Monday, February 11, 2013

Fjarlægðin gerir fjöllin blá ...

... og langt í búðina sem á hug minn og veski þessa dagana. Þrátt fyrir að vera eyðsluseggur hef ég ekki álitið sjálfa mig vera mikinn spreðara þegar kemur að fatakaupum, það fer að vísu örlítið eftir félagsskapnum sem maður er í hvort að fatakaup sé í myndinni eða ekki. Systir mín hefur iðulega átt heiðurinn á skyndilegri fatalöngun minni, afþví sama hvaða búð hún gengur inn í finnur hún alltaf eitthvað smart. Nú er hún hinsvegar marga, marga kílómetra í burtu og fjarri góðu gamni. Fötin sem ég tók með mér til Japan voru af skornum skammti, til að lenda ekki í yfirvigt með töskurnar, mest allt sumarföt og nokkrar skjólbetri flíkur sem voru svo úr sögunni því að í hitanum í haust rann svo af mér lýsið að þau passa flest ekki á mig sem stendur. Fyrir jól keypti ég ekki margar flíkur á mig sjálfa, stelpunum og Nökkva vantaði nokkrar spjarir og ég fékk vissulega að kaupa mér tvö buxnapör til að stitja ekki uppi með eintómar stuttbuxur og pils. Eftir áramót hinsvegar komst ég að því hvar þeir hafa verið að fela H&M. Blessuð búðin leyndist í verslunarmiðstöð sem er dágóðan spotta í burtu, það er vel gerlegt að labba þangað en skemmtilegra ef maður er í góðum félagsskap. Ég fékk aðeins að versla um daginn og nú næ ég búðinni ekki úr hausnum. Ég þarf meir! Einnig þarf að rannsaka GAP aðeins betur, ég var klárlega ekki nógu vel undirbúin fyrir þetta um daginn. Börnin þurfa að vera töluvert betur fóðurð, helst sofandi og Nökkvi með eitthvað til að lesa. Það er sennilega blessun í sjálfu sér að vegalengdin sé eins og hún er því annars myndi ég búa þarna.
Ó fyrstaheims vandamál.

-Jóhanna

p.s. Iðunn er nú eiginlega farin að labba, hún stekkur á skriðið stundum ef hún þarf að vera extra fljót (ná dóti á undan Ylfu til dæmis) en hún er farin að þora að labba sjálf án þess að halda í fullorðinn.

No comments:

Post a Comment