Wednesday, May 8, 2013

Róluvellir, kastalinn á hæðinni og drekinn íandyrinu

Japanir hafa gaman af tyllidögum. Þeir virðast vera í hverjum einasta mánuði. Við vorum tiltörulega nýkomnar upp á lagið með allt þetta leikskólastúss þegar frídagarnir helltust yfir leikskólann og börnunum skolað út í nokkra daga. Fyrirbærið er kallað Golden week og samanstendur af nokkrum mismunandi frídögum. Skólinn hans Nökkva heldur ekki upp á hina gullnu viku og hann var meira að segja óvenju upptekinn í lærdómi. Við gerðum því ekki mikið af okkur. Sunnudagurinn 5.maí var dagur barnanna og því fannst okkur mæðgum tilvalið að fara í rólóleiðangur. Nökkvi fengi þá í leiðinni tíma til að læra án þess að hafa kvennaflóðið yfir sér.  Við byrjuðum á því að fara og kaupa sólhatt á Ylfu þar sem við gátum ómögulega þann sem hún hefur verið að nota hingað til, dularfullt mál en ég gruna gleymsku foreldranna um græsku. Ylfa valdi sér safari-legan hatt með Mínu mús mynd. Þar að auki sá hún kjól sem hún spurði hvort hún mætti fá og Iðunn fékk líka eina sumarlega flík. Að því loknu tölti ég í átt að matarbúð til að kaupa nesti, Ylfa sat í kerrunni og hélt fast í pokann með sumarkjólunum. Iðunn hékk í burðarpoka og smjattaði makindalega á kexi. Það var rosa gott veður og varla ský á himni. Skyndilega datt pokinn í jörðina og við nánari athugun bárust lágværar hrotur úr kerrunni. Það var svosem ágætt að talsmaður systranna var sofandi, búðarferðin var í það minnsta töluvert auðveldari en ella. Ylfa var vakin og send á klósettið á leiðinni út úr búðinni og svo var farið á róló. Það var margmennt á leikvellinum. Þarna var að finna tvennskonar kastala með rennibrautum og öðrum leikkostum ásamt nokkrum rugguhestum. Börnin nýttu þetta allt til fulls og nánast aldrei dauð stund í neinu af leiktækjunum. Iðunn er nýbyrjuð að stunda róluvellina og er full örugg fyrir minn smekk. Hún veður upp í stiga og rennibrautir sama hversu háar eða sleipar þær eru. Það tekur því á taugarnar að hlaupa á eftir henni og ég er ábyggilega orðin töluvert viðbragðsfljótari eftir þennan dag. Hún datt að vísu bara einu sinni á hausinn og það nánast á jafnsléttu svo það var nú ekkert svakalegt. Við flúðum heim eftir tveggja klukkutíma leik í sólinni og gormarnir ansi þreyttir, þrátt fyrir að hafa báðar fengið að lúra í kerrunni. Ég hafði samband við vinkonu mína til að athuga hvort hún vildi ekki eyða gæðastund með okkur mæðgunum daginn eftir, svona fyrst það væri enginn leikskóli. Hún svaraði um hæl og bauð okkur í grillpartý heima hjá sér á mánudeginum. Við þáðum það með þökkum enda alltaf velt því fyrir mér hvar konan ætti heima.
Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur. Börnunum var plantað í leikföngin og svo hraðþvegnar nokkrar vélar af þvotti og vaskað upp áður en við færum að heiman. Megumi á heima í Nishinomiya eins og við en þó að svo sé þurftum við samt að taka þrjár lestir til að komast til hennar. Einhvertíman hafði hún minnst á það að hún ætti heima upp í hlíðinni og það var það eina sem ég vissi. Þær Mary komu að ná í okkur á lestarstöðina sína. Ylfa varpaði öndinni léttar þegar hún sá vinkonu sína enda búin að bíða allan morguninn eftir því að við færum út. Megumi sagði að við þyrftum aðeins að keyra upp í móti, þá vorum við nú þegar búnar að vera að keyra upp halla frá því að við keyrðum frá lestarstöðinni. Brekkurnar urðu bara brattari og brattari því sem á leið. Ekki veit ég hvernig fólk þorir að fara á hjóli niður svona halla! Ég geri líka fastlega ráð fyrir því að keyrsla barnavagna sé ekki tíð þarna. Svo missti ég algerlega andlitið þegar