Ó, frelsið! Við erum búin að vera undir ógnarvaldi sumarkvefsins síðustu eina og hálfu vikuna. Nökkvi féll fyrstur og svo ég á eftir. Ég arkaði út í apótek og keypti mér lyf til að stöðva þennan óskunda hið snatrasta. Ég stakk upp á því að Nökkvi gerði það líka en hann var bjartsýnn og sagði að hann héldi að þess væri nú ekki þörf. Svo fór kvefið hans úr hausnum og ofaní háls. Svo hann hefur verið í hitasvalli og hóstakasti síðan. Það hjálpar reyndar ekki að það er frekar heitt í íbúðinni svo stundum er erfitt að greina á milli hvort maður er með hita eða bara að grillast útaf hitanum úti.
Á sunnudaginn fyrir viku síðan byrjuðum við Ylfa daginn á því að byrla henni eitur í formi appelsínusafa sem hafði staðið opinn of lengi. Það endaði í uppköstum, ópum og óumbeðnum þvotti á sófanum og barninu sjálfu. Hún var í sjokki eftir gubbið og sturtuna og skreið eiginlega bara upp í rúm til Nökkva og dólaði þar að horfa á teiknimyndir. Hún var líka svolítið tuskuleg og um kvöldmatarleitið var orðið ljóst að hún var komin með hita og hor. Við Iðunn stóðum enn en þurtum nú að horfa upp á sveitt og þreytt feðgin.
Miðvikudagsmorguninn ákváðum við að fara út úr húsi og hitta Megumi og Fumiku í bröns. Það var eins og hellt úr fötu og erfitt að komast á milli hússins og bílsins án þess að vökna. Við skelltum okkur í verslunarmiðstöð í næsta bæjarfélagi. Iðunn hafði leikfélaga þar sem Fumika tók guttan sinn með sér. Þau léku á leiksvæði í smá stund og gæddu sér svo á kleinuhringjum og mjólkurdrykk eftirá. Við kíktum í nokkrar búðir og enduðum inn í gæludýrabúð þar sem fjöldinn allur af hvolpum og kettlingum ýmist kúrðu eða léku sér í búrum. Við mömmurnar vorum að tryllast úr krútti og Megumi sem á nokkra hunda fyrir varð yfir sig hrifin af enn einum hvolpinum. Krakkarnir voru líka mjög hrifnir af kisunum og hvolpunum. Það er þó óhætt að fullyrða að hrænræktuð dýr eru ekki ódýrari hér frekar en annarstaðar. Það er víst líka snobbað mikið fyrir ættbókarfræðinni bakvið hvolpana, sagði Megumi mér. Flottari ættin - dýrari hvuttinn. Og ef hann selst ekki strax þá fellur hann í verði eftir aldri. Dýrin þarna voru alls ekki svo stálpuð svo ég vona að forverar þeirra hafi allir fengið heimili, almættið verður að afsaka en mér finnast svona dýrabúðir alltaf svolítið krípí. En allavega! Miðvikudagskvölinu eyddi ég í japönskutíma, síðasta tímanum af þeim toga í bili. Við í bekknum ákváðum að skella okkur út að borða eftirá til að fagna "útskriftinni". Við fengum meira að segja skjal til að staðfesta að við hefðum stundað kvöldnámskeiðið, sumir fengu meira að segja hrós fyrir afbragðs mætingu (hohoho). Þegar ég hinsvegar kom heim var nokkuð ljóst að Iðunn hafði orðið fyrir kvefpúkanum og átti erfitt með að sofna. Hún er búin að eiga almennt mjög erfitt með að sofa í þessum veikndum en þess í stað hefur hún vilja sitja í fanginu á forledrum sínum linnulaust og kúra upp í sófa með teiknimyndir í gangi. Safakaup heimilisins hefur líka margfaldast þar sem þorstinn er meiri en matarlystin.
Á fimmtudaginn stungu vinir okkar upp á því að við færum á laugardeginum saman til Arashiyama sem er í/við Kyoto (?) og leigðum okkur kimono eða yukata. Svo gætum við skoðað okkur um og endað daginn með stjörnuljósum og kvöldmat. Okkur langaði auðvitað báðum að fara en ég var svartsýn á að stelpurnar yrðu orðnar góðar fyrir laugardaginn. Ylfa hafði þá verið hitalaus yfir daginn og var nógu hress til að lumbra á systur sinni nokkrum sinnum þegar henni þótti hún vera farin að stela athyglinni full mikið. Nökkvi, Hr.Bjarstýnn, sagði að við skildum allavega segja að við myndum koma og ef allt færi á versta veg gætum við hringt á laugardagsmorguninn og látið vita.
Föstudagurinn leið og Iðunn var enn með hita, reyndar mjög leiðinlegan hita sem gekk upp og niður yfir allan daginn. Ylfa var orðin vel hress en fór ekki í leikskólann af ótta við að henni myndi slá niður. Um föstudagskvöldið var svo ákveðið að við Ylfa myndum að minnsta kosti fara. Mér tókst að plata vesalings Jón til að vera samferða okkur og við mæltum okkur mót næsta morgun.
