Thursday, November 22, 2012

Það hlaut að koma að því...

... ég bugaðist og gúglaði íslensk jólalög. Við Ylfa sitjum nú hérna og hlustum á jólalög. Ylfa spurði sposk á svip hvort hún mætti dansa við mig, eins og gott foreldri hló ég auðvitað og sagði "Nei, mamma ætlar að blogga". Það er þó ekki mikið búið að drífa á daga okkar.
            Okkur tókst að koma jólapökkunum í kassa og koma kössunum á póstinn. Þegar það þurfti svo að fylla út massífa lýsingu á því hvað væri í hverjum og einum kassa var ég tilbúin með A3 blað með upplýsingum, við erum samt ekki að senda svo mikið þetta var bara eina blaðið sem ég sá í fljótu bragði þegar mig vantaði eitthvað til að skrifa á. Ég var komin með vott af sinaskeiðabólgu eftir öll skrifin og Nökkvi var hálf bugaður eftir að hafa borgað undir pakkana svo við fórum á McDonalds og drekktum sorgum okkar í djúpsteikingaolíu. Ylfa malaði yfir matnum en við önduðum léttar yfir því að þessu verki væri að minnsta kosti lokið. Nú eigum við bara eftir að kaupa jólagjafir handa okkur og stelpunum, svo auðvitað líka afmælisgjöf handa Iðunni.
             Eins og ég tuðaði í mörgum áður en við fórum til Japan þá er eitt ár fljótt að líða. Ég átti erfitt með að sætta mig við það að það væri minna en mánuður í afmælið hennar Iðunnar. Enda mikið búið að ganga á síðasta árið. Skólaútskrift(ir), brúðkaup, fluttningar, flugferð yfir hnöttinn. Ég er nú bara nokkuð sátt við afraksturinn, pínu hissa á því að við höfum ekki farið meira á taugum yfir þessu öllu. Þó að nokkrar taugar hafi þó látið lífið eins og morguninn fyrir brúðkaupið þegar allt í einu átti eftir að skipuleggja hvernig restin af draslinu kæmist á rétta staði sem varð til þess að gestabókin gleymdist heima. Það var ekki einu sinni hægt að senda eftir henni því ég var svo rugluð af mjólkurþoku og spennu yfir deginum að ég mundi ekkert hvað ég hafði gert við hana. En nóg um það.
            Við förum á mánudaginn og sækjum um pláss fyrir Ylfu í leikskólahóp hjá Nigawa yochien. Hún á sjéns í miðvikudagana og fengi þá að leika í tvo klukkutíma í hverri viku með krökkum sem eru 2 - 3 ára. Sem sagt jafnaldrar og svo aðeins yngri. Hún og Mary dótti vinkonu minnar eru svo orðnar perlu vinir eftir leikstefnumótið og tala mikið um hvor aðra og að þær ætli að hittast. Ég hitti Megumi í dag og fékk upplýsingar um læknaþjónustu fyrir Iðunni. Þá ræddum við líka hvernig væri hægt að hittast með stepurnar því nú er farið að kólna ansi mikið og erfiðara að vera með krakkana úti á róló. Það er svo mikill raki í loftinu að ef eitthvað blotnar þá er það heila eilífð að þorna. Þar af leiðandi er blautt barn kalt barn og kalt barn veikt barn fyrr en síðar. Við finnum eitthvað út úr þessu. Stelpurnar eru hraustar núna og hvorug þeirra með hor. Ylfa þykist ekki þurfa að vera í fötum en þegar ég náði henni einn morguninn var hún eins og frostpinni og lét það eftir mér að fara allavega í sokkabuxur og peysu. Ég rétti henni auðvitað janusar sokkabuxurnar hennar (hohoho plötum barnið í ullarvörur) og hlýrri peysu en hún hefði valið sér. Hún tók lítið eftir því og hljóp strax af stað og hún gat.
           Nökkvi fór í gær út að skemmta sér með bekkjarfélögum sínum og rétt rak hausinn inn heima til að skilatösku og setja nýklippt (því hann fór í klippingu) hárið beint upp í loft. Hann dróg einn bekkjarbróður sinn með sér, sá heitir Harry og er ástralskur. Voða vingjarnlegur, fyrsti sem tekur í höndina á manni hérna úti því japanir virðast ekki vera mikið í þeim bransa. Þeir fóru þó fljótlega eftir að Nökkvi hafði dáðst af sjálfum sér í speglinum og eftir urðum við stelpurnar. Við borðuðum og höfðum kósý til klukkan sjö og þá var Ylfa dregin í rúmið, gegn vilja sínum. Hún sofnaði þó eftir smá tuð og eftir var Iðunn, ég átti mitt vikulega stefnumót á Skype við Önnu og svo að Iðunn fékk að vaka þar til hún sofnaði í fanginu á mér. Hún er á síðustu dögum búin að ná að tala við Önnu, afa sinn og Bryndísi frænku. Hún er líka búin að ná að sofna í miðju spjalli í hvert skipti. Þema.
            Jæja nú þarf ég að fara að hita kvöldmat og bjarga Iðunni frá mygluðum pabba. Held áfram að hlusta á jólalög, sjúbbí!

-Jóhanna

1 comment:

  1. Jólalög já.
    Kenndu japönum að syngja íslensk jólalög,
    þau gætu verið í útrýmingarhættu,
    mér skilst að íslenskar femínistagyltur
    hafi horn í síðu þeirra vegna meintrar
    karlrembu í textunum
    "Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna"
    er ekki viðeigandi texti á nýja Íslandi
    segja þær.
    Annars fann ég fullt af íslenskum jólalögum á netinu á: http://grooveshark.com/

    Með bestu kveðju frá Fróni.
    Tolli.

    ReplyDelete