Friday, May 17, 2013

Sólbrúnar tær

Það mætti halda að japönsku veðurguðirnir kynnu ekki á alveg á stillingarnar. Í vetur var ansi kalt á köflum og svo loksins kom vorið með birtu og hlýja daga. Undursamlega þægilegt veður í svona tíu daga. Nú er alltof heitt og það mun bara verða heitara það sem eftir er af dvölinni hér í landi.
        Ég hef alltaf verið næpu hvít en viti menn, núna er ég orðin útitekin, með far eftir úrið og tvær eða þrjár freknur á nefinu. Ég get ekki beint hangið inni á daginn því það þarf að koma Ylfu í leikskólann og Nökkvi er ekki í aðstöðu til þess að hjálpa til í þeim efnum þar sem tímarnir hans skarast á við komu- og brottfarartímann í leikskólanum. Þetta þýðir að tvisvar á dag þurfum við Iðunn að fylgja Ylfu upp og niður brekkuna til Nigawa. Iðunn situr gjarnan í kerru með góðum sólskerm sem hún dregur iðulega frá, einmitt þegar ég læt mig dreyma um smá skugga og huggulegheit. Við erum komnar með Ylfu á leikskólan rétt fyrir 9 og fylgjumst með henni fara í inniskónna, ganga frá útiskónnum og að lokum kveðjum við hana áður en hún hleypur inn með töskuna sína og vatnsbrúsann. Þá er klukkan orðin 9 og við sennilega búnar að vera vakandi í rúma 3 tíma því að Iðunn er enn staðráðin í því að 6 um morgun sé ásættanlegur tími til að vakna á. Ég gríp gjarnan tækifærið og rölti í matarbúðina, það er vissulega auðveldara að versla svona einum grísling færri. Það tekur okkur um það bil 25 mínútur að komast í búðina, þ.e.a.s. ef við stoppum ekki til að kaupa vatn og nasl á leiðinni. Við verslum og Iðunn snýkir sér morgunkaffi, yfirleitt djús og bananabollu. Á meðan að ég raða í pokana maular litli grísinn á fengnum og hefur það huggulegt í kerrunni. Við röltum heim og ég pirra mig yfir ískrinu í vinstra framhjólinu og spái í því hvar ég geti fengið WD-40. Við komum heim og þá höfum við tíma til að þvo þvott, dæsa yfir uppvaskinu sem enginn nennir að gera, kubba, suða út eina jógúrt og jafnvel leggjum okkur aðeins til að jafna svefnleysi morgunsins. Við þurfum að ná í Ylfu klukkan tvö alla daga nema föstudaga því þá er leikskólinn búinn um hádegi. Iðunn vaknar spræk og ég hengi út þvottinn úr vél númer tvö út í túrbó blíðuna. Ég spyr hana hvort við eigum að ná í Ylfu og hún hleypur flissandi fram að ná í skónna sína. Við förum fram á stigagang og ég bið hana um að bíða því ég þurfi að læsa. Svo bröltum við niður stigann og Iðunn gerir enn eina tilraunina til að samfæra mig um að hún ætli að labba sjálf. Ég lít á klukkuna og reikna sama reikningsdæmið í milljónasta skiptið "Hvað er ég lengi að labba þangað ef ég er með Iðunni í kerrunni". Á meðan ég reikna í huganum allar hliðargöturnar og stigana á leiðinni treð ég Iðunni, mjög ósáttri, í kerruna og smelli beltinu. Svo hlaupum við út og í átt að leikskólanum. Fyrst að Iðunn fær ekki að labba krefst hún þess að fá að vera berfætt í kerrunni og hallar undir flatt með tærnar upp í loftið. Þetta hefur orðið til þess að hún er orðin vel útitekin á tánnum, það viðurkennist líka alveg að ég man ekki alltaf eftir að bera sólarvörn á tærnar á henni (hvað þá að hafa brúsa í töskunni af sólarkremi, sem ég ætti að gera en man aldrei). Við komum á lóðina hjá leikskólanum og bíðum eftir tilkynningunni í kallkerfinu að nú megi fara að ná í krakkana. Ylfa spottar okkur og systurnar fallast í faðma eins og þær hafi ekki sést í marga daga/vikur/mánuði/ár. Svo er suðað um að fá að "leika smá" á leikvellinum. Þegar ég er svo við það að grillast lokka ég þær heim með loforði um kexköku eða svalafernu sem ég hef laumað í töskuna áður en ég fór út. Ylfu hefur svo verið talin trú um það að ekki megi vera með mat á skólalóðinni (held reyndar að það  séu ekki neinar ýkjur hjá mér) þannig að við verðum að fara út um hliðið ef hún ætli að fá eitthvað að borða. Svo förum við heim og Ylfa réttir mér mest allt dótið sitt því henni er of heitt til að halda á því öllu. Við löbbum eftir kúnstarinnar reglum heim til að forðast mestu umferðargöturnar og vinnuvélar hjá húsum sem er ýmist verið að rífa eða byggja. Svo komum við loksins heim. Ég í svitabaði, Iðunn sólbrún á tánnum og Ylfa í stuði til að horfa á teiknimyndir.
Systur í dótakassa

Eðlilegra gerist það ekki

Þetta barn er nú meiri álfurinn 

Ylfa í myndavélastuði
-Jóhanna

No comments:

Post a Comment