Wednesday, March 27, 2013

Einn - tveir og blogg!

Nú þarf ég að taka á honum stóra mínum og koma þessu bloggi frá mér, börnin geta gert einhvern skandal af sér á meðan en þetta skal klárast!
Á þriðjudagsmorgun fórum við Iðunn með pabba og mömmu út á flugvöll til að fylgja þeim í vélina eftir tveggja vikna heimsókn. Það skal tekið fram að til að komast upp á flugvöll þarf að taka klukkutímalanga rútu. Ylfa varð að mæta á fund í leikskólanum með Nökkva svo að þau kvöddu gestina heimafyrir. Það var óneitanlega auðveldara að vera í rútunnu þetta skiptið í samanburði við ferðina þegar við fórum að sækja pabba og mömmu þar sem Ylfa er með eindæmum bílveik og ákvað að skila morgunmatnum á leiðinni úteftir. Þetta voru annars tvær yndislegar vikur, uppfullar af nýjum veitingastöðum og ævintýrum. Það var því ekki laust við að maður væri aðeins klökkur á flugvellinum þegar við vinkuðum bless og foreldrarnir hurfu fyrir hornið. Ég er ekki búin að heyra frá þeim sem stendur en ég vona að flugið hafi verið bærilegt og að þau séu nokkurnvegin í heilu lagi eftir ferðina.
        Ég hefði gjarnan vilja telja allt upp sem við gerðum en það er líklega ráðlegra að taka bara toppana á ferðinni og eiga rest fyrir sjálfa sig.
         Pabbi og mamma mættu á svæðið 12 mars. Eins og áður sagði fórum við stelpurnar að ná í þau. Rútan var á réttum tíma en flugið lenti snemma svo við vorum ekki fyrr komnar að hliðinu en þau blöstu við okkur. Gestunum var auðvitað fagnað með eindæmum, Ylfa var pínu skrítin og Iðunn skrækti ógurlega. Það komust allir heim heilir á húfi og mamma afhenti mér nýju fartölvuna okkar Nökkva (sem var síðar fagnað í hengla). Þau komu færandi hendi með ýmiskonar góðgæti að heiman og ég átti fallega stund með bingókúlupoka seinna um kvöldið.
        Pabbi var á missioni að smakka eins mikinn japanskan mat og hann gæti svo við gerðum í því að reyna að prófa mismunandi veitingahús á meðan á heimsókninni stóð. Núðlur, sushi, okonomiyagi, takoyaki, ramen, katsudon, saba, karrý, grísatær var á meðal þess sem við smökkuðum og hvert öðru betra. Ég tek það þó fram að bara pabbi smakkaði grísatærnar, virtist spennandi. Síðasta kvöldið þeirra fórum við á sushi-stað til þess að þau gætu nú sagst hafa smakkað sushi í Japan. Mér fannst það persónulega vera besti maturinn og átti erfitt með að hemja mig, gæti klárað af færibandinu held ég næstum.
        Við gátum að sjálfsögðu ekki sleppt því að fara á smá túristaflipp. Við drógum gamla settið til Kyoto, Osaka (tvisvar meira að segja) og Nara. Þar sem við vorum að eltast við góða veðrið voru ferðadagarnir allir blíðviðrisdagar, það lítur betur út á ljósmyndum. Fyrsta ferðalagið var til Osaka að skoða kastalann. Nökkvi ákvað að fórna sér og var eftir úti með stelpunum á meðan við pabbi og mamma fórum inn að skoða kastalann. Útsýnið af efstu hæð var frábært. Mér var litið niður á hallargarðinn og sá að sjálfsögðu Nökkva og dýrin strax. Ylfa hljóp hring eftir hring í kringum Nökkva sem á sama