Thursday, May 23, 2013

Hanshin Keibachou

Í gær fórum við með leikskólanum í lautarferð. Þetta var ekki bara hvernig lautarferð sem er heldur með hesta þema. Ég er lengi búin að vera að velta því fyrir mér hvort að japanskir hestar væru hávaxnir (ekki að það sé ekki auðvelt að virka hávaxinn í kringum smávaxið fólk) en hafði bara séð örfáa hesta í fjarska. Hanshin Keibachou er s.s. staður þar sem kappreiðar og ýmiskonar öðruvísi hesta samkeppnir fara fram. Tæknilega séð er þetta í öðru bæjarfélagi en tók okkur ekki meira en 25 mínútur að labba þangað. Hefði meira að segja verið hraðskreiðari ef Ylfa hefði ekki verið nývöknuð og annars hugar, en hún er svosem alltaf annars hugar. Það er einnig hægt að hoppa upp í lest og stökkva út á næstu stöð frá okkar stöð en mér fannst það vera alger fásinna að eyða pening í lest þegar ég gæti lært nýja gönguleið þökk sé félaga mínum, google maps. Við mættum akkurat mátulega til þess að heyra kynninguna á starfsfólkinu og upplesturinn á dagskránni, sem við skildum reynar ekki en fengum útskýringu á síðar þökk sé enskumælandi mömmu í hópnum. Öllu liðinu, börnum og mömmum, var smalað upp í áhorfendastúku og reynt að skipta hópnum niður eftir bekkjum á meðan að mömmurnar bröltu upp í efri sætin í stúkunni og reyndu að hafa hemil á hverjum grísling fyrir sig. Þegar allir höfðu fengið sér sæti kom stelpa stikandi inn á völlinn og á eftir henni stærðarinnar hestur með knapa. Þannig að já, japanskir hestar eru stórir. Stelpan reif upp hljóðnema og hóf að kynna knapann og hestinn og spyrja krakkana ýmiskonar spurninga, hvort þau hefðu einhvertíman farið á hestbak, hvort þau vissu hvað hestar væru með margar tær og ýmislegt fróðlegt. Krakkarnir voru að tryllast úr spenningi að fá að sjá hvaða kúnstir hesturinn kynni. Fyrst byrjaði knapinn á að láta hestinn rölta framhjá stúkunni og hópurinn fylgdist hugfanginn með. Svo sneru þeir við og komu á harðaspretti framhjá þannig að rykið þyrlaðist upp á vellinum og áhorfendur fögnuðu ógurlega. Kynnirinn kom með fleirri staðreyndir um hesta og spurði hvort að einhverjum langaði til að sjá hestinn stökkva yfir hindranir. Stangir voru stylltar og hesturinn kom sér fyrir, tók svo á rás og stökk fimlega yfir. Þau hækkuðu stangirnar nokkrum sinnum og þegar stangirnar voru komnar upp í 130 cm var loftið þrungið spennu. Hesturinn fór að sjálfsögðu auðveldlega með stökkið og stúkan hristist og skalf af fagnaðarlátum. Svo þökkuðu þau fyrir sig og hópurinn teymdur út og inn í garð handan við nokkur hesthús. Bekkurinn hennar Ylfu byrjaði í myndatöku og fengu svo að klappa fagurlega skreyttum smáhestum. Iðunn var mjög spennt yfir þessum krílum og var við það að pota upp í nefið á öðrum þeirra. Hún var þó stoppuð í tæka tíð og dregin til hliðar meðan leikskólabörnin klöppuðu varlega á kollinn á hestunum. Að því loknu var tekin klósettpása og fundinn staður til þess að borða nestið á. Það voru fleirri leikskólar en Nigawa þennan daginn, ég held ég hafi talið fjóra eða fimm mismunandi hópa. Krökkunum var sleppt lausum á meðan mæðurnar plöntuðu töskum og teppum á jörðina í kringum stórt og fallegt tré. Það var himneskt að komast í skuggann og ekki amalegt að fá sér í svanginn. Ylfa rétt mátti vera að því að borða og var svo komin á hlaup með félögum sínum. Iðunn átti sér stóra drauma um að elta systur sína og varð heldur betur pirruð þegar henni var troðið ofan í kerru til að leggja sig.  Hún sat þar með súldarsvip í nokkrar mínútur en lét svo eftir móður sinni og sofnaði. Það var ekki margt sem gerðist meira fólk borðaði og skiptist á að elta grísina um svæðið og gæta þess að þau yrðu sér ekki að voða. Svo var kveðjustund og allir héldu í sitt hvora áttina. Eftir smá stopp til að kaupa drykki og íspinna héldum við mægður heim á leið. Ylfa var þreytt og ringluð eftir labbið í sólinni og var send inn í herbergi að leika eftir að frekukast olli áflogum milli systranna. Þar sofnaði hún og vaknaði ekki fyrr en pabbi hennar kom heim. Það fyrsta sem hún kom út úr sér var að hesturinn hafði hoppað.

