Það er allt svo innilega ójólalegt hérna að það hálfa væri meira en nóg. Jólin á næsta ári verða því sprengja og ég gæti þarfnast aðlögunar tíma til þess að fara ekki yfirum af jólagleði þegar þau loksins koma. Spái til um IKEA ferðir í október til að baða mína viðkvæmu húð í birtunni af jólaseríunum svo ég hljóti ekki skaða af jólatrénu okkar.
Síðastliðna viku erum við öll búin að lúta í lægra haldi fyrir einhverjum kvef óþverra. Þó ekki öll jafn alvarlega, við Nökkvi höfum t.a.m. ekki verið með hor niður á höku eins og stelpurnar. Nökkvi tók þó einn dag þar sem hann var eins og undin tuska og þurfti (og fékk) að sofa mest allan daginn. Við erum því mest megnis búin að hanga innandyra og undir sæng að horfa á My Little Pony. Nökkvi fór í ævintýralega göngutúra tvisvar með dúðaða Iðunni í burðarsjali, ekki margt sem gerðist en hann kynntist svæðinu betur og fann einhverja stór fræga hamborgarabúllu sem við verðum víst að fara á. Á föstudaginn hætti ég mér út úr húsi og fór upp í "skólann" minn í japönsku tíma. Þar gaf ég kennaranum mínum dagatal sem pabbi bjó til (hún þekkir bráðum Borgarnes í þaula), færði henni smá lakkrís og kenndi henni að segja "Sjáumst seinna". Hún náði að segja það með svo hrykalega íslenskum hreim í fyrstu tilraun að ég missti andlitið og hrósaði henni í hástert. Hún gladdist gífurlega yfir nýfengri íslenskukunnáttu sinni og fannst þetta vera nægur sigur til að hylma yfir fyrri baráttu við að bera fram "Þ". Hún gerði nefninlega þau mistök að spyrja mig hvort ég ætti systkyni og hvað þau hétu. Anna er ekkert mál enda alþjóðlegt nafn en að bera fram Þorkell ætlaði að senda hana í gröfina. Japönum finnst ekki mjög gaman að takast ekki eitthvað en hverjum finnst það svosem?Á laugardaginn, í gær, var búið að plana hitting í Osaka. Nökkva langaði að kíkja í eina búð áður en við hittum fólkið og eftir að hafa rætt við Jón, sem var líka á leið í sama matarboð, var ákveðið að túristast aðeins og horfa á sólsetrið úr byggingu sem skagar ansi hátt upp frá yfirborði jarðar. Við lögðum seint af stað og vorum komin í turninn á réttum tíma til að horfa á sólarlagið. Hefði án efa verið huggulegra ef stelpurnar hefðu ekki báðar verið að sálast úr hungri. Eftir að við höfðum myndað og dáðst af útsýninu var haldið niður. Fórum í lengsta rúllustiga sem ég hef farið í hingað til, niður 4 hæðir og í gegnum glergöng svo maður fær útsýnið beint í æð.
Við hittum Moe, Arisu, Kae og tvo íslenska skiptinema (+ finnskan kærasta) hjá lestunum og héldum svo af stað til að finna veitingastaðinn sem við ætluðum að snæða á. Þetta er fyrirbæri sem heitir "nomihoudai" þar sem maður borgar fyrir tímann sem maður er og getur drukkið af vild, áfengt og óáfengt. En nomihoudai þýðir einmitt "drukkið af vild". Maður getur fengið ýmislegt að borða og við smökkuðum á hinum og þessum réttum. Iðunn neitaði að vera kyrr svo hún borðaði á hlaupum. Nökkvi og Ylfa urðu fyrir árás á klósettinu, af klósettinu. Nökkvi fylgdist ekki nógu vel með þegar kom að því að sturta niður (hann fór með Ylfu á klósettið) og ýtti á skakkan takka. Takkinn hleypti af stað ógurlegri vatnsbunu. Nökkvi flýtti sér að ýta á annan takka og þá trylltist græjan og sprautaði, samkvæmt honum, eins og brunaslanga yfir þau og baðherbergið allt. Ó þessi tækni.
Þegar maturinn hafði verið étinn og drykkirnir drukknir héldum við út í leit að kareokestað. Eftir langa og heldur þreytandi leit ákváðum við að við láta eftir örlögunum og fara heim. Þessu var ekki ætlað að gerast í þessari ferð. Margir voru hálf skúffaðir en það voru gefin hátíðleg loforð um söng og gleðskap á næsta ári. Við héldum heim og vorum komin inn um dyrnar fyrir klukkan tólf.
Í dag var rigning. Ég syrgði handklæðin sem höfðu gleymst út á snúru daginn áður og dæsti yfir sístækkandi þvottafjallinu inn á baðherbergi. Þurrkarar ættu að vera skildueign á svona dögum. Dagurinn fór í leti og ég rétt trítlaði út í búð eftir mat og nasli. Þar sem við erum ekki viss með opnunartíma yfir nýári ákváðum við að ég myndi kaupa í kvöldmatinn fyrir nokkra daga, svo við ættum ábyggilega einhvern mat í búrinu ef allt væri lokað (ekki að fara að gerast, en samt). Ég stóð því örvingluð í búðinni og reyndi að láta mér detta eitthvað í hug. Fólk sem er að kynna vörur út í matarbúðum, gefa smakk og svoleiðis, er ótrúlega hávært og iðjusamt hérna. Það var því nánast óumflýjanlegt að ég yrði fyrir barðinum á a.m.k. einni slíkri manneskju úti í búð. Það var eldri kona sem hálf togaði mig að borðinu sínu og fór að rétta mér skinkubita á tannstöngli og upplýsa mig um hversu undursamleg skinka væri. Hún talaði hratt og gekk í bylgjum meðan ég stóð með fullan munn og kinkaði kolli. Það sem sló samt öllu við var þegar hún tók einn skinku pakkann og benti mér á að skinkan væri eins á litinn og ég. Ég ætlaði að kafna á bitanum og sprakk úr hlátri. Ok, ef ég væri á íslandi og einhver reyndi að selja mér skinku á sama máta yrði ég heldur betur móðguð en japanir eru svo miklir jákvæðir rasistar að ég hreinlega varð að fjárfesta í kjötinu. Hún flýtti sér að segja að það væri óskaplega fallegur húðlitur og varð allt í einu mjög ömmuleg og sagði að ég yrði að borða meira. Ég var því hálf södd þegar ég kvaddi kerlu og horfði ringluð á skinkustykkið í körfunni. Nökkva fannst þetta að sjálfsögðu mjög fyndið. Nú sitja þau Nökkvi og Ylfa í sófanum og horfa á teiknimyndir, löngu eftir settan háttatíma því allur svefn fór í rugl eftir brölt gærdagsins.
En nú MYNDIR! Fyrir þá sem nenna ekki öllum textanum eða sem verðlaun fyrir þá sem umbáru einræðuna.
Ekkert mál að standa ... nú er bara að þora að labba óstuddur
Farið að dimma enn meira, það var samt erfitt að taka myndir útaf birtunni inni og spegluninni í rúðunum.
Útsýnið undir Osaka Sky Tower, við vorum á 39 hæð til að horfa á útsýnið en það er hægt að fara alveg upp á þak og horfa þaðan.
-Jóhanna