Friday, August 31, 2012

Fyrstu dagarnir í Japan

Eftir alla þessa leið, þvert yfir hnöttinn, er óhætt að segja að tímaskynið hafi verið í rugli. Stelpurnar eru enn að jafna þetta út en í nótt sem var sváfu þær nánast óslitið frá miðnætti til klukkan 8 í morgun. Við Iðunn erum vaknaðar en Nökkvi og Ylfa liggja enn inn í herbergi og sofa.
Í gær (31. ágúst) vöknuðum við hinsvegar fyrr. Ylfa sat og horfði á teiknimyndir þar til klukkan var orðin sómasamlega mikið og við gátum farið út. Hér reyndar er ekki hægt að fara út úr húsi án þess að hoppa aðeins í sturtu fyrst svo það tekur yfirleitt aðeins lengri tíma að koma sér út.
"Hollustufríkin" við fórum á McDonalds og keyptum okkur morgunmat en réttlættum það með því að við værum ekki búin að læra á matvörubúðirnar og að allir væru svangir. Ylfa vildi samt ekki borða, þrátt fyrir að allt væri gert fyrir hana. Í staðinn ákvað hún að þamba djúsglas með miklum klaka. Iðunn sat og malaði í barnastól og sötraði á vatni úr brúsa á meðan, litli hnoðrinn kunni vel að meta loftkælinguna og mátti lítið vera að því að borða.
Eftir morgunmatinn lá leið okkar upp á lestarstöð þar sem við skutluðumst upp í mollið sem er ekki svo langt frá. Það er ekki staður fyrir fólk með valkvíða, svo mikið er víst. Mér var sérstaklega hugsað til Önnu systur og hversu löngum tíma hún gæti eytt þarna inni því það eru milljón búðir þarna, ég veit ekki einu sinni hversu margar hæðir þetta eru því við fórum "bara" á fjórar þeirra. Ylfu áskotnaðis þrír leikfangakallar úr Ghibli myndunum þar á meðal sína uppáhalds, Kiki. Við keyptum mest lítið annað og vorum komin heim um hádegi. Á heimleiðinni skutumst við Jón og Iðunn í matvörubúð á meðan Nökkvi bar sofandi Ylfu heimleiðis. Við kunnum nákvæmlega ekkert á þessar blessuðu búðir og öll innkaup hingað til hafa verið mjög random og eiga ekkert sameiginlegt nema gríðarlegt vatnsmagn.
Eftirmiðdagurinn var afslappaður en klukkan fjögur fórum við út því við áttum stefnumót við fleirri íslendinga og japanska krakka sem voru í skiptinámi á síðasta ári. Planið var að kaupa farsíma og sletta svo eitthvað úr klaufinni. Leið okkar lá til Osaka Umeda en þar tók okkur bara stutta stund með lestinni. Lestirnar eru ágætar, maður borgar bara fyrir það sem maður er að fara s.s. ódýrara að fara stutta vegalengd heldur en langa. Japanir eru líka mjög almennilegir og gefa sætin sín samstundis ef þau sjá lítil börn.
Við hittum krakkana á settum stað og héldu svo af stað í búðina. Að kaupa farsíma er ekki lítið vesen. Við þurftum að vera með residency kortin okkar og vegabréf til þess að geta keypt síma og auðvitað voru einhverjir sem gleymdu sínum skilríkjum heima. Þar á meðal Nökkvi svo nýji síminn var settur á mitt nafn sem varð til þess að Kristinn (bekkjarbróðir Nökkva) ásamt Arisu (fyrrum skiptinemi) urðu að þýða fyrir mig. Afgreiðsludaman okkar talaði rosa hratt og otaði að okkur endalausum pappírum til að skrifa undir, hvaða númer við vildum og eitthvað í þá áttina. Auðvitað ætluðum við að farast þegar kom að því að skrifa nöfnin okkar í Katakana því það er ekkert mál að skrifa Jóhanna en nánast ómögulegt að skrifa Þorleifsdóttir (takk pabbi). Þetta tók óendanlega langan tíma svo þeir sem voru ekki að kaupa síma fóru á undan á veitingastaðinn þar sem við fengum okkur síðan að borða. Maturinn var ROSA góður og Iðunn fékk loksins matarlistina og hámaði í sig hrísgrjón, kjúkling með súrsuðum plómum og fleirra góðgæti. Ylfa borðaði nokkrar franskar en lék annars á alls oddi syngjandi og tjúttandi við systur sína. Eftir að hafa troðið í okkur fórum við í purikura myndakassa og náðum næstum að troða okkur öllum inn í klefann, við vorum 9 manns plús Iðunn sem hékk í burðarpoka en sást ekkert á myndunum.
Það var mikið af fólki á götunum um kvöldið og auðvitað töluvert kaldara en um daginn. Samt engan veginn kalt. Við fórum að sjálfsögðu í Kareoke og skemmtum okkur konunglega. Keyptum klukkutíma svo maður geri sig nú ekki að fífli á almannafæri ;) Við góluðum hin og þessi lög og þrátt fyrir mikinn háfaða sofnuðu báðar stelpurnar.
Nökkvi hélt á Ylfu heim en auðvitað vaknaði litla konan þegar við vorum við það að koma heim. Þær systur vöktu í smástund þegar heim var komið en svo fóru allir að sofa um miðnætti.
Það er alltaf verið að horfa á okkur og dásama stelpurnar eða benda á hvað Nökkvi sé hávaxinn.
Í morgun rigndi og loftið er mun léttara en það hefur verið til þessa. Lovely.

