afhent í dag en hitt parið mætti ég ná í á þriðjudaginn. Það er vanalega nokkra daga bið eftir gleraugunum heima svo að ég var aftur alveg gapandi. Svo fengum við kvittanirnar okkar og upplýsingar um hvenar við mættum ná í gleraugun.
Við versluðum í matinn og ráfuðum aðeins um búðina áður en við snérum aftur klukkutíma síðar til að fá gleraugun afhent. Þetta var allt saman frekar frábært. Mér reiknaðist til að bæði gleraugun saman hafi kostað 8505 íslenskar krónur. Gjöf en ekki gjald sagði einhver einhvertíman.
         Þegar við komum heim lág Ylfa sofandi í sófanum en kvefaður Nökkvi sat við tölvuna, vafinn í teppi. Ylfa var vakin en mikil ósköp sem augun voru glær. Við nánari athugun komumst við að því að hún væri komin með hita og færi þar afleiðandi ekki í leikskólann. Að minnsta kosti ekki fyrr en hitinn væri farinn. Hitinn var aðeins lægri um miðnætti þegar hún var dregin auka ferð á klósettið. Við áttum til sniðugann plástur sem virkar eins og kaldur bakstur svo hún fékk einn slíkann á ennið og hitalækkandi með. Svo svaf hún eins og steinn í alla nótt. Ég mældi hana núna í morgunsárið og þá var hitinn farinn en hún er enn að sjúga upp í nefið og hóstar smá. Það er víst betra að ná þessu úr sér sem fyrst svo ég hringdi í leikskólann til að láta vita. Það gekk eins og í sögu. Ég var svo montin að ég vakti Nökkva til að segja honum frá þessu glæsilega samtali. Miðað við það að hafa ekki geta búið til setningar á japönsku þegar að við komum þá er ég hrykalega stolt af sjálfri mér og mun hreikja mér af þessu það sem eftir er æfi minnar.
        Það stefndi þó í smá sorg í gærkvöldi þegar Ylfa áttaði sig á því að hún fengi ekki að mæta í fyrsta sundtímann. Við fórum nefninlega á laugardaginn og keyptum sundbol, sunhettu og handklæði fyrir sundtímana sem byrja í dag. En jafnvel þó hún missi kannski af þessari viku þá eru fjórir tímar í næstu viku sem hún nær og svo einn í vikunni þar á eftir, það er ekki öll von úti enn. Sorgin var svo hrakin á braut þegar við föttuðum að hún ætti dúkkulísulímmiða sem hún hafði keypt um daginn en aldrei opnað. Nú situr hún inni og límir allskonar föt á dúkkurnar og skammast í Iðunni sem sýnir þessari starfsemi lítinn skilning, enda meira fyrir að plokka límmiða af heldur en að setja þá á nokkuð. Það verður fjör að halda þeim inni í dag. Eins gott að eiga nóg af litum og límmiðum til að geta haldið þeim uppteknum í að minnsta kosti viku.
Á morgun borgum við leiguna fyrir síðasta mánuðinn okkar í þessari íbúð. Svo borga ég síðasta leikskólamánuðinn á föstudaginn og þá fer listinn yfir hluti sem þarf að borga að styttast all verulega. Mögulega netið og ragmagns-/vatnsreikningur eftir.
       Bara mánuður í að við komum til Íslands, mánuður mínus dagur þar til við leggjum af stað!

