Thursday, May 23, 2013

Hanshin Keibachou

Í gær fórum við með leikskólanum í lautarferð. Þetta var ekki bara hvernig lautarferð sem er heldur með hesta þema. Ég er lengi búin að vera að velta því fyrir mér hvort að japanskir hestar væru hávaxnir (ekki að það sé ekki auðvelt að virka hávaxinn í kringum smávaxið fólk) en hafði bara séð örfáa hesta í fjarska. Hanshin Keibachou er s.s. staður þar sem kappreiðar og ýmiskonar öðruvísi hesta samkeppnir fara fram. Tæknilega séð er þetta í öðru bæjarfélagi en tók okkur ekki meira en 25 mínútur að labba þangað. Hefði meira að segja verið hraðskreiðari ef Ylfa hefði ekki verið nývöknuð og annars hugar, en hún er svosem alltaf annars hugar. Það er einnig hægt að hoppa upp í lest og stökkva út á næstu stöð frá okkar stöð en mér fannst það vera alger fásinna að eyða pening í lest þegar ég gæti lært nýja gönguleið þökk sé félaga mínum, google maps. Við mættum akkurat mátulega til þess að heyra kynninguna á starfsfólkinu og upplesturinn á dagskránni, sem við skildum reynar ekki en fengum útskýringu á síðar þökk sé enskumælandi mömmu í hópnum. Öllu liðinu, börnum og mömmum, var smalað upp í áhorfendastúku og reynt að skipta hópnum niður eftir bekkjum á meðan að mömmurnar bröltu upp í efri sætin í stúkunni og reyndu að hafa hemil á hverjum grísling fyrir sig. Þegar allir höfðu fengið sér sæti kom stelpa stikandi inn á völlinn og á eftir henni stærðarinnar hestur með knapa. Þannig að já, japanskir hestar eru stórir. Stelpan reif upp hljóðnema og hóf að kynna knapann og hestinn og spyrja krakkana ýmiskonar spurninga, hvort þau hefðu einhvertíman farið á hestbak, hvort þau vissu hvað hestar væru með margar tær og ýmislegt fróðlegt. Krakkarnir voru að tryllast úr spenningi að fá að sjá hvaða kúnstir hesturinn kynni. Fyrst byrjaði knapinn á að láta hestinn rölta framhjá stúkunni og hópurinn fylgdist hugfanginn með. Svo sneru þeir við og komu á harðaspretti framhjá þannig að rykið þyrlaðist upp á vellinum og áhorfendur fögnuðu ógurlega. Kynnirinn kom með fleirri staðreyndir um hesta og spurði hvort að einhverjum langaði til að sjá hestinn stökkva yfir hindranir. Stangir voru stylltar og hesturinn kom sér fyrir, tók svo á rás og stökk fimlega yfir. Þau hækkuðu stangirnar nokkrum sinnum og þegar stangirnar voru komnar upp í 130 cm var loftið þrungið spennu. Hesturinn fór að sjálfsögðu auðveldlega með stökkið og stúkan hristist og skalf af fagnaðarlátum. Svo þökkuðu þau fyrir sig og hópurinn teymdur út og inn í garð handan við nokkur hesthús. Bekkurinn hennar Ylfu byrjaði í myndatöku og fengu svo að klappa fagurlega skreyttum smáhestum. Iðunn var mjög spennt yfir þessum krílum og var við það að pota upp í nefið á öðrum þeirra. Hún var þó stoppuð í tæka tíð og dregin til hliðar meðan leikskólabörnin klöppuðu varlega á kollinn á hestunum. Að því loknu var tekin klósettpása og fundinn staður til þess að borða nestið á. Það voru fleirri leikskólar en Nigawa þennan daginn, ég held ég hafi talið fjóra eða fimm mismunandi hópa. Krökkunum var sleppt lausum á meðan mæðurnar plöntuðu töskum og teppum á jörðina í kringum stórt og fallegt tré. Það var himneskt að komast í skuggann og ekki amalegt að fá sér í svanginn. Ylfa rétt mátti vera að því að borða og var svo komin á hlaup með félögum sínum. Iðunn átti sér stóra drauma um að elta systur sína og varð heldur betur pirruð þegar henni var troðið ofan í kerru til að leggja sig.  Hún sat þar með súldarsvip í nokkrar mínútur en lét svo eftir móður sinni og sofnaði. Það var ekki margt sem gerðist meira fólk borðaði og skiptist á að elta grísina um svæðið og gæta þess að þau yrðu sér ekki að voða. Svo var kveðjustund og allir héldu í sitt hvora áttina. Eftir smá stopp til að kaupa drykki og íspinna héldum við mægður heim á leið. Ylfa var þreytt og ringluð eftir labbið í sólinni og var send inn í herbergi að leika eftir að frekukast olli áflogum milli systranna. Þar sofnaði hún og vaknaði ekki fyrr en pabbi hennar kom heim. Það fyrsta sem hún kom út úr sér var að hesturinn hafði hoppað.

systurnar að fíflast að venju, Iðunn komin með hattinn hennar Ylfu

Ég og grísirnir... já ég var með Iðunni í beisli til vonar og vara

Prógrammið að byrja

Fallegur hestur

Einn, tveir og hoppa!

"Sko! Einn í minni stærð"

Biðraði og spennandi smáhestar

Hestarnir voru með fastarfléttur og blómaskraut í faxinu. Það þótti ansi flott.

Tampopo gumi/ Dandelion group/Fífla hópurinn ... örlítið niðrandi á íslensku

Systurnar að kallast á

Ylfa krafðist þess að fá mynd af sér við símaklefa

Iðunn beið hálf óþolinmóð í kerrunni á meðan


Úúúúú...

-Jóhanna

5 comments:

  1. Það lítur út fyrir að vera heitt, of heitt. Ég er hættur við að koma.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Engar hótanir! Ég er búin að lofa spenntum japönskum mæðrum að þær fái að sjá íslenskan strák. Þú sendir okkur þá bara Fannar :P

      Delete
  2. Já við þurfum að fara að huga að mega sumarfötum fyrir Fannar! btw..þá held ég að ég verði verst í þessum hita. Kv.Vampýran

    ReplyDelete
  3. Eða hvað? http://www.japan-guide.com/e/e2277.html Við "neyðumst" þá bara til að versla og hanga í karaoke

    ReplyDelete
  4. Sætir kálfar, og stórglæsilegur hestur.
    Ástarkveðjur frá svala Fróni.

    Fjölskyldan á Gullhömrum.

    ReplyDelete