Sunday, April 28, 2013

Og allt í einu ... Kobe! (og vídjó)

Á laugardaginn var áttum við að mæta í Kids Club sem er samansafn af krökkum sem eru ekki af japönskum uppruna en eiga samt heima í Japan. Þetta er yfirleitt þrjár til fimm fjölskyldur sem hittast í Frente (þar sem ég er í japönsku tímum) það er föndrað, lesið og sungið. Það fer einn klukkutími í þetta og svo fara allir í sitthvora áttina. Ekki endilega brjálæðislega spennandi en samt ágætis tilbreyting og fínasta leið til þess að starta deginum. Í þetta skiptið vorum við ekki alveg nógu vel undirbúin og enduðum á því að vera allt of sein út úr húsi. Þegar við vorum komin upp á lestarstöðina okkar vorum við búin að gefa upp alla von að mæta fyrst að við værum orðin 20 mínútum of sein. Þá stakk Nökkvi upp á því að við færum kannski bara eitthvert annað að dúlla okkur og reyndum að gera eitthvað úr deginum fyrst við værum á annað borð komin í lestina.
          Nökkvi er að taka kúrs í blaðamennsku, eða eitthvað í áttina að blaðamennsku, þar sem hann þarf meðal annars að skila inn verkefnum um hitt og þetta. Hann var búinn að skuldbinda sig í að skrifa um nýopnað Anpanman-safn sem er í Kobe. Því var stefnan tekin í áttina að Kobe. Við vorum samt ekki alveg nógu vel skipulögð (ó mig auma) svo við vorum ekki búin að líta á kort af þessu, sáum auglýsingu á fyrstu lestarstöðinni þar sem var pínulítið kort af staðsetningunni en föttuðum ekki að taka mynd af því og bjuggumst við því að það væru fleirri eins auglýsingar á leiðinni þar sem þetta opnaði bara 19. apríl. Afleiðingarnar urðu þær að við komum út af lestarstöðinni í Kobe og leituðum eins og geðsjúklingar að samskonar auglýsingu en fundum ekki eina einustu. Þá ákváðum við að rölta bara um Kobe og sjá hvað myndi gerast, við vissum að safnið væri við sjóinn svo við tókum stefnuna þangað.
            Það var ljómandi gott veður og nokkuð góður andi í fólki þrátt fyrir að hafa misst af föndrinu og sögustundinni sem var búið að lofa fyrr um daginn. Ég stoppaði og keypti mér pínu lítinn gler pegasus úr agnar smárri búð sem kallaði svona líka á mig. Afhverju þessi della fyrir glerstyttum hrjáir mig veit ég ei en ég var mjög ánægð með fenginn, nú þarf ég að verja hann með lífi mínu svo að stelpurnar brúki hann ekki sem leikfang. Við vorum einstaklega heppin að slysast inn á hina og þessa staði, þar á meðal inn á verslunargötu þar sem við fórum í leiktækjasal og eyddum nokkrum vel völdum krónum. Komum út með kex, þvottapoka og forláta Luigi húfu allt unnið í klóarvélum. Þvílíkur fengur! Svo hlunkuðumst við í áttina að sjónnum og eftir smá labb kom ég auga á nýja verslunarmiðstöð sem ég vissi að væri nálægt Anpanman safninu. Sigri hrósandi örkuðum við í áttina að umræddri búð og það hlakkaði óneitanlega í okkur þar sem ég vissi að ég gæti stungið hausnum aðeins inn í H&M, Ylfa þurfti að komast á klósettið og Nökkvi var nær dauða en lífi af hungri. Það skal tekið fram að þetta er mjög nýleg verslun og því var allt troðið. Við Ylfa gátum lokið okkar verkefnum en Nökkvi varð að lifa með hungrinu ögn lengur þar sem það voru raðir út á ganga á þeim veitingastöðum sem við sáum.