Thursday, June 20, 2013

Tími fyrir regn

Nú er regntímabilið svo sannarlega skollið á. Fyrst um sinn virtist það ekki ætla að standa undir nafni svo gróður og skepnur voru alveg að skrælna úr hita. Svo heyrðust fregnir af því að lægð væri að nálgast svæðið okkar og það færi þá sennilegast að rigna. Nú er búið að rigna í þrjá daga stanslaust. Allar tegundir af regni: litlir dropar, stórir dropar, rigning sem virðist falla í stríðum straumum og rignin sem er svo gisin að það er hægt að labba framhjá dropunum án þess að vökna. En aðallega samt sú sem rennbleytir allt og alla. Ylfa hefur því farið í leikskólann í fullum herklæðnaði síðan að regnið byrjaði. Bleik stígvél, rauð regnkápa með hvítum doppum og regnhlíf með kanínueyru. Það virðist halda henni þurri sem er gott en regnið hægir óneitanlega á henni. Það þarf að stíga dans með regnhlífina og sveifla höndum og fótum í takt við lag dagsins.  Svo þykir líka nauðsynlegt að hoppa helst í nokkra polla. Þar sem hún er almennilega búin hefur þetta ekki nein áhrif á hana, við Iðunn hinsvegar lendum í gusunum og erum vanalega orðnar ansi blautar um fæturnar þegar við komum heim. Við erum því báðar komnar með kvef. Nökkvi lenti líka illa í veðrabreytingunum svo hann hefur einnig þróað með sér leiðinda kvef. Það bætti sennilega heldur ekki úr skák að hann týndi regnhlífinni sinni og þurfti að ganga heim í regninu. Það var ekki þurr þráður á manninum þegar hann kom inn um dyrnar hérna heima. Til allrar lukku er alltaf í boði að fara í heitt bað og þurrka sér svo bara vel eftirá. Enn sem komið er allavega, vegna regnsins hefur verið öllu erfiðara að þurrka þvott svo að handklæðin fara sennilega að klárast bráðum. Sökum kvefsins og slensins sem hefur hertekið líf mitt síðustu dagana er ég ekki heldur búin að vera að spá í neinum leiðum til að leysa þvottavandann. Þvottakarfan hefur nú umturnast í fjall sem ég neyðist til að klífa á endanum, þarf bara að krossa putta og vona að lægðin fari að ganga yfir. Annars er alltaf hægt að fara með hauginn í klinkþvottahús. Þar eru þurrkarar sem gætu leyst vandann.
Nú syttist óðfluga í prófatörnina hjá Nökkva, skólinn klárast snemma í júlí svo hann er á fullu í verkefnaskilum og ritgerðaskriftum. Mikið skelfilega sem það verður fínt að endurheimta hann úr viðjum skólans. Við erum farnar að telja dagana. Reyndar erum við að telja niður dagana í hina og þessa viðburði. Fyrst fáum við gesti og hlökkum gífurlega til, bara 11 dagar í það. Svo klárar Nökkvi prófin það eru 21 dagur. Svo förum við sennilega með vinum okkar í onsen (heitar laugar) og hótelgistingu eftir 28 daga. Og svo er loka niðurtalningin að sjálfsögðu hvenar við förum heim, bara 32 dagar í að við leggjum í hann héðann og þá 33 dagar í að við lendum á Íslandi! Spennan er mikil. Við vorum ekki viss hvort að Ylfa áttaði sig á því að við værum að fara heim svo við útskýrðum fyrir henni að við færum bráðum aftur í flugvélina. Hún varð kampakát yfir því, sérstaklega þar sem við verðum öll saman í þetta skiptið. Svo sögðum við henni að hún gæti þá farið og hitt alla. Kíkt í heimsókn til afa og ömmu, ömmu Ásdísar líka og að frændur hennar og frænkur væru ábyggilega meira en lítið til í að koma að leika eftir þettan langa aðskilnað. Það fannst henni frábært, svo frábært að hún vildi eiginlega bara fara að pakka niður.
Í gær átti svo amma þeirra, Ásdís, afmæli. Ylfa var með leiðindi þegar við ætluðum að fara heim úr leikskólanum. Vildi bara standa í hliðinu og grenjaði ógurlega yfir þeim illu örlögum að þurfa að fara heim. Þá sagði ég "Hey, veistu hvað? Amma Ásdís á afmæli í dag". Gráturinn slokknaði samstundis. "Ha?" sagði Ylfa "Hvar er flugvélin?" "Hvaða flugvél?" spurði ég. "Ég ætla að fara í heimsókn til ömmu" sagði Ylfa þá og spennti upp regnhlífina sína íbyggin í bragði. Hún sætti sig samt við að þurfa aðeins að bíða með heimsóknina og keypti þess í stað kexpakka til að fagna deginum.
Það hefur verið ansi oft þannig síðustu daga að barnið vill miklu frekar vera í leikskólanum. Auðskiljanlegt svosem. Það þýðir samt að það er hrykalega leiðinlegt að koma henni heim og oft á tíðum líkast kraftaverki að maður komist í raun á leiðarenda. Í næstu viku byrja þau í sundi í leikskólanum og þá á án efa eftir að verða enn erfiðara að fá lita þrjóskupúkann minn heim. Iðunn hefur lítið um það að segja hvar hún er, enda er henni bara skellt í burðarsjal/-poka eða kerru. Stundum væri ágætt að geta bundið Ylfa bara við sig líka. Ef að heilsa leifir ætlum við að fara að kaupa fatnaðinn fyrir sundtímann um helgina. Þau þurfa að mæta með sundföt, sundhettu og stórt handklæði. Okkur grunar að dýrið eigi eftir að suða sér út handklæði með mynd á en við skulum sjá til hvernig það fer.

Afsakið myndaleysið, hvorugt okkar hefur nennt að lyfta myndavél síðustu vikur. Almenn leti, veikindi, steikjandi hiti og þreyta sem stendur fyrir því.

