Saturday, February 16, 2013

Kimono!!

Fyrst og fremst erum við búin að gleðjast þessa vikuna yfir nýrri frænku sem bætti við hópinn á þriðjudaginn. Aukningin er í boði Hrefnu og Finns og þrátt fyrir að við höfum bara séð stúlkuna á mynd erum við yfir okkur hrifin!

Við vorum að koma heim af International Day sem er haldina af Nishinomiya International Association, þar sem ég fer í japönskutíma einu sinni í vikur. Í tilefni dagsins var haldin kimono sýning og ég fékk þann heiður að fá að klæðast einum slíkum. Við fórum því út snemma í morgun því að ég átti bæði eftir að láta greiða mér og fara í dressið sjálft. Nökkvi fór í stuttan göngutúr með stelpurnar á meðan og hitti mig síðan á viðburðinum. Honum til mikillar gleði fann hann enn eitt útibúið af uppáhalds kareokístaðnum hans, ég býst sterklega við því að við kíkjum þangað einn daginn. Á meðan að hann hringsólaði með stelpurnar fór ég og fann búningsherbergið. Þar voru japanskar konur að leggja lokahönd á slaufurnar á sínum kimonoum og ein kínverks kona byrjuð í hárgreiðslu. Ég sat bara og beið þar til röðin var komin að mér. Þetta dress er í svo mörgum lögum að það tók okkur alveg ágætlega langan tíma að koma mér í allar flíkurnar. Ég ætlaði að springa úr gleði yfir því hvað mér fannst "minn" vera úr fallegu efni. Appelsínugulur með gullnu blómamunstri. Eftir það var mér potað í greiðslu og um það bil sem ég var að verða búin þar mætti þriðja og síðasta módel dagsins. Sú er rússnesk og heitir Pauline, við fórum að spjalla og í ljós kom að við erum jafnöldrur og hún á stelpu sem er jafn gömul og Ylfa. Auðvitað ákváðum við strax að vera í bandi í framtíðinni því það er ekki svo oft sem maður fær svona tækifæri. Þegar við vorum allar tilbúnar var kominn tími til að halda fram á sýninguna. Við fórum fyrst tvær fram og aðal mittislindarnir voru bundnir á okkur upp á sviðinu. Svo kom sú þriðja fram og við snérum okkur og sýndum fötin eins vel og við gátum. Að því loknum fengum við japönsk sætindi og grænt te og þar að auki kennslu í því hvernig við ættum að borða/drekka veitingarnar. Við fengum svo að spássera um svæðið í kimonounum í smá stund áður en við héldum aftur inn í búningsherbergi til að skipta um föt aftur. Við fengum svo laun fyrir "erfiðið" og gátum keypt okkur glingur og góðgæti úr básum sem voru á svæðinu. Konurnar sem stóðu að þessu voru allar svo ótrúlega yndælar og skemmtilegar, þetta var þrusu gaman. Við spjölluðum við fullt af fólki og á meðan  að Nökkvi að taka myndir af kimonounum kom ein kansai-amman og hélt á Iðunni svo hún myndi ekki stinga af. Ylfu fannst kimonoinn vera mjög töff og sagði mjög einlæg "Mamma þú ert svo fín", ég bráðnaði úr krútti.

Myndir!! (Mest ég hohoho)

Ótengt deginum, Iðunn náið sér í smá krem

Nýkomnar á sviðið

Byrjað að binda

Barnapían hennar Iðunnar

Alveg að klárast

Fín vol.1

Fín vol.2

Komin nær

Fjölskyldan

Nökkvi flottur í burðarsjali

Ylfa horfir hrifin á kimonoklæddar konur

Spilað á hljóðfæri, kote held ég

Fínerý

Leiðbeiningar fyrir tedrykkju

Te-ið sopið


Hárskraut

Up close

Rölt með Ylfu

Rölt með Iðunni

Salíbuna

Róló!


Nökkvi og Iðunn

-Jóhanna

Monday, February 11, 2013

Fjarlægðin gerir fjöllin blá ...

