Wednesday, November 28, 2012

Nigawa

Leikskólablogg!
Eftir miklar pælingar og símhringingar komst Ylfa inn í einskonar forskóla fyrir leikskóla. Það þýðir að einu sinni í viku, stundum tvisvar, má hún koma og leika í tvo klukkutíma með krökkum sem eru fædd haustið 2009 eða vorið 2010. Við fórum fyrst á mánudaginn með Moe, vinkonu okkar og túlk þetta skiptið, til þess að skoða leikskólann og tala við leikskólastjórann. Ég byrjaði auðvitað á því að efast um að ég gæti fundið um þetta, stóð svo og ranghvolfdi í mér augunum yfir korti af svæðinu og á endanum reyna að brúka afar takmarkaða kanji kunnáttu mína til að lesa á skilti. Ég kann að lesa Nigawa, svo þetta var eflaust ekki jafn mikill sigur og ella. Það var hinsvegar ekkert hlið hjá skiltinu sem ég var að lesa á svo ég ákvað að labba aðeins lengra og reyna að ganga á hljóðið í skríkjandi krökkum. Eftir að hafa beygt tvisvar í viðbót blöstu Moe og Nökkvi við mér, þau komu úr skólanum sem er aðeins lengra upp hæðina. Já, það er annað! Leikskólinn er á leiðinni í skólan hans Nökkva en þar sem þetta er forskóli þá verð ég að hanga með Ylfu (og Iðunni) allan tíman svo það er ekki í boði að Nökkvi fari bara með hana og ég nái svo í hana. Tíminn passar líka ekki akkurat núna, en hann gerir það kannski þegar hún er byrjuð í alvöru leikskólanum. Moe hringdi dyrabjöllunni og kona svaraði í dyrasímann. Svo var okkur hleypt inn og ekkert mál. Leikskólastjórinn er sennilega sextíu ára eða eldri og kom brosandi á móti okkur. Hún byrjaði að tala á ensku og bjóða okkur velkomin en með tímanum ákvað hún frekar að treysta á að Moe þýddi fyrir sig hvað væri í gangi. Nigawa er kristinn leikskóli svo það er kirkja á lóðinni. Leikskólinn sjálfur virkar eins og hann hefði ef til vill geta verið byggður 1970 >. Við gengum fyrst í gegnum andyri og beint út á leikskólalóðina. Ég var svosem búin að dásama hann á facebook en maður lifandi! Það var fuglasöngur og nánast enginn vindur. Birtan var mild og gullin laufblöð af risa stórum trjánnum féllu ljúflega til jarðar. Ok enn sem komið er hljómar þetta eins og ævintýri, right? Svo gengum við niður tröppurnar og framhjá .... KANÍNUBÚRI!! Það voru líka gullfiskar, fuglar, humrar (lifandi) og naggrís á svæðinu. Skóla stofan hennar Ylfu er úti á skólalóðinni svo við gengum yfir leikvöllinn og að minni byggingu. Þar var farið úr skónnum og trítlað inn í stofu merkta ひまわり = himawari = sólblóm. Inni var einn kennari og tvær fimm ára stelpur sem komu blaðskellandi á móti okkur og skrensuðu fyrir framan Ylfu. Þær vildu ólmar tala við hana en Ylfa horfði full hrifningar á allt dótið sem var í boði. Við "fullorðnu" fórum að tala og leikskólastjórinn var í óða önn að kynna okkur fyrir starfi skólans þegar hún var boðuð inn á skrifstofu út af símtali. Það gaf okkur tíma til að litast betur um og Ylfa, sem gat ekki setið á sér lengur, skaust af stað. Hún litaði, knúsaði dúkkur og svo tókst hún á loft af gleði þegar hún kom auga á eldhúskrók með fullt af græjum. Hún var því skiljanlega ekki mjög kát þegar við sögðum henni að nú værum við búin að tala við konuna og að við þyrftum að fara heim. Ylfa setti upp einstaklega eymdarlegan svip og konurnar sögðu okkur að við mættum vera þangað til að síðasti krakkinn yrði sóttur. Það gaf okkur hálftíma í viðbót og svo drógum við Ylfu nauðuga út. Það má bæta því við að Iðunn, skæruliðinn, komst líka í feitt og skreið um allt á þvílíkum hraða og stoppaði bara til að skoða dótið sem varð á vegi hennar en hentist jafnóðum af stað aftur. Við fórum með grátbólgna Ylfu og sofandi Iðunni (uppgefin eftir skriðmaraþonið) út að borða og svo heim þar sem þeim, mest Ylfu, var tjáð að þær fengju að fara í leikskólann á miðvikudaginn.
Í gær, þriðjudag, var Nökkvi heima. Hann er búinn að vera að læra eins og hann eigi lífið að leysa því á sunnudaginn næsta fer hann í hæfnispróf sem honum langar ógurlega mikið að ná. Hann var því að mestu leiti heima  til að læra en líka afþví hann var hálf úrvinda og pínu kvefaður. Við höfðum fengið fyrirmæli um að það væri skilda að koma með inniskó, fyrir móður og barn, hitabrúsa og handklæði. Það eina sem var til hérna heima voru inniskórnir hennar Ylfu svo við neyddumst til þess að fara út í búð. Nökkvi var heima og eftir að ég hótaði að draga hann með mér út bauðst hann til þess að vera með Iðunni heima. Við Ylfa ætluðum rétt að skjótast út í Daiei (á sama skala og Hagkaup föt - matur - gjafavar - o.s.fv) en eftir að hafa gengið í þó nokkra hringi þar sá ég að við ættum ekki annarra kosta völ en að fara upp í moll til þess að kaupa hitabrúsann því það var ekkert til í barnastærð með bolla. Ég fjárfesti í inniskóm á mig í 100 yena búð og tösku undir dótið hennar Ylfu og svo splæstum við líka í tvö handklæði. Ég var ekki fyrr komin út úr Daiei þegar ég fattaði að ég var ekki með símann minn og þar af leiðandi engin leið að láta Nökkva vita að við þyrftum að fara lengra nema fara heim, sem ég nennti ekki. Til allrar hamingju vorum við með litlu kerruna svo ég þurfti í það minnsta ekki að halda á Ylfu eða draga hana á eftir mér. Ég hugsaði með mér að þetta tæki nú enga stund því við værum hvort eð var komnar hálfa leiðina upp í moll. Ég hafði rangt fyrir mér, þetta tók heljarinnar tíma. Við þurftum að koma okkur upp á fjórðu hæð og þegar þangað var komið finna hitabrúsana og á leiðinni rak Ylfa augun í dótahorn og hljóp þangað að leika sér. Sem hefði verið í lagi ef hún hefði komið þegar ég bað hana. Ég dröslaðist með Ylfu, Hello Kitty hitabrúsa og kerruna að búðarkassanum og borgaði. Þegar þessu afreki var lokið fattaði ég að það átti eftir að kaupa í matinn. Það er ódýrari matarbúð í hinni verslunarmiðstöðinni svo Ylfa var fest í kerruna og við hálf hlupum í gegnum lestarstöðina og inn í hitt mollið og niður á fyrstu hæð þar og versluðum í matinn. Það var hrykalega troðið enda klukkan orðin næstum fimm og allir að versla á leiðinni heim úr vinnunni/skólanum. Við lifðum þetta þó af og hlupum og rétt náðum lestinni okkar. Þegar við komum heim opnaði Nökkvi fyrir okkur og Iðunn gargaði af venju á okkur þegar við komum inn. Ég á víst ekki að halda að hún hafi haft það gott meðan ég var í burtu jafnvel þó pabbi hennar nenni mikllu meira að leika heldur en ég. Við elduðum og tróðum börnunum í bælið eftir létt spjall á skype. 
