Sunday, June 23, 2013

Allt fyrir nefið, bæði gleraugu og kvef

Ha,ha verum svolítið villt á þessu og bloggum aftur þrátt fyrir að hafa bloggað fyrir tvemur dögum síðan.
        Í gær lét ég verða að því og þrammaði inn í gleraugnabúð sem ég hef lengi vel horft löngunar augum á. Eftir að hafa trítlað kringum sama borðið nokkrum sinnum og dáðst af varningnum ákvað ég að spyrja starfsmanninn hvernig þeir færu að því að segja til um hversu dýr gleraugun væru þegar það væri búið að taka glerið sjálft inn í reikninginn. Meina þannig eru þeir á Íslandi, umgjarðirnar kosta x og svo glerið í þau y. Hann horfði á mig blákaldur og sagði að verðmiðinn á gleraugunum stæði fyrir sjónglerið líka. Ég missti andlitið og hann sprakk úr hlátri þegar ég sagði að ég tryði honum ekki. Ég flýtti mér að ná í sjónmælinguna mína í veskið og spurði hvort að það gengi að nota kortið sem ég hafði fengið í Prooptic í Kringlunni. Það var ekkert mál. Á þessum tímapunkti var ég hætt að spá í því hvort mig væri að dreyma og spurði hvort ég mætti máta nokkrar umgjarðir. Það var sjálfsagt mál svo ég tók Iðunni, sem neyddist til þess að fara í búðina með mér, setti hana á gólfið og fór að gramsa á borðinu. Meðan að ég mátaði hljóp Iðunn um og á endanum var hún kominn með starfsmann á eftir sér í gæslu. Það er leiktækjasalur við hliðiná búðinni og þar leiddust þau og skoðuðu í klóarvélar, alltaf þó í augsýn. Ég náði að þrengja leitina niður í tvö pör og fór svo og náði í landkönnuðina. Afgreiðslumaðurinn skrifaði niður upplýsingarnar af kortinu og svo þurfti ég að fylla inn nafn og heimilisfang. Að því loknu sagði hann að ég mætti velja hvor gleraugun ég fengi afhent í dag en hitt parið mætti ég ná í á þriðjudaginn. Það er vanalega nokkra daga bið eftir gleraugunum heima svo að ég var aftur alveg gapandi. Svo fengum við kvittanirnar okkar og upplýsingar um hvenar við mættum ná í gleraugun.
Við versluðum í matinn og ráfuðum aðeins um búðina áður en við snérum aftur klukkutíma síðar til að fá gleraugun afhent. Þetta var allt saman frekar frábært. Mér reiknaðist til að bæði gleraugun saman hafi kostað 8505 íslenskar krónur. Gjöf en ekki gjald sagði einhver einhvertíman.
         Þegar við komum heim lág Ylfa sofandi í sófanum en kvefaður Nökkvi sat við tölvuna, vafinn í teppi. Ylfa var vakin en mikil ósköp sem augun voru glær. Við nánari athugun komumst við að því að hún væri komin með hita og færi þar afleiðandi ekki í leikskólann. Að minnsta kosti ekki fyrr en hitinn væri farinn. Hitinn var aðeins lægri um miðnætti þegar hún var dregin auka ferð á klósettið. Við áttum til sniðugann plástur sem virkar eins og kaldur bakstur svo hún fékk einn slíkann á ennið og hitalækkandi með. Svo svaf hún eins og steinn í alla nótt. Ég mældi hana núna í morgunsárið og þá var hitinn farinn en hún er enn að sjúga upp í nefið og hóstar smá. Það er víst betra að ná þessu úr sér sem fyrst svo ég hringdi í leikskólann til að láta vita. Það gekk eins og í sögu. Ég var svo montin að ég vakti Nökkva til að segja honum frá þessu glæsilega samtali. Miðað við það að hafa ekki geta búið til setningar á japönsku þegar að við komum þá er ég hrykalega stolt af sjálfri mér og mun hreikja mér af þessu það sem eftir er æfi minnar.
        Það stefndi þó í smá sorg í gærkvöldi þegar Ylfa áttaði sig á því að hún fengi ekki að mæta í fyrsta sundtímann. Við fórum nefninlega á laugardaginn og keyptum sundbol, sunhettu og handklæði fyrir sundtímana sem byrja í dag. En jafnvel þó hún missi kannski af þessari viku þá eru fjórir tímar í næstu viku sem hún nær og svo einn í vikunni þar á eftir, það er ekki öll von úti enn. Sorgin var svo hrakin á braut þegar við föttuðum að hún ætti dúkkulísulímmiða sem hún hafði keypt um daginn en aldrei opnað. Nú situr hún inni og límir allskonar föt á dúkkurnar og skammast í Iðunni sem sýnir þessari starfsemi lítinn skilning, enda meira fyrir að plokka límmiða af heldur en að setja þá á nokkuð. Það verður fjör að halda þeim inni í dag. Eins gott að eiga nóg af litum og límmiðum til að geta haldið þeim uppteknum í að minnsta kosti viku.
Á morgun borgum við leiguna fyrir síðasta mánuðinn okkar í þessari íbúð. Svo borga ég síðasta leikskólamánuðinn á föstudaginn og þá fer listinn yfir hluti sem þarf að borga að styttast all verulega. Mögulega netið og ragmagns-/vatnsreikningur eftir.
       Bara mánuður í að við komum til Íslands, mánuður mínus dagur þar til við leggjum af stað!

No comments:

Post a Comment