Friday, August 31, 2012

Fyrstu dagarnir í Japan

Eftir alla þessa leið, þvert yfir hnöttinn, er óhætt að segja að tímaskynið hafi verið í rugli. Stelpurnar eru enn að jafna þetta út en í nótt sem var sváfu þær nánast óslitið frá miðnætti til klukkan 8 í morgun. Við Iðunn erum vaknaðar en Nökkvi og Ylfa liggja enn inn í herbergi og sofa.
Í gær (31. ágúst) vöknuðum við hinsvegar fyrr. Ylfa sat og horfði á teiknimyndir þar til klukkan var orðin sómasamlega mikið og við gátum farið út. Hér reyndar er ekki hægt að fara út úr húsi án þess að hoppa aðeins í sturtu fyrst svo það tekur yfirleitt aðeins lengri tíma að koma sér út.
"Hollustufríkin" við fórum á McDonalds og keyptum okkur morgunmat en réttlættum það með því að við værum ekki búin að læra á matvörubúðirnar og að allir væru svangir. Ylfa vildi samt ekki borða, þrátt fyrir að allt væri gert fyrir hana. Í staðinn ákvað hún að þamba djúsglas með miklum klaka. Iðunn sat og malaði í barnastól og sötraði á vatni úr brúsa á meðan, litli hnoðrinn kunni vel að meta loftkælinguna og mátti lítið vera að því að borða.
Eftir morgunmatinn lá leið okkar upp á lestarstöð þar sem við skutluðumst upp í mollið sem er ekki svo langt frá. Það er ekki staður fyrir fólk með valkvíða, svo mikið er víst. Mér var sérstaklega hugsað til Önnu systur og hversu löngum tíma hún gæti eytt þarna inni því það eru milljón búðir þarna, ég veit ekki einu sinni hversu margar hæðir þetta eru því við fórum "bara" á fjórar þeirra. Ylfu áskotnaðis þrír leikfangakallar úr Ghibli myndunum þar á meðal sína uppáhalds, Kiki. Við keyptum mest lítið annað og vorum komin heim um hádegi. Á heimleiðinni skutumst við Jón og Iðunn í matvörubúð á meðan Nökkvi bar sofandi Ylfu heimleiðis. Við kunnum nákvæmlega ekkert á þessar blessuðu búðir og öll innkaup hingað til hafa verið mjög random og eiga ekkert sameiginlegt nema gríðarlegt vatnsmagn.
Eftirmiðdagurinn var afslappaður en klukkan fjögur fórum við út því við áttum stefnumót við fleirri íslendinga og japanska krakka sem voru í skiptinámi á síðasta ári. Planið var að kaupa farsíma og sletta svo eitthvað úr klaufinni. Leið okkar lá til Osaka Umeda en þar tók okkur bara stutta stund með lestinni. Lestirnar eru ágætar, maður borgar bara fyrir það sem maður er að fara s.s. ódýrara að fara stutta vegalengd heldur en langa. Japanir eru líka mjög almennilegir og gefa sætin sín samstundis ef þau sjá lítil börn.
Við hittum krakkana á settum stað og héldu svo af stað í búðina. Að kaupa farsíma er ekki lítið vesen. Við þurftum að vera með residency kortin okkar og vegabréf til þess að geta keypt síma og auðvitað voru einhverjir sem gleymdu sínum skilríkjum heima. Þar á meðal Nökkvi svo nýji síminn var settur á mitt nafn sem varð til þess að Kristinn (bekkjarbróðir Nökkva) ásamt Arisu (fyrrum skiptinemi) urðu að þýða fyrir mig. Afgreiðsludaman okkar talaði rosa hratt og otaði að okkur endalausum pappírum til að skrifa undir, hvaða númer við vildum og eitthvað í þá áttina. Auðvitað ætluðum við að farast þegar kom að því að skrifa nöfnin okkar í Katakana því það er ekkert mál að skrifa Jóhanna en nánast ómögulegt að skrifa Þorleifsdóttir (takk pabbi). Þetta tók óendanlega langan tíma svo þeir sem voru ekki að kaupa síma fóru á undan á veitingastaðinn þar sem við fengum okkur síðan að borða. Maturinn var ROSA góður og Iðunn fékk loksins matarlistina og hámaði í sig hrísgrjón, kjúkling með súrsuðum plómum og fleirra góðgæti. Ylfa borðaði nokkrar franskar en lék annars á alls oddi syngjandi og tjúttandi við systur sína. Eftir að hafa troðið í okkur fórum við í purikura myndakassa og náðum næstum að troða okkur öllum inn í klefann, við vorum 9 manns plús Iðunn sem hékk í burðarpoka en sást ekkert á myndunum.
Það var mikið af fólki á götunum um kvöldið og auðvitað töluvert kaldara en um daginn. Samt engan veginn kalt. Við fórum að sjálfsögðu í Kareoke og skemmtum okkur konunglega. Keyptum klukkutíma svo maður geri sig nú ekki að fífli á almannafæri ;) Við góluðum hin og þessi lög og þrátt fyrir mikinn háfaða sofnuðu báðar stelpurnar.
Nökkvi hélt á Ylfu heim en auðvitað vaknaði litla konan þegar við vorum við það að koma heim. Þær systur vöktu í smástund þegar heim var komið en svo fóru allir að sofa um miðnætti.
Það er alltaf verið að horfa á okkur og dásama stelpurnar eða benda á hvað Nökkvi sé hávaxinn.
Í morgun rigndi og loftið er mun léttara en það hefur verið til þessa. Lovely.

-Jóhanna

No comments:

Post a Comment