         Miðvikudagsmorgun. Ferðin í fyrirheitnalandið, m.ö.o. í leikskólann, var nógu lokkandi til þess að Ylfa skaust  fram úr þegar ég kallaði á hana. Við gerðum okkur til og vorum farnar út klukkan 9, Iðunn í burðarsjali og Ylfa í litlu kerrunni með tvær töskur aukalega fullar af dóti. Þessu þurfti ég að drösla upp bratta brekku og fagnaði ákaft í huganum þegar ég gat platað Ylfu til að labba svolítin spotta sjálf. Við komum upp í leikskóla á slaginu 9.30 og gengum í flasið á leikskólastjóranum sem heilsaði okkur og nánast samtímis kynnti okkur fyrir kennaranum hennar Ylfu sem heitir Matsumoto Akiko. Nökkvi spurði Ylfu áðan hvað kennarinn hennar héti og Ylfa sagði "Aki-chan" en það verður ekki liðið (-chan er fyrir litlar stelpur) Ylfa má kalla hana Matsumoto-san, Akiko-san (í þessu tilfelli er -san = frú/fröken) eða Akiko-sensei (sensei = kennari). Kennarinn virkaði mjög almennileg og hún benti okkur hvar við gætum skilið dótið okkar eftir en svo ætti að vera "leikur í garði" þar til allir væru komnir. Ylfa fékk því tækifæri til að skoða sig um úti og flýtti sér að skoða öll leiktækin í krók og kima. Við megum líka koma í garðinn að leika eftir klukkan tvö á daginn, hvenar sem er svo það er ágætt að vera orðinn kunnugur þarna. Við vorum fyrstar en fljótlega fóru hinar mömmurnar og börnin að streyma að. Það voru margir krakkar sem vildu leika við Ylfu og margar litlar stelpur sem sögðu að hún væri sæt. Ég held að bleika slaufan í hárinu hafi hjálpað til, hún leit út eins og harðasti Hello Kitty aðdáandi. Við vorum kynntar fyrir hópnum og ég bugtaði mig og beygði, heilsaði og fríkaði út inn í mér hvað þetta væri vandræðalegt. Ein mamman lagði svo í að tala við mig aðeins á ensku. Ég man auðvitað ekki hvað hún heitir, minnir að hún hafi sagt Nanako eða Naoko það var eitthvað með Na- allavega. Þetta var alveg jafn mikið augnarblik fyrir okkur mömmurnar eins og krakkana því við virtumst allar vera jafn feimnar. Þegar krakkarnir voru búnir að leika úti og flest allir komnir með eplakinnar var okkur sagt að fara inn í stofuna. Iðunn var frelsinu fegin og skreið hratt um gólf. Ylfa hinsvegar hætti að heyra í okkur og hljóp beint í eldhúskrókinn og heyrði ekki stakt orð sem var sagt  við hana sama hvað allir reyndu að veifa og kalla og biðja hana um að koma og sitja með öllum hinum. Hún fékk meira frelsi en hinir afþví þetta var fyrsta skiptið hennar þarna en ég er ekki viss um að hún eigi eftir að sjá munin á því og þegar hún kemur næst. Dagskráin var létt og laggóð og fólst í því að fyrst byrjuðu börnin á að syngja og klappa, til að koma blóðinu af stað, svo var lesið úr kladdanum og svo var farið með bæn (aftur: kristinn skóli, ég get alveg lifað með þessu). Af því loknu sagði kennarinn að nú skildu þau bjóða Ylfu velkomna með lagi og svo fór hún og spilaði eitthvað óskaplega flott lag á píanó. Krakkarnir sátu og hlustuðu og klöppuðu þegar laginu lauk. Nema Ylfa, hún var ekki að hlusta. Svo var "töfrastund" þar sem börnin áttu að taka fyrir augun og telja upp á tíu. Þegar þau opnuðu augun var kennarinn komin með lítið jólatré og hver og einn fékk að setja eina kúlu á tréið. Ylfu fannst það spennandi en varð foj yfir því að mega bara setja "eina" kúlu á tréið. Svo föndruðum við jólatré, ég náði líka að lokka hana aðeins í það en henni fannst vesen að mega ekki sulla í líminu og enn meira vesen að þurfa að hafa Iðunni þarna, þó svo að stubburinn væri ekki einu sinni að trufla hana heldur leika sér út í horni. Við klepruðum saman jólatrénu okkar og svo var það sett upp í glugga. Mömmurnar á borðinu okkar hvísluðu þvílík og pískruðu þegar ég skrifaði nafnið hennar Ylfu í katakana til að merkja myndina, ég held þær vanmeti kunnáttu mína (muhahah). Loksins var opinn leikur og allir máttu fara að gera það sem þeim sýndist og Ylfa varpaði öndinni léttar, það er svo erfitt að leika sér þegar maður á að vera að gera eitthvað annað. Hún passaði sig samt að leika ekki með neinum öðrum og þegar krakkarnir reyndu að leika við hana gólaði hún og snéri sér undan. Ég þurfti að beita kúnstum til að halda Iðunni rólegri því hún var ekki sátt við að mega ekki bara ganga í mjólkurbúið eins og henni sýndist og var orðinn þreytt og pirruð undir lokin. Ylfa átti því smá gæða stund með kennaranum sínum sem kom og "eldaði" með henni í eldhúskróknum. Ylfa skildi mest allt sem hún sagði við hana, enda stuttar og nettar setningar. Hún er samt ennþá of feimin til að þora að segja nokkuð til baka. Þegar frítímanum lauk var gengið frá og svo las kennarinn stutta sögu fyrir krakkana. Þá var kominn tími til að fara heim og allir pökkuðu dótinu sínu og fóru að sækja útifötin sín, nema við. Við klæddum okkur í hraði og tróðum Ylfu þversum í útifötin sín því hún gargaði og neitaði að fara. Kennarinn gekk með okkur að hliðinu og reyndi að segja bless við Ylfu sem sat með súldar svip í kerrunni. Við vorum rétt komnar niður að næstu gatnamótum þegar Ylfa var farin að söngla og Iðunn var sofnuð í burðarsjalinu. Svo er mest lítið búið að gerast, fórum heim, lékum smá, fórum í búðina, fórum heim, lékum smá, biðum eftir Nökkva, borðuðum, svæfðum og nú sit ég hér og blogga.