              Við gengum út og handan við hornið blasti safnið við okkur. Það var allt morandi í fólki í kringum safnið bæði úti sem inni. Við komum okkur á tilsettan stað og biðum í röð. Með garnirnar gaulandi og stelpurnar mjálmandi úr svengd. Við borguðum formúgu fjár til að komast inn og hálf hlupum inn á veitingastaðinn sem blasti við okkur. Þar var svo svengdin buguð með pylsu, salati og frönskum. Þar sem þetta er kallað Anpanman Museum bjóst ég við því að nú værum við að fara að skoða eitthvað um sögu þáttanna.... mikil ósköp sem ég get haft rangt fyrir mér. Þetta var eiginlega bara hrykalega "fancy" leikvöllur. Þarna voru eftirlýkingar af húsum og faratækjum sem hafa sést í þáttunum, rennibrautir, styttur og bíósalur. Ylfa var mjög yfirveguð þar sem hún gekk með okkur, prófaði hitt og þetta og gladdist mikið yfir því að fá að prófa og skoða allt sem Anpanman á. Það þótti svo alls ekki verra að fá að renna sér í regnbogarennibraut. Hún var reyndar síðust niður og stelpurnar sem voru að stjórna ferðunum næstum farnar að plokka hana úr brautinni þegar hún loksins sleppti takinu. Ég álpaðist inn í mynjagripabúð og keypti kubba handa stelpunum en Nökkvi togaðist með straumnum annan hring um safnið. Í þetta skiptið var Ylfa ekki að tvínóna við neitt heldur æddi um og lét fátt stöðva sig enda stórkostlega sjóuð í þessu eftir fyrri ferðina. Ég var mjög fegin að komast út af leiksvæðina enda mikil læti í skrækjandi barnaflóðinu sem flæddi um salina. Við gengum beint í flasið á hetjunni sjálfri þar sem hann og fleiri karakterar úr þáttunum voru að dansa trylltan dans. Atriðið var við það að verða búið en við náðum nú samt aðeins í skottið á þeim áður en þau hurfu af sviðinu. Við létum þetta slá endann í safnið og komum okkur út í ferska loftið með upptjúnaða Ylfu og hálf myglaða Iðunni.
               Við vorum ekki búin að labba lengi þegar báðar stelpurnar sofnuðu og fyrir þeirra sakið ákváðum við að rölta bara í rólegheitunum og fara aðra leið til baka. Nökkvi sagði að við yrðum eiginlega að koma aftur einhvertíman seinna til Kobe þegar við værum búin að kynna okkur hvað væri skemmtilegt að sjá þar í bæ. Ég sagðist nú hafa lesið að hér(þar) væri Kínahverfi sem ég væri nú alveg til í að bera augum. Nökkvi svaraði þá um hæl "Þetta hérna þá". Viti menn þá stóðum við í gáttinni að hverfinu. Við keyptum okkur kjötfylltar bollur og vorrúllur og tróðum í okkur meðan við lituðumst um. Allt í lagi svosem, þyrfti kannski að koma þarna aftur til að skoða betur. Skömmu síðar eftir að Nökkvi hafði sporðrennt vorrúllunum gengum við framhjá bás sem var að selja ferska ávexti á spjótum. Jarðaberjaunnandinn sem ég er gat auðvitað ekki hafnað tækifæri sem þessu og svo ætlaði ég að fara yfirum þegar ég áttaði mig á því að þarna var verið að selja sundurtætta frosna ávexti. Við keyptum okkur tein af jarðaberjum og eitt box af frosinni melónu með hvítri súkkulaðisósu. Það eru ekki til nógu sterk lýsingarorð til að lýsa því hvað þetta bragðaðist vel. Meira svona!!
             Eftir að ég hafði séð ljósið vorum við komin að því er við héldum að væri sama lestarstöð og við höfðum séð fyrr. Þetta var ekki okkar venjulega lestarfyrirtæki en við vissum að þeir teinar væru samhliða þessu fyrirtæki og röltum í það sem við héldum að væri rétt átt. Eftir að hafa villst í smá tíma spurði Nökkvi til vegar (af eigin frumkvæði vil ég taka fram) og við komumst að því að við værum einni stöð fyrir neðan, ansans. Það gerðist ekki mikið spennandi eftir það, við fundum stöðina okkar, komumst til Nishinomiya, mættum einni mömmu úr leikskólanum, fórum í búðina, elduðum mat og komum dýrunum í bælið.
              Nokkuð góður dagur, sunnudagurinn fór svo bara í afslöppun, eina búðarferð og sjónvarpsgláp.