-Jóhanna

Thursday, August 30, 2012

Komnar til Japan!

Já við erum sko heldur betur komnar til Japan... eftir góða 23 tíma eða svo ef við teljum með rútuna og lestina sem við fengum að fara í eftir flugið.

Klukkan 3.15 á miðvikudagsmorgni skrönglaðist ég á fætur heima hjá mömmu og pabba. Skottaðist á klósettið og vakti svo stelpurnar. Við kvöddum Þorkel bróðir og lögðum svo af stað út á flugvöll. Ylfa var alveg á eldi allan tímann og talaði út í eitt, neitaði að leggja sig í bílnum og var hin hressasta.
            Eftir smá stund upp á flugvelli hittum við Jón Arnar sem ætlaði að vera samferða okkur. Ég labbaði reyndar fyrst framhjá honum í öllum brussuganginum. Við höfðum verið voða sniðug og checkað okkur inn á netinu sem reyndist svo ekki spara okkur neinn tíma því að vélarnar neituðu að prenta fyrir okkur miða á töskurnar og við urðum að fara og vera með smá vesen. Að lokum komust töskurnar inn og við fórum að stiganum ógurlega í Leifstöð sem aðskilur ferðafólk frá aðstandendum (dramatískt right?). Þar kvöddum við mömmu og pabba. Knúsuðum þau í bak og fyrir og fórum svo upp í secutiry check-ið. Það pípti auðvitað á skónna hennar Ylfu en annars vorum við í góðu, íslendingarnir voru hryllilega líbó með það en allstaðar annarstaðar þurfti að klappa hana alla niður. Litli terroristinn minn tók því reyndar með mikilli ró og var ekki með neitt vesen. Biðin á Leifsstöð tók ekki langan tíma, við rétt náðum að fá okkur aðeins í gogginn og Ylfa keypti sér "barbí" dúkku eins og henni hafði verið lofað. Auðvitað flottasta dúkkan á svæðinu, ljóshærð í pilsi og Hello Kitty bol. Til að kóróna allt fylgdi svo sími með gripnum sem þótti eiginlega jafn flottur og dúkkan sjálf.
           Icelandair vélin var lítil og kósý. Þau voru ekki með skjái í stólbökunum svo að í staðinn fengu allir heyrnatól og leifi til að fá annað hvort psp-tölvu til notkunar eða horfa á túpuskjánna í loftinu. Ylfa fékk mat, því hún er barn, og tókst það ekki betur upp en svo að hún þambaði svalann á met hraða og ældi. Inn á klósett og skipta um föt. Þar sem ég komst að því að ælan var ekki mitt eina vandamál. Restina af fluginu til Helsinki eyddi Ylfa svo í að spjalla við Jón, sem stóð sig eins og hetja alla ferðina. Þegar okkur var farið að finnast lætin í henni vera full mikil báðum við um að fá lánaða psp tölvu fyrir hana svo hún gæti horft á teiknimyndir. Þegar það voru búnar 3 mínútur af myndinni var hún sofnuð og svaf af sér síðasta klukkutímann af fluginu og lendinguna.