Systurnar að vera huggulega


Ylfa á hlaupum undan kítlandi mömmu


Gojiira!! Held að stelpurnar hafi hitt naglann á höfuðið með viðurnefninu


Voða sætt nagdýr


Þessi hárgreiðsla heitir "snorkurinn"


Myndvæn eru þau. Nökkvi þykist dauður og Ylfa mótmælir myndatökunni

Jólatréð komið upp í glugga heima


Merkið hennar Ylfu : I-ru-ba Ya-ru. Þær voru ekki að skilja um daginn að Jarl er ekki fjölskyldunafnið okkar heldur millinafnið hans Nökkva.
- Jóhanna Jarl


Thursday, November 22, 2012

Það hlaut að koma að því...

... ég bugaðist og gúglaði íslensk jólalög. Við Ylfa sitjum nú hérna og hlustum á jólalög. Ylfa spurði sposk á svip hvort hún mætti dansa við mig, eins og gott foreldri hló ég auðvitað og sagði "Nei, mamma ætlar að blogga". Það er þó ekki mikið búið að drífa á daga okkar.
            Okkur tókst að koma jólapökkunum í kassa og koma kössunum á póstinn. Þegar það þurfti svo að fylla út massífa lýsingu á því hvað væri í hverjum og einum kassa var ég tilbúin með A3 blað með upplýsingum, við erum samt ekki að senda svo mikið þetta var bara eina blaðið sem ég sá í fljótu bragði þegar mig vantaði eitthvað til að skrifa á. Ég var komin með vott af sinaskeiðabólgu eftir öll skrifin og Nökkvi var hálf bugaður eftir að hafa borgað undir pakkana svo við fórum á McDonalds og drekktum sorgum okkar í djúpsteikingaolíu. Ylfa malaði yfir matnum en við önduðum léttar yfir því að þessu verki væri að minnsta kosti lokið. Nú eigum við bara eftir að kaupa jólagjafir handa okkur og stelpunum, svo auðvitað líka afmælisgjöf handa Iðunni.
             Eins og ég tuðaði í mörgum áður en við fórum til Japan þá er eitt ár fljótt að líða. Ég átti erfitt með að sætta mig við það að það væri minna en mánuður í afmælið hennar Iðunnar. Enda mikið búið að ganga á síðasta árið. Skólaútskrift(ir), brúðkaup, fluttningar, flugferð yfir hnöttinn. Ég er nú bara nokkuð sátt við afraksturinn, pínu hissa á því að við höfum ekki farið meira á taugum yfir þessu öllu. Þó að nokkrar taugar hafi þó látið lífið eins og morguninn fyrir brúðkaupið þegar allt í einu átti eftir að skipuleggja hvernig restin af draslinu kæmist á rétta staði sem varð til þess að gestabókin gleymdist heima. Það var ekki einu sinni hægt að senda eftir henni því ég var svo rugluð af mjólkurþoku og spennu yfir deginum að ég mundi ekkert hvað ég hafði gert við hana. En nóg um það.
            Við förum á mánudaginn og sækjum um pláss fyrir Ylfu í leikskólahóp hjá Nigawa yochien. Hún á sjéns í miðvikudagana og fengi þá að leika í tvo klukkutíma í hverri viku með krökkum sem eru 2 - 3 ára. Sem sagt jafnaldrar og svo aðeins yngri. Hún og Mary dótti vinkonu minnar eru svo orðnar perlu vinir eftir leikstefnumótið og tala mikið um hvor aðra og að þær ætli að hittast. Ég hitti Megumi í dag og fékk upplýsingar um læknaþjónustu fyrir Iðunni. Þá ræddum við líka hvernig væri hægt að hittast með stepurnar því nú er farið að kólna ansi mikið og erfiðara að vera með krakkana úti á róló. Það er svo mikill raki í loftinu að ef eitthvað blotnar þá er það heila eilífð að þorna. Þar af leiðandi er blautt barn kalt barn og kalt barn veikt barn fyrr en síðar. Við finnum eitthvað út úr þessu. Stelpurnar eru hraustar núna og hvorug þeirra með hor. Ylfa þykist ekki þurfa að vera í fötum en þegar ég náði henni einn morguninn var hún eins og frostpinni og lét það eftir mér að fara allavega í sokkabuxur og peysu. Ég rétti henni auðvitað janusar sokkabuxurnar hennar (hohoho plötum barnið í ullarvörur) og hlýrri peysu en hún hefði valið sér. Hún tók lítið eftir því og hljóp strax af stað og hún gat.
           Nökkvi fór í gær út að skemmta sér með bekkjarfélögum sínum og rétt rak hausinn inn heima til að skilatösku og setja nýklippt (því hann fór í klippingu) hárið beint upp í loft. Hann dróg einn bekkjarbróður sinn með sér, sá heitir Harry og er ástralskur. Voða vingjarnlegur, fyrsti sem tekur í höndina á manni hérna úti því japanir virðast ekki vera mikið í þeim bransa. Þeir fóru þó fljótlega eftir að Nökkvi hafði dáðst af sjálfum sér í speglinum og eftir urðum við stelpurnar. Við borðuðum og höfðum kósý til klukkan sjö og þá var Ylfa dregin í rúmið, gegn vilja sínum. Hún sofnaði þó eftir smá tuð og eftir var Iðunn, ég átti mitt vikulega stefnumót á Skype við Önnu og svo að Iðunn fékk að vaka þar til hún sofnaði í fanginu á mér. Hún er á síðustu dögum búin að ná að tala við Önnu, afa sinn og Bryndísi frænku. Hún er líka búin að ná að sofna í miðju spjalli í hvert skipti. Þema.
            Jæja nú þarf ég að fara að hita kvöldmat og bjarga Iðunni frá mygluðum pabba. Held áfram að hlusta á jólalög, sjúbbí!

