Það átti sér stað að kvöldi dags. Örþreytt fjölskylda situr við matarborðið og snæðir kvöldmat og horfir á þátt í fartölvu sem stendur á matarborðinu. Yngra barnið stendur upp í kjöltu móður sinnar og skríður upp á borð. Í því sem barnið bröltir upp á matarborðið rennur önnur hendin til, þetta verður til þess að barnið missir tekið á borðinu og hrasar. Höfuðið rekst í gosglas sem stendur á borðinu. Gosið flæðir um borðið. Það heyrast hróp þriggja radda. Svo er þögn. Barnið er komið aftur í fangið á móður sinni og snöktir með kúlu á hausnum. Móðirin felur andlitið í höndum sér og faðirinn situr með fangið fullt af gosblautum eldhúspappír. Fartölvan er látin...
... og þess vegna höfum við ekki bloggað í laaangan tíma. Dramatísk lýsing lætur það virka aðeins minna aulalegt að drekkja fartölvu í kók. Við vorum tryggð þannig að jarðlegar leifar fartölvunnar voru sendar í pósti til Íslands þar sem Pétur fór með hana í Tölvutek. Það tók nokkra daga að vinna úr málunum en svo fékk Pétur grænt ljós að koma og ná í nýja tölvu. Það vildi svo vel til að við áttum von á gestum frá Íslandi svo að nýja tölvan fékk far í handfarangri, fyrsta flokks meðferð. Mikil ósköp sem við hjónin fögnuðum, bæði gestum og nýrri tölvu. Hitt er annað mál að nýja tölvan er með windows 8 sem við erum ekki alveg að meta að fullu, maður þarf að læra á þetta eins og annað.
Okkur til mikillar gleði var samt hægt að bjarga efninu á harðadisknum svo að við töpuðum ekki myndunum okkar. Hjúkkett.
Síðan við blogguðum síðast er svosem bara lífið búið að vera nokkuð ljúft, að undanskildu stressi yfir fartölvunni. Ylfa er útskrifuð úr "Kjúklingahópnum" sem er s.s. leikskólahópurinn sem hún var í. Í apríl byrjar hún í alvöru leikskóla. Við erum búin að kaupa heilan helling af dóti svo hún verði leikskólahæf. Iðunn fór til læknis og fékk þær bólusetningar sem hana vantaði, henni líkaði ekki vel meðferðin og urraði illilega á lækninn eftir að hann hafði mælt hana og sprautað 3 sinnum. Við erum á leiðinni til hans aftur í lok mars og aftur í lok apríl. Vænsti maður samt sem áður. Ég fór á matreiðslunámskeið, bara eitt skipti, rosalega skemmtilegt. Elduðum mat sem tengist "Hanamatsuri" einnig kallað "Doll's festival", sá dagur er tileinkaður heilsu og hamingju stúlkna. Voðalega sætt. Það er líka til svona dagur fyrir litla stráka en hann er í sumar. Við vorum 4 útlendingar og tvær japanskar í hópnum mínum. Þar af íslendingurinn ég, kínverks kona og tveir bandarískir strákar. Það fannst öllum voða spennandi að heyra íslensku (hohoho). Maturinn var ofsalega góður og ég á uppskriftirnar til þess að geta eldað þetta aftur í góðra vina hópi. Nökkva fannst það vera gagnlegt fyrir framtíðina.
Nú er Nökkvi í fríi frá skólanum fram í apríl, við erum með æðislega gesti. Íslenska sælgætið er komið í hús, ástkær systir mín sá til þess að ég fengi allar uppáhalds sortirnar sem hún sendi með ferðalöngunum. Nú á að borða og drekka japanskan mat og drykk. Okkur gengur ágætlega. Verslanir, ferðalög og matur. Hljómar ansi vel.
Þrátt fyrir allt gamanið og gleðina er ég samt farin að hlakka til haustins og það að koma heim til Íslands. Ylfa komst inn á leikskóla og nú bíðum við framyfir páska og þá fáum við að vita hvort og hvar Iðunn fær pláss. Vonandi fáum við svo íbúð á stúdentagörðunum og svo fær ég að knúsa alla mína nánustu í klessu.
-Jóhanna
Ekki bara einu sinni heldur TVISVAR hefur fartölvutrygging bjargað þér. Þú ættir að leika í auglýsingu út á þetta
ReplyDelete