Wednesday, October 31, 2012

Frente

Frente er ekki bara orðskrípi heldur líka nafn á húsi í Nishinomiya. Síðustu tvo daga hefur leið okkar legið þangað, með tvemur lestum og svo tvemur jafnfljótum. Til hvers að leggja þetta ferðalag á sig? Jú til þess að sækja um japönskukennslu fyrir mig.
        Nökkvi var stutt í skólanum á þriðjudaginn og hafði lofað að fara með mér í Frente til þess að sækja um, ef vera skildi að þeir væru ekki enskumælandi. Því héldum við stelpurnar okkur nokkuð nálægt heimilinu með smá undantekningu. Það vildi nefninlega svo til að Ylfu var sendur pakki í síðustu viku en við vorum ekki heima. Ég er búin að eyða meira en hálfri vikunni í að reyna að komast að því hvert ég ætti að sækja hann, út frá miðanum sem var skilinn eftir í póstkassanum. Ég fór með hann á pósthúsið sem ég hélt að ég ætti að fara á. Það reyndist vera vitlaust en maðurinn sem afgreiddi mig hjálpaði mér að hringja og biðja um að fá pakkann aftur sendann heim um kvöldið. Einstaklega almennilegt af honum og svínvirkaði, pakkinn er a.m.k. kominn í okkar klær. Allavega! Nökkvi kom heim og við lögðum af stað nánast samstundis. Ég persónulega bjóst við langri lestarferð og flandri en við vorum merkilega fljót að koma okkur frá Kotoen (lestarstöðin okkar) og til Frente. Þegar við vorum svo komin upp á fjórðu hæð í byggingunni var hinsvegar allt lokað og læst. Á miða á hurðinni stóð svo að það væri lokað á þriðjudögum. Ansans vandræði. Við hefðum auðvitað getað sparað okkur ferðalagið ef ég hefði ekki, eins og vanalega, verið svona bráð á mér. Þegar við vorum að rölta til baka á lestarstöðina sá Nökkvi glitta í kunnuglegt skilti í fjarska. Við ákváðum því að rölta þangað og athuga hvort um rétt skilti væri að ræða. Það reyndist  vera rétt og við vorum komin mjög nálægt verslunarmiðstöðinni. Ylfu áskotnaðist "Þyrnirós" á japönsku á leiðinni heim og enn ein fingrabrúðan. Iðunni áskotnaði kvef. Við ákváðum að ganga heim frá búðinni til að spara smá aur. Ekki mikið meira um það að segja. Við komum okkur heim í heilu lagi og pakkinn kom á réttum tíma með póstinum.
      Í dag var miðvikudagur og Nökkvi lengi í skólanum. Ég hékk heima með stelpurnar fram að hádegi og Ylfa horfði tvisvar sinnum á Þyrnirós í röð. Um eitt leitið ákvað ég hinsvegar að reyna að sækja um japönsku kennslu af sjálfdáðum, ef þau gætu ekki talað ensku myndi ég bara nota leiklistarhæfileikana til að tjá mig. Ég pakkaði stelpunum ofaní kerru og hélt af stað. Það er ekki laust við að ég sé komin úr æfingu með lestirnar því við erum búnar að labba allt síðastliðna daga. Mér fannst ég vera svakalega klunnaleg með þessa stór kerru og óþarflega mikið fólk að nota lestina á sama tíma. Við lifðum þetta alveg af. Við vorum komnar upp í Frente með það sama og upp á fjórðu hæð. Ég held það hafi ekki farið á milli mála að ég hafi verið pínu stressuð þegar ég gekk inn á skrifstofuna. Í að minnsta var konan sem afgreiddi okkur einstaklega vingjarnleg. Hún spjallaði við okkur og kom með "Tomma togvagn" og litríka barnabók fyrir Ylfu. Iðunn sat og maulaði á kexi á meðan ég fyllti út umsóknina. Þetta gekk léttilega fyrir sig og ég er komin á biðlista eftir sjálfboðaliða sem leggur í að kenna mér.
            Við notuðum auðvitað tækifærið til að skoða okkur um í húsinu, það er fullt af búðum þarna en samt mjög afslappað andrúmsloft. Mest gamalt fólk eða mömmur sem rölta um gangana. Við versluðum í matinn og Ylfa sofnaði. Iðunn var orðin óróleg svo ég varð að stýra kerruferlíkinu með Iðunni í annari. Ég rétt hafði það inn í lyftuna og upp á þriðju hæð þar sem ég vissi að væri brjóstagjafarherbergi. Ég rúllaði hrjótandi Ylfu inn í herbergið og gaf sársvangri Iðunni að drekka. Það var voða gott að geta sest niður og ég fór að glugga í blöðin sem ég hafði fengið með umsókninni. Þegar ég leit aftur upp var Iðunn sofnuð. Það þýddi auðvitað að Ylfa greyið varð að vakna. Hún var samt búin að sofa nógu lengi og ég gat gabbað hana úr kerrunni með því að hleypa henni í leikhorn sem var fyrir framan brjóstagjafaherbergið. Það voru risa frauð kubbar í leikhorninu sem hittu beint í mark hjá gorminum. Húnn byggði stærðarinnar hús og hafði ógurlega gaman af. Lítill strákur sem gekk framhjá snérist á punktinum og hoppaði inn í leikherbergið. Ógurlega sætur. Byrjaði að kubba brosandi við hliðná Ylfu sem fannst hann vera mjög kúl, því á sokkunum hans var mynd af Ponyo. Þau kubbuðu í dágóða stund, þar til Ylfa var farin að iða og ég hljóp með henni á klósettið. Eftir vænt hraðpiss og handþvott hljóp hún fram til að athuga hvort að vinur hennar væri þarna enn. Sem betur fer var hann ekki farinn en mamma hans var komin og sat hjá. Krakkarnir kubbuðu glöð hlið við hlið en undir lokin voru þau farin að reyna að byggja saman. Það var hryllilega krúttlegt að fylgjast með þeim. Ylfa fékkst varla til þess að fara en lét undan þegar ég benti henni á að pabbi hennar yrði kominn á undan okkur. Krakkarnir kvöddust (mega krúttlegt) og við rúlluðum heim.
        Ylfa er ný farin inn að sofa enda merkis dagur á morgun og ég sit hér ein eftir með harðsperrur og óvaskaða diska. Við vitum ekki alveg hvað við gerum á morgun til að fagna afmælinu en ég býst við að það verði aðallega kökuát og pakkar sem heilli afmælisbarnið. Eitt er þó víst, ég mun taka myndir og þær enda líklega hér þegar afmælið er yfirstaðið.