Laugardagsmorguninn rann upp og Ylfa var hitalaus og til í slaginn. Iðunn var enn með hita og Nökkvi var sjálfur mjög þreyttur. Mér datt í hug að það væri krúttlegt að klæða okkur Ylfu í stíl, rauðar buxur og svarta boli. Það var vissulega krúttlegt þangað til við hittum Jón, sem var líka í rauðum buxum og svörtum bol. Þessi samsetning vakti þó lukku hjá hinum ferðafélögum okkar sem fannst þetta ekki lítið fyndið. Við hittum Moe, Jun og Arisu í Arashiyama. Þar fórum við á kimono/yukata leigu og völdum okkur dress fyrir daginn. Ég valdi mér hvítan yukata með fjólubláum fiðrildum en Ylfa fékk bleikan yukata með hvítum kanínum og gulum blómum. Litla dýrið mitt alveg ljómaði af gleði þegar hún var komin í fötin og búið að setja upp á henni hárið með fallegu skrauti. Fyrst ætlaði hún reyndar ekki að trúa að hún mætti fara í svona fín föt en var ekki lengi að henda kinka kolli þegar konan spurði hvort Ylfa vildi fá hann lánaðann. Eftir að við vorum öll tilbúin var okkur skutlað inn í bæ svo við þyrftum ekki að labba óralengt, það skal tekið fram að maður getur ekki beint tekið stór skref í svona klæðnaði.
Fyrst á dagskrá var lestarferð í útsýnislest. Það var mjög fallegt að keyra um fjöllin og horfa á ánna hlykkjast fyrir neðan. Það var líka fullt af fólki að veiða eða sigla um ánna. Fjöllin eru skógivaxin og Moe sagði mér að það þætti líka mjög vinsælt að koma þarna á haustin til að sjá haustlitina. Við komum sömu leið til baka og röltum af stað í leit að mat. Ylfa vildi bara ís, enda mjög heitt úti, en við hin fengum okkur núðlur. Ég smakkaði soba núðlur, þær smökkuðust óskaplega vel bornar fram kaldar með heitu grænu tei og súpu sem maður dýfir núlunum í áður en maður gæðir sér á þeim. Við kláruðum að borða og trítluðum svo yfir á svæði þar sem voru nokkur lítil altari og svo hefðbundinn japanskur garður (af gamla skólanum). Áður en við vorum komin úr dyrunum á veitingastaðnum vorum við soppuð af konu sem spurði hvort hún mætti fá mynd af sér með Ylfu. Ég sagði að það væri í lagi en hélt í hendina á Ylfu. Ylfa var hinsvegar ekki jafn til í sprellið og ég veit ekki hversu vel myndin heppnaðist fyrir vikið. Svo fórum við og skoðuðum áður nefnd altari. Þegar við fórum þaðan vorum við stoppuð af hóp af fólki sem bað líka um mynd með Ylfu. Nú var hún hinsvegar til í slaginn með sólhlíf og góða skapið. Mér finnst þetta samt alltaf svolítið súrrealískt en hún er jú voða krúttlegur krakki að mínu mati, ekki að ég sé hlutlaus. Eftir að módelstarfinu var lokið fórum við keyptum okkur ís. Á leiðinni keypti Ylfa minjagrip handa sér og Iðunni. Litlar kanínur úr kímónó efni. Svo héldum við aftur til hjónanna með kimonoleiguna. Það er rosalega fallegt um að litast í Arashiyama enda mikið af trjám og falleg áin sem rennur þar í gegn. Fólk var yfir höfuð mjög afslappað og allir í sumarskapi.
Svo héldum við heim til Jun. Þar borðuðum við kvöldmat, meiri núðlur, spjölluðum og borðuðm góðgæti. Þegar það var orðið nógu dimmt úti trítluðum við út á róló og kveiktum á nokkrum stjörnuljósum. Ylfa var ekki neitt hrædd en fólkið sem stóð næst henni var tvístígandi og til búið að hlaupa þegar hún snéri sér snarlega að þeim. Stjörnuljósin voru þó mjög skammlíf svo við komum okkur aftur upp í íbúð, borðuðum ís og héldum síðan heim á leið. Moe var svo ágæt að vera samferða okkur svo ég hafði félagskap í lestinni meðan Ylfa hékk hrjótandi í fanginu á mér. Við vorum svo komnar inn um dyrnar heima klukkan tólf þar sem Nökkvi tók á móti okkur.
Í dag höfum við ekki gert margt af okkur. Þvegi þvott aðallega, ég skapp út í búð og nú eru stelpurnar loksins að leika sér. Þá er bara að krossa putta og vona að það endist í nokkrar mínútúr enn.
Aðeins að kitla barnið
Ótrúlega "kúl" í rauðu buxunum og svörtu bolunum/peysunum
Arisa og Jun að lóðsa Ylfu um í lestinni
Upprunalega fengum við lánað hárskraut í kimono leigunni en þegar við vorum að fara ákvað konan að gefa Ylfu skrautið sem hún hafi haft í hárinu yfir daginn. Afskaplega fallega gert henni.
Ég skrifaði líka á einn óska miða. Þetta þarf samt ekki að gerast alveg strax, förum fyrst aðeins heim til Íslands.
Ylfa heima hjá Jun
Arisa að hjálpa Ylfu sem var strax alveg yfir sig hrifin
-Jóhanna