Upplifið spennuna og glamúrinn sem líf okkar er
Ylfa
Besti kerrustjóri sem býðst

Fólk með allskonar í kerrum

Að veiða handa börnunum

Án efa glæsilegasta höfuðfat landsins!

Regnbogabuna!

Hetjan er létt á fæti

-Jóhanna



Thursday, April 25, 2013

Takoyaki, burðapoki, afmæli, bento, kerrur, pizza, japanska, heljarlangt blogg og myndir

Ég er virkilega farin að slá slöku við þegar kemur að þessu blessaða bloggi. Við erum á ferð og flugi alla daga svo það má eflaust skrifa eitthvað á það, annað er bara 100% leti.
Á laugardaginn var (20.apríl) fór Nökkvi ásamt fleirra fólki til Osaka til að skoða skrifstofu hjá dagblaði. Hann fór töluvert snemma svo við mæðgur dóluðum okkur bara heima þangað til klukkan tvö og fórum þá með lestinni til Osaka að hitta Nökkva, Jón og fleirri vini. Fólkið var að koma úr öllum áttum svo það var ákveðið að hittast á kareokí og syngja nokkur vel valin lög. Það var ljómandi gaman en eftir að allir höfðu látið ljós sitt skína (að minnsta kosti einu sinni) fórum við til Ashiya, sem er nágrannabær/-borg Nishinomiya, heim til Moe og elduðum saman. Við skelltum í takoyaki og yakisoba, sumir fengu sér í glas en aðrir töpuðu sér í ótrúlega flottu Disney dóti sem var til á bænum. Afhverju þarf Tokyo Disneyland að vera svona langt í burtu? Það var mikið fjör á liðinu og við vorum heppin að átta okkur á því að standa upp úr sófanum því við rétt náðum síðustu lest kvöldsins. Stelpurnar voru dauðþreyttar og sofnuðu báðar á leiðinni heim.


Lubbarnir voru sendir í bað svo þær yrðu í húsum hæfar

Nökkvi

Verið að útbúa takoyaki - oishii!

Takoyaki án sósu, merkilega líkt vatnsdeigsbollum í útliti

Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur. Þrátt fyrir að hafa sofnað um miðnætti fann Iðunn samt þörfina til þess að vakna klukkan 6 um morguninn og neyða örþreytta móður sína með sér fram. Yfirleitt vekur hún Ylfu til að koma með sér að leika en í þetta sinn harðneitaði Ylfa að fara framúr, snéri sér í staðinn á hina hliðina og steinsofnaði. Þetta kallaði að sjálfsögðu á það að ég lagði mig með yngra barninu og dagurinn byrjaði ekki fyrr en um hádegi. Svosem allt í lagi að því undanskildu að Ylfa missti af sunnudagaskólanum. Ég var búin að vera lengi að hugsa um það hvað ég ætti að gera við stóru kerruna okkar, það var alveg ákveðið að hún kæmi ekki með heim til Íslands svo þá var annað hvort að finna einhverja leið til að selja gripinn eða hún myndi enda á haugunum. Við skelltum okkur því í rannsóknarferð í búð sem selur notaða hluti til að athuga hvort að þar væru kerrur og annað dót. Það var gífurlegt magn af hlutum þarna og sumt alveg hræódýrt. Fullt af kerrum, sem staðfestu grun okkar um að þetta væri rétti staðurinn til að stunda kerruviðskipti. Ef aðeins við hefðum vitað af þessari búð í upphafi þegar við vorum kerrulaus! Við komum út úr búðinni með skanna, spil og burðarpoka/sling og eyddum ekki meira en 1700 yenum! Nokkuð gott. Burðarpokinn er búinn að vera notaður mikið, þó að ég sé mikill aðdáandi burðarsjala þá kann ég ekki nógu vel á það þegar kemur að því að bera barnið á bakinu. Þessi burðarpoki býður hinsvegar upp á að maður geti haft barnið á bakinu eða framaná sér. Svo er maður líka svo fljótur að skella þessu á sig. Iðunn kann því vel að dangla á bakinu á manni og það er svo ágætt að sjá almennilega framfyrir sig.