systurnar að fíflast að venju, Iðunn komin með hattinn hennar Ylfu

Ég og grísirnir... já ég var með Iðunni í beisli til vonar og vara

Prógrammið að byrja

Fallegur hestur

Einn, tveir og hoppa!

"Sko! Einn í minni stærð"

Biðraði og spennandi smáhestar

Hestarnir voru með fastarfléttur og blómaskraut í faxinu. Það þótti ansi flott.

Tampopo gumi/ Dandelion group/Fífla hópurinn ... örlítið niðrandi á íslensku

Systurnar að kallast á

Ylfa krafðist þess að fá mynd af sér við símaklefa

Iðunn beið hálf óþolinmóð í kerrunni á meðan


Úúúúú...

-Jóhanna

Sunday, May 19, 2013

Afmælis Ásdís!

Ásdís Katrín krúttmoli, frænka og leikfélagi á afmæli í dag og Ylfa fagnar henni með söng!


Til hamingju með afmælið molinn okkar!

-Jóhanna

Friday, May 17, 2013

Sólbrúnar tær

Það mætti halda að japönsku veðurguðirnir kynnu ekki á alveg á stillingarnar. Í vetur var ansi kalt á köflum og svo loksins kom vorið með birtu og hlýja daga. Undursamlega þægilegt veður í svona tíu daga. Nú er alltof heitt og það mun bara verða heitara það sem eftir er af dvölinni hér í landi.
        Ég hef alltaf verið næpu hvít en viti menn, núna er ég orðin útitekin, með far eftir úrið og tvær eða þrjár freknur á nefinu. Ég get ekki beint hangið inni á daginn því það þarf að koma Ylfu í leikskólann og Nökkvi er ekki í aðstöðu til þess að hjálpa til í þeim efnum þar sem tímarnir hans skarast á við komu- og brottfarartímann í leikskólanum. Þetta þýðir að tvisvar á dag þurfum við Iðunn að fylgja Ylfu upp og niður brekkuna til Nigawa. Iðunn situr gjarnan í kerru með góðum sólskerm sem hún dregur iðulega frá, einmitt þegar ég læt mig dreyma um smá skugga og huggulegheit. Við erum komnar með Ylfu á leikskólan rétt fyrir 9 og fylgjumst með henni fara í inniskónna, ganga frá útiskónnum og að lokum kveðjum við hana áður en hún hleypur inn með töskuna sína og vatnsbrúsann. Þá er klukkan orðin 9 og við sennilega búnar að vera vakandi í rúma 3 tíma því að Iðunn er enn staðráðin í því að 6 um morgun sé ásættanlegur tími til að vakna á. Ég gríp gjarnan tækifærið og rölti í matarbúðina, það er vissulega auðveldara að versla svona einum grísling færri. Það tekur okkur um það bil 25 mínútur að komast í búðina, þ.e.a.s. ef við stoppum ekki til að kaupa vatn og nasl á leiðinni. Við verslum og Iðunn snýkir sér morgunkaffi, yfirleitt djús og bananabollu. Á meðan að ég raða í pokana maular litli grísinn á fengnum og hefur það huggulegt í kerrunni. Við röltum