           Það var fínasta veður í Helsinki, svolítið skýjað en hlýtt. Við fengum töskurnar okkar án nokkura vandkvæða og fórum svo í check-in. Eftir að hafa reynt að komast að í svona check-in kassa ákváðum við að fara bara upp að borðinu og skrá okkur inn á gamla mátann. Konan þar sagði okkur að fara í kassa og gera það þar afþví við værum ekki með neinn óvenjulegan farangur. Kassinn aftur á móti vildi ekki kannast við það að Iðunn væri með í ferðinni og prentaði bara út 3 seðla. Þá kom enn önnur kona sem sagði okkur að fara í special passengers röðina og fá aðstoð. Þegar afgreiðslustelpan í þeirri röð ætlaði svo að segja okkur að fara aftur til konunnar sem vildi ekki innrita okkur útaf venjulega farangrinum okkar sagði ég stop og benti henni á að við hefðum fengið fyrirmæli um að koma til hennar. Ég held hún hafi verið pinu pirruð út í mig en so be it. Við trítluðum í gegnum flugstöðina og hoppuðum inn í Múmín-búðina. Það var of mikið úrval þar svo við komum tómhentar út á endanum. Okkur tókst að finna rétta útganginn og tókum strætó að flugvélinni sem flaug með okkur til Shanghai.
         Flugið til Kína tók 9 klukkutíma og við fórum með Finnair vél. Mæli með þeim, bæði vingjarnlegar flugfreyjur og allt í vélinni í toppstandi. Ylfa og Iðunn sofnuðu eiginlega um leið og við vorum komin í loftið. Við mæðgurnar sátum saman, Ylfa við glugga og ég við ganginn, en Jón sat handan við ganginn. Það var boðið upp á mat en Ylfa svaf heita réttinn af sér en fékk brauð og fleira seinna í fluginu. Maturinn var alveg ágætur og eftir að ég hafði borðað nýtti ég mér afþreyingarefnið sem var í boði og sofnaði aðeins. Sennilega ekki meira en 20 mínútur samt því svo fóru stelpurnar að vakna. Í heildina var langa flugið bara fínt. Þetta var auðvitað næturflug svo það voru margir sofandi. Ylfa var helst til málóð og hávær en samt ekki með neitt vesen. Þegar við áttum rúma tvo tíma eftir í loftinu sagðist hún reyndar vera búin í flugvélinni og vildi út.        Loksins komumst við til Shanghai. Þar hafði Jón orð á því að það væri nú smá raki í loftinu. Það var rosa heitt og mikið af fólki. Það var auðvitað vesen að komast í gegnum flugstöðina hvergi nokkra kerru að sjá og mjög strangt öryggiseftirlit. Við nutum í þetta skipti góðs af því að vera með stelpurnar þar sem okkur var hleypt framfyrir og reynt að flýta fyrir eins miklu og hægt var. Ylfa greyið var alveg ofsalega þreytt í fótunum enda mikið labb og alltaf eitthvað starfsfólk af flugvellinum sem þurfti að tala við. Í öryggishliðinu skildi maðurinn engann veginn afhverju nafnið mitt væri ekki það sama og hans Jóns og var ekki að skilja að þetta væri bara siður á Íslandi. Svo voru þeir komnir tveir í að lesa á vegabréfin og sátu flissandi á bakvið glerið meðan við sliguðumst undan töskunum. Það var alltaf einhver að stara á okkur, sama hvar við vorum enda tvö börn með í för. Á einum tímapunkti þegar við vorum að leita að innritunarborðinu tók Jón eftir því að einhverjar stelpur voru að taka mynd af okkur. Heppnar þær, Iðunn og Ylfa aldrei litið sjúskaðari út og allir að leka niður út af svita, svo sannarlega augnarblik til að fanga á mynd. Eftir að um það bil allir á flugvellinum voru búnir að dást af þreyttu og mygluðu Ylfu gátum við farið um borð í síðustu vélina.
