Sunday, December 30, 2012

Jólafrí, leti, lasleiki og Osaka

Það er allt svo innilega ójólalegt hérna að það hálfa væri meira en nóg. Jólin á næsta ári verða því sprengja og ég gæti þarfnast aðlögunar tíma til þess að fara ekki yfirum af jólagleði þegar þau loksins koma. Spái til um IKEA ferðir í október til að baða mína viðkvæmu húð í birtunni af jólaseríunum svo ég hljóti ekki skaða af jólatrénu okkar. 
Síðastliðna viku erum við öll búin að lúta í lægra haldi fyrir einhverjum kvef óþverra. Þó ekki öll jafn alvarlega, við Nökkvi höfum t.a.m. ekki verið með hor niður á höku eins og stelpurnar. Nökkvi tók þó einn dag þar sem hann var eins og undin tuska og þurfti (og fékk) að sofa mest allan daginn. Við erum því mest megnis búin að hanga innandyra og undir sæng að horfa á My Little Pony. Nökkvi fór í ævintýralega göngutúra tvisvar með dúðaða Iðunni í burðarsjali, ekki margt sem gerðist en hann kynntist svæðinu betur og fann einhverja stór fræga hamborgarabúllu sem við verðum víst að fara á. Á föstudaginn hætti ég mér út úr húsi og fór upp í "skólann" minn í japönsku tíma. Þar gaf ég kennaranum mínum dagatal sem pabbi bjó til (hún þekkir bráðum Borgarnes í þaula), færði henni smá lakkrís og kenndi henni að segja "Sjáumst seinna". Hún náði að segja það með svo hrykalega íslenskum hreim í fyrstu tilraun að ég missti andlitið og hrósaði henni í hástert. Hún gladdist gífurlega yfir nýfengri íslenskukunnáttu sinni og fannst þetta vera nægur sigur til að hylma yfir fyrri baráttu við að bera fram "Þ". Hún gerði nefninlega þau mistök að spyrja mig hvort ég ætti systkyni og hvað þau hétu. Anna er ekkert mál enda alþjóðlegt nafn en að bera fram Þorkell ætlaði að senda hana í gröfina. Japönum finnst ekki mjög gaman að takast ekki eitthvað en hverjum finnst það svosem?
Á laugardaginn, í gær, var búið að plana hitting í Osaka. Nökkva langaði að kíkja í eina búð áður en við hittum fólkið og eftir að hafa rætt við Jón, sem var líka á leið í sama matarboð, var ákveðið að túristast aðeins og horfa á sólsetrið úr byggingu sem skagar ansi hátt upp frá yfirborði jarðar. Við lögðum seint af stað og vorum komin í turninn á réttum tíma til að horfa á sólarlagið. Hefði án efa verið huggulegra ef stelpurnar hefðu ekki báðar verið að sálast úr hungri. Eftir að við höfðum myndað og dáðst af útsýninu var haldið niður. Fórum í lengsta rúllustiga sem ég hef farið í hingað til, niður 4 hæðir og í gegnum glergöng svo maður fær útsýnið beint í æð.
Við hittum Moe, Arisu, Kae og tvo íslenska skiptinema (+ finnskan kærasta) hjá lestunum og héldum svo af stað til að finna veitingastaðinn sem við ætluðum að snæða á. Þetta er fyrirbæri sem heitir "nomihoudai" þar sem maður borgar fyrir tímann sem maður er og getur drukkið af vild, áfengt og óáfengt. En nomihoudai þýðir einmitt "drukkið af vild". Maður getur fengið ýmislegt að borða og við smökkuðum á hinum og þessum réttum. Iðunn neitaði að vera kyrr svo hún borðaði á hlaupum. Nökkvi og Ylfa urðu fyrir árás á klósettinu, af klósettinu. Nökkvi fylgdist ekki nógu vel með þegar kom að því að sturta niður (hann fór með Ylfu á klósettið) og ýtti á skakkan takka. Takkinn hleypti af stað ógurlegri vatnsbunu. Nökkvi flýtti sér að ýta á annan takka og þá trylltist græjan og sprautaði, samkvæmt honum, eins og brunaslanga yfir þau og baðherbergið allt. Ó þessi tækni.
Þegar maturinn hafði verið étinn og drykkirnir drukknir héldum við út í leit að kareokestað. Eftir langa og heldur þreytandi leit ákváðum við að við láta eftir örlögunum og fara heim. Þessu var ekki ætlað að gerast í þessari ferð. Margir voru hálf skúffaðir en það voru gefin hátíðleg loforð um söng og gleðskap á næsta ári. Við héldum heim og vorum komin inn um dyrnar fyrir klukkan tólf.
Í dag var rigning. Ég syrgði handklæðin sem höfðu gleymst út á snúru daginn áður og dæsti yfir sístækkandi þvottafjallinu inn á baðherbergi. Þurrkarar ættu að vera skildueign á svona dögum. Dagurinn fór í leti og ég rétt trítlaði út í búð eftir mat og nasli. Þar sem við erum ekki viss með opnunartíma yfir nýári ákváðum við að ég myndi kaupa í kvöldmatinn fyrir nokkra daga, svo við ættum ábyggilega einhvern mat í búrinu ef allt væri lokað (ekki að fara að gerast, en samt). Ég stóð því örvingluð í búðinni og reyndi að láta mér detta eitthvað í hug. Fólk sem er að kynna vörur út í matarbúðum, gefa smakk og svoleiðis, er ótrúlega hávært og iðjusamt hérna. Það var því nánast óumflýjanlegt að ég yrði fyrir barðinum á a.m.k. einni slíkri manneskju úti í búð. Það var eldri kona sem hálf togaði mig að borðinu sínu og fór að rétta mér skinkubita á tannstöngli og upplýsa mig um hversu undursamleg skinka væri. Hún talaði hratt og gekk í bylgjum meðan ég stóð með fullan munn og kinkaði kolli. Það sem sló samt öllu við var þegar hún tók einn skinku pakkann og benti mér á að skinkan væri eins á litinn og ég. Ég ætlaði að kafna á bitanum og sprakk úr hlátri. Ok, ef ég væri á íslandi og einhver reyndi að selja mér skinku á sama máta yrði ég heldur betur móðguð en japanir eru svo miklir jákvæðir rasistar að ég hreinlega varð að fjárfesta í kjötinu. Hún flýtti sér að segja að það væri óskaplega fallegur húðlitur og varð allt í einu mjög ömmuleg og sagði að ég yrði að borða meira. Ég var því hálf södd þegar ég kvaddi kerlu og horfði ringluð á skinkustykkið í körfunni. Nökkva fannst þetta að sjálfsögðu mjög fyndið. Nú sitja þau Nökkvi og Ylfa í sófanum og horfa á teiknimyndir, löngu eftir settan háttatíma því allur svefn fór í rugl eftir brölt gærdagsins.

