Í dag á pabbi afmæli, hipp-hipp-húrrah fyrir "gamla" manninum. Ég hef ekki trú á öðru en að það verði huggulegt hjá honum í dag. Talandi/skrifandi um afmæli þá átti Iðunn einmitt afmæli á sunnudaginn var. Ég er enn í fullkomnri afneitun um þetta allt saman því að litla barnið mitt getur ekki verið orðin eins árs. Hvert fór þetta ár eiginlega?! Daman vaknaði spræk að vanda og byrjaði á því að vekja mig og svo systur sína, hún er búin að læra að það þýðir ekkert að reyna að vekja Nökkva. Ylfa er búin að vera ansi dugleg að fara á fætur undanfarna daga, hverju ætli það sé nú að þakka? Jólasveinarnir rétt ná að stinga pakka í skóinn hennar Ylfu áður en þeir verða að bruna til Íslands að sinna hinum börnunum. Hrykalega almennilegt af þeim. En allavega, Iðunn vakti okkur og Ylfa skaust fram til að skoða í skóinn sinn. Þegar það var yfirstaðið gólaði hún "Ég á líka að fá pakka í dag" og hljóp inn í herbergi þar sem hún vissi að auka-afmælisgjöfin hennar var. Við Iðunn sigldum á eftir henni inn í herbergi og náðum í afmælispakkana sem biðu fröken Iðunnar. Ylfa sá ekki sólina fyrir gjafahrúgunni og var ekki sátt fyrr en systir hennar var búin að opna allar gjafirnar. Iðunn sjálf sýndi spenningnum í systur sinni mikinn skilning og gapti og tók andköf í hvert skipti sem hún reif upp pakka. Vildi að ég hefði upptöku af "hissa" hljóðinu hennar því það er brilliant, ég sat flissandi við hliðiná systrunum á meðan á ósköpunum stóð. Það var mikil gleði yfir öllu saman en það er samt búið að taka nokkra daga í að útskíra fyrir Ylfu að Iðunn eigi dótið, hún virðist vera að fatta það og rífur ekki alveg jafn mikið af systur sinni.
Restin af deginum fór í hvíld og afslöppun. Fyrst lagði ég mig með afmælisbarninu og eftir sæmilega vel heppnað afmæliskaffi lagði Nökkvi sig með afmælisbarninu. Um kvöldmatarleitið var gríslingurinn úthvíldur og við skelltum okkur út að borða. Við skófluðum í okkur og fórum svo heim. Ylfa flýtti sér upp í rúm til að jólasveinninn færi ekki framhjá húsinu, af því maður verður að vera sofnaður þegar þeir koma. Eftir stutt Skype-tal fór Iðunn í bælið og restin af kvöldinu fór í að hanga á netinu og gera ekkert.Ég ætla að troða því hérna að að daginn áður, laugardaginn 15.des, fórum við á síðasta jólaballið sem var haldið af NIA / Nishinomiya International Association. Það var fámennt en góðmennt og voða gaman. Um það bili helmingur gestanna voru starfsmenn af skrifstofunni og afkvæmi þeirra og restin voru skjálfandi útlendingar. Það voru allir mjög almennilegir og viðkunnalegir. Ylfa kom auga á leikföng sem hún hafði ekki séð áður og var horfin með það sama. Iðunn kannaði nánasta umhverfi en skreið til baka á ógnar hraða annað slagið til að athuga hvort við værum ekki á okkar stað. Það var föndrað, sungið, spjallað, leikið, lesnar jólasögur og að lokum pakkaleikur. Iðunn fékk Anpanman strand bolta, sem verður ekki blásinn upp í bráð til að gera nágrannana ekki alveg klikkaða, en Ylfa fékk jólasmákökur. Eftir að ballinu lauk fórum við á röltið og um kvöldið stakk Nökkvi af á vit ævintýranna en við stelpurnar höfðum það huggulegt heima.
Vikan er búin að líða hratt og það er ekki vottur af neinni jólastemningu hérna, þrátt fyrir jólatréið okkar. Ég er að vona að jólaskapið komi þegar ég fer að sjóða hangikjötið sem mamma og pabbi voru svo almennilega að senda okkur. Ef ekki þá er bara að hlusta á jólalög fram að stóru stundinni. Nökkvi er búinn að vera mjög upptekinn í skólanum og er í óða önn að skila verkefnum áður en hann fer í jólafrí (sem eru tvær vikur). Við stelpurnar gerum hitt og þetta en fæst af því er nógu merkilegt til þess að hafa orð á því. Hlökkum aðallega til þess að fá Nökkva aftur frá námsgögnunum. Ég skelli hér inn nokkrum myndum frá afmælisdeginum.
Jólabúðingur sem Ylfa valdi sér í bakaríinu
Afmæliskaka með kerti á
Kórinn gerir sig til fyrir afmælissönginn
Afmælisbarnið nagar putta og hlustar á sönginn
"Hún er EINS árs í dag.."
Ooooog blása!
Iðunn fékk aðstoð frá reyndara fólki þegar kom að því að slökka á kertinu
K-A-K-A!
Ég og litla lubbalínan mín
Systurnar í afmælis-peysunum frá ömmu og afa.
Iðunn vildi ekki svo mikið af kökunni en þambaði epladjús í staðinn. Ég ELSKA þessa peysu, kindurnar eru svo sætar, hnapparnir eru flottir og liturinn er undursamlegur! Módelið er líka ágætt.
Talsmaður hollustunnar. Þegar ísskápurinn er skilinn eftir opinn fer Iðunn og nær sér í grænmeti í skúffuna.
P.s. Ég finn mig knúna til þess að segja að þetta er ekki kókglasið hennar Ylfu á myndunum, heldur glasið mitt. Barnið var fært í annað sæti svo það væri hægt að taka mynd af feðginunum saman.
Haha maður vissi nú að Þetta væri ekki glasið hennar Ylfu :)
ReplyDeleteEn annars er ég líka í aftneitun að Iðunn sé orðin 1 árs! Ég finnst hún vera miklu eldri hahaha!
Mér sýnist Iðunn vera efnileg sýningastúlka, komin með
ReplyDeletebrosið og uppstillinguna á hreint.