Friday, December 14, 2012

Kobe Luminari og jólaball 2/3

Stuttur úrdráttur og myndir neðst:

Mér sýnist ég halda fast í regluna að blogga einu sinni í viku. Nú er að reyna að muna hvað við erum búin að gera af okkur síðustu daga.
Mánudagur: Ekki man ég hvað við gerðum þá en það hlýtur að hafa verið eitthvað ómerkilegt fyrst svo er.
Þriðjudagur: Ég neyddi Nökkva til þess að koma með okkur stelpunum út í búð til þess að kaupa afmælisgjöf handa Iðunni, sem er að verða eins árs á sunnudaginn. Hann fékk því að fara í skólann með því loforði að koma heim um leið og hann væri laus úr tíma. Það var ekki neitt sérstaklega gott andrúmsloft hérna heima þar sem Ylfa var hin þverasta og ég orðin ansi þreytt á stælunum í henni. Nökkvi kom svo loksins og við gátum farið að kaupa gjöfina. Þegar við vorum komin upp í barnabúðina, sem Nökkvi hefur lítið þol fyrir, datt ofur-pabbanum í hug að kaupa eitthvað hlýtt handa Iðunni til að sofa í. Hugmyndin fékk ekki græna ljósið fyrr en hann tilkynnti að þetta væri ekki afmælisgjöfin. Nökkvi og Ylfa létu sig hverfa og fóru á leiksvæðið (í búðinni) á meðan ég ýtti sofandi Iðunni um og leitaði að einhverju hlýju. Eftir að hafa labbað nokkra ganga þvera og endilanga fattaði ég að ég var á vitlausum stað í búðinni og Iðunn vaknaði. Á leiðinni til Nökkva og Ylfu, til þess að hleypa Iðunni á leiksvæðið, fann ég hinsvegar það sem við höfðum verið að leita að og skutlaði Iðunni í snarhasti í fangið á Nökkva en fór sjálf að gramsa í rekkunum. Það endaði með því að við keyptum einstaklega huggulegt svefn-vesti (?) sem heftir ekki hreyfingar barnsins en er hinsvegar mjög hlýtt og ofur mjúkt. Ylfu fannst ekki verra að sjá Dokin-chan framaná, hún er úr Anpanman þáttunum. Á þeim tímapunkti benti Nökkvi mér á að Ylfa væri óeðlilega rauð í framan, sem var rétt. Við nánari athugun var hún orðin eldrauð í framan, komin með glansandi augu og örlítinn hita. Við leifðum henni að leika sér í rólegheitum á meðan við völdum í pakkann hennar Iðunnar en svo var hún dregin af stað til að borga. Eftir smá grát og mikla angist fékk hún að velja sér kex við búðarkassan og með það sama var hún orðin róleg aftur. Okkur Nökkva var hinsvegar ekki sama um yfirvofandi veikindi þar sem það var nóg að gera framundan. Við stukkum í matarbúð, svo heim og náðum að troða börnunum í rúmið á methraða.
Miðvikudagur: Við ákváðum að halda Ylfu inni svo hún yrði ekki veik. Nökkvi hvarf vit akademískra ævintýra en eftir sátum við mæðgurnar. Ylfa var hin hressasta og ekki að sjá að hún hefði verið neitt slöpp daginn áður. Svo vildi líka svo skemmtilega til að Stekkjastaur hafði litið við og skilið eftir smá góðgæti í skó sem hafði verið komið fyrir undir jólatrénu (það eru engar gluggakistur hérna). Hún hringdi í ömmu sína með það sama á skype og sýndi henni veiði næturinnar. Að því loknu talaði ég við pabba en Ylfa missti athyglina eftir nokkrar mínútur og var farin þusa og fjasa um hitt og þetta eins og henni einni er lagið. Eftir að því samtali lauk var kveikt á teiknimynd og eldri heimasætan var fljót að koma sér í stellingar, upp í sófa með teppi og augun límd við skjáinn. Svo leið dagurinn eins og vanalega.
Fimmtudagur: Við breyttum út af venju og leifðum Ylfu að leggja sig yfir daginn, sem hún er annars löngu hætt að gera, með það í huga að hún myndi vera í skemmtilegri kantinum þegar liði á kvöldið. Það var búið að plana ferð til Kobe til þess að skoða margrómaða ljósauppsetningu sem er alltaf skellt upp fyrir jólin. Kjörið tækifæri til þess að sýna sig og sjá aðra en mest af öllu taka myndir. Það var í mínum verkahring að smala stelpnunum upp á lestarstöð en þar áttum við að hitta restina af hópnum. Það  var þrautinni þyngra því Ylfa gargaði og vildi alls ekki fara út og Iðunn reif af sér útifötin eins og enginn væri morgundagurinn. Einhvernvegin náði ég samt að klambra þessu öllu saman og hitti Nökkva, Moe, Arisu og Jón upp á stöð. Við stoppuðum aðeins á leiðinni og fengum okkur smá að borða, kjötfylltar bollur sem ég man ekki hvað heita en bragðast ágætlega. Ylfa kærði sig kollótta um matinn og var mest spennt yfir því að vera meðal fólks.  Iðunn borðaði vel og smjattaði ógurlega. Svo stukkum við upp í lest og héldum til Kobe. Moe og Arisa sögðu að það yrði mikið af fólki þarna svo við mættum búast við biðröð. Það var biðröð... sem hefði náð frá Arnarhól og upp á Hlemm (til að setja í Íslenskara samhengi) ef ekki aðeins lengra. Það var FULLT af fólki þarna og margir að vinna við að stýra umferðinni og hleypa fólki, sem ekki var á sömu leið, leiða sinna. Loksins kom að síðustu beygjunni og frami fyrir okkur blasti risa stór ljósauppsetning. Vissulega mikilfenglegt og fallegt. Við tókum auðvitað öll upp myndavélar eða síma til að reyna klófesta "show-ið". Ylfu fannst þetta fallegt en spáði ekki mikið í það. Iðunn, sem hafði sofnað í lestinni, glaðvaknaði og var starsýnt á ljósin. Hún reygði sig og teygði aftur á bak úr burðarsjalinu til þess að sjá betur. Við horfðum á dýrðina og fórum svo að vinna í því að koma okkur aftur heim. Þegar við vorum komin um borð í lestina á leiðinni heim var Iðunn búin að vera að reygja sig í um það bið hálf tíma, það er því skiljanlegt að þegar hún rétti úr sér aftur í lest á ferð varð henni svolítið bumbult. Ég horfði á hana skelfingar augum og hugsaði "Ekki æla, ekki æla, ekki æla!!!" en það var ekki til mikils. Sem betur fer var föruneyti okkar viðbúið öllu og við vorum fljót að þurrka það sem upp kom. Svo hékk hún þreytt og föl framan á mér alla leiðina heim. Ljósin voru flott, en "bílveikin" ekki.
Föstudagur: Við fengum að fara á jólaball í leikskólanum í dag. Ég klæddi stelpurnar í kjóla og svo spásseruðum við um götur Nishinomiya (lesist: vorum seinar aftur og ég hljóp með þær í kerrunni hálfa leiðina). Það var bjart og fallegt í dag og krakkarnir voru úti að leika þegar við komum. Þegar allir voru mættir fórum við inn í kennslustofuna og það var sungið og trallað. Krakkarnir fóru í opinn leik og mömmurnar sátu og gjóuðu augunum á ungana. Svo voru kennararnir með skemmtiatriði. Leikskólastjórinn spilaði á selló, Akiko-sensei spilaði á sílófón og krakkarnir sungu. Eftir það fengu krakkarnir hressingu og að lokum voru þau kvödd með gjöf frá leikskólanum, litlar marglitaðar tamborínur sem veittu mikla lukku hjá öllum. Við Ylfa eigum að hitta leikskólastjórann eftir áramót til þess að ræða leikskólavist frá apríl - ágúst (s.s. út júlí). Við kíktum í búðina. Nökkvi neyddist til að fara á kynningu í skólanum sem varð til þess að japönskukennslunni minni seinkaði aðeins. Ég fór og lærði. Kennarinn minn er svo mikið yndi að hún kom með afmælisgjöf handa Iðunni í tímann, svo fékk ég líka One Piece möppur. Ég á einn tíma eftir fyrir jól og þá get ég vonandi gefið henni eitthvað til baka, smá jólagjöf eða eitthvað. Svo er lítið annað búið að gerast. Síðasta jólaballið af þremur í fyrramálið og svo ætlar Nökkvi út á lífið með vinum sínum.