tíma rölti rólega á eftir Iðunni sem var í miklum gönguæfingum. Þetta varð ekki síður fyndið þegar ég uppgötvaði að tvær unglings stelpur sem stóðu við hliðná mér voru flissandi að taka vídjó af Ylfu sem stoppaði reglulega til að taka nokkur dansspor. Frægðin er að fara með okkur. Við mamma sáum líka fagurbleika trétoppa og ákváðum að það yrði næsta stopp. Við drösluðumst niður úr kastalanum og eftir að hafa náð í Nökkva og stelpurnar trítluðum við saman að bleika garðinum. Við vorum ekki fyrr komin en ég fann gæsahúðina taka völdin. Þarna var maður með stærðarinnar iguana eðlu og hópur af fólki að taka myndir af dýrinu. Ekki nóg með það heldur mátti fólk fá að halda á kvikindinu. Eigandi eðlunnar spottaði okkur útlendingana snarlega og pabbi og Nökkvi fengu að halda á dýrinu. Á meðan stóðum við mamma á hliðarlínunni og grettum okkur, svona dýr eru mér ekki að skapi. Svo ætlaði að líða yfir mig þegar hann rak eðluna, eða drekann samkvæmt Ylfu, framan í Iðunni sem sat sultuslök í kerrunni. Svo færðist ljósmyndahópurinn frá eðlunni og yfir til okkar og fólk var að reyna að fá að taka myndir af Iðunni og Ylfu. Íslensk börn trompa s.s. iguana á athyglisverða skalanum. Þegar við losnuðum við ljósmyndarana röltum við um garðinn og svo héldum við heim á leið.
         Kyoto ferðin var ekki síðri. Við vorum komin um hádegi og röltum fyrst frá lestarstöðinni og að Kinkaku-ji. Það var hlýtt í veðri og sólin skein. Það var nóg til þess að við fórum og keyptum sólarvörn (því mér tekst alltaf að gleyma flöskunni heima) í apóteki á leiðinni. Það var allt troðið af túristum í gull hofinu en við komumst nú samt að og fengum að dást að þessari ágætu byggingu og garðinum í kring. Við stoppuðum og fengum okkur einstaklega japanskt grænt te og sætindi með því. Það var mjög huggulegt að sitja í skugga trjánna og kasta mæðinni. Svo eyddum við fullt af pening í vel valda hluti úr safnbúðunum. Ég festi kaup á kokeshi dúkku og Nökkvi keypti heillagripi sem eiga að láta alla okkar drauma rætast, væri ekkert verra ef þeir virkuðu. Eftir Kinkaku-ji hefðum við átt að taka strætó yfir til Ginkaku-ji en álpuðumst í staðinn til þess að labba. Það tók svo ógurlega langan tíma að þegar við loksins komum að Ginkaku-ji sáum við þá skella hliðinu. Við áttum þó einn stað eftir og röltum þangað mjög skúffuð yfir því að klúðra fyrri staðnum. Um leið og við vorum komin á Honnen-in bráðnaði þó ergelsið af okkur. Það er svo æðislegur staður, friðsæll og mannlaus (nánast). Iðunn flaug á hausinn og sprengdi á sér vörina en að því slysi undanskildu var heimsóknin mjög fín og róleg. Við fengum okkur að snæða og komum okkur svo heim.
