Thursday, April 25, 2013

Takoyaki, burðapoki, afmæli, bento, kerrur, pizza, japanska, heljarlangt blogg og myndir

Ég er virkilega farin að slá slöku við þegar kemur að þessu blessaða bloggi. Við erum á ferð og flugi alla daga svo það má eflaust skrifa eitthvað á það, annað er bara 100% leti.
Á laugardaginn var (20.apríl) fór Nökkvi ásamt fleirra fólki til Osaka til að skoða skrifstofu hjá dagblaði. Hann fór töluvert snemma svo við mæðgur dóluðum okkur bara heima þangað til klukkan tvö og fórum þá með lestinni til Osaka að hitta Nökkva, Jón og fleirri vini. Fólkið var að koma úr öllum áttum svo það var ákveðið að hittast á kareokí og syngja nokkur vel valin lög. Það var ljómandi gaman en eftir að allir höfðu látið ljós sitt skína (að minnsta kosti einu sinni) fórum við til Ashiya, sem er nágrannabær/-borg Nishinomiya, heim til Moe og elduðum saman. Við skelltum í takoyaki og yakisoba, sumir fengu sér í glas en aðrir töpuðu sér í ótrúlega flottu Disney dóti sem var til á bænum. Afhverju þarf Tokyo Disneyland að vera svona langt í burtu? Það var mikið fjör á liðinu og við vorum heppin að átta okkur á því að standa upp úr sófanum því við rétt náðum síðustu lest kvöldsins. Stelpurnar voru dauðþreyttar og sofnuðu báðar á leiðinni heim.


Lubbarnir voru sendir í bað svo þær yrðu í húsum hæfar

Nökkvi

Verið að útbúa takoyaki - oishii!

Takoyaki án sósu, merkilega líkt vatnsdeigsbollum í útliti

Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur. Þrátt fyrir að hafa sofnað um miðnætti fann Iðunn samt þörfina til þess að vakna klukkan 6 um morguninn og neyða örþreytta móður sína með sér fram. Yfirleitt vekur hún Ylfu til að koma með sér að leika en í þetta sinn harðneitaði Ylfa að fara framúr, snéri sér í staðinn á hina hliðina og steinsofnaði. Þetta kallaði að sjálfsögðu á það að ég lagði mig með yngra barninu og dagurinn byrjaði ekki fyrr en um hádegi. Svosem allt í lagi að því undanskildu að Ylfa missti af sunnudagaskólanum. Ég var búin að vera lengi að hugsa um það hvað ég ætti að gera við stóru kerruna okkar, það var alveg ákveðið að hún kæmi ekki með heim til Íslands svo þá var annað hvort að finna einhverja leið til að selja gripinn eða hún myndi enda á haugunum. Við skelltum okkur því í rannsóknarferð í búð sem selur notaða hluti til að athuga hvort að þar væru kerrur og annað dót. Það var gífurlegt magn af hlutum þarna og sumt alveg hræódýrt. Fullt af kerrum, sem staðfestu grun okkar um að þetta væri rétti staðurinn til að stunda kerruviðskipti. Ef aðeins við hefðum vitað af þessari búð í upphafi þegar við vorum kerrulaus! Við komum út úr búðinni með skanna, spil og burðarpoka/sling og eyddum ekki meira en 1700 yenum! Nokkuð gott. Burðarpokinn er búinn að vera notaður mikið, þó að ég sé mikill aðdáandi burðarsjala þá kann ég ekki nógu vel á það þegar kemur að því að bera barnið á bakinu. Þessi burðarpoki býður hinsvegar upp á að maður geti haft barnið á bakinu eða framaná sér. Svo er maður líka svo fljótur að skella þessu á sig. Iðunn kann því vel að dangla á bakinu á manni og það er svo ágætt að sjá almennilega framfyrir sig.

Mánudagurinn var nokkuð tíðindalaus, ég man í það minnsta ekki eftir því að hafa gert neitt stórkostlegt.

Þriðjudagurinn var síðasti dagurinn í aðlögun hjá Ylfu. Það var hörkustuð á krakkaskaranum þegar við komum að sækja og það var ekki mikið farasnið á þeim þó að mæðurnar stæðu allar tvístígandi úti í hitanum. Ég náði að lokka Ylfu með mér með því að lofa kexi og djús á heimleiðinni. Ekki skemmdi það fyrir að segja henni að pabbi væri heima og að við værum að fara að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins. Æj já og ég átti afmæli! (Vííííí, elska afmæli) Í afmælisgjöf frá eiginmanni og börnum fékk ég heimild til að eyða smá pening í H&M, stórgóð skemmtun og mjög arðbær fyrir fataskápinn. Tveir kjólar, tvær peysur, einn bolur og armbandahrúga. Nánast allt sem hugurinn gyrntist að undanskildum blazer jakka, mínir eru orðnir gamlir og sjúskaðir en ég endurnýja þá bara seinna. Svo fórum við út að borða, til að sleppa við allt uppvask, komum okkur heim, svæfðum stelpurnar og slöppuðum af það sem eftir var kvölds.