Fyrir þá sem kæra sig ekki um málæðið:

  • Við keyptum afmælisgjöf handa Iðunni.
  • Ylfa hótaði veikindum en varð svo ekkert veik.
  • Við fórum til Kobe að skoða ljósauppstillingu.
  • Við fórum á jólaball

Ég enda þetta á myndum úr vikunni, mest auðvitað frá fimmtudagskvöldinu:


Systurnar að horfa á teiknimyndir og borða kex


Ylfa var of upptekin svo Iðunn brosti fyrir þær báðar

Ljósaferð til Kobe: föruneytið

Jólaskreyting sem sást frá biðröðinni


Gloria!


Fjölskyldan og öll endurskinsmerki veraldar


Þetta er roooosa flott


Nökkvi er hugsi


Hver á hendina?


Gerplingur með barn í burðarsjali


Það voru fleirri að taka myndir


Moe og Arisa


Girl power!

Allir nema Moe, sem tók myndina


Gaman að labba í hlýrri birtunni


Rosa auðvelt að týna fólkinu sínu en auðvelt að finna þau aftur (í okkar tilfelli)


Moe að taka mynd af Ylfu


Jón og Arisa bregða á leik


Jeij


Íslenskir útlendingar

Endastöðin

Hafið þér glatað afkvæmi yðar? (Sjá skilti)


Vargurinn í kerrunni


Nökkvi dáist af fegurð ljósanna


Nökkvi að photo-bomba hina


Hugguleg Iðunn, í miklu návígi

Slagsmál úr kerru (Giljagaur gaf Ylfu blikkandi ljósastaf)

Svona hékk barnið í næstum hálf tíma, sama hvað ég rétti oft úr henni


Klukk(a)
-Jóhanna

No comments:

Post a Comment