Nökkvi er að taka kúrs í blaðamennsku, eða eitthvað í áttina að blaðamennsku, þar sem hann þarf meðal annars að skila inn verkefnum um hitt og þetta. Hann var búinn að skuldbinda sig í að skrifa um nýopnað Anpanman-safn sem er í Kobe. Því var stefnan tekin í áttina að Kobe. Við vorum samt ekki alveg nógu vel skipulögð (ó mig auma) svo við vorum ekki búin að líta á kort af þessu, sáum auglýsingu á fyrstu lestarstöðinni þar sem var pínulítið kort af staðsetningunni en föttuðum ekki að taka mynd af því og bjuggumst við því að það væru fleirri eins auglýsingar á leiðinni þar sem þetta opnaði bara 19. apríl. Afleiðingarnar urðu þær að við komum út af lestarstöðinni í Kobe og leituðum eins og geðsjúklingar að samskonar auglýsingu en fundum ekki eina einustu. Þá ákváðum við að rölta bara um Kobe og sjá hvað myndi gerast, við vissum að safnið væri við sjóinn svo við tókum stefnuna þangað.
Það var ljómandi gott veður og nokkuð góður andi í fólki þrátt fyrir að hafa misst af föndrinu og sögustundinni sem var búið að lofa fyrr um daginn. Ég stoppaði og keypti mér pínu lítinn gler pegasus úr agnar smárri búð sem kallaði svona líka á mig. Afhverju þessi della fyrir glerstyttum hrjáir mig veit ég ei en ég var mjög ánægð með fenginn, nú þarf ég að verja hann með lífi mínu svo að stelpurnar brúki hann ekki sem leikfang. Við vorum einstaklega heppin að slysast inn á hina og þessa staði, þar á meðal inn á verslunargötu þar sem við fórum í leiktækjasal og eyddum nokkrum vel völdum krónum. Komum út með kex, þvottapoka og forláta Luigi húfu allt unnið í klóarvélum. Þvílíkur fengur! Svo hlunkuðumst við í áttina að sjónnum og eftir smá labb kom ég auga á nýja verslunarmiðstöð sem ég vissi að væri nálægt Anpanman safninu. Sigri hrósandi örkuðum við í áttina að umræddri búð og það hlakkaði óneitanlega í okkur þar sem ég vissi að ég gæti stungið hausnum aðeins inn í H&M, Ylfa þurfti að komast á klósettið og Nökkvi var nær dauða en lífi af hungri. Það skal tekið fram að þetta er mjög nýleg verslun og því var allt troðið. Við Ylfa gátum lokið okkar verkefnum en Nökkvi varð að lifa með hungrinu ögn lengur þar sem það voru raðir út á ganga á þeim veitingastöðum sem við sáum.
Við gengum út og handan við hornið blasti safnið við okkur. Það var allt morandi í fólki í kringum safnið bæði úti sem inni. Við komum okkur á tilsettan stað og biðum í röð. Með garnirnar gaulandi og stelpurnar mjálmandi úr svengd. Við borguðum formúgu fjár til að komast inn og hálf hlupum inn á veitingastaðinn sem blasti við okkur. Þar var svo svengdin buguð með pylsu, salati og frönskum. Þar sem þetta er kallað Anpanman Museum bjóst ég við því að nú værum við að fara að skoða eitthvað um sögu þáttanna.... mikil ósköp sem ég get haft rangt fyrir mér. Þetta var eiginlega bara hrykalega "fancy" leikvöllur. Þarna voru eftirlýkingar af húsum og faratækjum sem hafa sést í þáttunum, rennibrautir, styttur og bíósalur. Ylfa var mjög yfirveguð þar sem hún gekk með okkur, prófaði hitt og þetta og gladdist mikið yfir því að fá að prófa og skoða allt sem Anpanman á. Það þótti svo alls ekki verra að fá að renna sér í regnbogarennibraut. Hún var reyndar síðust niður og stelpurnar sem voru að stjórna ferðunum næstum farnar að plokka hana úr brautinni þegar hún loksins sleppti takinu. Ég álpaðist inn í mynjagripabúð og keypti kubba handa stelpunum en Nökkvi togaðist með straumnum annan hring um safnið. Í þetta skiptið var Ylfa ekki að tvínóna við neitt heldur æddi um og lét fátt stöðva sig enda stórkostlega sjóuð í þessu eftir fyrri ferðina. Ég var mjög fegin að komast út af leiksvæðina enda mikil læti í skrækjandi barnaflóðinu sem flæddi um salina. Við gengum beint í flasið á hetjunni sjálfri þar sem hann og fleiri karakterar úr þáttunum voru að dansa trylltan dans. Atriðið var við það að verða búið en við náðum nú samt aðeins í skottið á þeim áður en þau hurfu af sviðinu. Við létum þetta slá endann í safnið og komum okkur út í ferska loftið með upptjúnaða Ylfu og hálf myglaða Iðunni.
Við vorum ekki búin að labba lengi þegar báðar stelpurnar sofnuðu og fyrir þeirra sakið ákváðum við að rölta bara í rólegheitunum og fara aðra leið til baka. Nökkvi sagði að við yrðum eiginlega að koma aftur einhvertíman seinna til Kobe þegar við værum búin að kynna okkur hvað væri skemmtilegt að sjá þar í bæ. Ég sagðist nú hafa lesið að hér(þar) væri Kínahverfi sem ég væri nú alveg til í að bera augum. Nökkvi svaraði þá um hæl "Þetta hérna þá". Viti menn þá stóðum við í gáttinni að hverfinu. Við keyptum okkur kjötfylltar bollur og vorrúllur og tróðum í okkur meðan við lituðumst um. Allt í lagi svosem, þyrfti kannski að koma þarna aftur til að skoða betur. Skömmu síðar eftir að Nökkvi hafði sporðrennt vorrúllunum gengum við framhjá bás sem var að selja ferska ávexti á spjótum. Jarðaberjaunnandinn sem ég er gat auðvitað ekki hafnað tækifæri sem þessu og svo ætlaði ég að fara yfirum þegar ég áttaði mig á því að þarna var verið að selja sundurtætta frosna ávexti. Við keyptum okkur tein af jarðaberjum og eitt box af frosinni melónu með hvítri súkkulaðisósu. Það eru ekki til nógu sterk lýsingarorð til að lýsa því hvað þetta bragðaðist vel. Meira svona!!
Eftir að ég hafði séð ljósið vorum við komin að því er við héldum að væri sama lestarstöð og við höfðum séð fyrr. Þetta var ekki okkar venjulega lestarfyrirtæki en við vissum að þeir teinar væru samhliða þessu fyrirtæki og röltum í það sem við héldum að væri rétt átt. Eftir að hafa villst í smá tíma spurði Nökkvi til vegar (af eigin frumkvæði vil ég taka fram) og við komumst að því að við værum einni stöð fyrir neðan, ansans. Það gerðist ekki mikið spennandi eftir það, við fundum stöðina okkar, komumst til Nishinomiya, mættum einni mömmu úr leikskólanum, fórum í búðina, elduðum mat og komum dýrunum í bælið.
Nokkuð góður dagur, sunnudagurinn fór svo bara í afslöppun, eina búðarferð og sjónvarpsgláp.
Upplifið spennuna og glamúrinn sem líf okkar er
Ylfa
Besti kerrustjóri sem býðst
Fólk með allskonar í kerrum
Að veiða handa börnunum
Án efa glæsilegasta höfuðfat landsins!
Regnbogabuna!
Hetjan er létt á fæti
-Jóhanna