-Jóhanna

Thursday, October 25, 2012

Daddy cool

Nökkvi fylltist eldmóði eftir að hafa séð vídjóið okkar Ylfu í gær og vildi líka fá að spjalla við Ylfu. Í morgun þegar við stelpurnar vöknuðum sat hann í tölvunni og horfði á vídjó af sér og Ylfu síðan hún var 16 mánaða, það er á facebook - gott stuff. En án frekari tafa - hér eru pabbi og Ylfa. Gjössovel! 


- Jóhanna ( en samt eiginlega Nökkvi)

Ferðalangar á róluvelli

Í dag vorum við mjög virk. Nökkvi fór á bæjarskrifstofuna og sótti um leikskóla pláss fyrir Ylfu. Upphaflega bjuggumst við við því að hún færi í hoikusho sem er týpa af leikskóla. Hoikusho er opinn lengi, frá átta og jafnvel til sjö á kvöldin. Hann er mest fyrir foreldra sem eru báðir að vinna. Nökkva var hinsvega sagt að það væri eiginlega ekki hægt að komast inn á hoikusho núna í okkar nánasta umhverfi. Þess í stað eigum við að sækja um í youchien. Það er meiri skóli, pre-school. Það er fyrir þriggja, fjögurra og fimm ára krakka. Þau útskrifast þegar þau fara í grunnskóla, hljómar nokkuð eðlilega. Í framhaldi af því fékk hann nöfn á tvemur skólum sem væru ekki allt of langt í burtu frá okkur. Þar af leiðandi erum við að fara að vera formleg og fullkomin á morgun meðan við reynum að sækja um hjá þeim. Gallinn er sá að þeir geta neitað okkur, sem er alveg eins líklegt ef þau treysta sér ekki í útlendinga. Krossið fingur fyrir okkur og sendið Ylfu róandi strauma svo þetta gangi vel! Örvæntið þó ekki því við erum búin að fá Moe, vinkonu okkar, til þess að koma og sjá til þess að það misskiljist ekkert þegar við sækjum um. Annar leikskólinn sem er í boði er rétt hjá okkur, hann er mega sætur og ég er að vona að hún komist þangað inn. Sá heitir Koto og er frá 9 á morgnana til 14 á daginn. Auðvitað væri ágætt ef þetta væri frá átta til fjögur eins og heima en þetta gefur henni þó smá tíma með öðrum krökkum.
         Þegar Nökkvi kom til baka fórum við öll saman til leigusalans okkar til að borga leiguna. Leigusalinn okkar býr rétt hjá okkur og ég er nokkuð viss um að ég hafi séð hana áður út í búð jafnvel. Hún er hin huggulegasta kona, ábyggilega einhverstaðar í kringum sjötíu ára. Síðast þegar Nökkvi fór og borgaði henni færði hann henni sjal sem mamma (snillingur) prjónaði úr ekta íslenskum lopa. Hann gat hinsvegar ekki munað að hún hafði prjónað það svo þegar konan spurði hann hvort ég hafði prjónað það sagði hann nei og gleymdi að minnast á mömmu. Skamm Nökkvi. Í dag leiðrétti hann hinsvegar misskilninginn. Henni þótti ógurlega gaman að sjá Ylfu og Iðunni. Aðallega Ylfu samt, hún spjallaði mikið við hana og spurði hvort hún vildi koma að leika. Hún ætti barnabarn sem vildi ábyggilega leika við hana. Hljómar vel, þar til í ljós kom að barnabarnið er sex ára strákur. Ég leifi mér að efast um að hann hafi áhuga á að leika við þriggja ára íslenska stelpu sem skilur lítið sem ekkert í japönsku. Sjáum til.