-Jóhanna

Sunday, November 18, 2012

Látið bloggið streyma!

Ekkert blogg í heila viku!? Hvernig dirfist ég? Ok, þetta er reyndar ekki alfarið mér og minni leti að kenna þar sem ég er búin að vera upptekin við að temja ljónin (stelpurnar), kaupa jólagjafir og teikna. Ljónatamingarnar ganga misvel, eins og vill gjarna verða með tvö börn, en vikan er búin að vera nokkuð góð. Engin stórkostleg slagsmál og Ylfa er að standa sig ágætlega í stóru systur starfinu. Það er í mesta lagi slegist um einn og einn hlut, en ekki mjög oft á dag.
             Mömmu blaður: Iðunn virðist  vera að taka þroskastökk eins og er svo vinsælt hjá 11 mánaða börnum. Hún er klifuróð, klifrar upp á kassa og innanstokksmuni eins og fjallageit og fer meira að segja svo langt að ná í dót til þess að klifra með það upp á kassa og leika sér þar frekar en á gólfinu. Hún er farin að standa meira og getur nú setið á hækjum sér og staðið næstum því/stundum upp án þess að halda í eitthvað. Hún labbar með okkur og getur meira að segja labbað og haldið í bara aðra höndina á göngufélaganum. Í dag í búðinni var afgreiðsludama að brosa til hennar og vinka og sú stutta vinkaði til baka, hún er ekki búin að vera mikið í því að vinka til annara en okkar. Hún getur nú gert "hvað ertu stór" og klappað ógurlega fyrir sjálfri sér en nennir því ekki alltaf, hún er ekki alveg jafn mikið sýnigardýr og Ylfa var. Ég ætlaði að fara að minnka hvað hún er mikið á brjósti þar sem hún var orðin full heimilisleg með þetta, togandi í hálsmálið hjá manni í tíma og ótíma. Það er ekki búið að ganga neitt stórkostlega vel því hún vill ekki þurrmjólk né annað sem henni er boðið, það er allt í lagi að drekka vatn en best er að stela því sem er í glasinu hennar Ylfu. Hún er enn núðlu og hrísgrjóna óð en núna síðast bættist tófú við á listan yfir mat sem er sérstaklega góður. Hún vill ekki sitja í matarstólnum sínum svo stundum setjum við hana í litlu kerruna og rúllum henni inn í stofu til fóðrunar. Það er miklu skemmtilegra því þá getur maður nagað tærnar á sér á milli þess sem maður borðar köldmatinn (bakið hallar passlega mikið til þess að hægt sé að ná góðu gripi á tánnum). Hún er aðeins að bíta en bara útvalda, s.s. okkur Nökkva, hún er hinsvegar skömmuð samstundis og stundar þetta því ekki mikið. Hún verður ógurlega sár þegar hún er skömmuð svo hún passar sig. Annars er hún bara almennt krúttleg og glaðlynd. Mömmu blaðri lokið.
           Ég er búin að vinna hörðum höndum að því að kaupa allar jólagjafirnar sem eiga að fara á klakann og keypti síðustu þrjár í dag. Nú þarf bara að pakka allri hamingjunni inn og tölta með á pósthúsið. Ég er ekki frá því að ég sé nokkuð ánægð með nokkrar þeirra og mér tókst meira að segja að fá Nökkva og Ylfu til að taka smá þátt í valinu. Ylfu finnst voða gaman að kaupa pakka handa fólkinu sínu en varð alveg forviða þegar ég bannaði henni að kjafta frá hvað hún hefði keypt handa frænku sinni þegar við vorum að spjalla við þær á skype. Móðgaðara andlit hef ég aldrei séð. Ekki að það skipti svo miklu máli því svo þarf ég að skrifa á miða utan á kassan hvað er í honum, þá er bara að vona að fólkið sem fær pakkana sé ekki of mikið að lesa á miðann og reyni að halda smá í leyndardóminn sem umlykur jólapakkana. Það er víst svo stutt í þetta allt saman að það er ekki seinna vænna fyrir mig að senda kassana því það er víst nóg um að vera hjá póstinum í desember.
         Það verður reyndar líka nóg um að vera hjá okkur í desember. Við eigum eftir að kaupa okkar eigin jólagjafir (jeij!!), fara á litlujól hjá Nishinomiya International Association Kids Club (NIA Kids Club), Nökkvi er að fara í einhverskonar stöðupróf sem ég kann ekki að lýsa almennilega, hann fer í jólafrí (jeij!!), afmælisgleði fyrir Iðunni, jól, áramót og ég held ég sé að komast inn í japönsku kennsluna. Eftir þriggja vikna bið var nefninlega hringt í mig frá skrifstofunni til að tilkynna mér að ég ætti að koma í viðtal 30 nóvember og hitta kennarann minn. Mikið hlakkar mig til. Vona bara að þetta verði hresst. Nökkvi fer ekki í jólafrí fyrr en 24. des, því lýkur svo í kringum 7 jan og þá byrja prófin held ég. Hver veit nema hann verði ævintýragjarn og splæsi smá gæðastund á fjölskylduna, allavega á jólunum og nýjárinu. Ég ætla svo með einhverju móti að koma mér til Kobe til að skoða ljósasýningu sem er það á hverju ári, held það sér mega!
          Tíminn líður ansi hratt eins og er, mér finnst eins og það sé ekkert voðalega langt í að við förum aftur til Íslands. Stundum líður samt tíminn töluvert hægar. Hingað til söknum við helst fólksins okkar, heita vatnsins, leikskólans, fatanna minna (ég tók svo lítið með), drykkjar vatnsins og þess að þurfa ekki að reikna í hvert skipti sem við borgum eitthvað hvað það kostar í raun og veru (s.s. í íslenskum krónum). Viðurkenni alveg að Nökkvi er kannski ekki svo mikið að sakna fatanna minna en á einhverju leveli gerir hann það ábyggilega því ég er farin að stela peysunum hans þegar mér er kalt.
            Ég man ekki almennilega hvað ég er búin að gera af mér í vikunni svo ég enda þetta bara með mynd af okkur Ylfu með Hello Kitty og hestinum hennar. Þau voru í mollinu að auglýsa eitthvað og við stukkum á tækifærið og fengum mynd. Ylfa hinsvegar fríkaði pínu út því Hello Kitty var alltof hávaxin, hafiði það. Hún hélt því fast í mig og neitaði að sleppa.