... og langt í búðina sem á hug minn og veski þessa dagana. Þrátt fyrir að vera eyðsluseggur hef ég ekki álitið sjálfa mig vera mikinn spreðara þegar kemur að fatakaupum, það fer að vísu örlítið eftir félagsskapnum sem maður er í hvort að fatakaup sé í myndinni eða ekki. Systir mín hefur iðulega átt heiðurinn á skyndilegri fatalöngun minni, afþví sama hvaða búð hún gengur inn í finnur hún alltaf eitthvað smart. Nú er hún hinsvegar marga, marga kílómetra í burtu og fjarri góðu gamni. Fötin sem ég tók með mér til Japan voru af skornum skammti, til að lenda ekki í yfirvigt með töskurnar, mest allt sumarföt og nokkrar skjólbetri flíkur sem voru svo úr sögunni því að í hitanum í haust rann svo af mér lýsið að þau passa flest ekki á mig sem stendur. Fyrir jól keypti ég ekki margar flíkur á mig sjálfa, stelpunum og Nökkva vantaði nokkrar spjarir og ég fékk vissulega að kaupa mér tvö buxnapör til að stitja ekki uppi með eintómar stuttbuxur og pils. Eftir áramót hinsvegar komst ég að því hvar þeir hafa verið að fela H&M. Blessuð búðin leyndist í verslunarmiðstöð sem er dágóðan spotta í burtu, það er vel gerlegt að labba þangað en skemmtilegra ef maður er í góðum félagsskap. Ég fékk aðeins að versla um daginn og nú næ ég búðinni ekki úr hausnum. Ég þarf meir! Einnig þarf að rannsaka GAP aðeins betur, ég var klárlega ekki nógu vel undirbúin fyrir þetta um daginn. Börnin þurfa að vera töluvert betur fóðurð, helst sofandi og Nökkvi með eitthvað til að lesa. Það er sennilega blessun í sjálfu sér að vegalengdin sé eins og hún er því annars myndi ég búa þarna.
Ó fyrstaheims vandamál.

-Jóhanna

p.s. Iðunn er nú eiginlega farin að labba, hún stekkur á skriðið stundum ef hún þarf að vera extra fljót (ná dóti á undan Ylfu til dæmis) en hún er farin að þora að labba sjálf án þess að halda í fullorðinn.

Tuesday, February 5, 2013

Hvað er að þér í dag?

Í dag skiptum við liði og Nökkvi fór með Ylfu í leikskólann á meðan við Iðunn fórum í okkar fyrstu heilsugæsluheimsókn. Litla kerlan er búin að vera með einhver útbrot sem AD kremið virkaði ekki á og svo var líka kominn tími til að athuga hvort hún gæti fengið bólusetningarnar sem hún átti eftir að fá. Við komum rétt yfir klukkan 9 um morgun og skráðum okkur inn. Við fengum númer og vorum beðnar um að setjast niður í biðstofunni og fylla út blað með helstu upplýsingum "sjúklingsins". Skömmu seinna var svo komið með handskrifað blað sem á stóð "What is wrong with you today? Please describe." Mér fannst þetta pínu fyndið. Við biðum ógurlega lengi og ég var mjög fegin að Iðunn hagaði sér, svona að mestu leiti. Hún spjallaði aðeins við nokkrar eldri konur sem sátur á biðstofunni, kíkti í bækur og tók í lurginn á saklausum böngsum. Loksins var náð í okkur og við færðar inn á gang þar sem við þurftum að bíða meira. Læknirinn tók á móti okkur og bauð okkur inn á stofuna. Starfsfólkið var allt mjög vingjarnlegt og læknirinn talaði mjög góða ensku. Iðunn nennti ekki að sitja lengi og um leið og læknirinn hafði litið á útbrotin stakk hún af og fór að klifra á hinum ýmsu innanstokksmunum. Hjúkrunafræðingarnir geta labbað á milli herbergja til að aðstoða læknana ef eitthvað er en núna voru þær nokkrar komnar í dyragættina að fylgjast með bröltinu í Iðunni og hlægja að henni þegar hún gretti sig og hristi hausinn. Mikið fjör á minni. Ég kláraði að tala við lækninn um bólusetningarnar og hann ákvað að senda skilaboð til barnalæknisins á stofunni til að fá upplýsingar um sprauturnar. Við fáum þær upplýsingar ekki fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku, ég vona að þetta verði ekki mikið vesen. Iðunn fékk lyfseðil fyrir sterakremi og feitu en mjög hreinu vaselínkremi til að berjast við útbrotin. Ferðin á stofuna kostaði ekki neitt og hjúkrunafræðingurinn teiknaði kort fyrir okkur svo við rötuðum til lyfsalans. Þangað fórum  við og réttum lyfsalanum seðilinn okkar. Hún spurði okkur nokkra spurninga, held það hafi átt að vera til að athuga hvort hún væri með ofnæmi og svo leit hún aðeins á útbrotin. Að lokum rétti hún okkur pokann og við þurftum að borga 30 yen fyrir vaselínkremið en hitt kostaði okkur ekki krónu! 30 yen = 40,80 isk samkvæmt reiknivélinni hjá Arionbanka. Þetta fannst mér mjög merkilegt. Við erum með einhverja heilsutryggingu en Iðunn fékk sendan grænan miða í pósti sem er víst eitthvað í tengslum við bæjinn. Ég spurði konurnar á skrifstofunni í "skólanum" mínum um þetta og þær sögðu (held ég) að bærinn greiði eitthvað niður. Allavega, barnið er komið heim í heilu lagi og verður smurð með kremi um leið og hún vaknar úr lúrnum sínum (því loksins ákvað hún að sofna og ég neita að trufla hana).
           Á meðan við stússuðumst í læknamálum voru Ylfa og Nökkvi í leikskólanum. Samkvæmt Nökkva var Ylfa miklu hressari en hún hafði verið undanfarið. Hún talaði meira og var ekki jafn mikið ein út í horni. Þau föndruðu ekkert í dag en í staðinn var púkinn hrakinn á brott í tilefni Setsubun. Það var búið að líma púkaandlit á umferðakeilu og börnin hentu baunum í keiluna og sögðu Oni wa soto, fuku wa uchi. Þau komu svo heim rúmum hálftíma á eftir okkur Iðunni en þá vorum við búnar að fara í búðina og ég eiginlega bara að bíða eftir því að Nökkvi kæmi heim til að svæfa Iðunni, ég var búin að gera eina atlögu að henni en hún neitaði því. Nú steinsefur hún og ég held að Nökkvi hafi fallið í dá líka. Einn dagur eftir af fríinu hans og svo byrjar vetrarönnin.