         Við röltum heim aftur (öll tíu skrefin) og Nökkvi þurfti að fara upp í skóla. Ylfa lagði sig, eftir smá umstang, Iðunn fékk sér að drekka og sofnaði líka. Móðurhlutverkið hefur kennt mér eitt. Tvö sofandi börn = frítími. Þetta gerist hvort eð er bara einu sinni á bláu tungli svo ég lét hreingerningarnar bíða aðeins. Kveikti á þætti og hallaði mér aftur í stólnum. Eftir að fimm mínútur voru búnar af þættinum snérist mér hugur og ég endaði á því að kúra upp í rúmmi hjá stelpunum. Klukkutíma síðar bröltum við Ylfa fram og náðum okkur í smá hressingu. Iðunn vaknaði skömmu eftir okkur og skreið úfinn og brosandi fram til okkar.
           Lúrinn borgaði sig margfalt því við vorum allar í fanta formi eftir svefninn. Ég var svo góð með mig að ég ákvað að láta eftir okkur smá ævintýraferð. Ég var búin að sjá á kortinu okkar að það væri stór garður ekki svo fjarska langt í burtu. Ég vissi ekkert um hann nema það að stundum eru leiktæki í svona görðum. Stelpunum var mokað í föt og upp í kerru. Ég mundi meira að segja eftir myndavélinni. Tók samt ekki mjög margar myndir því við vorum fljótari í garðinn en ég bjóst við. Garðurinn var Æ-Ð-I! Þarna var urmull af börnum og mömmum. Bekkir og stólar, borð og leiktæki. Nokkur tré á stangli og smá gras en að mestu sand plan með nógu miklu plássi til að hlaupa og leika sér á og svo áður nefnd leiktæki. Svo var líka klósett fyrir smáfólkið, sem er snilld því sumir eru með minni blöðru en aðrir. Við ætlum pott þétt að fara þarna aftur, sérstaklega eftir að við sögðum Nökkva frá þessu með stjörnur í augunum. Ylfa ætlaði að ærast úr hamingju og henti sér á fyrsta rugguhestinn (rugguönd) sem hún sá. Skríkjandi af kæti "Look mommy, look!", við erum í japan en barnið er farið að tala ensku. Dóra landkönnuður er nú meiri dólgurinn. Iðunn fékk líka að fara úr kerrunni og kunni því vel, teygði úr sér og sat í mestu makindum ofan á leðurjakkanum mínum. Eftir smá rugg og veltur á rugguöndinni kom Ylfa auga á rólur. Systurnar fengu sitt hvort sætið og svo var rólað. Taumlaus gleði. Iðunn var mjög fyndin að sjá, brosti út í eitt með galopin augun. Eftir rólurnar var haldið í klifurkastala með rennibrautum, stigum, klifurvegg, brú og öllur mögulegu. Iðunn fékk ekki að fara í það. Þess í stað var þaggað niðrí henni með nasli og vatnsbrúsa. Við vorum þarna hátt í klukkutíma og mig var farið að lengja eftir því að komast í búðina. Ylfa harðneitaði, ætlaði sko ekki að glopra þessum stað úr höndunum á sér. Rétt í því að ég var að keyra Iðunni af stað í kerrunni, vorum að elta Ylfu, missti hún vatnsbrúsann sinn. Nokkrar konur sem stóðu hjá kölluðu til okkar að við hefðum misst brúsann og ein þeirra kom til okkar. Þá var ég búin að ná í brúsann. Iðunn hinsvegar veiddi konuna alveg og þær fóru að spjalla (ok Iðunn hjalaði og skríkti). Við fórum svo að tala saman og var þetta hin almennilegasta kona. Ég er s.s. búin að eignast fyrsta kunningjann án utanaðkomandi aðstoðar. Jeij fyrir því! (Æji vinalegi vottinn ætti samt að teljast með líka, hún er nú ekki svo slæm greyið) Ég náði í Ylfu og hélt af stað heim. Við rákumst á búð þar sem við gátum keypt ávexti og grænmeti fyrir töluvert lægra verð en í matvörubúðinni okkar og fjárfestum í gulrótum og eplum. Svo var bara þetta klassíska matarbúð - heim - elda - svæfa. Harla fréttnæmt efni.
            Hér koma svo nokkrar myndir, þær eru ekki allar alveg jafn splunku nýjar en mér fyrirgefst það ábyggilega

