Eftir miklar pælingar og símhringingar komst Ylfa inn í einskonar forskóla fyrir leikskóla. Það þýðir að einu sinni í viku, stundum tvisvar, má hún koma og leika í tvo klukkutíma með krökkum sem eru fædd haustið 2009 eða vorið 2010. Við fórum fyrst á mánudaginn með Moe, vinkonu okkar og túlk þetta skiptið, til þess að skoða leikskólann og tala við leikskólastjórann. Ég byrjaði auðvitað á því að efast um að ég gæti fundið um þetta, stóð svo og ranghvolfdi í mér augunum yfir korti af svæðinu og á endanum reyna að brúka afar takmarkaða kanji kunnáttu mína til að lesa á skilti. Ég kann að lesa Nigawa, svo þetta var eflaust ekki jafn mikill sigur og ella. Það var hinsvegar ekkert hlið hjá skiltinu sem ég var að lesa á svo ég ákvað að labba aðeins lengra og reyna að ganga á hljóðið í skríkjandi krökkum. Eftir að hafa beygt tvisvar í viðbót blöstu Moe og Nökkvi við mér, þau komu úr skólanum sem er aðeins lengra upp hæðina. Já, það er annað! Leikskólinn er á leiðinni í skólan hans Nökkva en þar sem þetta er forskóli þá verð ég að hanga með Ylfu (og Iðunni) allan tíman svo það er ekki í boði að Nökkvi fari bara með hana og ég nái svo í hana. Tíminn passar líka ekki akkurat núna, en hann gerir það kannski þegar hún er byrjuð í alvöru leikskólanum. Moe hringdi dyrabjöllunni og kona svaraði í dyrasímann. Svo var okkur hleypt inn og ekkert mál. Leikskólastjórinn er sennilega sextíu ára eða eldri og kom brosandi á móti okkur. Hún byrjaði að tala á ensku og bjóða okkur velkomin en með tímanum ákvað hún frekar að treysta á að Moe þýddi fyrir sig hvað væri í gangi. Nigawa er kristinn leikskóli svo það er kirkja á lóðinni. Leikskólinn sjálfur virkar eins og hann hefði ef til vill geta verið byggður 1970 >. Við gengum fyrst í gegnum andyri og beint út á leikskólalóðina. Ég var svosem búin að dásama hann á facebook en maður lifandi! Það var fuglasöngur og nánast enginn vindur. Birtan var mild og gullin laufblöð af risa stórum trjánnum féllu ljúflega til jarðar. Ok enn sem komið er hljómar þetta eins og ævintýri, right? Svo gengum við niður tröppurnar og framhjá .... KANÍNUBÚRI!! Það voru líka gullfiskar, fuglar, humrar (lifandi) og naggrís á svæðinu. Skóla stofan hennar Ylfu er úti á skólalóðinni svo við gengum yfir leikvöllinn og að minni byggingu. Þar var farið úr skónnum og trítlað inn í stofu merkta ひまわり = himawari = sólblóm. Inni var einn kennari og tvær fimm ára stelpur sem komu blaðskellandi á móti okkur og skrensuðu fyrir framan Ylfu. Þær vildu ólmar tala við hana en Ylfa horfði full hrifningar á allt dótið sem var í boði. Við "fullorðnu" fórum að tala og leikskólastjórinn var í óða önn að kynna okkur fyrir starfi skólans þegar hún var boðuð inn á skrifstofu út af símtali. Það gaf okkur tíma til að litast betur um og Ylfa, sem gat ekki setið á sér lengur, skaust af stað. Hún litaði, knúsaði dúkkur og svo tókst hún á loft af gleði þegar hún kom auga á eldhúskrók með fullt af græjum. Hún var því skiljanlega ekki mjög kát þegar við sögðum henni að nú værum við búin að tala við konuna og að við þyrftum að fara heim. Ylfa setti upp einstaklega eymdarlegan svip og konurnar sögðu okkur að við mættum vera þangað til að síðasti krakkinn yrði sóttur. Það gaf okkur hálftíma í viðbót og svo drógum við Ylfu nauðuga út. Það má bæta því við að Iðunn, skæruliðinn, komst líka í feitt og skreið um allt á þvílíkum hraða og stoppaði bara til að skoða dótið sem varð á vegi hennar en hentist jafnóðum af stað aftur. Við fórum með grátbólgna Ylfu og sofandi Iðunni (uppgefin eftir skriðmaraþonið) út að borða og svo heim þar sem þeim, mest Ylfu, var tjáð að þær fengju að fara í leikskólann á miðvikudaginn.
