Monday, January 7, 2013

2013!

Gleðilegt nýtt ár allir saman! Fyrsti mánuðurinn vel á veg kominn þegar ég loksins kem mér til að blogga. Það er þó ekki alfarið við mig að sakast því að Nökkvi er að gera sig líklegann til að byrja í prófum og er því búinn að nota tölvuna talsvert á kvöldin svo ég kemst ekk til þess að sinna skildu minni.
Áramótin liðu álíka hljóðlega eins og jólin, við rétt litum upp frá tölvuskjánum til þess að skála saman í gosi (ekkert bús hér) og héldum svo áfram í tölvunni. Ylfa var vakandi því að tveimur kvöldum áður höfðum við verið á brölti með vinum okkar í Osaka og svefninn fór því allur í rugl. Hún gladdist að sjálfsögðu yfir því að geta skálað með okkur og talað svo við afa og ömmu á Skype.
Eins og kjánar misstum við af því að fara í hof í byrjun árs, eins og flest allir hérna gera, hreinlega af leti og klaufaskap. Við bættum okkur það þó upp með því að fara í langan og skemmtilegan göngutúr um borgina. Það var vel til komið eftir letina og átið sem átti sér stað yfir hátíðirnar. (Skinkan smakkaðist nota bene mjög vel, við átum hana á Nýjársdag með miklu og góðu meðlæti.)
Ylfa er búin að vera algerlega hugfangin af My little Pony síðustu vikur og slettir ógurlega "it impossible" og álíka skemmtilegt sem hún lærir úr þáttunum. Mér finnst þó sérstaklega skemmtilegur framburðurinn hjá henni því að nöfnin á hestunum verða gjarnan svolítið skrautleg. Fluttershy hljómar eins og Buttershy, Pinky Pie er Dinky Bæ og álíka, þegar hún er hinsvegar spurð út í þetta nánar neitar hún að svara.
Í Iðunnar fréttum er svosem ekki margt að gerast. Hún er alltaf að færa sig meira upp á skaptið og klifrar upp á allt. Hún er svo smá að dúlla sér við að labba en bara upp við veggi eða með aðstoð, ekkert verið að hlaupa í þetta. Hún hristir núna hausinn og segir "Neh,neh,neh" ef hún er þannig stemd. Hún bendir á sig ef ég segji "Iðunn" með spurnartón og stundum bendir hún líka á mig eða Ylfu ef ég spyr hvar við séum. Skemmtilegast finnst henni að opna skápana í íbúðinni og hennar helsta áhugamál þessa stundina er að fikta í kaffivél sem stendur inn í einum eldhússkápnum.
Nú bíðum við bara eftir að prófin klárist og þá fer Nökkvi í smá frí áður en næsti kúrs byrjar í Febrúar. Til ættingja, s.s. til systkina okkar, sem eiga afmæli í janúar og byrjun febrúar : Þið fáið afmælisgjafir, óttist ei, en þær koma sennilega ekki alveg á réttum tíma. Ekki fleirra að sinni, fyrir utan nokkrar myndir.

Passlega úfnar mæðgur að skála í vínberjagosi á miðnætti. Bless 2012!


Margumrædd áramótaskinkan komin á disk(a)


Blóm og huggulegheit 


Í göngutúrnum komum við við í einni búð þar sem Ylfa lék sér í leikhorni meðan systir hennar fékk nýja bleyju og mjólkursopa

Klifurdýrið

Nökkvi, jólaljós og dætur

Það vatt sér upp að okkur maður og bauðst til þess að taka mynd af okkur saman. Iðunn horfði í hina áttina og Ylfa svaf en það var samt gaman að fá mynd saman.


Fínt hús sem við rákumst á, reyndist vera verkfræðistofa.


Nökkvi, sofandi Iðunn og hungruð Ylfa


Hvar er risaeðlan?


Ylfa og blómstrandi runni


Appelsínur og mandarínur myndast við að hanga á greinunum


Skrautleg gangstétt
-Jóhanna

No comments:

Post a Comment