          Ferðalag númer þrjú. Við skelltum okkur til Nara til að sjá heimsins stærstu viðarbyggingu, dádýr í venjulegri stærð og stóra Búddah styttu. Nara er mjög falleg borg og við vorum öll mjög hrifin af stórum trjánnum og rólega andrúmsloftinu. Svo fór að glitta í dádýrin. Nokkuð spennandi. Þegar við komum að hofinu keypti Nökkvi kex sem má fóðra dádýrin á og frá því hófst hröð en undarleg atburðarás. Nökkvi réttir mér kexið og segir "Hérna, labbaðu áfram og ekki stoppa". Ég var ekki alveg að fatta hann en rölti af stað með Ylfu á öxlunum. Taka skal fram að Ylfu leist ekkert á dádýrin. Í því að ég geng af stað kemur eitt dádýrið aftan að mér og bítur mig í lærið. Ég var auðvitað ekki viðbúin þessari áras og kippist til og kvikindið bítur mig aftur. Ylfa er orðin alveg sæmilega stór og þung í takt við það svo þegar ég kippist til beyglast bakið á mér í, að því er mér fannst, allar áttir og mamma og Nökkvi gripu Ylfu. Ég henti hinsvegar kexinu í pabba sem var enn grunlausari en ég og skildi ekkert því sem ég var að góla á hann. Til að bæta gráu ofan á svart fór gamall maður úr fremsta sölubásnum að garga "in the park! in the park" og ota pabba með dádýrakexið inn á græna svæðið við hliðiná göngugötunni. Pabbi hröklaðist aftur til okkar skömmu síðar, þá hafði eitt dádýrið bitið hann líka og hann skutlað kexpakkanum á jörðina áður en hann yrði fleirri dádýrum að bráð. Þetta eru mestu óargadýr, Bambi verður aldrei aftur litin sömu augum. Hofið var mjög fallegt og stytturnar mjög stórfenglegar. Í hofinu er að finna súlu með gati á. Þetta umrædda gat er til þess gert að maður troði sér í gegn og það á að vera til heilla ef maður kemst alla leið. Nökkvi hafði farið þarna áður með skólanum og komst þá í gegn. Hann var því klár á því að hann ætlaði að endurtaka leikinn. Hann reiknaði hinsvegar ekki með því að hann var með burðarsjal (barnlaust) utanum sig og sama hvað hann reyndi komst hann ekki í gegn. Eftir að hafa slasað sig á troðningunum gafst hann upp og ég lét reyna á þetta.  Ég komst í gegn og Ylfa skaust í gegn fjórum sinnum og fannst þetta hin mesta skemmtun. Að hofinu loknu fórum við í smá búðar- og veitingastaðarölt. Síðan komum við okkur aftur til Nishinomiya.
          Fjórða og síðasta ferðalagið var svo aftur inn í Osaka þar sem við skoðuðum margrómaða verslunargötu/-hverfi sem heitir Dotonbori. Góð leið til að upplifa smá mannmergð og troðning. Við stöldruðum ekki lengi við. Tókum nokkur vídjó og myndir og kölluðum það svo gott.
          Við fórum líka víðsvegar um Nishinomiya og skoðuðum margar búðir og staði. Næst síðasta daginn fórum við að skoða kirsuberjatréin sem eru sum hver farin að blómstra. Við litum líka við í Nishinomiya-jinja sem kom verulega á óvart. Hofið var mjög fallegt og garðurinn umhverfis ekki síðri. Það er svo skrítið að á svona stöðum finnst manni nánast ótrúlegt að maður sé enn staddur inn í miðri borg. Ágætis tilbreyting frá bílum og háhýsum.
            Þetta var alveg frábær tilbreyting að fá mömmu og pabba í heimsókn. Okkur er líka farið að hlakka til að koma heim eftir fjóra mánuði. Tíminn á samt eftir að þjóta hjá, sérstaklega því að Ylfa byrjar í leikskólanum 10.apríl. Við förum vonandi bráðlega að kaupa miðana til Íslands og klóra okkur í hausnum hvernig við eigum að fara að því að koma öllu draslinu okkar heim.