Enda þetta á myndum sem við tókum fyrir rúmri viku síðan. Róló!

Swing!

Þetta finnst Ylfu vera algert dúndur

Nökkvi þykist sofa

Systur

Rugguskjaldbaka

Iðunni finnast rólurnar mest spennandi

Rólufjör

Þarna er Ylfa að stinga af eftir að hafa ýtt systir sinni helst til harkalega í rólunni

Svo neitaði hún að koma með okkur heim... tók 20 mínútur og þolinmæði en tókst á endanum

-Jóhanna

Monday, February 4, 2013

Púkinn út, hamingjan heim

Við áttum viðburðaríkan dag í Kyoto í gær. Ferðalagið byrjaði árla morguns þar sem við höfðum sett okkur það að marki að vera komin til Kyoto klukkan 8 að staðartíma. Það þýddi að við þurftum að vera komin upp í fyrstu lestina klukkan 6 um morgun og þar af leiðandi komin á lappir um 5. Nökkvi vaknaði fyrstur og byrjaði að undirbúa nesti, svo dröslaðist ég framúr og að lokum náðum við í stelpurnar sem voru hressar þrátt fyrir óvenjulega vakningu. Okkur tókst að halda planinu en þegar við vorum um það bil að stíga upp í fyrstu lestina hringdi Jón og tjáði okkur að honum seinkaði þar sem hann hafði gleymt veskinu sínu. Ég varpaði öndinni aðeins léttar því að það er óneitanlega skárra að við bíðum eftir honum heldur en öfugt. Eftir smá stopp á aðal lestarstöðinni í okkar bæ fann Jón okkur og við héldum af stað á næsta stopp, þar tókum við svo enn aðra lest og komumst að lokum til Kyoto.
        Það var gott að komast út úr lestinni og ágæt að vera á ferð svona snemma um morgun. Við stigum út af stoppinu okkar og strákarnir byrjuðu á því að grandskoða kort sem var fyrir utan og reyna að átta sig á því í hvaða átt við ættum að fara. Við tókum þetta bara á kæruleysinu og ákváðum að labba bara af stað, það hlyti að vera kort einhverstaðar í næsta nágrenni. Það reyndist vera rétt og við fetuðum okkur hægt og rólega á milli korta og nutum þess að rölta og rabba um heima og geima.
        Um þessa helgi voru hátíðahöld víða þarsem vorið er að byrja í Japan. Þessi hátíð kallast Sestubun og einkennist meðal annars af því að maður eigi að hrekja það illa út og lokka það góða til sín. Slagorðið er: Oni wa soto, fuku wa uchi = Púkinn út, hamingjan heim. Ansi fallegt finnst mér. Maður getur svo leikið allskonar hundakúnstir til þess að verða hraustur og hamingjusamur á komandi ári. Ef maður borðar jafn margar baunir og maður hefur aldur til plús eina í viðbót á maður t.a.m. að vera heilsuhraustur út árið. (Ég má því éta 26 baunir, bölvað vesen að telja ef maður er orðin háaldraður þó). Leið okkar lá á ein hátíðarhöldin sem voru við Yoshida-jinja. Okkur tókst að labba eiginlega vitlausu megin inn og vorum svolítið hissa á því hvað það voru fáir á svæðinu, klukkan var að vísu ekki margt en við ákváðum samt að rölta um. Við byrjuðum á því að kasta nokkrum yenum og biðjast fyrir. Gengur út á að hneigja sig - kasta pening - biðjast fyrir um góða heilsu o.s.fv. - klappa höndunum tvisvar - hneigja sig og halda áfram með lífið. Mjög huggulegt. Þegar því var lokið löbbuðum við lengra og komumst þá inn á alvöru hátíðarhöldin. Það var vissulega ánægjulegt og við sáum allskonar girnilegan mat og fullt af skemmtilegu dóti. Ylfa keypti sér grímu af einu átrúnaðargoðinu og ég bókstaflega hljóp þegar ég sá sölubás í fjarska sem var að selja daruma. Mig hefur langað í svoleiðis síðan ég leit það augum fyrst í einhverju anime fyrir löngu síðan.Konan sem var með básinn var mjög glöð yfir því hvað ég var spennt fyrir dúkkunum og gaf mér eina auka með þeirri sem ég keypti, "handa barninu" sagði hún og meinti Ylfu sem sat með augun límd á grímunni sinni. Ég þakkaði kærlega fyrir okkur og valhoppaði með kerruna áfram á eftir strákunum og Iðunni.