Mánudagurinn var nokkuð tíðindalaus, ég man í það minnsta ekki eftir því að hafa gert neitt stórkostlegt.

Þriðjudagurinn var síðasti dagurinn í aðlögun hjá Ylfu. Það var hörkustuð á krakkaskaranum þegar við komum að sækja og það var ekki mikið farasnið á þeim þó að mæðurnar stæðu allar tvístígandi úti í hitanum. Ég náði að lokka Ylfu með mér með því að lofa kexi og djús á heimleiðinni. Ekki skemmdi það fyrir að segja henni að pabbi væri heima og að við værum að fara að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins. Æj já og ég átti afmæli! (Vííííí, elska afmæli) Í afmælisgjöf frá eiginmanni og börnum fékk ég heimild til að eyða smá pening í H&M, stórgóð skemmtun og mjög arðbær fyrir fataskápinn. Tveir kjólar, tvær peysur, einn bolur og armbandahrúga. Nánast allt sem hugurinn gyrntist að undanskildum blazer jakka, mínir eru orðnir gamlir og sjúskaðir en ég endurnýja þá bara seinna. Svo fórum við út að borða, til að sleppa við allt uppvask, komum okkur heim, svæfðum stelpurnar og slöppuðum af það sem eftir var kvölds.


Þetta átti sér stað fyrir utan Lalaport á afmælisdaginn

Ég vaknaði í innkaupaþynnku á miðvikudaginn og gat varla beðið eftir því að nota eitthvað af feng gærdagsins. Stelpurnar voru klæddar og allt gert tilbúið fyrir fyrsta langa daginn í leikskólanum. Þetta þýddi að ég þurfti að matreiða nesti handa Ylfu og gæta þess á sama tíma að verða ekki of seinar í leikskólann. Það rétt hafðist og við vorum komnar í leikskólann þremur mínútum áður en tíminn byrjaði. Það var rigningalegt úti og varla hægt að þverfóta fyrir ofurkrúttlegum leikskólabörnum í risa regnkápum, litríkum stígvélum með enn sætari regnhlífar. Eins og venjulega mátti Ylfa varla vera að því að kveðja okkur heldur spíttist inn í skólastofuna með farangurinn sinn og rétt veifaði til okkar til að hún fengi leikfrið. Vanalega standa mæðurnar við dyrnar þar til þær lokast og tíminn byrjar en í þetta skiptið flýttu allir sér heim, við Iðunn áttum hinsvegar stefnumót við Megumi. Hún var svo almennileg að ná í okkur í leikskólann þar sem hún var nýbúin að skila Mary á leikskólann þeirra. Til að vera svo enn almennilegri fór hún með mér í leiðangur að selja stóru kerruna. Það er þó nokkuð auðveldara að hafa einhvern sem skilur japönsku til að tala máli sínu í svona verkefnum. Við fengum nokkur yen fyrir kerruna því þrátt fyrir að hún væri keypt í fyrra voru hjólin orðin þónokkuð slitin. Það var þó nóg til að geta keypt einsbarns kerru á sama stað svo nú höfum við kerru sem er nógu há fyrir Nökkva, hefur net undir töskur og poka, er með rosa gott sólskyggni og bak sem er hægt að halla alla leið niður. Iðunn hefur nú þegar sofnað í kerrunni og svaf að