hún benti mér á að margir af vegunum væru einbreiðir og ef maður mætti bíl sem væri á niðurleið yrði maður að bakka þar til að hinn bíllinn kæmist framhjá. Bökkunar hæfileikar mínir myndu ekki endast mér í hálfa mínútu. Við renndum í hlað fyrir framan hátt og fallegt hús. Hundarnir hennar fjórir tóku á móti okkur gjammandi og spenntir. Þeim var hinsvegar neitað um athygli og við smeigðum okkur inn í gegnum bílskúrinn. Brattar brekkur og enn brattari stigar. Mér var litið á Iðunni og augun ljómuðu yfir öllum klifurmöguleikunum. Ylfa hljóp á eftir vinkonu sinni og beint í flasið á pabba Mary. Þetta var í fyrsta skiptið sem við hittum hann svo hún var að sjálfsögðu raddlaus af feimni, það gleymdist þá snarlega þegar þeim var bent á að fara upp í herbergi að leika. Ópin og hlátrasköllin voru óborganleg. Þær heiðruðu okkur með návist sinni nokkrum sinnum yfir daginn en voru annars mjög duglegar að leika sér. Maðurinn hennar Megumi er alveg ágætis náungi og gaman að spjalla við hann. Iðunn gerði nokkrar atlögur að stigunum en var á endanum potað í burðarpokann aftur. Svo var grillað, nokkrar vinkonur hennar Megumi komu og borðuðu með okkur og rétt áður en við fórum skutu nokkrir unglingar upp kollinum í fylgd með syni Megumi. Maturinn var stórgóður og við stóðum á blístri. Þegar börnin voru að gera okkur svo heyrnarlaus með hrópunum og hlaupunum var kominn tími til að fara heim. Það var orðið dimmt úti og klukkan farin að ganga átta. Á leiðinni út í bíl slapp stærðarinnar padda inn um útidyrnar. "Megumi, það komst padda inn á eftir þér" sagði ég sakleysislega. Hún snéri sér við og hoppaði snarlega upp á skörina. Sparkaði af sér skónnum, greip skó af syni sínum og stappaði á kvikindinu. Svo stóð hún sem fastast. Mary kom og spurði hvað hún væri að gera svo hún sýndi henni hvað leyndist undir skónnum. Barnið æpti, enda ekki fögur sjón. Þá kom stóri bróðir hennar hlaupandi og var afar hneikslaður á móður sinni að hafa þurft að nota sína skó í þetta ódæði. Drengurinn er í skóstærð 48 í íslensku númerunum á meðan móðirin er með lítinn og nettan fót. Ef ég hefði ábyggilega kostið skónna hans Nökkva framyfir mína í svona verk. Við vorum ekki fyrr komin út þegar andyrið gekk í bylgjum aftur. Þá hafði drekinn vaknað úr rotinu og sloppið undan skónnum. Heimilisfaðirinn var sendur í verkið og meira sáum við ekki, enda komnar út í myrkrið. Við fengum far með vinkonu Megumi og vorum töluvert fljótar að komast heim í samanburði við ferðalag dagsins. Við keyrðum meira að segja í gegnum skólasvæðið hjá Kwansei Gakuin.
            Núna standa yfir foreldrafundir í leikskólanum þar sem kennarinn fer heim til barnanna eftir hádegi og spjallar við foreldrana. Okkar viðtal er ekki fyrr en 14. maí en þangað til er skólinn alltaf búinn klukkan tólf og ekkert nesti því tekið með. Í gær þurfti Ylfa að mæta í íþróttafötunum í skólann. Ef ég skil þetta rétt þá eru íþróttir í fyrsta tíma á þriðjudögum, það er skuggalega krúttlegt að sjá þau öll safinast saman í eins lituðum stuttbuxum og hvítum (girtum) bolum.
           Ég var trufluð í skrifunum áður en ég náði að klára og beðin um að byggja hús. Skelli því inn nokkrum myndum með þar sem ég man ekki hvað ég ætlaði að segja meira.

Á brokkolí veiðum

Klifurapi

Krúttgormur með leikfang

Á róló, það var miklu skemmtilegra en myndin gefur til kynna.

Ta-daaaah

Mary var aðeins viljugari til að láta taka mynd af sér. Ylfa var að elda og mátti ekki vera að þessu veseni.

Ó hæ!

Knús og grettur

Byggingameistarar heimilisins vippuðu þessum kofa upp í stofunni
-Jóhanna



No comments:

Post a Comment