Iðunn hætti á brjósti og tók því eins og hvert annað barn og öskraði í tvo daga. Svo hætti hún að æpa og allt féll í ljúfa löð. Ég er ekki frá því að hún hafi snar þroskast við þetta skref því sjálfstæðið er meira en nokkru sinni fyrr. Hún meira að segja krafðist þess að labba heim af pósthúsinu um daginn. Sem er afrek en tók ferlega á taugarnar hjá móðurinni enda mikið um bíla, hjól og skurði. Við komumst heilar á húfi heim en nú þarf ég að beita brögðum til að fá hana til að sitja í kerrunni sinni.
Ylfa er enn bara í aðlögun svo hún er í leikskólanum hálfan daginn og svo lengja þau tíma smátt og smátt. Við vorum því heima að dunda okkur einn daginn þegar það kemur skyndilega högg á húsið og gólfið hristist. Ég greip Iðunni af gólfinu og var á leiðinni yfir til Ylfu þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ekki jarðskjálfti. Við hlupum fram á gang, en þar var enginn. Þegar við komum niður á fyrstu hæð (því við búum á annarri hæð) blöstu við okkur múrsteinar og ryk fyrir utan dyrnar. Þá hafði maður keyrt á steinvegg sem aðskilur bílastæðið hjá sjoppunni við hliðiná okkur og húsinu. Það var engum meint af og þetta var þrifið upp á innan við klukkutíma. Nú er bara gat á veggnum þar til tryggingarnar og allt það vesen er búið. Býst ég við.
Á aðfaranótt laugardagsins (13.apríl) rumskaði ég hinsvegar og hafði ekki hugmynd um afhverju ég væri að vakna svona um miðja nótt. Ég hafði varla sleppt hugsuninni þegar húsið fór að hristast í alvöru. Ég náði að skækja á Nökkva að húsið væri að hristast og ýjaði að því hvort hann gæti nokkuð vaknað. Hann opnaði augun og umlaði að hann væri vakandi. Það urðu engar frekari jarðhræringar eftir þetta svo við sofnuðum aftur, hvorki Ylfa né Iðunn vaknaði við þetta. Ég var að spjalla við aðra mömmu úr leikskólanum og hún sagði að samkvæmt fréttunum hefðu rúmlega 500 hús skemmst aðeins, en ekkert sem væri ekki hægt að laga og að það hefði enginn slasast alvarlega. Ég hugsaði bara að 500 hús væri sennilega stærra í íslenskum mælikvarða en í japönskum.
Núna erum við að fara að nálgast tveggjastafa tölu í niðurtalningunni þangað til við komum heim. Við eigum að vísu eftir að kaupa miða en landvistaleifið hans Nökkva rennur út 1 ágúst svo þá ætti að vera ágætt að drífa sig bara heim. Mig grunar að síðustu mánuðirnir eigi eftir að þjóta hjá því nú er meira að gera. Svo eigum við að sjálfsögðu eftir að reyna að vera eins mikið með vinum okkar og við getum. Það er eitthvað hálf skrítið að eignast svona líka yndislega vini og hugsa svo að kannski sjái maður þau aldrei aftur! En það er alltaf hægt að spjalla á skype býst ég við, eða senda póst. Svo verður líka ágætt að hitta allt fólkið okkar heima aftur. En nú ætla ég að hætta þessum pælingum, það eru jú 106 dagar eftir.
Myndir
Skólasetning og kennarinn les sögu fyrir krakkana
Allir í sparidressinu, Ylfa var sú eina sem var ekki í svarthvítu/bláu (úps)
Skilti við leiksólann í tilefni dagsins
Bláberjajógúrtgrís
-Jóhanna
No comments:
Post a Comment