sjálfsögðu miklu betur heldur en hún hefur gert í hinum kerrunum. Eftir það ævintýri fórum við til Itami, sem er ekki svo langt í burtu og fórum í svaka flotta nýja verslunarmiðstöð. Þar rákumst við á aðrar mömmur úr leikskólanum hennar Mary sem bentu okkur á góðan veitingastað til að prófa. Þangað fórum við og borðuðum svo mikið að við þurftum eiginlega að rúlla Iðunni út af staðnum og það án kerru! Pizzur, salöt, eftirréttir og pasta. Óhugnarlega gott. Svo versluðum við í nestisbox stelpnanna og keyptum brilliant jógúrt! Hvernig brilliant? Jú, það er þannig pakkað inn að þú þarft ekki að nota skeið og þar af leiðandi minni líkur á að það sullist út um allt. Þetta er klárlega málið fyrir sóðapésa. Þegar við komum út var farið að rigna. Megumi ákað að best væri að hún skutlaði mér upp í leikskólann hennar Ylfu og á meðan að ég næði í hana færi hún að sækja Mary og kæmi svo aftur og skutlaði okkur heim. Konan er æði. Þar sluppum við við óþarflega blauta skó og köld nef. Seinna sama dag fór ég í fyrsta hóptímann minn í japönsku. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég gekk inn í stofuna og tilkynnt að nú væri próf og að ég ætti að taka blað og penna upp. Gott að vita að adrenalín framleiðslan er ekki biluð hjá mér. Þetta próf var til þess að ákveða hvaða bekk maður ætti heima í. Byrjendur, miðlungs og ofurhugar. Ég var í miðlungs hópnum. Mér létti óskaplega þegar ég komst að því að allir hinir í hópnum voru jafn stressaðir og ég hafði verið og smátt og smátt náðum við að slaka á og hafa gaman. Kennarinn okkar er óskaplega hress og skemmtileg. Þetta lofar nokkuð góðu. Hópurinn samanstendur af mér, stelpu frá Kóreu, strák frá Bandaríkjunum, stelpu frá Englandi og stelpu frá Singapore. Markmiðið er að verða betri í að tala japönsku, ekki bara skilja hana. Við fáum tíu tíma og hittumst á miðvikudagskvöldum.

Í dag er svo fimmtudagur og þessi langa langa bloggfærsla er að verða búin. Ég fór með Ylfu á leikskólann, keyrði nýju kerruna um víðan völl, borgaði leiguna, fór í matarbúð, þvoði þvott, sleikti sólina og keypti nokkrar vel valdar flíkur á stelpurnar til að sumarvæða fatasafnið þeirra. Konan sem leigir okkur er líka æði eins og Megumi og þegar hún heyrði að Ylfa væri byrjuð í leikskóla hafði hún fyrir því að koma yfir til okkar og fær hnoðrunum smá nasl í tilefni áfangans.
Í dag var mjög hlýtt og því tilvalið að borða ís

Skoffín

Ylfa veitir dygga aðstoð 

Krúttgormur

Systur í leik

Þessu höfuðfati fylgir flottur smekkur sem má smella fastan við hettuna. 

Um helgina ætlum við að fara til Kobe og skoða Anpanman-safn sem var verið að opna fyrir viku síðan. Það verður ábyggilega frábært og sennilega tilefni í aðra færslu!