heim og ég pirra mig yfir ískrinu í vinstra framhjólinu og spái í því hvar ég geti fengið WD-40. Við komum heim og þá höfum við tíma til að þvo þvott, dæsa yfir uppvaskinu sem enginn nennir að gera, kubba, suða út eina jógúrt og jafnvel leggjum okkur aðeins til að jafna svefnleysi morgunsins. Við þurfum að ná í Ylfu klukkan tvö alla daga nema föstudaga því þá er leikskólinn búinn um hádegi. Iðunn vaknar spræk og ég hengi út þvottinn úr vél númer tvö út í túrbó blíðuna. Ég spyr hana hvort við eigum að ná í Ylfu og hún hleypur flissandi fram að ná í skónna sína. Við förum fram á stigagang og ég bið hana um að bíða því ég þurfi að læsa. Svo bröltum við niður stigann og Iðunn gerir enn eina tilraunina til að samfæra mig um að hún ætli að labba sjálf. Ég lít á klukkuna og reikna sama reikningsdæmið í milljónasta skiptið "Hvað er ég lengi að labba þangað ef ég er með Iðunni í kerrunni". Á meðan ég reikna í huganum allar hliðargöturnar og stigana á leiðinni treð ég Iðunni, mjög ósáttri, í kerruna og smelli beltinu. Svo hlaupum við út og í átt að leikskólanum. Fyrst að Iðunn fær ekki að labba krefst hún þess að fá að vera berfætt í kerrunni og hallar undir flatt með tærnar upp í loftið. Þetta hefur orðið til þess að hún er orðin vel útitekin á tánnum, það viðurkennist líka alveg að ég man ekki alltaf eftir að bera sólarvörn á tærnar á henni (hvað þá að hafa brúsa í töskunni af sólarkremi, sem ég ætti að gera en man aldrei). Við komum á lóðina hjá leikskólanum og bíðum eftir tilkynningunni í kallkerfinu að nú megi fara að ná í krakkana. Ylfa spottar okkur og systurnar fallast í faðma eins og þær hafi ekki sést í marga daga/vikur/mánuði/ár. Svo er suðað um að fá að "leika smá" á leikvellinum. Þegar ég er svo við það að grillast lokka ég þær heim með loforði um kexköku eða svalafernu sem ég hef laumað í töskuna áður en ég fór út. Ylfu hefur svo verið talin trú um það að ekki megi vera með mat á skólalóðinni (held reyndar að það  séu ekki neinar ýkjur hjá mér) þannig að við verðum að fara út um hliðið ef hún ætli að fá eitthvað að borða. Svo förum við heim og Ylfa réttir mér mest allt dótið sitt því henni er of heitt til að halda á því öllu. Við löbbum eftir kúnstarinnar reglum heim til að forðast mestu umferðargöturnar og vinnuvélar hjá húsum sem er ýmist verið að rífa eða byggja. Svo komum við loksins heim. Ég í svitabaði, Iðunn sólbrún á tánnum og Ylfa í stuði til að horfa á teiknimyndir.
Systur í dótakassa