En nú MYNDIR! Fyrir þá sem nenna ekki öllum textanum eða sem verðlaun fyrir þá sem umbáru einræðuna.


Ylfa í úlpunni sem hún fékk í jólagjöf frá okkur Nökkva


Leikfimi í sófa

Nýbúin að tæta upp úr dótakassanum og búin að koma auga á myndavélina


Stendur, alvarleg með gosbrunn og tíkó í hárinu
Ekkert mál að standa ... nú er bara að þora að labba óstuddur


Nökkvi og innpökkuð Iðunn bíða eftir sólsetrinu í Osaka



Slappað af í kerru, þetta var óvenju hægfara sólsetur


Byrjað að rökkva


Farið að dimma enn meira, það var samt erfitt að taka myndir útaf birtunni inni og spegluninni í rúðunum.

Útsýnið undir Osaka Sky Tower, við vorum á 39 hæð til að horfa á útsýnið en það er hægt að fara alveg upp á þak og horfa þaðan. 


POKEMON CENTER!!! Förum næst þegar við erum á svæðinu
-Jóhanna




 

Monday, December 24, 2012

Jóladagur í Japan

GLEÐILEG JÓL!
Niðurstaða gærkvöldsins, hangikjöt er miklu betra með jólaöli og litlum stúlkum er alveg sama þó þær fái eiginlega bara mjúka pakka svo framarlega sem það leynist allavega einn harður pakki í hrúgunni. Við buðum Jóni að koma til okkar og borða með okkur, sem hann gerði og var meira segja svo almennilegur að koma með köku með sér. Ég eldaði hangikjötið sem pabbi og mamma sendu okkur og tókst að brenna atlögu 1 að uppstúf og endaði með því að gera hann á pönnu því að eldhúsið okkar er frekar tómt. Okkur tókst að borða á okkur gat en fannst öllum vanta eitthvað uppá til þess að jólin gætu komið almennilega, held að leyniefnið sé klárlega Ísland og fjölskyldan. Ylfa var mjög spennt allan daginn en þegar pakkarnir voru yfirstaðnir var henni potað í bælið því hún var heldur veikluleg og sloj. Í morgun vaknaði hún hress svo þetta er vonandi ekkert alvarlegt. Iðunn fór að sofa á skikkanlegum tíma en vaknaði aftur til þess að halda fjörinu áfram, móðurinni til mikillar armæðu. Annars er lítið hægt að skrifa um þetta. Set inn örfáar myndir af gærdeginum, mér er eitthvað farið að förlast þegar kemur að myndavélinni svo það voru fáar myndir teknar og myndavélin gleymdist eiginlega bara. 



Mesta sportið við mandarínuát er að taka utan af sjálf


Jólatré og pakkaflóð


Spennt?


Sittur kyrr!


Jólamyndin af systrunum 2012, lýsir þeim í hnotskurn


Nökkvi gerði tilraun til að kenna Ylfu á tölvuleik


Jólakveðja frá fjölskyldunni


Hangikjöt, uppstúfur og kók ... hátíðlegt
-Jóhanna


Thursday, December 20, 2012

Afmæli og jólaball 3/3

Í dag á pabbi afmæli, hipp-hipp-húrrah fyrir "gamla" manninum. Ég hef ekki trú á öðru en að það verði huggulegt hjá honum í dag. Talandi/skrifandi um afmæli þá átti Iðunn einmitt afmæli á sunnudaginn var. Ég er enn í fullkomnri afneitun um þetta allt saman því að litla barnið mitt getur ekki verið orðin eins árs. Hvert fór þetta ár eiginlega?! Daman vaknaði spræk að vanda og byrjaði á því að vekja mig og svo systur sína, hún er búin að læra að það þýðir ekkert að reyna að vekja Nökkva. Ylfa er búin að vera ansi dugleg að fara á fætur undanfarna daga, hverju ætli það sé nú að þakka? Jólasveinarnir rétt ná að stinga pakka í skóinn hennar Ylfu áður en þeir verða að bruna til Íslands að sinna hinum börnunum. Hrykalega almennilegt af þeim. En allavega,  Iðunn vakti okkur og Ylfa skaust fram til að skoða í skóinn sinn. Þegar það var yfirstaðið gólaði hún "Ég á líka að fá pakka í dag" og hljóp inn í herbergi þar sem hún vissi að auka-afmælisgjöfin hennar var. Við Iðunn sigldum á eftir henni inn í herbergi og náðum í afmælispakkana sem biðu fröken Iðunnar. Ylfa sá ekki sólina fyrir gjafahrúgunni og var ekki sátt fyrr en systir hennar var búin að opna allar gjafirnar. Iðunn sjálf sýndi spenningnum í systur sinni mikinn skilning og gapti og tók andköf í hvert skipti sem hún reif upp pakka. Vildi að ég hefði upptöku af "hissa" hljóðinu hennar því það er brilliant, ég sat flissandi við hliðiná systrunum á meðan á ósköpunum stóð. Það var mikil gleði yfir öllu saman en það er samt búið að taka nokkra daga í að útskíra fyrir Ylfu að Iðunn eigi dótið, hún virðist vera að fatta það og rífur ekki alveg jafn mikið af systur sinni.
         Restin af deginum fór í hvíld og afslöppun. Fyrst lagði ég mig með afmælisbarninu og eftir sæmilega vel heppnað afmæliskaffi lagði Nökkvi sig með afmælisbarninu. Um kvöldmatarleitið var gríslingurinn úthvíldur og við skelltum okkur út að borða. Við skófluðum í okkur og fórum svo heim. Ylfa flýtti sér upp í rúm til að jólasveinninn færi ekki framhjá húsinu, af því maður verður að vera sofnaður þegar þeir koma. Eftir stutt Skype-tal fór Iðunn í bælið og restin af kvöldinu fór í að hanga á netinu og gera ekkert.
         Ég ætla að troða því hérna að að daginn áður, laugardaginn 15.des, fórum við á síðasta jólaballið sem var haldið af NIA / Nishinomiya International Association. Það var fámennt en góðmennt og voða gaman. Um það bili helmingur gestanna voru starfsmenn af skrifstofunni og afkvæmi þeirra og restin voru skjálfandi útlendingar. Það voru allir mjög almennilegir og viðkunnalegir. Ylfa kom auga á leikföng sem hún hafði ekki séð áður og var horfin með það sama. Iðunn kannaði nánasta umhverfi en skreið til baka á ógnar hraða annað slagið til að athuga hvort við værum ekki á okkar stað. Það var föndrað, sungið, spjallað, leikið, lesnar jólasögur og að lokum pakkaleikur. Iðunn fékk Anpanman strand bolta, sem verður ekki blásinn upp í bráð til að gera nágrannana ekki alveg klikkaða, en Ylfa fékk jólasmákökur. Eftir að ballinu lauk fórum við á röltið og um kvöldið stakk Nökkvi af á vit ævintýranna en við stelpurnar höfðum það huggulegt heima.
       Vikan er búin að líða hratt og það er ekki vottur af neinni jólastemningu hérna, þrátt fyrir jólatréið okkar. Ég er að vona að jólaskapið komi þegar ég fer að sjóða hangikjötið sem mamma og pabbi voru svo almennilega að senda okkur. Ef ekki þá er bara að hlusta á jólalög fram að stóru stundinni. Nökkvi er búinn að vera mjög upptekinn í skólanum og er í óða önn að skila verkefnum áður en hann fer í jólafrí (sem eru tvær vikur). Við stelpurnar gerum hitt og þetta en fæst af því er nógu merkilegt til þess að hafa orð á því. Hlökkum aðallega til þess að fá Nökkva aftur frá námsgögnunum. Ég skelli hér inn nokkrum myndum frá afmælisdeginum.