-Jóhanna

Monday, April 15, 2013

Hrist en ekki hrært

Lífið gengur í bylgjum hjá okkur, sumar vikur meira en aðrar. Við fórum út því að vera í fríi yfir í það að vera sko alls ekkert í fríi. Nú förum við Iðunn tvær ferðir á dag upp í Nigawa/leikskóla til þess að fylgja Ylfu í og úr skólanum. Skólinn hans Nökkva er aðeins lengra og þar dvelur hann flest alla daga, tvisvar í viku alveg til 18 og þá er vanalega kátt á hjalla þegar hann kemur heim.
Iðunn hætti á brjósti og tók því eins og hvert annað barn og öskraði í tvo daga. Svo hætti hún að æpa og allt féll í ljúfa löð. Ég er ekki frá því að hún hafi snar þroskast við þetta skref því sjálfstæðið er meira en nokkru sinni fyrr. Hún meira að segja krafðist þess að labba heim af pósthúsinu um daginn. Sem er afrek en tók ferlega á taugarnar hjá móðurinni enda mikið um bíla, hjól og skurði. Við komumst heilar á húfi heim en nú þarf ég að beita brögðum til að fá hana til að sitja í kerrunni sinni.
Ylfa er enn bara í aðlögun svo hún er í leikskólanum hálfan daginn og svo lengja þau tíma smátt og smátt. Við vorum því heima að dunda okkur einn daginn þegar það kemur skyndilega högg á húsið og gólfið hristist. Ég greip Iðunni af gólfinu og var á leiðinni yfir til Ylfu þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ekki jarðskjálfti. Við hlupum fram á gang, en þar var enginn. Þegar við komum niður á fyrstu hæð (því við búum á annarri hæð) blöstu við okkur múrsteinar og ryk fyrir utan dyrnar. Þá hafði maður keyrt á steinvegg sem aðskilur bílastæðið hjá sjoppunni við hliðiná okkur og húsinu. Það var engum meint af og þetta var þrifið upp á innan við klukkutíma. Nú er bara gat á veggnum þar til tryggingarnar og allt það vesen er búið. Býst ég við.
Á aðfaranótt laugardagsins (13.apríl) rumskaði ég hinsvegar og hafði ekki hugmynd um afhverju ég væri að vakna svona um miðja nótt. Ég hafði varla sleppt hugsuninni þegar húsið fór að hristast í alvöru. Ég náði að skækja á Nökkva að húsið væri að hristast og ýjaði að því hvort hann gæti nokkuð vaknað. Hann opnaði augun og umlaði að hann væri vakandi. Það urðu engar frekari jarðhræringar eftir þetta svo við sofnuðum aftur, hvorki Ylfa né Iðunn vaknaði við þetta. Ég var að spjalla við aðra mömmu úr leikskólanum og hún sagði að samkvæmt fréttunum hefðu rúmlega 500 hús skemmst aðeins, en ekkert sem væri ekki hægt að laga og að það hefði enginn slasast alvarlega. Ég hugsaði bara að 500 hús væri sennilega stærra í íslenskum mælikvarða en í japönskum.
Núna erum við að fara að nálgast tveggjastafa tölu í niðurtalningunni þangað til við komum heim. Við eigum að vísu eftir að kaupa miða en landvistaleifið hans Nökkva rennur út 1 ágúst svo þá ætti að vera ágætt að drífa sig bara heim. Mig grunar að síðustu mánuðirnir eigi eftir að þjóta hjá því nú er meira að gera. Svo eigum við að sjálfsögðu eftir að reyna að vera eins mikið með vinum okkar og við getum. Það er eitthvað hálf skrítið að eignast svona líka yndislega vini og hugsa svo að kannski sjái maður þau aldrei aftur! En það er alltaf hægt að spjalla á skype býst ég við, eða senda póst. Svo verður líka ágætt að hitta allt fólkið okkar heima aftur. En nú ætla ég að hætta þessum pælingum, það eru jú 106 dagar eftir.


Myndir

Skólasetning og kennarinn les sögu fyrir krakkana

Allir í sparidressinu, Ylfa var sú eina sem var ekki í svarthvítu/bláu (úps)

Skilti við leiksólann í tilefni dagsins

Bláberjajógúrtgrís


-Jóhanna

Tuesday, April 9, 2013

Í leikskóla er gaman...