Eðlilegra gerist það ekki

Þetta barn er nú meiri álfurinn 

Ylfa í myndavélastuði
-Jóhanna

Wednesday, May 8, 2013

Róluvellir, kastalinn á hæðinni og drekinn íandyrinu

Japanir hafa gaman af tyllidögum. Þeir virðast vera í hverjum einasta mánuði. Við vorum tiltörulega nýkomnar upp á lagið með allt þetta leikskólastúss þegar frídagarnir helltust yfir leikskólann og börnunum skolað út í nokkra daga. Fyrirbærið er kallað Golden week og samanstendur af nokkrum mismunandi frídögum. Skólinn hans Nökkva heldur ekki upp á hina gullnu viku og hann var meira að segja óvenju upptekinn í lærdómi. Við gerðum því ekki mikið af okkur. Sunnudagurinn 5.maí var dagur barnanna og því fannst okkur mæðgum tilvalið að fara í rólóleiðangur. Nökkvi fengi þá í leiðinni tíma til að læra án þess að hafa kvennaflóðið yfir sér.  Við byrjuðum á því að fara og kaupa sólhatt á Ylfu þar sem við gátum ómögulega þann sem hún hefur verið að nota hingað til, dularfullt mál en ég gruna gleymsku foreldranna um græsku. Ylfa valdi sér safari-legan hatt með Mínu mús mynd. Þar að auki sá hún kjól sem hún spurði hvort hún mætti fá og Iðunn fékk líka eina sumarlega flík. Að því loknu tölti ég í átt að matarbúð til að kaupa nesti, Ylfa sat í kerrunni og hélt fast í pokann með sumarkjólunum. Iðunn hékk í burðarpoka og smjattaði makindalega á kexi. Það var rosa gott veður og varla ský á himni. Skyndilega datt pokinn í jörðina og við nánari athugun bárust lágværar hrotur úr kerrunni. Það var svosem ágætt að talsmaður systranna var sofandi, búðarferðin var í það minnsta töluvert auðveldari en ella. Ylfa var vakin og send á klósettið á leiðinni út úr búðinni og svo var farið á róló. Það var margmennt á leikvellinum. Þarna var að finna tvennskonar kastala með rennibrautum og öðrum leikkostum ásamt nokkrum rugguhestum. Börnin nýttu þetta allt til fulls og nánast aldrei dauð stund í neinu af leiktækjunum. Iðunn er nýbyrjuð að stunda róluvellina og er full örugg fyrir minn smekk. Hún veður upp í stiga og rennibrautir sama hversu háar eða sleipar þær eru. Það tekur því á taugarnar að hlaupa á eftir henni og ég er ábyggilega orðin töluvert viðbragðsfljótari eftir þennan dag. Hún datt að vísu bara einu sinni á hausinn og það nánast á jafnsléttu svo það var nú ekkert svakalegt. Við flúðum heim eftir tveggja klukkutíma leik í sólinni og gormarnir ansi þreyttir, þrátt fyrir að hafa báðar fengið að lúra í kerrunni. Ég hafði samband við vinkonu mína til að athuga hvort hún vildi ekki eyða gæðastund með okkur mæðgunum daginn eftir, svona fyrst það væri enginn leikskóli. Hún svaraði um hæl og bauð okkur í grillpartý heima hjá sér á mánudeginum. Við þáðum það með þökkum enda alltaf velt því fyrir mér hvar konan ætti heima.
Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur. Börnunum var plantað í leikföngin og svo hraðþvegnar nokkrar vélar af þvotti og vaskað upp áður en við færum að heiman. Megumi á heima í Nishinomiya eins og við en þó að svo sé þurftum við samt að taka þrjár lestir til að komast til hennar. Einhvertíman hafði hún minnst á það að hún ætti heima upp í hlíðinni og það var það eina sem ég vissi. Þær Mary komu að ná í okkur á lestarstöðina sína. Ylfa varpaði öndinni léttar þegar hún sá vinkonu sína enda búin að bíða allan morguninn eftir því að við færum út. Megumi sagði að við þyrftum aðeins að keyra upp í móti, þá vorum við nú þegar búnar að vera að keyra upp halla frá því að við keyrðum frá lestarstöðinni. Brekkurnar urðu bara brattari og brattari því sem á leið. Ekki veit ég hvernig fólk þorir að fara á hjóli niður svona halla! Ég geri líka fastlega ráð fyrir því að keyrsla barnavagna