Tuesday, April 9, 2013

Í leikskóla er gaman...

Á morgun er stóri dagurinn, Ylfa fer í leikskólann! Það er að segja Ylfa fer í japanska leikskólann sem hún hefur til þessa bara farið í einu sinni í viku, nema síðustu vikur því það er vorfrí í leikskólunum hérna og svo voru gestir hjá okkur líka. Það er ekki við öðru að búast en að hún eigi eftir að una sér vel þarna og okkur grunar að japönskukunnáttan eigi eftir að blómstra.
           Annars eru síðustu vikur búnar að snúast um leikskóla, í fleirtölu! Hausinn á mér hefur á köflum ætlað að gefast upp á þessum hrærigraut og þá er ágætt að hafa Nökkva til að draga mig upp úr þessu kviksyndinu sem stress er. Nú er óneitanlega farið að styttast í annan endan á dvöl okkar hérna úti og því orðið löngu tímabært að reyna að pota stelpunum inn í leikskóla í Reykjavík. Fyrir bíllaust fólk eins og okkur er staðsetning mikið mál þegar á að velja úr leikskólaflórunni og því var efstur á lista sá leikskóli sem er næstur (vonandi) verðandi íbúð. Því miður komust þær ekki inn á sama leikskóla en Ylfa komst inn í fyrsta vali því hún er eldri, Iðunn aftur á móti þarf að þjást fyrir að vera fædd svona seint á árinu og ég var miður mín. En aldrei að óttast, Iðunn komst inn í annan leikskóla sem kallar á stutta strætóferð hvern morgun sem þarf alls ekki að vera svo slæmt. Svo krossum við putta, sækjum um fluttning á milli leikskóla og vonum að stubburinn fái inn í leikskólann hennar Ylfu fyrr en síðar.
           Ég held að ég sé að fá sviðskrekk fyrir þessu japanska leikskólastússi. Mömmurnar sem ég kannast við eru ágætar og þegar þær þora að spjalla á ensku er voða gaman EN það er ótrúlega mikið keppnisskap í þeim. Þá á ég ekki við að þær séu í raun illar og vilji láta mann líða eins og maður sé ekki nógu góður, alls ekki. Það er meira svona þær allra duglegustu sauma allar leikskólatöskurnar sjálfa, þær sauma jafnvel eitthvað af fötunum á börnin (við erum víst að fara á opnunarathöfn á morgun og mikið er ég fegin að Ylfa fékk kjól í jólagjöf), nestisboxin eru stjarnfræðilega flott og full af næringaríkum, flóknum en fagurfræðilega sætum mat. Ég viðurkenni leti mína fúslega en þetta endalausa "ú" og "a" yfir hvað allir voru duglegir fer alveg með mig. Eflaust því að maður er ekki vanur slíku. Ég verð vandræðaleg og því meira sem maður segir að þetta hafi nú ekki verið mikið mál því meira klappa þær fyrir manni. Á sama tíma á ég það til að gleyma að lýsa skoðunum mínum á því sem þær gera og lít því ábyggilega út fyrir að vera algert snobbdýr. En ég keypti allar töskurnar hennar Ylfu og kjólinn fyrir morgundaginn fékk hún í jólagjöf svo ég á ekki í neinni hættu á að lenda í aðdáunar-hremmingum á morgun. Húrra fyrir meðalmennsku.
          Leikskólinn hennar Ylfu býður krökkunum upp á mat tvisvar í viku en þau þurfa að koma sjálf með nesti aðra tvo daga í viku og á föstudögum er stuttur dagur svo þau borða heima. Hér hefði ég líka verið til í að borga aðeins meira og þurfa ekki að hugsa um neitt nesti heldur fá bara að borða alla dagana. Eða borga aðeins minna og koma með nesti bara alla dagana, hitt kerfið finnst mér vera ruglingslegt. Ég sé þó fram á það að hún fái bara það sama í nesti og pabbi hennar tekur með sér í skólann svo það verður kjúklingur og hrísgrjón... alltaf. Mér finnst ég ekki vera í mínu rétta umhverfi, eldhúslega séð, þegar ég er að elda hérna. Á boðstólnum eru tvær gashitaðar hellur, ein panna og einn pottur svo matseðill heimilisins er ögn breyttur frá sína upprunalega formi. Ég þrái bakaraofn og matreiðslubækurnar mínar, það á eftir að vera magnþrungin stund þegar ég fæ að opna kassana mína aftur!
         Það þarf bara að keyra þetta í gang, komast af stað aftur og þá fer manni að líða betur. Ég ætla að fara í gegnum allt þetta leikskóladót sem við höfum verið að sanka að okkur og komast að því hvað á að vera hvar. Ylfa á eftir að líta út eins og Magðalena með leikskólahattinn sinn.

No comments:

Post a Comment