-Jóhanna


Monday, November 12, 2012

Ljúfir dagar í lífi ljóna litla

Það var búið að byggja upp mikla spennu og eftirvæntingu fyrir deginum í dag þar sem við áttum tvö stefnumót. Fyrst áttum við að hitta Megumi og Fumiko (Fumika?), plús afkvæmi. Því gengum við galvaskar út á slaginu tólf til að hitta liðið út á tilsettum stað. Fumiko forfallaðist vegna veikinda svo við Megumi fórum því bara tvær með Ylfu, Iðunni og Mary, dóttur hennar. Í vikunni sem leið höfðum við verið að tala um leikvelli og Megumi sagðist vita um einn sem væri mjög skemmtilegur, svo við skelltum okkur þangað. Sól skein í heiði og fuglarnir sungu, eins og í öllum ævintýrum. Ylfa og Mary voru pínu feimnar fyrst um sinn en þegar við höfðum lagt bílnum (ó já við fórum keyrandi) hresstust þær. Þegar fór að sjást í leikvöllinn gátu þær hinsvegar ekki hamið sig og hlupu skríkjandi á undan okkur. Þetta er, án þess að ýkja, flottasti leikvöllur sem ég hef augum litið. Risa pláss, rosalega snyrtilegur, fullt af leiktækjum og yfir höfuð fallegur staður. Iðunn var ekki fullkomlega sátt við að vera skilin eftir hjá okkur mömmunum og mótmælti. Svo þótti henni það illilega glatað þegar átti að klæða hana í skó í þokkabót. Litla krílið mitt er nefninlega farin að myndast við að standa og labba. Því þykir vinsælla, mín megin, að hún sé í skóm/útisokkum þegar við erum utandyra. Hún tók þó gleðina á ný. Megumi gaf henni tómata til að japla á og þá var eins og ekkert hefði í skorist. Stelpurnar skutu upp kollinum við og við, bara til að gá hvort við hefðum ekki öruggulega séð hvað þær voru miklar hetjur. Það fór að líða alltaf lengra á milli þess að þær kíktu á okkur og smám saman sáum við hvernig þær voru farnar að leika sér saman, ekki bara hlið við hlið. Við ætluðum að deyja úr krútti þegar hnorðarnir leiddust svo til að fara á klósettið. Við vorum þarna góðan part dags, komum upp úr tólf og fórum ekki fyrr en klukkan var farin að ganga fjögur. Þegar leiðir skildu voru stelpurnar ekki alveg nógu sáttar og vildu leika meira, það er ágætt það má nota þetta sem agn í framtíðinni. Við mömmurnar plottuðum fleirri stefnumót þar sem þær eru oft lausar á mánudögum og við erum ... tja ... alltaf lausar.
             Við komum heim og Ylfa tuðaði þangað til ég náði að kveikja á teiknimynd, rista brauð og rétta henni svala. Iðunn rúllaði úr fanginu á mér ný vöknuð og fór að hamast við að koma öllu dótinu úr dótakassanum. Allt mjög venjulegt. Svo kom Nökkvi heim og við héldum áfram okkar daglega dúlleríi þar til klukkan var orðin korter yfir sex. Þá brunuðum við upp á lestarstöð með stelpurnar í sitt hvorri hendinni til að fara á stefnumót númer tvö.
             Þegar styttist í afmælið hennar Ylfu reyndi ég að moka saman í afmælisveislu fyrir hana en allir voru uppteknir svo það var að bíða. Stuttu síðar var Moe svo yndæl að skipuleggja hitting fyrir fólkið sem hefði mætt í umrætt afmæli. Við hittum Moe á Nishinomiya-kitaguchi sem er stóra lestarstöðin hjá mollinu. Nánast samstundis birtist Kae og svo komum við okkur út fyrir hliðið þar sem Arisa stóð og beið. Jón rak lestina en var ekki langt á eftir okkur. Við fórum á pínu (PÍNU) lítinn ítalskann veitingastað sem er rétt hjá stöðinni og tróðum okkur inn fyrir. Maturinn var alveg ágætur og félagsskapurinn enn betri. Við borðuðum yfir okkur af pizzu og pasta. Japanir eru ævintýralegir í samsetningu á pizzaáleggi. Mín pizza var með túnfisk, ost, rjómaost, beikon og maís, ágætt en ekki eitthvað sem ég myndi borða að staðaldri þar sem þetta er helst til þungt í maga. Eftir matinn slóumst við aðeins við þreytta Iðunni sem vildi halda á öllu og setja hendurnar ofan í öll glösin á borðinu. Hún fékk viðurnefnið Gojira/Godzilla og svo flissuðum við ógurlega. Þegar ég var við það að fara að stinga upp á því að við færum nú að koma okkur kom afgreiðsludaman okkar fram með myndarlegustu tertu með fullt af ávöxtum og kertum. Ylfa var annars hugar en þegar ég sagði "Ylfa, kaka" ætlaði hún út um gluggan af gleði. Svo sungu allir afmælissönginn fyrir hana og fólk á næstu borðum horfði brosandi á über-hamingjusama barnið. Svo var klappað og Ylfa reyndi að blása á kertin en þau voru hörð í horn að taka og hún var búin að blása ansi oft þegar hún horfði ráðþrota á pabba sinn og hann reyndi að hjálpa til. Á meðan hlógum (kvikindin) ógurlega og stelpuhópur á þarnæsta borði hvatti Ylfu til dáða og söng afmælissönginn hátt fyrir hana á meðan. Svo tókst þetta loksins og Kae var sett í að sneiða kökuna á meðan að Ylfa fékk afmælispakka. Ég er ekki frá því að hún hafi hætt að anda í smá stund því henni varð svo mikið um þegar úr einum pakkanum kom búðarkassi með Anpanman, en hún hefur lengi horft löngunar augum á slíka gripi þar sem hún hefur komist í þá. Henni þótti seinni pakkinn ekki síðri en í honum leyndist ýmiskonar Pokemon góðgæti og glaðningar. Við borðuðum köku og fögnuðum þriggja ára afmælinu í annað skipti og krakkaormurinn gat ekki hætt að brosa. Að því loknu var gert upp og við héldum út í nóttina. Á lestarstöðinni kvöddum við stelpurnar en vorum samferða Jón að Kotoen (stöðin okkar). Við erum nýkomin heim en stepurnar eru báðar sofnaðar, Iðunn sofnaði reyndar á leiðinni í lestina en Ylfa hin útkeyrða sofnaði rétt eftir að við komum inn. Við erum sjálf orðin ansi lúin en ég ætla samt að klína inn nokkrum myndum frá deginum.