         Þegar við vorum búin að skoða allt sem var í boði trítluðum við út í bæ. Við löbbuðum í gegnum stóran garð þar sem við stoppuðum á bekk og fengum okkur smá af nestinu okkar. Jón var búinn að hafa samband við vinkonu sína sem á heima í Kyoto en hún gat ekki hitt okkur fyrr en seinna um daginn. Við ákváðum að halda bara áfram að rölta, því að nægur var tíminn. Svo stoppuðum við á veitingastað, Gasuto, sem selur vestrænni mat en margir aðrir staðir hérna. Það var ekki svo hlýtt úti svo það var gott að komast inn og fá sér í svanginn. Enn betra var þó að komast á klósettið og Ylfa lét fyrri hræðslu við almenningsklósett ekkert á sig fá heldur fagnaði því gríðarlega að geta létt á sér og fá svo að þamba appelsínusafa. Þegar allir voru orðnir saddir barst okkur boð um að hitta vinkonu hans Jóns við Ginkaku-ji (silfurhofið) og þangað fórum við. Í fyrri Kyoto ferðinni okkar fórum við í Kinkaku-ji (gullhofið) svo þetta var vel við hæfi.
        Ylfa svaf þar til við komum að hofinu þá glaðvaknaði hún og var til í tuskið. Yumino vinkona hans Jóns tók á móti okkur við hliðið og rölti með okkur um svæðið. Það var mjög friðsælt í garðinum en þó nokkri túristar og annað fólk á kreiki. Þegar við komum þaðan hittum við svo vinkonu hennar sem ætlaði að rölta með okkur á enn einn staðinn. Sú átti heima rétt hjá og við skildum kerruna okkar eftir hjá húsinu hennar. Sjálf var hún með son sinn með sér, eins árs gífurlega sætur gutti, sem hún hélt á meðan við röltum í rólegheitum. Áfangastaðurinn að þessu sinni hét Honen-in sem er lítið og látlaust hof. Það er ótrúlega gott að komast á staði eins og þennan þegar maður er stanslaust í kringum fólk. Borgirnar iða stanslaust af lífi og maður verður stundum þreyttur. Þarna inni var rólegt, vindurinn náði ekki til manns fyrir trjánnum og við hefðum eins geta verið langt, langt upp í sveit en ekki inn í stórborginni. Þarna voru koi fiskar í tjörn og fallegir stígar. Ylfa var alveg í essinu sínu og lét allskonar kúnstir. Gaman að sjá krílið sitt í svona góðu skapi. Hún var fljót að eigna sér Yumino sem var alveg til í að fíflast með henni. Við settumst niður inn í garðinum og ég leifði Iðunni aðeins að teygja úr fótunum, enda búin að sitja prúð í burðarsjali mest alla ferðina. Hún kættist öll og æfði sig að labba, þó hún héldi reyndar fast í mig allan tíman til að detta ekki á stéttinni. Henni varð svo ekki um sel þegar japönsk "kansai-amma" vatt sér að henni með stjörnurnar í augunum. Konan (og vinkonur hennar) voru alveg að fara yfirum yfir lita hvíta íslenska gríslingnum. Iðunn fikraði sig hægt en örugglega upp í fangið á mér þar til hún gat kíkt yfir öxlina á mér á þessar spenntu konur. Okkur fannst þetta einstaklega fyndið. Nökkvi og Jón höfðu heyrt um svona "kansai-ömmur" áður en þær eiga víst að vera mun opnari en annað fólk, þessar voru vissulega ekki feimnar. (Kansai er svæði í Japan)
            Eftir að við fórum úr hofinu kvöddum við vinkonu Yumino og náðum í kerruna okkar. Við höfðum ekki planað neitt meira en ákváðum að kíkja aftur á hátiðina sem við fórum á um morguninn. Nú var allt fullt af fólki og farið að dimma svo ljósin í básunum og skreitingarnar ljómuðu og allt var mun hátíðlegra. Við sáum fylkingu koma labbandi niður brekkuna og inn á svæðið. Það var blásið í lúður (horn) og tveir menn klæddir í púkagrímur þrömmuðu um. Þeir voru með blævængi sem þeir létu snerta kollana á börnum og gamlingjum sem táknaði von um góða heilsu. Börnin minntu mig óneitanlega á íslensk kríli sem gráta yfir háværum jólasveinum á jólaböllum. Munurinn er þó sá að púkarnir eru ögn skelfilegri og annar þeirra rak upp ógurlegt heróp við og við. Púkarnir snertu kollana á Ylfu og Iðunni svo þær ættu að vera góðar út árið. Eftir ótal myndir og hlátur fórum við svo og fengum okkur að borða. Þá voru allir orðnir ansi lúnir og við héldum heimleiðis. Við hittum vonandi Yumino aftur en Ylfa var svo hrifin af henni að hún meira að segja knúsaði hana þegar við kvöddum hana. Svo skemmir nú ekki fyrir hvað hún er hress OG hún talar dönsku! Ég gat meira að segja spjallað við hana á dönsku og við skildum hvora aðra. Nökkvi fór hinsvegar harmförum því hann hefur aldrei verið svo sleipur í dönskunni. Hann var margsinnis beðinn um að hlífa okkur hinum en lét það ekki stoppa sig.
         Lestarferðin heim var þreytt og troðin á köflum. Við vorum komin upp í rúm klukkan níu og öll steinsofnuð á innan við fimm mínútum. Þetta var mjög gaman og dagurinn tókst vel, en mikil ósköp var gott að koma heim og kúra undir sæng með fjölskyldunni.

