Thursday, November 1, 2012

Afmælis-blogg

Í dag er Ylfa þriggja ára! Vúbbí! Við vorum öll þrjú vöknuð á undan henni í morgun og náðum að taka til og taka okkur til áður en við héldum öll inn í herbergi til að vekja hana með söng. Hún var úfin og ringluð en þegar við skelltum pökkunum fyrir framan hana glað vaknaði hún og sagði "ég á afmæli"! Úfna barnið var dregið fram úr og klætt í kjól. Það var rifið utan af pökkunum við eldhúsborðið og ekki laust við að henni þætti gaman af. Þegar því var lokið var svo bjallað á línuna. Náðum að skypa við báðar ömmurnar og afann og bónus spjall við Pétur. Iðunn var sett í fyrsta lúr og Ylfa í skó því það var komið að langþráðri afmælisferð í "Höllina", s.s. út í bakarí að ná í afmæliskökuna.
           Við þurftum fyrst að fara og fjárfesta í kertum, því það verður enginn þriggja ára ef það eru engin kerti til að blása á. Það var skínandi fallegt veður en svolítið kalt svo við vorum fljótar á milli húsa. Þegar við komum að bakaríinu ætlaði Ylfa að hristast í sundur af spenningi og hélt niðrí sér andanum meðan við gengum inn. Þetta er auðvitað rugl krúttlegt bakarí og afgreiðslufólkið hið brosmildasta. Ylfa benti bara á eitthvað því hún var yfirkomin af spenningi. Eftir að ég sagði henni að anda aðeins með nefinu valdi hún hinsvegar sætustu kökurnar úr borðinu og borgaði auðvitað sjálf (með mínum peningum samt). Heima tók Nökkvi á móti okkur, afmæliskertin voru tendruð og afmælissöngurinn hljómaði í annað skiptið. Ylfa var hinsvegar ekki að geta beðið eftir því að fá að blása svo að þegar við áttum hálft seinna erinidið eftir lét hún vaða og blés af öllu afli. Kakan var auðvitað jafn sæt og hún var "sæt". Með öðrum orðum, hún var jafn sykursæt og hún var fögur. Jarðaberjamús, með þunnum rjómatertubotni, hnetumulningi, sultu og græn temousse í miðjunni. Foreldrarnir gúffuðu sínum sneiðum í sig en Ylfa vandaði sig og nartaði í allt skrautið og smjattaði hátt. Þegar kakan var búin vaknaði Iðunn, ill örlög en hún fær eflaust köku 16.des.
          Ylfa neitaði að venju að leggja sig og þegar þau Nökkvi voru búin að liggja inn í herbergi í 40 mínútur neyddi ég þau framúr svo við gætum farið til Osaka að versla afmælisgjöfina frá okkur til Ylfu. Það var sami hamagangurinn og venjulega þegar við fórum út úr húsinu sem varð til þess að ég steingleymdi jakkanum mínum inn á rúmmi. Sem er ekki svo svalt því það var virkilega svalt í Osaka og kaldur vindur. Við eyddum sennilega mestum parti dags inn í einhverskonar byggingum svo ég held ég sleppi við lungnabólgu í þetta skipti. Ég var búin að bíða spennt alla vikuna eftir því að fara í ferðalagið og bjóst reyndar ekki við því að fara fyrr en á morgun en Nökkvi var laus í tilefni dagsins svo við létum vaða. Ég var búin að lofa upp í ermina á mér að taka myndir hægri vinstri en þegar við vorum ný komin út af lestarstöðinni dó myndavélin. Mitt götótta minni man aldrei eftir að hlaða batterýin, hvað þá athuga stöðuna áður en farið er út.
          Stefnan var tekin á Disney búðina í Osaka. Hún er ekki svo stór en boy-oh-boy er hún flott!? Ég hefði geta hugsað mér að eiga meira en 75% búðarinnar ... hin 25% voru samt líka flott en maður verður að kunna að hemja sig. Eftir smá stund í hillunum ættleiddum við ofurfagra brúðu og Ylfa heimtaði að burðast með kassann sjálf að borðinu. Afgreiðsludaman náði auðvitað að gauka að okkur burðarpoka með Öskubusku mynd á svona rétt áður en hún lauk sölunni. Ylfa flaug um á bleiku glimmer skýji og brosti eyrnanna á milli.
          Við röltum um hverfið og stungum nefinu inn í byggingu sem hýsir ýmiskonar leiktækjasali og matsölustaði. Éftir að ég hafði sólundað klinkinu mínu í klóarvél, staðráðin í að næla í gangandi Stitch handa Ylfu ætluðum við að fara út en gengum beint inn í annan sal fullan af klóarvélum. Ég er veik fyrir svona rugli svo ég grenjaði út klink hjá Nökkva, sem hefur enga trú á hæfileikum mínum í klóarvélum (þar sem þetta snýst ekki svo mikið um hæfileika heldur heppni). Til þess að sýna honum í tvo heimana fann ég vélina í húsinu sem var með auðveldustu bráðina og veiddi svín með kórónu. Stelpurnar elska grísinn og ég get gortað mig af sigrinum (þótt smár hafi verið). Stelpurnar sofnuðu svo báðar, önnur í burðarsjali en hin í kerrunni svo við gripum tækifærið og héldum heim. Sem var að sjálfsögðu mesta snilld því við vorum akkurat heima þegar pósturinn kom með fjórða pakkann frá Fróni. Þannig fékk Ylfa að tæta upp enn einn pakkann áður en við fórum á McDonalds, þar sem deginum var fagnað með frönskum og óhollustu.
           Til ykkar sem senduð henni pakka: Takk kærlega fyrir stelpuna. Hún er í skýjunum með allt saman! Við erum líka í skýjunum þar sem hún getur vonandi dundað sér við að skoða nýju gersemarnar næstu daga. Hún liggur núna inn í rúmmi með pabba sínum og syngur sig í svefn. Ég hinsvegar er að fara að taka til svo við getum lært í japönsku (því við erum kúl).