sé ekki tíð þarna. Svo missti ég algerlega andlitið þegar hún benti mér á að margir af vegunum væru einbreiðir og ef maður mætti bíl sem væri á niðurleið yrði maður að bakka þar til að hinn bíllinn kæmist framhjá. Bökkunar hæfileikar mínir myndu ekki endast mér í hálfa mínútu. Við renndum í hlað fyrir framan hátt og fallegt hús. Hundarnir hennar fjórir tóku á móti okkur gjammandi og spenntir. Þeim var hinsvegar neitað um athygli og við smeigðum okkur inn í gegnum bílskúrinn. Brattar brekkur og enn brattari stigar. Mér var litið á Iðunni og augun ljómuðu yfir öllum klifurmöguleikunum. Ylfa hljóp á eftir vinkonu sinni og beint í flasið á pabba Mary. Þetta var í fyrsta skiptið sem við hittum hann svo hún var að sjálfsögðu raddlaus af feimni, það gleymdist þá snarlega þegar þeim var bent á að fara upp í herbergi að leika. Ópin og hlátrasköllin voru óborganleg. Þær heiðruðu okkur með návist sinni nokkrum sinnum yfir daginn en voru annars mjög duglegar að leika sér. Maðurinn hennar Megumi er alveg ágætis náungi og gaman að spjalla við hann. Iðunn gerði nokkrar atlögur að stigunum en var á endanum potað í burðarpokann aftur. Svo var grillað, nokkrar vinkonur hennar Megumi komu og borðuðu með okkur og rétt áður en við fórum skutu nokkrir unglingar upp kollinum í fylgd með syni Megumi. Maturinn var stórgóður og við stóðum á blístri. Þegar börnin voru að gera okkur svo heyrnarlaus með hrópunum og hlaupunum var kominn tími til að fara heim. Það var orðið dimmt úti og klukkan farin að ganga átta. Á leiðinni út í bíl slapp stærðarinnar padda inn um útidyrnar. "Megumi, það komst padda inn á eftir þér" sagði ég sakleysislega. Hún snéri sér við og hoppaði snarlega upp á skörina. Sparkaði af sér skónnum, greip skó af syni sínum og stappaði á kvikindinu. Svo stóð hún sem fastast. Mary kom og spurði hvað hún væri að gera svo hún sýndi henni hvað leyndist undir skónnum. Barnið æpti, enda ekki fögur sjón. Þá kom stóri bróðir hennar hlaupandi og var afar hneikslaður á móður sinni að hafa þurft að nota sína skó í þetta ódæði. Drengurinn er í skóstærð 48 í íslensku númerunum á meðan móðirin er með lítinn og nettan fót. Ef ég hefði ábyggilega kostið skónna hans Nökkva framyfir mína í svona verk. Við vorum ekki fyrr komin út þegar andyrið gekk í bylgjum aftur. Þá hafði drekinn vaknað úr rotinu og sloppið undan skónnum. Heimilisfaðirinn var sendur í verkið og meira sáum við ekki, enda komnar út í myrkrið. Við fengum far með vinkonu Megumi og vorum töluvert fljótar að komast heim í samanburði við ferðalag dagsins. Við keyrðum meira að segja í gegnum skólasvæðið hjá Kwansei Gakuin.
            Núna standa yfir foreldrafundir í leikskólanum þar sem kennarinn fer heim til barnanna eftir hádegi og spjallar við foreldrana. Okkar viðtal er ekki fyrr en 14. maí en þangað til er skólinn alltaf búinn klukkan tólf og ekkert nesti því tekið með. Í gær þurfti Ylfa að mæta í íþróttafötunum í skólann. Ef ég skil þetta rétt þá eru íþróttir í fyrsta tíma á þriðjudögum, það er skuggalega krúttlegt að sjá þau öll safinast saman í eins lituðum stuttbuxum og hvítum (girtum) bolum.
           Ég var trufluð í skrifunum áður en ég náði að klára og beðin um að byggja hús. Skelli því inn nokkrum myndum með þar sem ég man ekki hvað ég ætlaði að segja meira.

Á brokkolí veiðum

Klifurapi

Krúttgormur með leikfang

Á róló, það var miklu skemmtilegra en myndin gefur til kynna.

Ta-daaaah

Mary var aðeins viljugari til að láta taka mynd af sér. Ylfa var að elda og mátti ekki vera að þessu veseni.

Ó hæ!

Knús og grettur

Byggingameistarar heimilisins vippuðu þessum kofa upp í stofunni
-Jóhanna