Saturday, June 1, 2013

Júní - júlí - heim

Það er heldur betur farið að sjást í annan endann á japansdvölinni okkar. Eftir að ég hafði rækilega tekið Nökkva á taugum með því að vera sjálf að fara á taugum létum við vaða í gær og keyptum flugmiða heim. Mér finnst skuggalega gaman að geta svonalagað út af "to do" listanum. Við eigum eftir að pakka töluvert í viðbót ofan í kassa, dót sem verður sent sjóleiðina svo við séum ekki með yfirþyngd aldarinnar í fluginu. Það eru alveg heilir þrír kassar tilbúnir en mig grunar að ég þurfi að kaupa annað eins til viðbótar til að við náum að pakka öllum útvöldu eigum okkar. Ó svo spennandi! Hlakka til að heyra íslensku talaða á hverju horni. Við fáum heila viku af íslenskum júlí (komum 24/7)
      Í öðrum fréttum er það að Nökkvi fékk staðfest að hann væri kominn inn í masterinn í bókmenntafræðinni. Það er gaman. Líka gaman að geta strikað það út af öðrum "to do" lista. Nökkvi er einn af þeim sem langar, að því er virðist, til þess að læra allt. "To do" listinn hans gæti því eiginlega bara verið listi yfir námsgreinar í hugvísindasviði. Ég gæti mögulega verið að ýkja en þannig upplifi ég hann stundum.
      Ylfa er alltaf á leikskólanum. Henni finnst einstaklega gaman að vera þar, búin að eignast góðar vinkonur og dáir kennarann sinn. Á miðvikudaginn var fengum við Iðunn (og aðrar mæður og systkyni) að kíkja í heimsókn í leikskólann. Sjá hvað þau væru að bralla dags daglega og almennt fylgjast með krúttlegheitum. Það var ekki annað að sjá en að Ylfa skemmti sér vel, hló mikið og fíflaðist með vinkonum sínum. Þau byrjuðu á því að vera í frjálsum leik en eftir smá stund af því var allt liðið sent í klósettleiðangur og stólum raðað fyrir mæðurnar sem voru í heimsókn. Þá komu krakkarnir inn og byrjuðu á því að hita upp með því að syngja með upptöku af nokkrum Anpanman lögum. Svo var lesið upp og allir þurftu að rétta upp hendi og segja "hai/já". Það var með eindæmum sætt þar sem sumir voru pínu feimnir í kringum gestina. Svo var sungið, dansað og sunginn afmælis söngur fyrir einn drenginn. Hann stóð hjá kennaranum og brosti eyrnanna á milli og mæðurnar ætluðu alveg að falla í yfirlið yfir því hvað hann væri sætur og feiminn þegar kennarinn þóttist vera að taka viðtal við hann í gervi hljóðnema. Þegar þessu var lokið var okkur tilkynnt að heimsókninni væri lokið. Þar sem það var rigning úti færu börnin ekki út að leika í dag heldur fengju auka frjálsann leik inni áður en þau fengju morgunhressingu og héldu áfram með daglega prógrammið. Við kvöddum og héldum heim. Daginn eftir kom svo seinni helmingurinn af mæðrunum í heimsókn, vinkona mín sendi mér skilaboð um kvöldið þar sem hún var enn að farast úr krútti eftir heimsóknina.
     Á föstudaginn var svo haldin afmælisveisla í leikskólanum fyrir börn fædd í apríl og maí. Ylfa byrjaði reyndar daginn á því að detta illa fyrir framan leikskólann. Við skjögruðum með hana alla útskrámaða að leikskólanum og fengum hjálp hjá einum kennaranum hennar við að þrífa sárin og plástra það sem plástra þurfti. Hún stóð sig mjög vel en þurfti samt smá knús og hughreystingu áður en hún fór inn. Það var líka ekki verra að vita af því að það væri kaka í morgunhressingunni svo hún gaf mér merki um að ég mætti fara. Eftir að hafa lagt mig með Iðunni, sem er farin að vakna núna yfirleitt um fimm leitið (ekki gott, fólk, ekki