Jólabúðingur sem Ylfa valdi sér í bakaríinu

Afmæliskaka með kerti á

Kórinn gerir sig til fyrir afmælissönginn

Afmælisbarnið nagar putta og hlustar á sönginn

"Hún er EINS árs í dag.."

Ooooog blása!

Iðunn fékk aðstoð frá reyndara fólki þegar kom að því að slökka á kertinu

K-A-K-A!

Ég og litla lubbalínan mín

Systurnar í afmælis-peysunum frá ömmu og afa.

Iðunn vildi ekki svo mikið af kökunni en þambaði epladjús í staðinn. Ég ELSKA þessa peysu, kindurnar eru svo sætar, hnapparnir eru flottir og liturinn er undursamlegur! Módelið er líka ágætt.

Talsmaður hollustunnar. Þegar ísskápurinn er skilinn eftir opinn fer Iðunn og nær sér í grænmeti í skúffuna.

-Jóhanna

P.s. Ég finn mig knúna til þess að segja að þetta er ekki kókglasið hennar Ylfu á myndunum, heldur glasið mitt. Barnið var fært í annað sæti svo það væri hægt að taka mynd af feðginunum saman.

Friday, December 14, 2012

Kobe Luminari og jólaball 2/3

Stuttur úrdráttur og myndir neðst:

Mér sýnist ég halda fast í regluna að blogga einu sinni í viku. Nú er að reyna að muna hvað við erum búin að gera af okkur síðustu daga.
Mánudagur: Ekki man ég hvað við gerðum þá en það hlýtur að hafa verið eitthvað ómerkilegt fyrst svo er.
Þriðjudagur: Ég neyddi Nökkva til þess að koma með okkur stelpunum út í búð til þess að kaupa afmælisgjöf handa Iðunni, sem er að verða eins árs á sunnudaginn. Hann fékk því að fara í skólann með því loforði að koma heim um leið og hann væri laus úr tíma. Það var ekki neitt sérstaklega gott andrúmsloft hérna heima þar sem Ylfa var hin þverasta og ég orðin ansi þreytt á stælunum í henni. Nökkvi kom svo loksins og við gátum farið að kaupa gjöfina. Þegar við vorum komin upp í barnabúðina, sem Nökkvi hefur lítið þol fyrir, datt ofur-pabbanum í hug að kaupa eitthvað hlýtt handa Iðunni til að sofa í. Hugmyndin fékk ekki græna ljósið fyrr en hann tilkynnti að þetta væri ekki afmælisgjöfin. Nökkvi og Ylfa létu sig hverfa og fóru á leiksvæðið (í búðinni) á meðan ég ýtti sofandi Iðunni um og leitaði að einhverju hlýju. Eftir að hafa labbað nokkra ganga þvera og endilanga fattaði ég að ég var á vitlausum stað í búðinni og Iðunn vaknaði. Á leiðinni til Nökkva og Ylfu, til þess að hleypa Iðunni á leiksvæðið, fann ég hinsvegar það sem við höfðum verið að leita að og skutlaði Iðunni í snarhasti í fangið á Nökkva en fór sjálf að gramsa í rekkunum. Það endaði með því að við keyptum einstaklega huggulegt svefn-vesti (?) sem heftir ekki hreyfingar barnsins en er hinsvegar mjög hlýtt og ofur mjúkt. Ylfu fannst ekki verra að sjá Dokin-chan framaná, hún er úr Anpanman þáttunum. Á þeim tímapunkti benti Nökkvi mér á að Ylfa væri óeðlilega rauð í framan, sem var rétt. Við nánari athugun var hún orðin eldrauð í framan, komin með glansandi augu og örlítinn hita. Við leifðum henni að leika sér í rólegheitum á meðan við völdum í pakkann hennar Iðunnar en svo var hún dregin af stað til að borga. Eftir smá grát og mikla angist fékk hún að velja sér kex við búðarkassan og með það sama var hún orðin róleg aftur. Okkur Nökkva var hinsvegar ekki sama um yfirvofandi veikindi þar sem það var nóg að gera framundan. Við stukkum í matarbúð, svo heim og náðum að troða börnunum í rúmið á methraða.
Miðvikudagur: Við ákváðum að halda Ylfu inni svo hún yrði ekki veik. Nökkvi hvarf vit akademískra ævintýra en eftir sátum við mæðgurnar. Ylfa var hin hressasta og ekki að sjá að hún hefði verið neitt slöpp daginn áður. Svo vildi líka svo skemmtilega til að Stekkjastaur hafði litið við og skilið eftir smá góðgæti í skó sem hafði verið komið fyrir undir jólatrénu (það eru engar gluggakistur hérna). Hún hringdi í ömmu sína með það sama á skype og sýndi henni veiði næturinnar. Að því loknu talaði ég við pabba en Ylfa missti athyglina eftir nokkrar mínútur og var farin þusa og fjasa um hitt og þetta eins og henni einni er lagið. Eftir að því samtali lauk var kveikt á teiknimynd og eldri heimasætan var fljót að koma sér í stellingar, upp í sófa með teppi og augun límd við skjáinn. Svo leið dagurinn eins og vanalega.