Iðunn á leikvellinum. Sjáið laufblöðin í bakgrunninum, hér er farið að hausta.


"Hvað vilt þú upp á dekk?"
(Dúfur að sníkja eru ekki kúl)


Trampolíngleði, Ylfa er þarna fyrir miðju, leitið að grænu lopapeysunni


Sandur er skemmtilegur en ekki þægilegastur fyrir skrið/göngu æfingar


Ruggað eins meisturum sæmir


Krúttkerlur


Vinkonur að snæða


Megumi, vona að hún taki ekki lurginn á mér fyrir að setja hana á veraldarvefin


Moe, Arisa og Kae


Nökkvi og Jón eru svo myndvænir!


Hamingju-Ylfa


Blása - blása - blása !!!


Það er mikið maus að opna pakka


Pakkinn frá Jón, Pokemon!!!


Smá klúður með merkinguna en Ylfa getur alveg púllað það að heita Elsa, hugurinn sem gildir


Kakaaaaa

-Jóhanna

Thursday, November 8, 2012

Konjak í kvöldmatinn

Á miðvikudaginn áttum við stelpurnar stefnumót við vinkonu mína af leikvellinum. Við erum búin að hafa alltaf  það sama í matinn aftur og aftur og ég var orðin ansi þreytt á tilbreytingarleysinu. Því hafði ég samband við nýju vinkonu mína og spurði hvort hún væri til í að koma með mér í matarbúðina og kenna mér aðeins á matinn sem er í boði þar. Hún var alveg til í það og spurði hvort að vinkona hennar mætti fljóta með, hún kynni líka ensku og ætti tvö börn sitthvoru megin við Ylfu í aldri. Við ákváðum að hittast í stórmarkaði sem er bara 10 mínútur í burtu frá húsinu okkar. 
       Þegar miðvikudagurinn rann upp var ég að fara á límingunum, hvað ef þetta yrði svo mega vandræðalegt og hvað ef ég myndi ekki hvernig konan liti út. Ég fríkaði svo lengi út að ég var næstum orðin of sein líka. Ég tók kraftgöngu á þetta og var komin upp í búð fjórum mínútum áður en við ætluðum að hittast. Þá var hvorug þeirra komin svo ég sendi Megumi (róló vinkonunni) skilaboð að ég myndi bíða niðri. Samstundis sendi hún mér svo skilaboð um að henni seinkaði aðeins. Ég var mjög fegin enda auðveldara fyrir hana að finna mig heldur en öfugt. Okkur gafst því tími til að hlaupa með Ylfu á klósettið og slökkva á stressinu. Þar sem við stóðum og reyndum að toga Ylfu út úr bókabúð sem er á neðri hæðinni kom allt í einu kona og pikkaði í mig. Ég horfði á hana furðulostin í smá stund þar til ég fattaði að þetta væri vinkona Megumi. Hún heitir Fumiko og talar líka ljómandi fína ensku. Við kynntum okkur og spjölluðum smá. Hún var með strákinn sinn með sér sem er 2 ára og er kallaður Tep. Hann var mega sætur og rosa feiminn, stelpurnar heilsuðu honum líka og Ylfa horfði öfundar augum á Hello Kitty búðarkerruna sem hann sat í. Í því kom Megumi og baðst afsökunar á því að láta okkur bíða (alveg heilar fimm mínútur). Hún var svo almennileg að spyrja Ylfu hvort hún mætti ýta henni í Hello Kitty kerru líka. Ylfa tók því fagnandi og sat rígmontin í kerrunni alla búðarferðina. Þær sögðu mér frá hinum og þessum réttum sem væru auðveldir og fljótlegir. Við ákváðum að versla aðallega í nabe en ég keypti ansi margt annað sem þær bentu mér á, líka svo ég myndi muna eftir þessu öllu.
        Eftir búðarferðina ákváðum við að fá okkur hádegismat saman á núðlustað sem er rétt hjá. Maturinn var virkilega góður og Ylfa skemmti sér vel, sérstaklega eftir matinn þegar hún og Tep fóru að hlaupa út um allt og fíflast. Iðunn var hin hressasta líka en þegar ég var búin að slást við hana í smástund var hún bundin í kerruna aftur og látin dúsa þar meðan hún borðaði. Megumi og Fumiko gáfu mér báðar fulla poka af hinu og þessu dóti, ég aftur á móti var ekki vopnuð meira en nokkrum póstkortum og fannst skelfilegt að geta ekki gefið þeim meira. Við skemmtum okkur allar greinilega ágætlega og eigum stefnumót við þær næsta mánudag. Þá ætlum við að fara á einhvern voða skemmtilegan róló og stelpurnar þeirra, sem eru báðar 4 ára, koma með okkur.
       Við kvöddumst og ég labbaði heim með stelpurnar og þunga burðapoka. Stelpurnar voru báðar búnar á því eftir ferðalagið og sofnuðu skömmu eftir að við komum heim. Ég lagði mig að sjálfsögðu líka, því það er það sem ég geri þegar þær sofna báðar í einu. Nökkvi þurfti að vera lengur í skólanum en venjulega því það var auka tími sem hann mátti ekki missa af. Ég byrjaði að elda í rólegheitunum og verður að segjast að það er mjög ánægjulegt hvað nabe er auðvelt dæmi. Maður kaupir súpuna sér og svo allt dótið sem maður vill setja út í. Grænmeti - fisk eða kjöt - tófú og allskonar. Í búðinni mönuðu þær mig til þess að kaupa eitthvað sem heitir konyaku til að setja út í nabe súpuna. Ég tók þeirri áskorun auðvitað og keypti einn poka. Það leit sérkennilega út og áferðin á því var eins og að bíta í gúmmí eða kork. Ég efast um að ég kaupi þetta aftur en það var fyndið að prófa þetta að minnsta kosti.