Á morgun er stóri dagurinn, Ylfa fer í leikskólann! Það er að segja Ylfa fer í japanska leikskólann sem hún hefur til þessa bara farið í einu sinni í viku, nema síðustu vikur því það er vorfrí í leikskólunum hérna og svo voru gestir hjá okkur líka. Það er ekki við öðru að búast en að hún eigi eftir að una sér vel þarna og okkur grunar að japönskukunnáttan eigi eftir að blómstra.
           Annars eru síðustu vikur búnar að snúast um leikskóla, í fleirtölu! Hausinn á mér hefur á köflum ætlað að gefast upp á þessum hrærigraut og þá er ágætt að hafa Nökkva til að draga mig upp úr þessu kviksyndinu sem stress er. Nú er óneitanlega farið að styttast í annan endan á dvöl okkar hérna úti og því orðið löngu tímabært að reyna að pota stelpunum inn í leikskóla í Reykjavík. Fyrir bíllaust fólk eins og okkur er staðsetning mikið mál þegar á að velja úr leikskólaflórunni og því var efstur á lista sá leikskóli sem er næstur (vonandi) verðandi íbúð. Því miður komust þær ekki inn á sama leikskóla en Ylfa komst inn í fyrsta vali því hún er eldri, Iðunn aftur á móti þarf að þjást fyrir að vera fædd svona seint á árinu og ég var miður mín. En aldrei að óttast, Iðunn komst inn í annan leikskóla sem kallar á stutta strætóferð hvern morgun sem þarf alls ekki að vera svo slæmt. Svo krossum við putta, sækjum um fluttning á milli leikskóla og vonum að stubburinn fái inn í leikskólann hennar Ylfu fyrr en síðar.
           Ég held að ég sé að fá sviðskrekk fyrir þessu japanska leikskólastússi. Mömmurnar sem ég kannast við eru ágætar og þegar þær þora að spjalla á ensku er voða gaman EN það er ótrúlega mikið keppnisskap í þeim. Þá á ég ekki við að þær séu í raun illar og vilji láta mann líða eins og maður sé ekki nógu góður, alls ekki. Það er meira svona þær allra duglegustu sauma allar leikskólatöskurnar sjálfa, þær sauma jafnvel eitthvað af fötunum á börnin (við erum víst að fara á opnunarathöfn á morgun og mikið er ég fegin að Ylfa fékk kjól í jólagjöf), nestisboxin eru stjarnfræðilega flott og full af næringaríkum, flóknum en fagurfræðilega sætum mat. Ég viðurkenni leti mína fúslega en þetta endalausa "ú" og "a" yfir hvað allir voru duglegir fer alveg með mig. Eflaust því að maður er ekki vanur slíku. Ég verð vandræðaleg og því meira sem maður segir að þetta hafi nú ekki verið mikið mál því meira klappa þær fyrir manni. Á sama tíma á ég það til að gleyma að lýsa skoðunum mínum á því sem þær gera og lít því ábyggilega út fyrir að vera algert snobbdýr. En ég keypti allar töskurnar hennar Ylfu og kjólinn fyrir morgundaginn fékk hún í jólagjöf svo ég á ekki í neinni hættu á að lenda í aðdáunar-hremmingum á morgun. Húrra fyrir meðalmennsku.
          Leikskólinn hennar Ylfu býður krökkunum upp á mat tvisvar í viku en þau þurfa að koma sjálf með nesti aðra tvo daga í viku og á föstudögum er stuttur dagur svo þau borða heima. Hér hefði ég líka verið til í að borga aðeins meira og þurfa ekki að hugsa um neitt nesti heldur fá bara að borða alla dagana. Eða borga aðeins minna og koma með nesti bara alla dagana, hitt kerfið finnst mér vera ruglingslegt. Ég sé þó fram á það að hún fái bara það sama í nesti og pabbi hennar tekur með sér í skólann svo það verður kjúklingur og hrísgrjón... alltaf. Mér finnst ég ekki vera í mínu rétta umhverfi, eldhúslega séð, þegar ég er að elda hérna. Á boðstólnum eru tvær gashitaðar hellur, ein panna og einn pottur svo matseðill heimilisins er ögn breyttur frá sína upprunalega formi. Ég þrái bakaraofn og matreiðslubækurnar mínar, það á eftir að vera magnþrungin stund þegar ég fæ að opna kassana mína aftur!
         Það þarf bara að keyra þetta í gang, komast af stað aftur og þá fer manni að líða betur. Ég ætla að fara í gegnum allt þetta leikskóladót sem við höfum verið að sanka að okkur og komast að því hvað á að vera hvar. Ylfa á eftir að líta út eins og Magðalena með leikskólahattinn sinn.