Fimmtudagur: Við breyttum út af venju og leifðum Ylfu að leggja sig yfir daginn, sem hún er annars löngu hætt að gera, með það í huga að hún myndi vera í skemmtilegri kantinum þegar liði á kvöldið. Það var búið að plana ferð til Kobe til þess að skoða margrómaða ljósauppsetningu sem er alltaf skellt upp fyrir jólin. Kjörið tækifæri til þess að sýna sig og sjá aðra en mest af öllu taka myndir. Það var í mínum verkahring að smala stelpnunum upp á lestarstöð en þar áttum við að hitta restina af hópnum. Það  var þrautinni þyngra því Ylfa gargaði og vildi alls ekki fara út og Iðunn reif af sér útifötin eins og enginn væri morgundagurinn. Einhvernvegin náði ég samt að klambra þessu öllu saman og hitti Nökkva, Moe, Arisu og Jón upp á stöð. Við stoppuðum aðeins á leiðinni og fengum okkur smá að borða, kjötfylltar bollur sem ég man ekki hvað heita en bragðast ágætlega. Ylfa kærði sig kollótta um matinn og var mest spennt yfir því að vera meðal fólks.  Iðunn borðaði vel og smjattaði ógurlega. Svo stukkum við upp í lest og héldum til Kobe. Moe og Arisa sögðu að það yrði mikið af fólki þarna svo við mættum búast við biðröð. Það var biðröð... sem hefði náð frá Arnarhól og upp á Hlemm (til að setja í Íslenskara samhengi) ef ekki aðeins lengra. Það var FULLT af fólki þarna og margir að vinna við að stýra umferðinni og hleypa fólki, sem ekki var á sömu leið, leiða sinna. Loksins kom að síðustu beygjunni og frami fyrir okkur blasti risa stór ljósauppsetning. Vissulega mikilfenglegt og fallegt. Við tókum auðvitað öll upp myndavélar eða síma til að reyna klófesta "show-ið". Ylfu fannst þetta fallegt en spáði ekki mikið í það. Iðunn, sem hafði sofnað í lestinni, glaðvaknaði og var starsýnt á ljósin. Hún reygði sig og teygði aftur á bak úr burðarsjalinu til þess að sjá betur. Við horfðum á dýrðina og fórum svo að vinna í því að koma okkur aftur heim. Þegar við vorum komin um borð í lestina á leiðinni heim var Iðunn búin að vera að reygja sig í um það bið hálf tíma, það er því skiljanlegt að þegar hún rétti úr sér aftur í lest á ferð varð henni svolítið bumbult. Ég horfði á hana skelfingar augum og hugsaði "Ekki æla, ekki æla, ekki æla!!!" en það var ekki til mikils. Sem betur fer var föruneyti okkar viðbúið öllu og við vorum fljót að þurrka það sem upp kom. Svo hékk hún þreytt og föl framan á mér alla leiðina heim. Ljósin voru flott, en "bílveikin" ekki.
Föstudagur: Við fengum að fara á jólaball í leikskólanum í dag. Ég klæddi stelpurnar í kjóla og svo spásseruðum við um götur Nishinomiya (lesist: vorum seinar aftur og ég hljóp með þær í kerrunni hálfa leiðina). Það var bjart og fallegt í dag og krakkarnir voru úti að leika þegar við komum. Þegar allir voru mættir fórum við inn í kennslustofuna og það var sungið og trallað. Krakkarnir fóru í opinn leik og mömmurnar sátu og gjóuðu augunum á ungana. Svo voru kennararnir með skemmtiatriði. Leikskólastjórinn spilaði á selló, Akiko-sensei spilaði á sílófón og krakkarnir sungu. Eftir það fengu krakkarnir hressingu og að lokum voru þau kvödd með gjöf frá leikskólanum, litlar marglitaðar tamborínur sem veittu mikla lukku hjá öllum. Við Ylfa eigum að hitta leikskólastjórann eftir áramót til þess að ræða leikskólavist frá apríl - ágúst (s.s. út júlí). Við kíktum í búðina. Nökkvi neyddist til að fara á kynningu í skólanum sem varð til þess að japönskukennslunni minni seinkaði aðeins. Ég fór og lærði. Kennarinn minn er svo mikið yndi að hún kom með afmælisgjöf handa Iðunni í tímann, svo fékk ég líka One Piece möppur. Ég á einn tíma eftir fyrir jól og þá get ég vonandi gefið henni eitthvað til baka, smá jólagjöf eða eitthvað. Svo er lítið annað búið að gerast. Síðasta jólaballið af þremur í fyrramálið og svo ætlar Nökkvi út á lífið með vinum sínum.