gott), fórum við og náðum í Ylfu. Kennararnir sögðu að hún hefði verið mjög hljóðlát og róleg. Hún vildi ekki leifa þeim að skipta um plástur á hnjánnum og var mjög varkár þegar krakkarnir voru að spyrja afhverju hún væri með plástra. Ég ákvað að gleðja hana með því að fara í skólann til Nökkva og ná í hann svo við gætum labbað öll saman. Það vakti gleði og lukku hjá gríslingnum. Við fórum og fundum Nökkva, löbbuðum svo saman að lestarstöðinni okkar og fengum okkur hádegismat áður en ég stakk af í síðasta föstudagstímann minn í Satou-san. Ég sá Nökkva útundan mér labba með Iðunni á bakinu, skólatöskuna framaná sér, töskurnar hennar Ylfu í annari hendi og að lokum Ylfu í hinni.
         Ég byrjaði í japönsku tímunum mínum í byrjun desember 2012. Borgaði þar 2000 yen fyrir sex mánuði, einn tíma í viku. Þetta er kennsla sem er rekin af sjálfboðaliðum og því allskonar fólk sem er að kenna. Ég er svo óendanlega ánægð að hafa fengið kennarann minn, hana Satou-san. Hún er svo ótrúlega yndæl og hjálpleg. Svo skaðar ekki að hún er mjög fyndin og skemmtileg. Þökk sé henni fékk ég t.d. að fræðast um hinar ýmsu hátíðir og siði hérna. Eitthvað sem ég hefði geta leitað að á netinu en sennilega ekki geta fengið jafn skemmtilegar skýringar á. Við vorum báðar hálf klökkar þegar leiðir skildu, ég færði henni heimabúið kort og hún gaf mér ótrúlega sætt kokeshi bento box. Ég fékk líka heimilisfangið hennar svo ég gæti sent henni póstkort þegar ég er aftur komin heim til Íslands. Nú á ég bara eftir hóptímana í japönsku og þeir eru búnir í lok júní.
        Í gær þurfti Nökkvi að læra fyrir skólann. Hann stakk því af upp í skóla til þess að skrifa ritgerð í þeirri von að honum myndi miða eitthvað áfram. Við stelpurnar erum án efa svolítil hraðahindrum fyrir námsmanninn Nökkva. Skil það líka vel að honum langi frekar til að hanga með okkur, tíhí. Hann var nú samt nógu almennilegur til þess að leifa mér aðeins að leggja mig áður en hann hvarf upp í skóla. Eins og ég hef áður minnst á þá er Iðunn ansi morgunhress. Of morgunhress fyrir mína parta. Ég er líka of góðu vön þar sem að Ylfa fékkst alltaf til þess að sofa til átta (í minnsta lagi) um helgar. En nei, Iðunn er vöknuð upp úr klukkan fimm á morgnana núna. Það þýðir að þegar ég loksins kemst upp í bæli á kvöldin á milli ellefu og tólf veit ég nokkurnvegin að ég á 5 til 6 tíma framundan áður en það er kominn fótaferðatími hjá litla dýrinu. Ylfa þarf svo hjálp við að gera sig til fyrir leikskólann og svo fylgjum við henni upp að skólastofunni hennar. Við erum komnar heim korter yfir níu, þ.e. ef við ákveðum að fara strax heim en ekki fyrst í matarbúð. Þá er litla frökenin orðin nógu þreytt til þess að taka fyrsta lúrinn sinn og þá er ansi freistandi að sofna sjálf upp í rúmi hjá hnoðranum. Það er því ekki margt sem ég geri milli níu og ellefu annað en að liggja og hrjóta. Bæti bara upp fyrir það með fleirri þvottavélum og meira uppvaski eftir leikskóla. Ylfa hefur oft áhuga á því að nota tölvuna hvort sem er, til að horfa á dvd, þannig að maður er "neyddur" í að snurfusa aðeiðns í kringum okkur.
       Í dag mætir Ylfa mögulega í sunnudagaskóla ef ég næ að tala Nökkva til. Ég ætla nefninlega að leggja mig með Iðunni, fá smá jafnrétti á svefn-/foreldraskalann.

- Jóhanna

1 comment:

  1. Við hérna heima á Fróni teljum vikurnar með ykkur. > 7 <

    ReplyDelete