Enda þetta með þeim myndum sem voru teknar!


Afmælissystir

Gamla úfna

"GAH! MÚMÍN!!"

Höllin

Einn - tveir - hopp

Spennt Ylfa

Kertastunga afstaðin

"Hún á afmæl'í dag..."

BLÁSA!

Borða

Ein kakan, þær voru allar eins og allar gómsætar!

Smá innsýn í hamingjuna

Kökuát

Meiri innsyn í hamingjuna - nú með sultu

Hlaupið um á lestarstöð

Ég stoppaði til að taka mynd af þessu húsi sem lítur út fyrir að vera tvívítt. Það reyndist dýrkeypt því þetta var síðasta myndin sem náðist á vélina áður en batterýið lést.

Þykjustuleikur

Knús!

Alvarleg Ylfa horfir á Lorax með Fríðu sína í annari og Bangsímon um hálsinn

Þreyttur pabbi og svolítið þreytt Iðunn

Ný náttföt og hálsfestin skoðuð nánar

Myndskeiðið er af Ylfu meðan hún opnaði pakkana í morgun, það er ekki klippt til og ég er ekki búin að líta mikið á það. Þið getið hraðspólað í gegn ef þið viljið, þetta er ekkert skilduáhorf.

-Jóhanna

3 comments:

  1. Til hamingju með snúlluna!! Greinilega góður dagur!! :)

    ReplyDelete
  2. Innilega til hamingju með daginn !
    Myndirnar eru frábærar.
    Með bestu kveðju frá kalda og stormasama Fróni.
    Afi, amma, Þorkell & Ronja.
    -------<-@

    ReplyDelete
  3. Lítur út fyrir að hafa verið hinn besti dagur hjá Ylfu :) og ykkur öllum að sjálfsögðu :)

    Mjög gaman að horfa á mynbandið, leið eins og ég væri þarna ;)

    Til hamingju með skvísu enn og aftur :)

    ReplyDelete