Krúttlegt skriðdýr

Apaköttur


Babyzilla, það verður stuð þegar sumir ákveð að byrja að labba


Það er óneitanlega kózý að kúra hjá svona krúttum. Myndin er sviðsett, Ylfa var ekki sofnuð.

Ætlaði að gera egg í brauði en þegar ég opnaði eitt eggið var það frosið 

Á leið okkar rákumst við á meðal stóran læk sem iðaði allur af lífi. Sjáiði ferlíkin! Þeir voru á stærð við meðal stóra ýsu!

Ylfa hitti Kormák á förnum vegi

Ruggandi á ruggönd!


Allt í fullu swingi

Gaman


Meira gaman

Krúttlegt skilti með "má og má ekki" reglum fyrir gesti leikvallarins

Mandarínur á trjám, þetta er á leiðinni heim.

Iðunn og lækurinn með fiskunum
-Jóhanna


Wednesday, October 24, 2012

Viðtal við Ylfu

Það sem við gerum ekki til að skemmta okkur... og ef til vill einhverjum öðrum. 


-Jóhanna

Friday, October 19, 2012

Жанна

Það telst til tíðinda, í mínum bókum, að ég skelli mér út án þess að hafa restina af fjölskyldunni með mér. Síðastliðin þriðjudag fékk ég samt útgönguleyfi með því skilyrði að ég myndi skemmta mér og koma seint heim. Moe, vinkona okkar Nökkva og fyrrum skiptinemi á Íslandi, hafði verið svo almennileg að bjóðast til að kíkja með mér út og ræða um möguleikann á japönskukennslu. Eins og sönnum dömum sæmir ákváðum við að ræða þetta yfir kaffibolla. Kaffibollinn (sem satt best að segja hefði aldrei verið kaffi) breyttist hinsvegar skyndilega í kvöldmat þegar í ljós kom að við gátum ekki hisst fyrr en eftir klukkan 18 á þriðjudeginum. Ég taldi mínúturnar allan þriðjudaginn þar til að ég kæmist út og þegar það var hálftími til stefnu og ég full óþreyju að komast aðeins út stakk Nökkvi upp á því að ég færi og borgaði reikningana okkar og kæmi svo við í 100 yena búðinni fyrir hann áður en ég hitti Moe. Ég knúsaði heimafólk og valhoppaði svo út í Lawson til að greiða reikninga.
            Þegar ég kom á bílastæðið sá ég að einhver hafði gleymt myndavél fyrir framan búðina. Náttúrulega tók ég hana upp og gekk inn í búðina, þar sem hún var í hættu á að verða undir bíl. Þegar ég komst á kassan blaðraði ég auðvitað beint á ensku að einhver hefði gleymt þessari myndavél á bílastæðinu og rétti stráknum sem var að vinna á kassanum vélina. Gefið að yngra fólkið þorir frekar að tala ensku frekar en eldra bjóst ég við því að hann skildi mig fyllilega en talaði samt aðeins hægar en venjulega. Íslenskur hreimur ofan á ensku ofaná vandræðilegt handapat virkaði ekki betur en svo að hann horfði á mig, svo á myndavélina og sagði svo "I understand, ariga... I mean SPASIBA". Ég stóð þarna með hálf frosið bros og störu. Eitt að halda að ég væri rússi en rólegur á að þakka mér á rússnesku. Mig langaði helst til þess að segja honum að ég væri nú ekki rússi en var hreinlega of hissa til þess að koma því út úr mér. Þegar ég svo benti honum á að ég væri þarna til að borga