Nú er regntímabilið svo sannarlega skollið á. Fyrst um sinn virtist það ekki ætla að standa undir nafni svo gróður og skepnur voru alveg að skrælna úr hita. Svo heyrðust fregnir af því að lægð væri að nálgast svæðið okkar og það færi þá sennilegast að rigna. Nú er búið að rigna í þrjá daga stanslaust. Allar tegundir af regni: litlir dropar, stórir dropar, rigning sem virðist falla í stríðum straumum og rignin sem er svo gisin að það er hægt að labba framhjá dropunum án þess að vökna. En aðallega samt sú sem rennbleytir allt og alla. Ylfa hefur því farið í leikskólann í fullum herklæðnaði síðan að regnið byrjaði. Bleik stígvél, rauð regnkápa með hvítum doppum og regnhlíf með kanínueyru. Það virðist halda henni þurri sem er gott en regnið hægir óneitanlega á henni. Það þarf að stíga dans með regnhlífina og sveifla höndum og fótum í takt við lag dagsins. Svo þykir líka nauðsynlegt að hoppa helst í nokkra polla. Þar sem hún er almennilega búin hefur þetta ekki nein áhrif á hana, við Iðunn hinsvegar lendum í gusunum og erum vanalega orðnar ansi blautar um fæturnar þegar við komum heim. Við erum því báðar komnar með kvef. Nökkvi lenti líka illa í veðrabreytingunum svo hann hefur einnig þróað með sér leiðinda kvef. Það bætti sennilega heldur ekki úr skák að hann týndi regnhlífinni sinni og þurfti að ganga heim í regninu. Það var ekki þurr þráður á manninum þegar hann kom inn um dyrnar hérna heima. Til allrar lukku er alltaf í boði að fara í heitt bað og þurrka sér svo bara vel eftirá. Enn sem komið er allavega, vegna regnsins hefur verið öllu erfiðara að þurrka þvott svo að handklæðin fara sennilega að klárast bráðum. Sökum kvefsins og slensins sem hefur hertekið líf mitt síðustu dagana er ég ekki heldur búin að vera að spá í neinum leiðum til að leysa þvottavandann. Þvottakarfan hefur nú umturnast í fjall sem ég neyðist til að klífa á endanum, þarf bara að krossa putta og vona að lægðin fari að ganga yfir. Annars er alltaf hægt að fara með hauginn í klinkþvottahús. Þar eru þurrkarar sem gætu leyst vandann.
Nú syttist óðfluga í prófatörnina hjá Nökkva, skólinn klárast snemma í júlí svo hann er á fullu í verkefnaskilum og ritgerðaskriftum. Mikið skelfilega sem það verður fínt að endurheimta hann úr viðjum skólans. Við erum farnar að telja dagana. Reyndar erum við að telja niður dagana í hina og þessa viðburði. Fyrst fáum við gesti og hlökkum gífurlega til, bara 11 dagar í það. Svo klárar Nökkvi prófin það eru 21 dagur. Svo förum við sennilega með vinum okkar í onsen (heitar laugar) og hótelgistingu eftir 28 daga. Og svo er loka niðurtalningin að sjálfsögðu hvenar við förum heim, bara 32 dagar í að við leggjum í hann héðann og þá 33 dagar í að við lendum á Íslandi! Spennan er mikil. Við vorum ekki viss hvort að Ylfa áttaði sig á því að við værum að fara heim svo við útskýrðum fyrir henni að við færum bráðum aftur í flugvélina. Hún varð kampakát yfir því, sérstaklega þar sem við verðum öll saman í þetta skiptið. Svo sögðum við henni að hún gæti þá farið og hitt alla. Kíkt í heimsókn til afa og ömmu, ömmu Ásdísar líka og að frændur hennar og frænkur væru ábyggilega meira en lítið til í að koma að leika eftir þettan langa aðskilnað. Það fannst henni frábært, svo frábært að hún vildi eiginlega bara fara að pakka niður.
Í gær átti svo amma þeirra, Ásdís, afmæli. Ylfa var með leiðindi þegar við ætluðum að fara heim úr leikskólanum. Vildi bara standa í hliðinu og grenjaði ógurlega yfir þeim illu örlögum að þurfa að fara heim. Þá sagði ég "Hey, veistu hvað? Amma Ásdís á afmæli í dag". Gráturinn slokknaði samstundis. "Ha?" sagði Ylfa "Hvar er flugvélin?" "Hvaða flugvél?" spurði ég. "Ég ætla að fara í heimsókn til ömmu" sagði Ylfa þá og spennti upp regnhlífina sína íbyggin í bragði. Hún sætti sig samt við að þurfa aðeins að bíða með heimsóknina og keypti þess í stað kexpakka til að fagna deginum.
Það hefur verið ansi oft þannig síðustu daga að barnið vill miklu frekar vera í leikskólanum. Auðskiljanlegt svosem. Það þýðir samt að það er hrykalega leiðinlegt að koma henni heim og oft á tíðum líkast kraftaverki að maður komist í raun á leiðarenda. Í næstu viku byrja þau í sundi í leikskólanum og þá á án efa eftir að verða enn erfiðara að fá lita þrjóskupúkann minn heim. Iðunn hefur lítið um það að segja hvar hún er, enda er henni bara skellt í burðarsjal/-poka eða kerru. Stundum væri ágætt að geta bundið Ylfa bara við sig líka. Ef að heilsa leifir ætlum við að fara að kaupa fatnaðinn fyrir sundtímann um helgina. Þau þurfa að mæta með sundföt, sundhettu og stórt handklæði. Okkur grunar að dýrið eigi eftir að suða sér út handklæði með mynd á en við skulum sjá til hvernig það fer.
Afsakið myndaleysið, hvorugt okkar hefur nennt að lyfta myndavél síðustu vikur. Almenn leti, veikindi, steikjandi hiti og þreyta sem stendur fyrir því.
-Jóhanna
No comments:
Post a Comment