Fyrir þá sem kæra sig ekki um málæðið:

  • Við keyptum afmælisgjöf handa Iðunni.
  • Ylfa hótaði veikindum en varð svo ekkert veik.
  • Við fórum til Kobe að skoða ljósauppstillingu.
  • Við fórum á jólaball

Ég enda þetta á myndum úr vikunni, mest auðvitað frá fimmtudagskvöldinu:


Systurnar að horfa á teiknimyndir og borða kex


Ylfa var of upptekin svo Iðunn brosti fyrir þær báðar

Ljósaferð til Kobe: föruneytið

Jólaskreyting sem sást frá biðröðinni


Gloria!


Fjölskyldan og öll endurskinsmerki veraldar


Þetta er roooosa flott


Nökkvi er hugsi


Hver á hendina?


Gerplingur með barn í burðarsjali


Það voru fleirri að taka myndir


Moe og Arisa


Girl power!

Allir nema Moe, sem tók myndina


Gaman að labba í hlýrri birtunni


Rosa auðvelt að týna fólkinu sínu en auðvelt að finna þau aftur (í okkar tilfelli)


Moe að taka mynd af Ylfu


Jón og Arisa bregða á leik


Jeij


Íslenskir útlendingar

Endastöðin

Hafið þér glatað afkvæmi yðar? (Sjá skilti)


Vargurinn í kerrunni


Nökkvi dáist af fegurð ljósanna


Nökkvi að photo-bomba hina


Hugguleg Iðunn, í miklu návígi

Slagsmál úr kerru (Giljagaur gaf Ylfu blikkandi ljósastaf)

Svona hékk barnið í næstum hálf tíma, sama hvað ég rétti oft úr henni


Klukk(a)
-Jóhanna