 

Upprennandi nabe ... koniyaku til miðju fyrir ofan laukinn


Súpan sem Megumi og Fumiko völdu fyrir mig


Aðstoðarkokkur


Nabe! Í alltof litlum potti, ég hefði ekki getað troðið meiru ofan í þó ég vildi


Súkkulaði frá Nara, Megumi fór þangað með fjölskyldunni sinni og fannst þetta svo fyndið að hún keypti pakka. Þetta á að vera eins og hreindýraspörð, einfeldningurinn ég hló.
-Jóhanna

Menningardagur

Það var svokallaður "Cultureday" á laugardaginn var og því mikið um allskonar menningarlega atburði. Skólinn hans Nökkva var meðal annars með culture festival yfir alla helgina. Við stefndum upphaflega á að fara til að sjá vinkonu okkar dansa með danshópnum sínum en enduðum á að skoða held ég flest allt annað á skemmtuninni því það var of troðið á danssýningunni. Við vorum eitthvað að reyna að lufsast til að taka myndir en það reyndist þörfinni þyngri því mannmergðin var mikil og það var sífellt verið að plata okkur til að kaupa mat og nasl úr hinum og þessum básum og því allar hendur fullar. Það sem við náðum að gera af okkur:
-sjá restina af tónleikum hjá einhverri hljómsveit, þeir voru bara nokkuð góðir.
-sjá troðning í átt að danssýningunni sem við slepptum.
-sjá þrjá stráka leika kúnstir með kubba, hatta og fleirra.
-borða kjötbollur, karmellupopp, epli með sykurhjúp, tamasen (egg og eitthvað dúllerí á hrískexi) og köku sem leit út eins og fiskur en var fyllt með sætbaunabauki.

Þetta var allt alveg ágætt bara. Hér eru svo nokkrar myndir...


Tónleikar að klárast

Nökkvi með sofandi Iðunni

 
Vakandi Iðunn og Nökkvi slappa af  á meðan Ylfa slappar ekki af


Tamasen og kjötbollur 

Kassar í loftköstum


Hattar í loftköstum 

Ylfa að losa sig við karmellu epli til að geta hlaupið um


"FISKUR"


Voða kósý garður sem er hjá skólanum


Rosa gott bakkelsi, er á bragðið eins og vaffla og svo var baunagums inní


Mér finnast litirnir skemmtilegir í þessari mynd


Við Ylfa


Ylfa hugsi


Krúttlegur bíll


Á leiðinni heim, elska þessi shrine út um allt. Ef vel er að gáð má jafnvel sjá okkur í speglinum
-Jóhanna