Monday, April 1, 2013

Myndir frá síðustu vikum

Hér kemur hrúga af myndum frá síðustu vikum. Pabbi á heiðurinn á nokkrum þarna en við tókum líka nokkrar. Þær eru að mestu leiti í réttri röð en það gæti verið vitleysa. Allavega, njótið!

Fyrsta kvöldið fórum við og keyptum okkur udon núðlur að borða


Iðunn á kaffihúsi með ömmu sinni og afa

Litla módelið mitt 

Brunabíllinn!!!! 

Kareókí og gos

Við mamma að láta ljós okkar skína!

Nökkvi var að syngja, hátt en ekki illa 

Feðginin að taka lagið

Fyrir utan Osaka kastala

Selur sefur á steini

Ylfa og grjótið góða

Iðunn og kastalinn

Á leiðinni frá kastalanum

Iguana í garðinum

Ylfa tók ekki augun af dýrinu allan tímann, ekki ég heldur *hrollur*

Hjónamynd

Mamma mín 

Osaka kastali, tekið úr garðinum fyrir neðan

Ylfa ver systir sína frá papparazzi, eða afa með myndavél

Ylfa "eignaðist" heyrnatól og notar þau óspart, Iðunni er farið að finnast teiknimyndir spennó

Ylfa og stytta

Ótrúlega spennandi


Sætabaunin mín

Við í Kyoto

Töff grímur

Spekúlerað í lest

Það var heitt í Kyoto

Ég, mamma og pabbi við Kinkaku-ji, öll með sólina í augun 

Hrúga af koi

Nýbúin að troða Iðunni í burðarsjal

Orðin sátt við burðarsjalið

Í Honnen-in, lof sé sjálfvirkum myndavélum

Það er slatti af þessum gaurum í Kyoto, þeir hlaupa um með uppgefna túrista.

Lukkudýr, fyrir símafyrirtæki held ég.

Þessi heiti gaur er staðsettur rétt hjá húsinu okkar. 

Liðið að labba í Nara

"Hreindýr... nei, ég meina dádýr" mest notaða setning dagsins

Koi í tæru vatni

Þrjótar! (Ég er enn traumatized eftir dádýraárásina)

Todai-ji hofið í Nara

Stór stytta

Ég, ótrúlega hress, að taka vídjó af Nökkva og Ylfu að þvo sér um hendurnar


Stóóór stytta, við erum að tala um að hún er metra lengri en húsið hjá pabba og mömmu. Glíp!

Foreldrasettið hjá Búdda

Alvörugefinn náungi

Ylfa að skjótast í gegnum gatið í spítunni

Þessi gaur var fyrir utan. Maður á að koma við styttuna á þeim stað sem maður er sjálfur með mein og nudda, þegar því er lokið á maður að nudda meinið sitt og þá á það að banta.

Drungalega liðið

Mjög lýsandi fyrir stemninguna fyrir utan. 

Makkudo = McDonalds

Baunin mín

Sóóóól í augu

Í Osaka, Umeda station. Sætt lukkudýr og við.

Dotonbori, frægur krabbi

Glico hlauparinn, hann er á veggnum.

Sæt feðgin í Shukugawa-garði, hann er í Nishinomiya.

Iðunn að borða í kerrunni

Sakura!

Setið á bekk

Þvegið um hendur, hér í Nishinomiya

Smart

Pabbi og Nökkvi

Þessi fékk sleikjó á veitingastað.

Á leiðinni út á flugvöll


Málshættir ársins, að Nökkva undanskildum. Minn er efstur, svo Iðunnar, svo Ylfu.

Sakura, Ylfa og Mary.

Vinkonur að spjalla í lautarferð


Kirsuberjatré

-Jóhanna