Myndir síðar, þegar ég hef vinnufrið til þess að fara í gegnum þær.

-Jóhanna

Ps. Fórum í kareókí með þeim og við mamma fórum á kostum!

Thursday, March 14, 2013

Þögul sem gröfin

Það átti sér stað að kvöldi dags. Örþreytt fjölskylda situr við matarborðið og snæðir kvöldmat og horfir á þátt í fartölvu sem stendur á matarborðinu. Yngra barnið stendur upp í kjöltu móður sinnar og skríður upp á borð. Í því sem barnið bröltir upp á matarborðið rennur önnur hendin til, þetta verður til þess að barnið missir  tekið á borðinu og hrasar. Höfuðið rekst í gosglas sem stendur á borðinu. Gosið flæðir um borðið. Það heyrast hróp þriggja radda. Svo er þögn. Barnið er komið aftur í fangið á móður sinni og snöktir með kúlu á hausnum. Móðirin felur andlitið í höndum sér og faðirinn situr með fangið fullt af gosblautum eldhúspappír. Fartölvan er látin...

... og þess vegna höfum við ekki bloggað í laaangan tíma. Dramatísk lýsing lætur það virka aðeins minna aulalegt að drekkja fartölvu í kók. Við vorum tryggð þannig að jarðlegar leifar fartölvunnar voru sendar í pósti til Íslands þar sem Pétur fór með hana í Tölvutek. Það tók nokkra daga að vinna úr málunum en svo fékk Pétur grænt ljós að koma og ná í nýja tölvu. Það vildi svo vel til að við áttum von á gestum frá Íslandi svo að nýja tölvan fékk far í handfarangri, fyrsta flokks meðferð. Mikil ósköp sem við hjónin fögnuðum, bæði gestum og nýrri tölvu. Hitt er annað mál að nýja tölvan er með windows 8 sem við erum ekki alveg að meta að fullu, maður þarf að læra á þetta eins og annað.
       Okkur til mikillar gleði var samt hægt að bjarga efninu á harðadisknum svo að við töpuðum ekki myndunum okkar. Hjúkkett.
       Síðan við blogguðum síðast er svosem bara lífið búið að vera nokkuð ljúft, að undanskildu stressi yfir fartölvunni. Ylfa er útskrifuð úr "Kjúklingahópnum" sem er s.s. leikskólahópurinn sem hún var í. Í apríl byrjar hún í alvöru leikskóla. Við erum búin að kaupa heilan helling af dóti svo hún verði leikskólahæf. Iðunn fór til læknis og fékk þær bólusetningar sem hana vantaði, henni líkaði ekki vel meðferðin og urraði illilega á lækninn eftir að hann hafði mælt hana og sprautað 3 sinnum. Við erum á leiðinni til hans aftur í lok mars og aftur í lok apríl. Vænsti maður samt sem áður. Ég fór á matreiðslunámskeið, bara eitt skipti, rosalega skemmtilegt. Elduðum mat sem tengist "Hanamatsuri" einnig kallað "Doll's festival", sá dagur er tileinkaður heilsu og hamingju stúlkna. Voðalega sætt. Það er líka til svona dagur fyrir litla stráka en hann er í sumar. Við vorum 4 útlendingar og tvær japanskar í hópnum mínum. Þar af íslendingurinn ég, kínverks kona og tveir bandarískir strákar. Það fannst öllum voða spennandi að heyra íslensku (hohoho). Maturinn var ofsalega góður og ég á uppskriftirnar til þess að geta eldað þetta aftur í góðra vina hópi. Nökkva fannst það vera gagnlegt fyrir framtíðina.
        Nú er Nökkvi í fríi frá skólanum fram í apríl, við erum með æðislega gesti. Íslenska sælgætið er komið í hús, ástkær systir mín sá til þess að ég fengi allar uppáhalds sortirnar sem hún sendi með ferðalöngunum. Nú á að borða og drekka japanskan mat og drykk. Okkur gengur ágætlega. Verslanir, ferðalög og matur. Hljómar ansi vel.
         Þrátt fyrir allt gamanið og gleðina er ég samt farin að hlakka til haustins og það að koma heim til Íslands. Ylfa komst inn á leikskóla og nú bíðum við framyfir páska og þá fáum við að vita hvort og hvar Iðunn fær pláss. Vonandi fáum við svo íbúð á stúdentagörðunum og svo fær ég að knúsa alla mína nánustu í klessu.

-Jóhanna