Thursday, November 1, 2012

Afmælis-blogg

Í dag er Ylfa þriggja ára! Vúbbí! Við vorum öll þrjú vöknuð á undan henni í morgun og náðum að taka til og taka okkur til áður en við héldum öll inn í herbergi til að vekja hana með söng. Hún var úfin og ringluð en þegar við skelltum pökkunum fyrir framan hana glað vaknaði hún og sagði "ég á afmæli"! Úfna barnið var dregið fram úr og klætt í kjól. Það var rifið utan af pökkunum við eldhúsborðið og ekki laust við að henni þætti gaman af. Þegar því var lokið var svo bjallað á línuna. Náðum að skypa við báðar ömmurnar og afann og bónus spjall við Pétur. Iðunn var sett í fyrsta lúr og Ylfa í skó því það var komið að langþráðri afmælisferð í "Höllina", s.s. út í bakarí að ná í afmæliskökuna.
           Við þurftum fyrst að fara og fjárfesta í kertum, því það verður enginn þriggja ára ef það eru engin kerti til að blása á. Það var skínandi fallegt veður en svolítið kalt svo við vorum fljótar á milli húsa. Þegar við komum að bakaríinu ætlaði Ylfa að hristast í sundur af spenningi og hélt niðrí sér andanum meðan við gengum inn. Þetta er auðvitað rugl krúttlegt bakarí og afgreiðslufólkið hið brosmildasta. Ylfa benti bara á eitthvað því hún var yfirkomin af spenningi. Eftir að ég sagði henni að anda aðeins með nefinu valdi hún hinsvegar sætustu kökurnar úr borðinu og borgaði auðvitað sjálf (með mínum peningum samt). Heima tók Nökkvi á móti okkur, afmæliskertin voru tendruð og afmælissöngurinn hljómaði í annað skiptið. Ylfa var hinsvegar ekki að geta beðið eftir því að fá að blása svo að þegar við áttum hálft seinna erinidið eftir lét hún vaða og blés af öllu afli. Kakan var auðvitað jafn sæt og hún var "sæt". Með öðrum orðum, hún var jafn sykursæt og hún var fögur. Jarðaberjamús, með þunnum rjómatertubotni, hnetumulningi, sultu og græn temousse í miðjunni. Foreldrarnir gúffuðu sínum sneiðum í sig en Ylfa vandaði sig og nartaði í allt skrautið og smjattaði hátt. Þegar kakan var búin vaknaði Iðunn, ill örlög en hún fær eflaust köku 16.des.
          Ylfa neitaði að venju að leggja sig og þegar þau Nökkvi voru búin að liggja inn í herbergi í 40 mínútur neyddi ég þau framúr svo við gætum farið til Osaka að versla afmælisgjöfina frá okkur til Ylfu. Það var sami hamagangurinn og venjulega þegar við fórum út úr húsinu sem varð til þess að ég steingleymdi jakkanum mínum inn á rúmmi. Sem er ekki svo svalt því það var virkilega svalt í Osaka og kaldur vindur. Við eyddum sennilega mestum parti dags inn í einhverskonar byggingum svo ég held ég sleppi við lungnabólgu í þetta skipti. Ég var búin að bíða spennt alla vikuna eftir því að fara í ferðalagið og bjóst reyndar ekki við því að fara fyrr en á morgun en Nökkvi var laus í tilefni dagsins svo við létum vaða. Ég var búin að lofa upp í ermina á mér að taka myndir hægri vinstri en þegar við vorum ný komin út af lestarstöðinni dó myndavélin. Mitt götótta minni man aldrei eftir að hlaða batterýin, hvað þá athuga stöðuna áður en farið er út.
          Stefnan var tekin á Disney búðina í Osaka. Hún er ekki svo stór en boy-oh-boy er hún flott!? Ég hefði geta hugsað mér að eiga meira en 75% búðarinnar ... hin 25% voru samt líka flott en maður verður að kunna að hemja sig. Eftir smá stund í hillunum ættleiddum við ofurfagra brúðu og Ylfa heimtaði að burðast með kassann sjálf að borðinu. Afgreiðsludaman náði auðvitað að gauka að okkur burðarpoka með Öskubusku mynd á svona rétt áður en hún lauk sölunni. Ylfa flaug um á bleiku glimmer skýji og brosti eyrnanna á milli.
          Við röltum um hverfið og stungum nefinu inn í byggingu sem hýsir ýmiskonar leiktækjasali og matsölustaði. Éftir að ég hafði sólundað klinkinu mínu í klóarvél, staðráðin í að næla í gangandi Stitch handa Ylfu ætluðum við að fara út en gengum beint inn í annan sal fullan af klóarvélum. Ég er veik fyrir svona rugli svo ég grenjaði út klink hjá Nökkva, sem hefur enga trú á hæfileikum mínum í klóarvélum (þar sem þetta snýst ekki svo mikið um hæfileika heldur heppni). Til þess að sýna honum í tvo heimana fann ég vélina í húsinu sem var með auðveldustu bráðina og veiddi svín með kórónu. Stelpurnar elska grísinn og ég get gortað mig af sigrinum (þótt smár hafi verið). Stelpurnar sofnuðu svo báðar, önnur í burðarsjali en hin í kerrunni svo við gripum tækifærið og héldum heim. Sem var að sjálfsögðu mesta snilld því við vorum akkurat heima þegar pósturinn kom með fjórða pakkann frá Fróni. Þannig fékk Ylfa að tæta upp enn einn pakkann áður en við fórum á McDonalds, þar sem deginum var fagnað með frönskum og óhollustu.
           Til ykkar sem senduð henni pakka: Takk kærlega fyrir stelpuna. Hún er í skýjunum með allt saman! Við erum líka í skýjunum þar sem hún getur vonandi dundað sér við að skoða nýju gersemarnar næstu daga. Hún liggur núna inn í rúmmi með pabba sínum og syngur sig í svefn. Ég hinsvegar er að fara að taka til svo við getum lært í japönsku (því við erum kúl).

Enda þetta með þeim myndum sem voru teknar!


Afmælissystir

Gamla úfna

"GAH! MÚMÍN!!"

Höllin

Einn - tveir - hopp

Spennt Ylfa

Kertastunga afstaðin

"Hún á afmæl'í dag..."

BLÁSA!

Borða

Ein kakan, þær voru allar eins og allar gómsætar!

Smá innsýn í hamingjuna

Kökuát

Meiri innsyn í hamingjuna - nú með sultu

Hlaupið um á lestarstöð

Ég stoppaði til að taka mynd af þessu húsi sem lítur út fyrir að vera tvívítt. Það reyndist dýrkeypt því þetta var síðasta myndin sem náðist á vélina áður en batterýið lést.

Þykjustuleikur

Knús!

Alvarleg Ylfa horfir á Lorax með Fríðu sína í annari og Bangsímon um hálsinn

Þreyttur pabbi og svolítið þreytt Iðunn

Ný náttföt og hálsfestin skoðuð nánar

Myndskeiðið er af Ylfu meðan hún opnaði pakkana í morgun, það er ekki klippt til og ég er ekki búin að líta mikið á það. Þið getið hraðspólað í gegn ef þið viljið, þetta er ekkert skilduáhorf.

-Jóhanna