Í gær, þriðjudag, var Nökkvi heima. Hann er búinn að vera að læra eins og hann eigi lífið að leysa því á sunnudaginn næsta fer hann í hæfnispróf sem honum langar ógurlega mikið að ná. Hann var því að mestu leiti heima til að læra en líka afþví hann var hálf úrvinda og pínu kvefaður. Við höfðum fengið fyrirmæli um að það væri skilda að koma með inniskó, fyrir móður og barn, hitabrúsa og handklæði. Það eina sem var til hérna heima voru inniskórnir hennar Ylfu svo við neyddumst til þess að fara út í búð. Nökkvi var heima og eftir að ég hótaði að draga hann með mér út bauðst hann til þess að vera með Iðunni heima. Við Ylfa ætluðum rétt að skjótast út í Daiei (á sama skala og Hagkaup föt - matur - gjafavar - o.s.fv) en eftir að hafa gengið í þó nokkra hringi þar sá ég að við ættum ekki annarra kosta völ en að fara upp í moll til þess að kaupa hitabrúsann því það var ekkert til í barnastærð með bolla. Ég fjárfesti í inniskóm á mig í 100 yena búð og tösku undir dótið hennar Ylfu og svo splæstum við líka í tvö handklæði. Ég var ekki fyrr komin út úr Daiei þegar ég fattaði að ég var ekki með símann minn og þar af leiðandi engin leið að láta Nökkva vita að við þyrftum að fara lengra nema fara heim, sem ég nennti ekki. Til allrar hamingju vorum við með litlu kerruna svo ég þurfti í það minnsta ekki að halda á Ylfu eða draga hana á eftir mér. Ég hugsaði með mér að þetta tæki nú enga stund því við værum hvort eð var komnar hálfa leiðina upp í moll. Ég hafði rangt fyrir mér, þetta tók heljarinnar tíma. Við þurftum að koma okkur upp á fjórðu hæð og þegar þangað var komið finna hitabrúsana og á leiðinni rak Ylfa augun í dótahorn og hljóp þangað að leika sér. Sem hefði verið í lagi ef hún hefði komið þegar ég bað hana. Ég dröslaðist með Ylfu, Hello Kitty hitabrúsa og kerruna að búðarkassanum og borgaði. Þegar þessu afreki var lokið fattaði ég að það átti eftir að kaupa í matinn. Það er ódýrari matarbúð í hinni verslunarmiðstöðinni svo Ylfa var fest í kerruna og við hálf hlupum í gegnum lestarstöðina og inn í hitt mollið og niður á fyrstu hæð þar og versluðum í matinn. Það var hrykalega troðið enda klukkan orðin næstum fimm og allir að versla á leiðinni heim úr vinnunni/skólanum. Við lifðum þetta þó af og hlupum og rétt náðum lestinni okkar. Þegar við komum heim opnaði Nökkvi fyrir okkur og Iðunn gargaði af venju á okkur þegar við komum inn. Ég á víst ekki að halda að hún hafi haft það gott meðan ég var í burtu jafnvel þó pabbi hennar nenni mikllu meira að leika heldur en ég. Við elduðum og tróðum börnunum í bælið eftir létt spjall á skype.
Miðvikudagsmorgun. Ferðin í fyrirheitnalandið, m.ö.o. í leikskólann, var nógu lokkandi til þess að Ylfa skaust fram úr þegar ég kallaði á hana. Við gerðum okkur til og vorum farnar út klukkan 9, Iðunn í burðarsjali og Ylfa í litlu kerrunni með tvær töskur aukalega fullar af dóti. Þessu þurfti ég að drösla upp bratta brekku og fagnaði ákaft í huganum þegar ég gat platað Ylfu til að labba svolítin spotta sjálf. Við komum upp í leikskóla á slaginu 9.30 og gengum í flasið á leikskólastjóranum sem heilsaði okkur og nánast samtímis kynnti okkur fyrir kennaranum hennar Ylfu sem heitir Matsumoto Akiko. Nökkvi spurði Ylfu áðan hvað kennarinn hennar héti og Ylfa sagði "Aki-chan" en það verður ekki liðið (-chan er fyrir litlar stelpur) Ylfa má kalla hana Matsumoto-san, Akiko-san (í þessu tilfelli er -san = frú/fröken) eða Akiko-sensei (sensei = kennari). Kennarinn virkaði mjög almennileg og hún benti okkur hvar við gætum skilið dótið okkar eftir en svo ætti að vera "leikur í garði" þar til allir væru komnir. Ylfa fékk því tækifæri til að skoða sig um úti og flýtti sér að skoða öll leiktækin í krók og kima. Við megum líka koma í garðinn að leika eftir klukkan tvö á daginn, hvenar sem er svo það er ágætt að vera orðinn kunnugur þarna. Við vorum fyrstar en fljótlega fóru hinar mömmurnar og börnin að streyma að. Það voru margir krakkar sem vildu leika við Ylfu og margar litlar stelpur sem sögðu að hún væri sæt. Ég held að bleika slaufan