Það var búið að byggja upp mikla spennu og eftirvæntingu fyrir deginum í dag þar sem við áttum tvö stefnumót. Fyrst áttum við að hitta Megumi og Fumiko (Fumika?), plús afkvæmi. Því gengum við galvaskar út á slaginu tólf til að hitta liðið út á tilsettum stað. Fumiko forfallaðist vegna veikinda svo við Megumi fórum því bara tvær með Ylfu, Iðunni og Mary, dóttur hennar. Í vikunni sem leið höfðum við verið að tala um leikvelli og Megumi sagðist vita um einn sem væri mjög skemmtilegur, svo við skelltum okkur þangað. Sól skein í heiði og fuglarnir sungu, eins og í öllum ævintýrum. Ylfa og Mary voru pínu feimnar fyrst um sinn en þegar við höfðum lagt bílnum (ó já við fórum keyrandi) hresstust þær. Þegar fór að sjást í leikvöllinn gátu þær hinsvegar ekki hamið sig og hlupu skríkjandi á undan okkur. Þetta er, án þess að ýkja, flottasti leikvöllur sem ég hef augum litið. Risa pláss, rosalega snyrtilegur, fullt af leiktækjum og yfir höfuð fallegur staður. Iðunn var ekki fullkomlega sátt við að vera skilin eftir hjá okkur mömmunum og mótmælti. Svo þótti henni það illilega glatað þegar átti að klæða hana í skó í þokkabót. Litla krílið mitt er nefninlega farin að myndast við að standa og labba. Því þykir vinsælla, mín megin, að hún sé í skóm/útisokkum þegar við erum utandyra. Hún tók þó gleðina á ný. Megumi gaf henni tómata til að japla á og þá var eins og ekkert hefði í skorist. Stelpurnar skutu upp kollinum við og við, bara til að gá hvort við hefðum ekki öruggulega séð hvað þær voru miklar hetjur. Það fór að líða alltaf lengra á milli þess að þær kíktu á okkur og smám saman sáum við hvernig þær voru farnar að leika sér saman, ekki bara hlið við hlið. Við ætluðum að deyja úr krútti þegar hnorðarnir leiddust svo til að fara á klósettið. Við vorum þarna góðan part dags, komum upp úr tólf og fórum ekki fyrr en klukkan var farin að ganga fjögur. Þegar leiðir skildu voru stelpurnar ekki alveg nógu sáttar og vildu leika meira, það er ágætt það má nota þetta sem agn í framtíðinni. Við mömmurnar plottuðum fleirri stefnumót þar sem þær eru oft lausar á mánudögum og við erum ... tja ... alltaf lausar.
Við komum heim og Ylfa tuðaði þangað til ég náði að kveikja á teiknimynd, rista brauð og rétta henni svala. Iðunn rúllaði úr fanginu á mér ný vöknuð og fór að hamast við að koma öllu dótinu úr dótakassanum. Allt mjög venjulegt. Svo kom Nökkvi heim og við héldum áfram okkar daglega dúlleríi þar til klukkan var orðin korter yfir sex. Þá brunuðum við upp á lestarstöð með stelpurnar í sitt hvorri hendinni til að fara á stefnumót númer tvö.
Þegar styttist í afmælið hennar Ylfu reyndi ég að moka saman í afmælisveislu fyrir hana en allir voru uppteknir svo það var að bíða. Stuttu síðar var Moe svo yndæl að skipuleggja hitting fyrir fólkið sem hefði mætt í umrætt afmæli. Við hittum Moe á Nishinomiya-kitaguchi sem er stóra lestarstöðin hjá mollinu. Nánast samstundis birtist Kae og svo komum við okkur út fyrir hliðið þar sem Arisa stóð og beið. Jón rak lestina en var ekki langt á eftir okkur. Við fórum á pínu (PÍNU) lítinn ítalskann veitingastað sem er rétt hjá stöðinni og tróðum okkur inn fyrir. Maturinn var alveg ágætur og félagsskapurinn enn betri. Við borðuðum yfir okkur af pizzu og pasta. Japanir eru ævintýralegir í samsetningu á pizzaáleggi. Mín pizza var með túnfisk, ost, rjómaost, beikon og maís, ágætt en ekki eitthvað sem ég myndi borða að staðaldri þar sem þetta er helst til þungt í maga. Eftir matinn slóumst við aðeins við þreytta Iðunni sem vildi halda á öllu og setja hendurnar ofan í öll glösin á borðinu. Hún fékk viðurnefnið Gojira/Godzilla og svo flissuðum við ógurlega. Þegar ég var við það að fara að stinga upp á því að við færum nú að koma okkur kom afgreiðsludaman okkar fram með myndarlegustu tertu með fullt af ávöxtum og kertum. Ylfa var annars hugar en þegar ég sagði "Ylfa, kaka" ætlaði hún út um gluggan af gleði. Svo sungu allir afmælissönginn fyrir hana og fólk á næstu borðum horfði brosandi á über-hamingjusama barnið. Svo var klappað og Ylfa reyndi að blása á kertin en þau voru hörð í horn að taka og hún var búin að blása ansi oft þegar hún horfði ráðþrota á pabba sinn og hann reyndi að hjálpa til. Á meðan hlógum (kvikindin) ógurlega og stelpuhópur á þarnæsta borði hvatti Ylfu til dáða og söng afmælissönginn hátt fyrir hana á meðan. Svo tókst þetta loksins og Kae var sett í að sneiða kökuna á meðan að Ylfa fékk afmælispakka. Ég er ekki frá því að hún hafi hætt að anda í smá stund því henni varð svo mikið um þegar úr einum pakkanum kom búðarkassi með Anpanman, en hún hefur lengi horft löngunar augum á slíka gripi þar sem hún hefur komist í þá. Henni þótti seinni pakkinn ekki síðri en í honum leyndist ýmiskonar Pokemon góðgæti og glaðningar. Við borðuðum köku og fögnuðum þriggja ára afmælinu í annað skipti og krakkaormurinn gat ekki hætt að brosa. Að því loknu var gert upp og við héldum út í nóttina. Á lestarstöðinni kvöddum við stelpurnar en vorum samferða Jón að Kotoen (stöðin okkar). Við erum nýkomin heim en stepurnar eru báðar sofnaðar, Iðunn sofnaði reyndar á leiðinni í lestina en Ylfa hin útkeyrða sofnaði rétt eftir að við komum inn. Við erum sjálf orðin ansi lúin en ég ætla samt að klína inn nokkrum myndum frá deginum.
-Jóhanna
mmmm kaka;D
ReplyDeleteFo' sho'. Þetta var nú meiri hnallþóran, rjómi með rjóma með meiri rjóma.
DeleteElsa litla er alveg komin með pósið á hreint, sé ég ;) Mig langar líka með á ofur-róló !
ReplyDeleteP.s. Það að mér takist að kommenta verður að teljast afrek ! Ég skil sjaldan hvað stendur þarna fyrir neðan og þegar ég hlusta á hljóðið í stað þess að lesa hrafnasparkið þá dettur allur vindur úr mér! Ætli ég sé ekki vélmenni :-0
ReplyDeleteHaha segðu ... skrifa bara í kassann I don't understand!!!!
DeleteMikið er litla skottið í fínni lopapeysu, fer henni vel.
ReplyDeleteKkv Tolli
mér tekst ekki að commenta prufa - prufa
ReplyDeleteTÓKST!!!!!
ReplyDeleteÉg ætlaði bara að láta ykkur vita að það er rosalega gaman að fylgjast með blogginu. kv. Ásdís