reikninga fór hann að tala ensku aftur og japönsku, með álíka miklu vandræða-handapati og ég þegar ég rétti honum vélina. Ég borgaði og hann rétti mér kvittanirnar, hneigði sig aðeins og sagði "Arigatou gozaimasu! Oh and SPASIBA". Ég brosti bara til hans og hrökklaðist út. Eftir á að hyggja hefði ég sennilega drepið hann með því að segja að ég væri ekki rússi. Hann hefur haldið að hann væri að vera suddalega svalur með því að geta svarað mér á "mínu" tungumáli. Ekta góðvilja-rasismi, ekki minnsta arða af illum ásetningi en samt svo rangt.
              Ég fór í 100 yena búðina og keypti krúttlegasta matarprjónasett sem sögur fara af handa Nökkva (það er gult og bleikt með jarðaberjum) og hitti svo Moe upp á lestarstöð. Við fórum á mjög huggulegan lítinn ítölskublásinn veitingastað og komum okkur fyrir. Meðan við vorum að borða og kjafta um allt annað en japönskunám spurði ég hana hvort að það væri eitthvað orð í japönsku sem hljómaði eins og spasiba. Hún starði á mig álíka hissa á svip og ég hafði verið fyrr um kvöldið og neitaði. Svo spurði hún hvað í veröldinni þetta þýddi og ég sagði henni frá ævintýri mínu í búðinni. Henni fannst þetta mjög skondið, að sjálfsögðu.
              Kvöldið varð bara skemmtilegra eftir þetta, við fengum rosalega gott pasta og pöntuðum okkur meira að segja eftirrétt. Það var að vísu óumflýjanlegt því að við fórum að tala um sælgæti og eftir það var ekki aftur snúið. Mig grunar að fólkið í eldhúsinu hafi heyrt í okkur því það var óvænt ískúla með kökusneiðunum okkar. Óvæntur ís er alltaf gleðilegur.
              Þar sem við stóðum við kassann og biðum eftir að fá að borga heyrði ég í fólki hvíslast á og sá það stara á mig. Ég er vanari því að fólk sé að stara á stelpurnar en þær voru heima með Nökkva svo ég beitti minni bestu flóttaleið og horfði á loftið í smá stund þangað til það var komið að mér á kassanum. Þegar við trítluðum svo út skildist mér að "ég væri voða sæt", takk ókunnuga fólk! Við kvöddumst á lestarstöðinni og ég skottaðist heim með magann fullan af gómsætum "næstum" ítölskum mat og hausinn fullan af hóli. Ó hvað það er gott að vera einföld stundum.
             Heima biðu mín sofandi Ylfa og næstum því sofandi Iðunn. Nökkva tókst þetta nú bara nokkuð vel (enda hans eigin börn) og íbúðin var ekki einu sinni í rúst, ólíkt því sem ég hefði búist við. Iðunn fékk að drekka og sofnaði skömmu síðar. Nökkvi sofnaði reyndar líka því ég fór á skype, þar sem ég átti tíma pantaðann í eðal spjall við Bryndísi frænku. Kvöldið var því bara nokkuð gott. Ég fékk reyndar að gjalda fyrir átið morguninn eftir þegar Iðunn vakti mig eld snemma, með fulla bleyju og bros á vör. Ég get fullyrt það að ég hafi verið með matarþynnku og svefnleysið eftir allt og stuttann nætursvefn bætti ekki ástandið. En þetta var samt þess virði.