Það er mest lítið sem hægt er að segja um það flug. Við náðum öll að sofna og það tók bara tvo tíma að komast til Kansai. Lentum í smá ókyrrð en það stóð stutt yfir.
         Á flugstöðinni í Kansai var fullt af fólki og aftur þurftum við að fara í gegnum langt öryggistjékk. Við fengum mikla aðstoð þegar við áttum að búa til residency kortin okkar og að lokum náðum við í töskurnar sem biðu okkar hjá færibandinu. Ég var alveg að verða búin á því og Ylfa gekk eiginlega bara á þeirri hugsun að pabbi hennar væri brátt í augsýn. Þegar við komum í gegnum síðasta hliðið og Nökkvi blasti við hljóp litla greyið í fangið á honum og neitaði að sleppa. Brosti út að eyrum og knúsaði hann til óbóta. Við Iðunn fengum aðeins og knúsa hann líka en svo héldum við af stað í leit að réttri rútu til að komast upp á lestarstöð.
Það var ógeðslega heitt og rakt úti í samanburði við það sem áður hafði gengið á og Iðunn eiginlega bráðnaði bara í burðarsjalinu. Við fundum rútuna og héldum af stað inn í borgina. Þegar Ylfa var komin yfir mestu gleðina að vera loksins búin að endurheimta pabba sinn ældi hún. Sem er skemmtilegt í miklum hita því að lyktin ferðast mun betur um. Við þurrkuðum það upp eftir bestu getu og Nökkvi útskýrði fyrir bílstjóranum hvað hefði gerst. Hann var hinn almennilegasti og gerði ekkert mál úr þessu.
        Við vorum eins snögg í gegnum lestarstöðina og við gátum því Ylfa var öll doppótt af ælu og Iðunn að farast. Það var komið fát á mig því Iðunn greyið var byrjuð að hengja haus og grét voða aumingjalega. Ferðin af lestarstöðinni er í hálfgerðri móðu en við komumst á leiðarenda. Iðunn var rifin úr öllu nema bleyunni og við hin hoppuðum í ískalda sturtu. Nökkvi, Ylfa og Jón fóru í búðina að kaupa í matinn en við Iðunn biðum heima. Þegar þau komu til baka sofnuðum við Iðunn. Vöknuðum aðeins í mat og löggðum okkur svo aftur. Akkurat núna liggur hún í fanginu mínu og er aftur sofnuð. Klukkan er líka hálf fimm um nótt.
        Þegar á heildina er litið þá stóðu stelpurnar sig með stakri príði. Ylfa labbaði rosa mikið og þrátt fyrir að hafa skammað hana smá fyrir eitthvað vesen þá er það varla til að tala um. Nú er bara að venjast hitanum og þá erum við í góðum málum :)

-Jóhanna

Saturday, August 25, 2012

Já, við erum með blogg...

... svo að okkar nánustu geti fengið að njóta okkar þrátt fyrir ca. 8602.70 km fjarlægð (sbr. þessari síðu). Við stelpurnar erum ekki enn farnar út en Nökkvi er kominn út og í íbúðina okkar og hefur það gott, er samt enn að læra á verslanirnar þarna og er ekkert lítið þakklátur fyrir klósettrúllurnar sem félagi hans skildi eftir.

Skrifum meira þegar við erum komnar út, annars er svo lítið fútt í þessu :)

- Jóhanna

p.s. fyrir þá sem eru enn að velta fyrir sér nafninu á blogginu þá er Ylfa Marín gjarnan kölluð Úlfaskott og þetta er bara ágætlega vel lýsandi fyrir þær systur.