Þetta átti sér stað fyrir utan Lalaport á afmælisdaginn

Ég vaknaði í innkaupaþynnku á miðvikudaginn og gat varla beðið eftir því að nota eitthvað af feng gærdagsins. Stelpurnar voru klæddar og allt gert tilbúið fyrir fyrsta langa daginn í leikskólanum. Þetta þýddi að ég þurfti að matreiða nesti handa Ylfu og gæta þess á sama tíma að verða ekki of seinar í leikskólann. Það rétt hafðist og við vorum komnar í leikskólann þremur mínútum áður en tíminn byrjaði. Það var rigningalegt úti og varla hægt að þverfóta fyrir ofurkrúttlegum leikskólabörnum í risa regnkápum, litríkum stígvélum með enn sætari regnhlífar. Eins og venjulega mátti Ylfa varla vera að því að kveðja okkur heldur spíttist inn í skólastofuna með farangurinn sinn og rétt veifaði til okkar til að hún fengi leikfrið. Vanalega standa mæðurnar við dyrnar þar til þær lokast og tíminn byrjar en í þetta skiptið flýttu allir sér heim, við Iðunn áttum hinsvegar stefnumót við Megumi. Hún var svo almennileg að ná í okkur í leikskólann þar sem hún var nýbúin að skila Mary á leikskólann þeirra. Til að vera svo enn almennilegri fór hún með mér í leiðangur að selja stóru kerruna. Það er þó nokkuð auðveldara að hafa einhvern sem skilur japönsku til að tala máli sínu í svona verkefnum. Við fengum nokkur yen fyrir kerruna því þrátt fyrir að hún væri keypt í fyrra voru hjólin orðin þónokkuð slitin. Það var þó nóg til að geta keypt einsbarns kerru á sama stað svo nú höfum við kerru sem er nógu há fyrir Nökkva, hefur net undir töskur og poka, er með rosa gott sólskyggni og bak sem er hægt að halla alla leið niður. Iðunn hefur nú þegar sofnað í kerrunni og svaf að sjálfsögðu miklu betur heldur en hún hefur gert í hinum kerrunum. Eftir það ævintýri fórum við til Itami, sem er ekki svo langt í burtu og fórum í svaka flotta nýja verslunarmiðstöð. Þar rákumst við á aðrar mömmur úr leikskólanum hennar Mary sem bentu okkur á góðan veitingastað til að prófa. Þangað fórum við og borðuðum svo mikið að við þurftum eiginlega að rúlla Iðunni út af staðnum og það án kerru! Pizzur, salöt, eftirréttir og pasta. Óhugnarlega gott. Svo versluðum við í nestisbox stelpnanna og keyptum brilliant jógúrt! Hvernig brilliant? Jú, það er þannig pakkað inn að þú þarft ekki að nota skeið og þar af leiðandi minni líkur á að það sullist út um allt. Þetta er klárlega málið fyrir sóðapésa. Þegar við komum út var farið að rigna. Megumi ákað að best væri að hún skutlaði mér upp í leikskólann hennar Ylfu og á meðan að ég næði í hana færi hún að sækja Mary og kæmi svo aftur og skutlaði okkur heim. Konan er æði. Þar sluppum við við óþarflega blauta skó og köld nef. Seinna sama dag fór ég í fyrsta hóptímann minn í japönsku. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég gekk inn í stofuna og tilkynnt að nú væri próf og að ég ætti að taka blað og penna upp. Gott að vita að adrenalín framleiðslan er ekki biluð hjá mér. Þetta próf var til þess að ákveða hvaða bekk maður ætti heima í. Byrjendur, miðlungs og ofurhugar. Ég var í miðlungs hópnum. Mér létti óskaplega þegar ég komst að því að allir hinir í hópnum voru jafn stressaðir og ég hafði verið og smátt og smátt náðum við að slaka á og hafa gaman. Kennarinn okkar er óskaplega hress og skemmtileg. Þetta lofar nokkuð góðu. Hópurinn samanstendur af mér, stelpu frá Kóreu, strák frá Bandaríkjunum, stelpu frá Englandi og stelpu frá Singapore. Markmiðið er að verða betri í að tala japönsku, ekki bara skilja hana. Við fáum tíu tíma og hittumst á miðvikudagskvöldum.

Í dag er svo fimmtudagur og þessi langa langa bloggfærsla er að verða búin. Ég fór með Ylfu á leikskólann, keyrði nýju kerruna um víðan völl, borgaði leiguna, fór í matarbúð, þvoði þvott, sleikti sólina og keypti nokkrar vel valdar flíkur á stelpurnar til að sumarvæða fatasafnið þeirra. Konan sem leigir okkur er líka æði eins og Megumi og þegar hún heyrði að Ylfa væri byrjuð í leikskóla hafði hún fyrir því að koma yfir til okkar og fær hnoðrunum smá nasl í tilefni áfangans.
Í dag var mjög hlýtt og því tilvalið að borða ís

Skoffín

Ylfa veitir dygga aðstoð 

Krúttgormur

Systur í leik

Þessu höfuðfati fylgir flottur smekkur sem má smella fastan við hettuna. 

Um helgina ætlum við að fara til Kobe og skoða Anpanman-safn sem var verið að opna fyrir viku síðan. Það verður ábyggilega frábært og sennilega tilefni í aðra færslu!

-Jóhanna

2 comments:

  1. Jeminn þær eru svo mikilar dúllur! Og Ylfa er komin með svo sítt hár!!

    ReplyDelete
  2. Gleðilegt Sumar.
    ------<-@
    Myndbandið er frábært, meira af þessu takk.
    Kkv
    Tolli.

    ReplyDelete