-Jóhanna

Saturday, October 13, 2012

Oji Zoo

Í dag fórum við í dýragarð. Upphaflega hafði ég hugsað mér að fara í dýragarð á afmælinu hennar Ylfu en á endanum mátti það ekki bíða lengur. Það vill nefninlega svo til að ég hef mesta dálæti af dýragörðum sjálf svo þetta var eiginlega meira fyrir mig en Ylfu, ok svona 65% ég og 35% Ylfa, Nökkvi og Iðunn voru svo dregin með til að upplifa dýrðina. Við ákváðum að fara í Oji Zoo þar sem hann er hvorki sá dýrasti né sá fjærsti. Við vorum svo þreytt í gær að við sofnuðum meira að segja extra snemma og vorum því öll vöknuð árla morguns og tilbúin í slaginn. Nökkva blöskraði það svo svakalega að ég skildi ætla að taka tösku með að hann neitaði að taka litlu regnhlífakerruna (sem við vorum að kaupa, kostaði klink) og vildi frekar fara með stóru strætókerruna. Ég varð auðvitað passlega pirruð á móti og sagði að hann mætti svosem ráða þessu en að hann yrði þá að ýta líka. Hann var til í það og við gátum komið okkur í lestina. Fyndið hvað fólk tekur alltaf strax eftir Ylfu í kerrunni en aldrei eftir Iðunni, samt situr hún fyrir framan en Ylfa fyrir aftan. Það var ungt par í lestinni í dag sem spjallaði mikið um Ylfu og svo heyrðum við þegar þau föttuðu að það væri annað barn rétt áður en við stoppuðum á miðju stoppinu.
       Lestarferðin að þessu sinni var alveg bærileg, reynar nokkuð heitt og troðið á köflum en ekkert til að kvarta yfir. Þegar við vorum komin á rétta stöð skutumst við út úr lestinni og flýttum okkur að finna lyftu til að komast út. Við Ylfa fórum inn á fyrsta skítuga klósettið í Japan og snérum eiginlega strax við. Dýragarðurinn er vel auglýstur og greinilegt að það er gert ráð fyrir ferðafólki úr lestinni því það voru skilti út um allt sem vísuðu á garðinn. Klukkan var rétt ný orðin 10 þegar við komum þrammandi með risa kerruna okkar. Það streymdi fólk á eftir okkur inn í garðinn og við flýttum okkur innar í garðinn. Við ákváðum að byrja á "klapp" partinum af dýragarðinum (þetta er mín þýðing á petting zoo og ég held mig við hana) því við vildum að Ylfa væri enn í góðu skapi þegar hún fengi nú að klappa dýrunum. Hún gekk kotroskin við hliðin á mér meðan Nökkvi ýtti kerrunni. Hugrekkið var samt ekki meira en svo að þegar við sáum fyrstu hænuna koma röltandi í átt til okkar hljóp Ylfa upp á prammann á kerrunni og gargaði á fuglsófétið að fara. Þetta var ekki beint hæna, einhverskonar frænka hennar með bláar og hvít doppóttar fjaðrir. Við sáum hvar börn voru að fá að halda á og klappa kanínum og naggrísum en þegar við sáum röðina fannst okkur ráðlegra að sleppa því. Við gengum aðeins um og sáum hin og þessi dýr. Ég sá stóru ástina mína skömmu eftir að við vorum farin frá "klapp"garðinum. "Hver er þessi undursamlega vera?" gæti einhver verið að spyrja sig. Svarið er Rauð PANDA. Ég ELSKA rauðar pöndur, vildi að þær væru gæfar og til í að búa með mér og knúsast. Nökkva fannst mest spennandi hvað hún væri með massívar lappir. Ég tók auðvitað myndir þangað til að dýrið svona um það bil leit á mig en svo gengum við áfram. Við sáum kóalabjörn hanga steinsofandi upp í tré og annan sem var vakandi og horfði mæðulega á okkur bakvið glervegg.