-Jóhanna

Thursday, June 6, 2013

Fjórar myndir úr síma

Við erum búin að vera alveg afskaplega léleg að taka myndir upp á síðkastið. Ýmist gleymum við myndavélinni heima eða erum bara of löt til þess að brúka þær. 



Fíflagangur í leikskólanum.
F.h. Ylfa, Junsei og Saori.
Heim að kubba


Systurnar að horfa á teiknimynd saman


Ég og Satou san. Tekið eftir síðustu kennslustundina okkar. Afsakið útganginn á mér en það var heitt og ég var að bráðna. Vorkun þegin í formi innanhúsloftkælingar.
        Lítið fréttnæmt nema það að ég hafði loksins rænu á því að fara og hitta íslenska stelpu sem býr í bænum við hliðiná okkur en vinnur í Nishinomiya. Það var stórkostlega skemmtilegt að fá smá stelpuspjall á íslensku. Fórum meira að segja á kaffihús og allt. Búið að plana næsta fund og skammast sín fyrir að hafa ekki reynt að hittast fyrr.
       Í dag er fimmtudagurinn 6. júní hjá mér og þar af leiðandi sléttar 7 vikur í að við lendum á Íslandinu góða.

-Jóhanna




Saturday, June 1, 2013

Júní - júlí - heim

Það er heldur betur farið að sjást í annan endann á japansdvölinni okkar. Eftir að ég hafði rækilega tekið Nökkva á taugum með því að vera sjálf að fara á taugum létum við vaða í gær og keyptum flugmiða heim. Mér finnst skuggalega gaman að geta svonalagað út af "to do" listanum. Við eigum eftir að pakka töluvert í viðbót ofan í kassa, dót sem verður sent sjóleiðina svo við séum ekki með yfirþyngd aldarinnar í fluginu. Það eru alveg heilir þrír kassar tilbúnir en mig grunar að ég þurfi að kaupa annað eins til viðbótar til að við náum að pakka öllum útvöldu eigum okkar. Ó svo spennandi! Hlakka til að heyra íslensku talaða á hverju horni. Við fáum heila viku af íslenskum júlí (komum 24/7)
      Í öðrum fréttum er það að Nökkvi fékk staðfest að hann væri kominn inn í masterinn í bókmenntafræðinni. Það er gaman. Líka gaman að geta strikað það út af öðrum "to do" lista. Nökkvi er einn af þeim sem langar, að því er virðist, til þess að læra allt. "To do" listinn hans gæti því eiginlega bara verið listi yfir námsgreinar í hugvísindasviði. Ég gæti mögulega verið að ýkja en þannig upplifi ég hann stundum.
      Ylfa er alltaf á leikskólanum. Henni finnst einstaklega gaman að vera þar, búin að eignast góðar vinkonur og dáir kennarann sinn. Á miðvikudaginn var fengum við Iðunn (og aðrar mæður og systkyni) að kíkja í heimsókn í leikskólann. Sjá hvað þau væru að bralla dags daglega og almennt fylgjast með krúttlegheitum. Það var ekki annað að sjá en að Ylfa skemmti sér vel, hló mikið og fíflaðist með vinkonum sínum. Þau byrjuðu á því að vera í frjálsum leik en eftir smá stund af því var allt liðið sent í klósettleiðangur og stólum raðað fyrir mæðurnar sem voru í heimsókn. Þá komu krakkarnir inn og byrjuðu á því að hita upp með því að syngja með upptöku af nokkrum Anpanman lögum. Svo var lesið upp og allir þurftu að rétta upp hendi og segja "hai/já". Það var með eindæmum sætt þar sem sumir voru pínu feimnir í kringum gestina. Svo var sungið, dansað og sunginn afmælis söngur fyrir einn drenginn. Hann stóð hjá kennaranum og brosti eyrnanna á milli og mæðurnar ætluðu alveg að falla í yfirlið yfir því hvað hann væri sætur og feiminn þegar kennarinn þóttist vera að taka viðtal við hann í gervi hljóðnema. Þegar þessu var lokið var okkur tilkynnt að heimsókninni væri lokið. Þar sem það var rigning úti færu börnin ekki út að leika í dag heldur fengju auka frjálsann leik inni áður en þau fengju morgunhressingu og héldu áfram með daglega prógrammið. Við kvöddum og héldum heim. Daginn eftir kom svo seinni helmingurinn af mæðrunum í heimsókn, vinkona mín sendi mér skilaboð um kvöldið þar sem hún var enn að farast úr krútti eftir heimsóknina.