MYNDIR!!

        

Nökkvi og Jón lesa kort

Veggskreyting

Lopabarnið

Flórens(ar) fýlingur 

Túristar

Fallegt

Meira fallegt

Fleirri hús

Svona lítur sálin mín ábyggilega út

Við Ylfa að biðja

Nökkvi unga-pabbi

Fínerí

Peningum kastað

Fiskur að eldast við glóð, ilmaði stórkostleg

Verið að safna í bálköst(?)

Sennilega einhver guðinn, hvað veit ég. 

Spilað á trommu

Apakettir

Föruneytið

Fáninn blakti fagurlega


Nökkvi töluvert hressari en krílið

Jón og Yumeno

Yen í tjörn

Koi í tjörn

Við Ginkaku-ji

Tröppur vs. barn og pabbi

Íslendingar

Ginkaku-ji

Honen-in

Vinkonur að rannsaka fiska

Úlfaskott við tjörn

Fögur er ásýnd mín, að venju.

Fiskar rannsakaðir

Spjallað við altari

Stórar iljar

Mæðinni kastað

Kansai-ömmur spjalla við Iðunni

Fíflagangur, stýrt af Ylfu

Gleði og gaman

Litli tannálfurinn í burðarsjalinu

Komin aftur á hátíðina við Yoshida-jinja

Hersingin kemur niður brekkuna

Maðurinn með ljóskerið teymdi hópinn áfram

Rauði púkinn

Börnin sem fylgdu eftir

Í þann mund að skella góðri heilsu á lopabarnið

Blásið í horn

Blái púkinn, rétt eftir að hann öskraði og hræddi líftóruna úr nokkrum börnum

Grímubásinn

Kvöldmaturinn og einstaklega lýsandi mynd fyrir ástandinu sem var á liðinu eftir flakk dagsins

-Jóhanna