         Það er mjög mikið og fjölbreytt dýraríkið í Oji Zoo en hann er samt mest að fókusa á risa pöndurnar sem búa þarna. Við biðum spennt eftir að sjá dýrin en það var bara annað þeirra úti og lág í þokkabót í skugganum og svaf. Ekki mikið að sjá þar, nema pöndu rass. Við ráfuðum svo beina leið inn í skemmtigarð sem er í miðjum dýragarðinum. Þá lifnaði yfir Úlfaskottinu sem sá fullt af hlutum sem hana langaði til að prófa og gera og hún hálf sveif inn á undan okkur og horfði svo agndofa á öll ljósin og tækin sem voru í boði. Þarna var krúttleg hringekja sem er ekki svo ólík þeirri sem er í Húsdýragarðinum. Ylfa, glögg eins og vanalega, mundi eftir því að Viktoría og Ásdís Katrín fóru í hringekjuna án hennar í sumar og vildi því ólm fara í þessa. Það var því úr að ég skildi fara með henni en Nökkvi stæði á hliðarlínunni og passaði Iðunni og okkar veraldlegu eignir. Við fengum hringekjuna út af fyrir okkur þar sem við misstum rétt af fyrri ferð. Ylfa ætlaði að setjast í hestvagn en ég sagði að það væri nú ekkert spennandi og dróg hana á eftir mér að finna hest. Mér leist líka ekkert á það að fara að reyna troða okkur báðum inn í vagninn. Ylfa valdi sér bláan hest en fór að kjökra þegar ég sagði að hún yrði að sitja á baki þegar tækið færi af stað. Það tók ekki meira en hálfan hring að hætta að vera ógnvekjandi og hún hékk brosandi og spennt á baki á meðan að uppáhalds lagið hennar úr Totoro spilaði í hátölurunum. Mér fannst þetta álíka spennandi og henni sjálfri og hékk fast við hlið hennar. Þeim tókst ágætlega að plokka frá okkur peningana í skemmtigarðinum, við fórum meðal annars í purikura (myndatökubás) og skemmtum okkur vel við að pósa og fíflast með stelpurnar. Ylfa fékk að drekka og við Nökkvi keyptum okkur kók með miklu kaffibragði. Ylfa náði líka að væla sér út íspinna á meðan við Nökkvi jöpluðum á takuyaki og kartöflubátum sem voru fyrir neðan gæðakröfur okkar. Snobbliðið kláraði samt matinn og hélt áfram að skoða dýr og taka myndir. Ylfa var misjafnlega hrædd við dýrin, best fannst henni ef þau voru á bak við þykka glerveggi því þá væri hægt að koma nær án þess að þau næðu í mann. Skógarbirnirnir voru spennandi, sérstaklega sá sem lág ofan í vatninu og settið trínið á rúðuna. Krókódílarnir voru ógnvekjandi þó þeir væru í smærri kantinum. Gíraffarnir voru STÓRIR og áttu helst að vera úti að hennar mati. Ég dáðist af öllum dýrunum og tók myndir eins og trylltur túristi en Ylfa gladdist mest yfir því að finna akarn á gangstéttinni. Það er þó nokkuð um akörn í Totoro svo litla dýrið okkar æpti yfir garðinn "Mamma, DONGURI!!" en svo missti hún það úr kerrunni og foreldrarnir neituðu að leita. Við sáum fílaparið og Ylfa óttaðist það mest að þeir kæmu og ætu Pikachu dúkkuna sem hangir á kerrunni þeirra. Ferðinni lauk svo hjá páfuglabúrinu sem var mesta heppni því það er næsta búr frá pöndunni sem hafði loksins ákveðið að vakna og sat nú upp á þaki og japlaði á bambus. Ég gat smellt mynd af henni úr fjarska en nennti engan vegin að standa í röð til að komast nær. Við héldum heim á leið nokkuð hress með árangurinn. Stelpurnar voru samt orðnar helst til þreyttar þegar við komum heim svo restin af deginum er búin að fara í að slappa af, við vorum komin heim klukkan að ganga fjögur og stelpurnar komnar upp í rúm klukkan 19. Við tókum svakalega mikið af myndum í dag, en hér er toppurinn af ísjakanum. Gjössovel...

