Í dag skiptum við liði og Nökkvi fór með Ylfu í leikskólann á meðan við Iðunn fórum í okkar fyrstu heilsugæsluheimsókn. Litla kerlan er búin að vera með einhver útbrot sem AD kremið virkaði ekki á og svo var líka kominn tími til að athuga hvort hún gæti fengið bólusetningarnar sem hún átti eftir að fá. Við komum rétt yfir klukkan 9 um morgun og skráðum okkur inn. Við fengum númer og vorum beðnar um að setjast niður í biðstofunni og fylla út blað með helstu upplýsingum "sjúklingsins". Skömmu seinna var svo komið með handskrifað blað sem á stóð "What is wrong with you today? Please describe." Mér fannst þetta pínu fyndið. Við biðum ógurlega lengi og ég var mjög fegin að Iðunn hagaði sér, svona að mestu leiti. Hún spjallaði aðeins við nokkrar eldri konur sem sátur á biðstofunni, kíkti í bækur og tók í lurginn á saklausum böngsum. Loksins var náð í okkur og við færðar inn á gang þar sem við þurftum að bíða meira. Læknirinn tók á móti okkur og bauð okkur inn á stofuna. Starfsfólkið var allt mjög vingjarnlegt og læknirinn talaði mjög góða ensku. Iðunn nennti ekki að sitja lengi og um leið og læknirinn hafði litið á útbrotin stakk hún af og fór að klifra á hinum ýmsu innanstokksmunum. Hjúkrunafræðingarnir geta labbað á milli herbergja til að aðstoða læknana ef eitthvað er en núna voru þær nokkrar komnar í dyragættina að fylgjast með bröltinu í Iðunni og hlægja að henni þegar hún gretti sig og hristi hausinn. Mikið fjör á minni. Ég kláraði að tala við lækninn um bólusetningarnar og hann ákvað að senda skilaboð til barnalæknisins á stofunni til að fá upplýsingar um sprauturnar. Við fáum þær upplýsingar ekki fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku, ég vona að þetta verði ekki mikið vesen. Iðunn fékk lyfseðil fyrir sterakremi og feitu en mjög hreinu vaselínkremi til að berjast við útbrotin. Ferðin á stofuna kostaði ekki neitt og hjúkrunafræðingurinn teiknaði kort fyrir okkur svo við rötuðum til lyfsalans. Þangað fórum við og réttum lyfsalanum seðilinn okkar. Hún spurði okkur nokkra spurninga, held það hafi átt að vera til að athuga hvort hún væri með ofnæmi og svo leit hún aðeins á útbrotin. Að lokum rétti hún okkur pokann og við þurftum að borga 30 yen fyrir vaselínkremið en hitt kostaði okkur ekki krónu! 30 yen = 40,80 isk samkvæmt reiknivélinni hjá Arionbanka. Þetta fannst mér mjög merkilegt. Við erum með einhverja heilsutryggingu en Iðunn fékk sendan grænan miða í pósti sem er víst eitthvað í tengslum við bæjinn. Ég spurði konurnar á skrifstofunni í "skólanum" mínum um þetta og þær sögðu (held ég) að bærinn greiði eitthvað niður. Allavega, barnið er komið heim í heilu lagi og verður smurð með kremi um leið og hún vaknar úr lúrnum sínum (því loksins ákvað hún að sofna og ég neita að trufla hana).
Á meðan við stússuðumst í læknamálum voru Ylfa og Nökkvi í leikskólanum. Samkvæmt Nökkva var Ylfa miklu hressari en hún hafði verið undanfarið. Hún talaði meira og var ekki jafn mikið ein út í horni. Þau föndruðu ekkert í dag en í staðinn var púkinn hrakinn á brott í tilefni Setsubun. Það var búið að líma púkaandlit á umferðakeilu og börnin hentu baunum í keiluna og sögðu
Oni wa soto, fuku wa uchi. Þau komu svo heim rúmum hálftíma á eftir okkur Iðunni en þá vorum við búnar að fara í búðina og ég eiginlega bara að bíða eftir því að Nökkvi kæmi heim til að svæfa Iðunni, ég var búin að gera eina atlögu að henni en hún neitaði því. Nú steinsefur hún og ég held að Nökkvi hafi fallið í dá líka. Einn dagur eftir af fríinu hans og svo byrjar vetrarönnin.
Enda þetta á myndum sem við tókum fyrir rúmri viku síðan. Róló!
Swing!
Þetta finnst Ylfu vera algert dúndur
Nökkvi þykist sofa
Systur
Rugguskjaldbaka
Iðunni finnast rólurnar mest spennandi
Rólufjör
Þarna er Ylfa að stinga af eftir að hafa ýtt systir sinni helst til harkalega í rólunni
Svo neitaði hún að koma með okkur heim... tók 20 mínútur og þolinmæði en tókst á endanum
-Jóhanna
No comments:
Post a Comment