     Á föstudaginn var svo haldin afmælisveisla í leikskólanum fyrir börn fædd í apríl og maí. Ylfa byrjaði reyndar daginn á því að detta illa fyrir framan leikskólann. Við skjögruðum með hana alla útskrámaða að leikskólanum og fengum hjálp hjá einum kennaranum hennar við að þrífa sárin og plástra það sem plástra þurfti. Hún stóð sig mjög vel en þurfti samt smá knús og hughreystingu áður en hún fór inn. Það var líka ekki verra að vita af því að það væri kaka í morgunhressingunni svo hún gaf mér merki um að ég mætti fara. Eftir að hafa lagt mig með Iðunni, sem er farin að vakna núna yfirleitt um fimm leitið (ekki gott, fólk, ekki gott), fórum við og náðum í Ylfu. Kennararnir sögðu að hún hefði verið mjög hljóðlát og róleg. Hún vildi ekki leifa þeim að skipta um plástur á hnjánnum og var mjög varkár þegar krakkarnir voru að spyrja afhverju hún væri með plástra. Ég ákvað að gleðja hana með því að fara í skólann til Nökkva og ná í hann svo við gætum labbað öll saman. Það vakti gleði og lukku hjá gríslingnum. Við fórum og fundum Nökkva, löbbuðum svo saman að lestarstöðinni okkar og fengum okkur hádegismat áður en ég stakk af í síðasta föstudagstímann minn í Satou-san. Ég sá Nökkva útundan mér labba með Iðunni á bakinu, skólatöskuna framaná sér, töskurnar hennar Ylfu í annari hendi og að lokum Ylfu í hinni.
         Ég byrjaði í japönsku tímunum mínum í byrjun desember 2012. Borgaði þar 2000 yen fyrir sex mánuði, einn tíma í viku. Þetta er kennsla sem er rekin af sjálfboðaliðum og því allskonar fólk sem er að kenna. Ég er svo óendanlega ánægð að hafa fengið kennarann minn, hana Satou-san. Hún er svo ótrúlega yndæl og hjálpleg. Svo skaðar ekki að hún er mjög fyndin og skemmtileg. Þökk sé henni fékk ég t.d. að fræðast um hinar ýmsu hátíðir og siði hérna. Eitthvað sem ég hefði geta leitað að á netinu en sennilega ekki geta fengið jafn skemmtilegar skýringar á. Við vorum báðar hálf klökkar þegar leiðir skildu, ég færði henni heimabúið kort og hún gaf mér ótrúlega sætt kokeshi bento box. Ég fékk líka heimilisfangið hennar svo ég gæti sent henni póstkort þegar ég er aftur komin heim til Íslands. Nú á ég bara eftir hóptímana í japönsku og þeir eru búnir í lok júní.
        Í gær þurfti Nökkvi að læra fyrir skólann. Hann stakk því af upp í skóla til þess að skrifa ritgerð í þeirri von að honum myndi miða eitthvað áfram. Við stelpurnar erum án efa svolítil hraðahindrum fyrir námsmanninn Nökkva. Skil það líka vel að honum langi frekar til að hanga með okkur, tíhí. Hann var nú samt nógu almennilegur til þess að leifa mér aðeins að leggja mig áður en hann hvarf upp í skóla. Eins og ég hef áður minnst á þá er Iðunn ansi morgunhress. Of morgunhress fyrir mína parta. Ég er líka of góðu vön þar sem að Ylfa fékkst alltaf til þess að sofa til átta (í minnsta lagi) um helgar. En nei, Iðunn er vöknuð upp úr klukkan fimm á morgnana núna. Það þýðir að þegar ég loksins kemst upp í bæli á kvöldin á milli ellefu og tólf veit ég nokkurnvegin að ég á 5 til 6 tíma framundan áður en það er kominn fótaferðatími hjá litla dýrinu. Ylfa þarf svo hjálp við að gera sig til fyrir leikskólann og svo fylgjum við henni upp að skólastofunni hennar. Við erum komnar heim korter yfir níu, þ.e. ef við ákveðum að fara strax heim en ekki fyrst í matarbúð. Þá er litla frökenin orðin nógu þreytt til þess að taka fyrsta lúrinn sinn og þá er ansi freistandi að sofna sjálf upp í rúmi hjá hnoðranum. Það er því ekki margt sem ég geri milli níu og ellefu annað en að liggja og hrjóta. Bæti bara upp fyrir það með fleirri þvottavélum og meira uppvaski eftir leikskóla. Ylfa hefur oft áhuga á því að nota tölvuna hvort sem er, til að horfa á dvd, þannig að maður er "neyddur" í að snurfusa aðeiðns í kringum okkur.
       Í dag mætir Ylfa mögulega í sunnudagaskóla ef ég næ að tala Nökkva til. Ég ætla nefninlega að leggja mig með Iðunni, fá smá jafnrétti á svefn-/foreldraskalann.

- Jóhanna