Flamingóar - bleikir, hvítir og gráir

Á göngu í "klapp"garði

Ferðafélagarnir

Ástmaður minn Hr. Rauður Panda

Slappað af með gullfiskum 

Ylfa skoðar kóala

Ævintýraleg brú, Nökkvi og Ylfa gengu aðeins út á hana

Sofandi panda, við tókum samt mynd til vonar og vara

Það má kaupa gleði í smá tíma

Feðginin alltaf jafn alvarleg

Ef Nökkvi hefði líkamsbyggingu dvergs

Hvar er Jóhanna

Api, ákvað seinna að bera á sér kynfærin þegar honum fannst Nökkvi of ógnandi

Buslu bangsi

"Kisa" = gaupa

Ylfa og Nökkvi skoða dýr, Iðunn las af kortinu á meðan

Listrænn krókódíll (pun fyrir mömmu og pabba)

Sjáðu!

"Um hvað ertu að hugsa?"
-"Ekkert, bara eðludót"

Þokkafullt

Afslappað lið

Frelsi gíraffans, tekið í gegnum skítuga rúðu

Skuggalega liðið

Emúi (right?)

*Jóhanna tekur mynd af fallegum blómum
Nökkvi: "Hættu að vera faggi"

Þessi rétt nennti að skjóta upp hausnum og stakk sér svo aftur á kaf

Að skoða mörgæsir er ágætis afþreying

Hestastytta og skemmtigarður

"Nökkvi skoðar dýrin"

Sofandi Iðunn, sá hvort sem er svo lítið fyrir sólhattinum

Fílarnir

Einn venjulegur og einn albínói. Páfuglar eru töff.

Panda og myndavélar

Þreyttur kerrustjóri

Ylfa að störfum

"Pabbi taktu mynd af mér"

Eins og sjá má hefur Ylfa lært af innfæddum og pósar hér með stæl
Nú gerist ábyggilega ekkert merkilegt í nokkra daga, enda þetta yfirdrifið af myndum (38 stk jafnvel).

-Jóhanna