í hárinu hafi hjálpað til, hún leit út eins og harðasti Hello Kitty aðdáandi. Við vorum kynntar fyrir hópnum og ég bugtaði mig og beygði, heilsaði og fríkaði út inn í mér hvað þetta væri vandræðalegt. Ein mamman lagði svo í að tala við mig aðeins á ensku. Ég man auðvitað ekki hvað hún heitir, minnir að hún hafi sagt Nanako eða Naoko það var eitthvað með Na- allavega. Þetta var alveg jafn mikið augnarblik fyrir okkur mömmurnar eins og krakkana því við virtumst allar vera jafn feimnar. Þegar krakkarnir voru búnir að leika úti og flest allir komnir með eplakinnar var okkur sagt að fara inn í stofuna. Iðunn var frelsinu fegin og skreið hratt um gólf. Ylfa hinsvegar hætti að heyra í okkur og hljóp beint í eldhúskrókinn og heyrði ekki stakt orð sem var sagt við hana sama hvað allir reyndu að veifa og kalla og biðja hana um að koma og sitja með öllum hinum. Hún fékk meira frelsi en hinir afþví þetta var fyrsta skiptið hennar þarna en ég er ekki viss um að hún eigi eftir að sjá munin á því og þegar hún kemur næst. Dagskráin var létt og laggóð og fólst í því að fyrst byrjuðu börnin á að syngja og klappa, til að koma blóðinu af stað, svo var lesið úr kladdanum og svo var farið með bæn (aftur: kristinn skóli, ég get alveg lifað með þessu). Af því loknu sagði kennarinn að nú skildu þau bjóða Ylfu velkomna með lagi og svo fór hún og spilaði eitthvað óskaplega flott lag á píanó. Krakkarnir sátu og hlustuðu og klöppuðu þegar laginu lauk. Nema Ylfa, hún var ekki að hlusta. Svo var "töfrastund" þar sem börnin áttu að taka fyrir augun og telja upp á tíu. Þegar þau opnuðu augun var kennarinn komin með lítið jólatré og hver og einn fékk að setja eina kúlu á tréið. Ylfu fannst það spennandi en varð foj yfir því að mega bara setja "eina" kúlu á tréið. Svo föndruðum við jólatré, ég náði líka að lokka hana aðeins í það en henni fannst vesen að mega ekki sulla í líminu og enn meira vesen að þurfa að hafa Iðunni þarna, þó svo að stubburinn væri ekki einu sinni að trufla hana heldur leika sér út í horni. Við klepruðum saman jólatrénu okkar og svo var það sett upp í glugga. Mömmurnar á borðinu okkar hvísluðu þvílík og pískruðu þegar ég skrifaði nafnið hennar Ylfu í katakana til að merkja myndina, ég held þær vanmeti kunnáttu mína (muhahah). Loksins var opinn leikur og allir máttu fara að gera það sem þeim sýndist og Ylfa varpaði öndinni léttar, það er svo erfitt að leika sér þegar maður á að vera að gera eitthvað annað. Hún passaði sig samt að leika ekki með neinum öðrum og þegar krakkarnir reyndu að leika við hana gólaði hún og snéri sér undan. Ég þurfti að beita kúnstum til að halda Iðunni rólegri því hún var ekki sátt við að mega ekki bara ganga í mjólkurbúið eins og henni sýndist og var orðinn þreytt og pirruð undir lokin. Ylfa átti því smá gæða stund með kennaranum sínum sem kom og "eldaði" með henni í eldhúskróknum. Ylfa skildi mest allt sem hún sagði við hana, enda stuttar og nettar setningar. Hún er samt ennþá of feimin til að þora að segja nokkuð til baka. Þegar frítímanum lauk var gengið frá og svo las kennarinn stutta sögu fyrir krakkana. Þá var kominn tími til að fara heim og allir pökkuðu dótinu sínu og fóru að sækja útifötin sín, nema við. Við klæddum okkur í hraði og tróðum Ylfu þversum í útifötin sín því hún gargaði og neitaði að fara. Kennarinn gekk með okkur að hliðinu og reyndi að segja bless við Ylfu sem sat með súldar svip í kerrunni. Við vorum rétt komnar niður að næstu gatnamótum þegar Ylfa var farin að söngla og Iðunn var sofnuð í burðarsjalinu. Svo er mest lítið búið að gerast, fórum heim, lékum smá, fórum í búðina, fórum heim, lékum smá, biðum eftir Nökkva, borðuðum, svæfðum og nú sit ég hér og blogga.
Jólatréð komið upp í glugga heima
Merkið hennar Ylfu : I-ru-ba Ya-ru. Þær voru ekki að skilja um daginn að Jarl er ekki fjölskyldunafnið okkar heldur millinafnið hans Nökkva.
- Jóhanna Jarl
Hver vogar sér að kalla litlu afastelpuna mína "Gojiira" ?
ReplyDeleteKkv
afi í Borgarnesi
Vinkonur okkar Nökkva... eftir að hún tortímdi matarborði.
Delete