Wednesday, January 30, 2013

Sitt af hverju

Það gerirst ekki mikið hjá okkur þessa dagana. Nökkvi er enn í fríi en vetrarönnin byrjar í næstu viku. Það er samt varla hægt að kalla það vetrarönn, meira svona mánuður af miklum skóla og svo fer hann aftur í frí í mars og fram í apríl.
            Við fórum á hitting hjá alþjóðlega krakkaklúbbnum síðasta laugardag og föndruðum dagatöl fyrir febrúar. Bara nokkuð afslappað og huggulegt. Þegar dagskráin var búin fengum við boð um að mæta á kvöldskemmtun í boði Rotary klúbbsins, það verður samt ekki fyrr en í lok febrúar svo þetta er nú ekki alveg á næstunni. Ég er líka að fara að vera módel (hohoho - eða þannig) á svona "Alþjóðlegum degi". Þá ætla þær að reyna að troða mér í kimono og ég er mjög spennt fyrir því. Alltaf verið svo spennt fyrir dressinu, Nökkvi verður að sjálfsögðu neyddur til að taka myndir til þess að augnarblikið verði okkur ferskt í minni að eilífu.
          Sunnudagurinn kom og við drösluðumst á fætur við fyrsta barnagal. Börnin voru fóðruð og svo tekið til. Um 11 kom svo Haruka, vinkona vinkonu okkar, ásamt syni sínum í heimsókn. Þau mæðgin eiga ekki heima alveg á næstu grösum við okkur og voru því snemma á ferð. Ylfa var í extra góðu skapi og raðaði leikföngum upp og blaðraði út í eitt. Þegar Iðunn og gesturinn reyndu aftur á móti að leika með hvæsti hún illilega á þau og gólaði "Ég á 'etta", "Hey! Give it back!!", "Kaeshite yo!" Á endanum máttu hin börnin þó leika líka og Ylfa tónaði gestastælana aðeins niður. Eftir nokkra kexbita og Nóa kropp færðist svo aftur fjör í leikinn og krakkarnir hentust út um alla íbúð í hláturskasti á meðan við hlustuðum á íslenska tónlist og borðuðum lakkrís. Ég vona bara að nágranninn á neðrihæðinni hafi ekki verið heima því að lætin voru svakaleg. Þegar leið á daginn þurftu gestirnir að halda heim og eftir sátum við með þreytta Iðunni og hressa Ylfu. Við hittum þau vonandi aftur einhvertíman því að krakkarnir náðu mjög vel saman.
          Á mánudaginn þurfti Nökkvi aðeins að skella sér til Takarazuka til að spjalla við grunnskólakrakka. Þetta var ekki á hans eigin vegum samt heldur skólaverkefni. Við stelpurnar vorum því heima og settum í þvottavél og dunduðum okkur til klukkan þrjú. Þá var stokkið út og upp á lestarstöð þar sem við hittum Nökkva og Jón. Við höfðum ætlað okkur að fara í kareoke og hafa það náðugt en þegar við komum á staðinn kom í ljós að það var 50 mínútna bið. Við skráðum okkur því inn og sátum svo og kjöftuðum þar til nafnið okkar var kallað upp. Við vorum nú bara þrjú og með stelpurnar svo við bjuggumst við að fá lítið herbergi eins og  venjulega en af einhverri ástæðu fengum við heilan sal. Það var öllu gríni sleppt sæti fyrir 20 manns og fullt af borðum. Okkur fannst þetta einstaklega fyndið og stelpurnar gripu tækifærið og hlupu um eins og óðar á meðan við gauluðum nokkur vel valin lög. Eftir kareóke-ið fórum við svo heim. Iðunn gafst upp þegar við vorum rétt að koma að húsinu og sofnaði í burðarsjalinu. Ylfa var hinsvegar dregin inn í rúm en náði ekki að mótmæla lengi.
           Restin er búin að vera nokkuð róleg. Lítið sem gerist á þriðjudögum, bara huggulegheit. Við rétt kíktum út í göngutúr áðan til að halda stelpunum uppteknum í smá stund. Ylfa átti það líka inni hjá okkur þar sem hvorugt foreldrið var í ástandi til að fara í leikskólann í morgun. Iðunn sá til þess að ég svaf ekki meira en 20 mínútur í senn í nótt og Nökkvi var hreinlega of myglaður til að fara út úr húsi. Það er hinsvegar brúðuleikhús í leikskólanum í fyrramálið og má vel vera að við skellum okkur að sjá það. Svo erum við á leiðinni til Kyoto næstu helgi að sýna okkur og sjá aðra. Mest af öllu að skoða skemmtilega hluti. Það á að víst að vera margt í gangi og ég hlakka mikið til.

Nokkrar myndir af hinu og þessu

Sætur sunnudagsgestur :)


Iðunn smakkaði kexið aðeins


Eitthvað ótrúlega spennandi að gerast bakvið sófann


"Mamma, sjáðu ég er með bossa!" sagði Ylfa


Kankvís


Nýbúin að hanga í gardínunum


"Hey!!!"


Krúttkerla
-Jóhanna

No comments:

Post a Comment