Titillinn segir svosem mest en ég var komin með bloggviskubit (nýyrði) svo ég ákvað að skrifa eitthvað. Við erum eiginlega ekki búin að gera neitt ógurlega margt. Markmiðið hans Nökkva að fara út í langa göngutúra á hverjum degi náði ekki að ganga upp. Í staðinn er það leti og sófahangs, sem er í sjálfu sér líka ljómandi. Við hættum okkur þó út úr húsi á sunnudaginn og fórum upp í verslunarmiðstöð til að vera innan um annað fólk. Keyptum okkur hádegismat í matvöruverslun á neðstu hæð og fórum svo upp í SkyGarden til þess að borða. Verslunarmiðstöðin heitir s.s. Nishinomiya Gardens af því það er þak garður ofan á molliu þar sem fólk getur komið slappað af og sleppt krökkunum að leika. Þar eru stundum tónleikar eða einhverjir viðburðir en við komum alltaf þegar prógrammið er nýbúið. Örlögin maður. Allavega, eftir að hafa snætt matinn okkar og vælt yfir köldum vindi ákváðum við að fara inn. Gleðigjafinn Ylfa, sem hefur neitað að nota almenningsklósett upp á síðkastið, hafði pissað á sig og lítið annað í stöðunni en að hlaupa inn í næsta búð (ekki alveg næstu, ódýrustu sennilega) og kaupa buxur á barnið. Það eru samt búnar að vera útsölur og brjálað að gera í búðunum. Það er ekki mín helsta ósk að þurfa að standa með pissublautt barn í röð í margmenni aftur. Buxurnar voru keyptar og svo hlaupið til að skipta. Buxurnar eru bleikar með fölbleikum doppum, alveg nákvæmlega sömu litir og eru á slaufunni á Hello Kitty peysunni sem Ylfa var í þann daginn. Barnið ætlaði að springa úr gleði og lýsti því yfir að þetta væru nýju uppáhalds buxurnar hennar. Svo fórum við heim.
Mánudagurinn fór í fund á leikskólanum hennar Ylfu. Fundurinn snérist um það hvað börnin þyrftu að kaupa áður en þau gætu byrjað í leikskólanum, við þurfum ekki að kaupa allt sem betur fer en hatturinn sem barnið þarf að kaupa er frábær. Hvítur kúluhattur með slaufu, þau verða hrykalega sæt öll í röð með hattana sína!Á leiðinni heim ákváðum við að borða óhollt í kvöldmatinn. Ylfa var sátt við ákvörðun foreldra sinna og eftir að við höfðum gúffað í okkur fórum við heim, með smá stoppi til að kaupa origami pappír og smá nasl. Síðan þá er ekkert búið að gerast.
Iðunn er að taka jaxl og er búin að vera heldur stúrin, enda leiðinda basl. Hún vaknar milljón sinnum á nóttunni og tuðar eins og gamall karl þegar hún er orðin þreytt. Út af þessari þróun fékk ég að sofa lengur meðan Nökkvi fór fram með vargana og svo skiptum við þegar Iðunn sofnaði og nú liggur Nökkvi inn í bæli og hrýtur. Iðunn er aftur á móti komin fram rjóð í vöngum og ekki alveg jafn buguð af tanntökunni, vonum bara að það endist smá.
Tannvargurinn skríður úr híði sínu.
-Jóhanna
Hvernig væri að þýða notkunarregurnar á almenningsklósettunum yfir á íslensku til að hafa handbærar ef gesti ber að garði ?
ReplyDeleteMér skilst að þetta geti verið skaðræðis tæki ef rangt er að þeim farið.
Kkv
Tolli.
www.hvitatravel.is