Tuesday, December 4, 2012

Japönskukennsla og hversdagsleiki

Ég er byrjuð í japönskukennslu og ég kann að meta það. Eins og ég hef áður minnst á þá er þetta allt í gegnum Nishinomiya International Association og kennararnir allir sjálfboðaliðar. Ekki menntaði kennarar heldur fólk sem hefur áhuga á að kenna útlendingum að tala (á japönsku). Kennarinn minn er til að mynda húsmóðir. Við hittumst síðasta föstudag og hún virkar eins og yndælasta kona. Við kynntum okkur og hún fór að fiska eftir því hvað ég gæti skilið mikið. Loksins leiddi áralangt anime-áhorf eitthvað gott af sér, það og líka japönskukennslan frá Nökkva og aðar tilraunir til þess að skilja eitthvað. Hún fagnaði ógurlega í hvert skipti sem ég gat eitthvað, sem var gaman en líka pínu vandræðalegt. Þegar ég sótti um fyllti ég út blað með upplýsingum um hvað ég teldi mig geta og það kom næstum því allt í fyrsta tímanum. Annað hvort á ég ekki eftir að skilja bofs í næsta tíma eða hún er vísvitandi að fara rólega í þetta til þess að móðga mig ekki. Eins og ég sagði yndælasta kona.
         Þegar ég var krakki var ég með þá hugmynd í hausnum að tungumál virkuðu þannig að ef maður skildi eitthvað í tungumálinu færi maður að heyra það á sínu eigin tungumáli, ekki svo ólíkt því hvernig þau eru oft túlkuð í teiknimyndum. Sem sagt að það væri nóg að kunna nokkur orð til þess að aflæsa "tungumálakóðanum" og maður væri í góðum málum. Þegar ég var svo 6 eða 7 ára tókst mér að lofa upp í ermina á mér á færeysku (og læra máltækið "að lofa upp í ermina á sér"). Ég fer ekki frekar út í það en maður lifandi hvað ég var skúffuð þegar ég fattaði að tungumál virkuðu ekki eins og ég hafði haldið. Þessi saga hefur svosem ekkert annað gildi en það að stundum vildi ég óska þess að það væri nóg að kunna örfá orð til þess að skilja allt.
         Ylfa er hinsvegar í óða önn að læra tungumálið og er orðin lunkin við að setja orðin í rétt samhengi. Oft þegar hún er ánægð með eitthvað setur hún upp sparibrosið og segir "Arigato (takk) fyrir að gefa mér svona". Hún er líka búin að læra Kira Kira Boshi og gólar það hvar sem við erum. Hressandi þegar maður stendur í röð við kassann út í búð.
          Á morgun erum við svo að fara í leikskólann aftur. Þar sem ég er búin að vera hálf hálsbólguleg síðustu daga get ég ekki sagt að mig hlakki mikið til en Ylfa ætlaði að hristast í sundur af spenningi þegar Nökkvi spurði hana hvort hún ætlaði í leikskólann. Við fáum meira að segja að fara tvo daga í leikskólann í þessari viku því að það er desember og þau eru að reyna að passa að allir fái sína daga í kennslu. Ég er svona smá að vona að Ylfa leiki meira við krakkana á morgun frekar en ein út í horni, en við sjáum bara hvað gerist. Það er örlítið erfiðara að losna við feimnina þegar maður hittist bara einu sinni í viku.
          Nökkvi fór í hæfnispróf í japönsku á sunnudaginn var. Fram af því hafði hann verið að læra eins og enginn væri morgundagurinn en neyddist til þess að taka sér frí frá lærdóminum daginn fyrir prófið til þess að fara til Kyoto í bekkjarferð. Við mæðgurnar vorum því Nökkvalausar alla helgina og plötuðum hann því  í staðinn til þess að koma snemma heim í dag til þess að gera eitthvað með okkur. Hann lét það eftir okkur og kom eins snemma og hann gat heim bara til þess að vera dreginn strax aftur út úr húsi. Við röltum upp í búð og hann keypti sér bækur fyrir skólann, ekkert krassandi við það en við gerðum þó eitthvað.
          Ég smellti nokkrum myndum af í morgun, því ég er búin að nota myndavélina skammarlega lítið, klíni þeim hérna á endann til þess að gera eitthvað gott úr þessari annars andlausu bloggfærslu.


Systurnar að fíflast í sófanum, Iðunn í hláturskasti eins og sjá má

Ylfa, vígaleg að vanda

Krakkaormurinn minn, allt í einu orðin eitthvað svo stór


*Blikk*


Ylfa hvarf inn í herbergi og að leika


Iðunn enn á ný klifrandi á sófanum


Augnarblikið áður en hún hoppaði á mig
-Jóhanna

2 comments:

  1. Frábærar myndir af stelpunum,
    Maður kemst í gott skap að sjá þær.
    ég held að minni trúðurinn sé
    byrjaður að stela senunni :o)
    Með bestu kveðju
    Tolli.

    ReplyDelete
  2. Iðunn er vissulega farin að tjá sig meira :D

    ReplyDelete