Thursday, November 8, 2012

Konjak í kvöldmatinn

Á miðvikudaginn áttum við stelpurnar stefnumót við vinkonu mína af leikvellinum. Við erum búin að hafa alltaf  það sama í matinn aftur og aftur og ég var orðin ansi þreytt á tilbreytingarleysinu. Því hafði ég samband við nýju vinkonu mína og spurði hvort hún væri til í að koma með mér í matarbúðina og kenna mér aðeins á matinn sem er í boði þar. Hún var alveg til í það og spurði hvort að vinkona hennar mætti fljóta með, hún kynni líka ensku og ætti tvö börn sitthvoru megin við Ylfu í aldri. Við ákváðum að hittast í stórmarkaði sem er bara 10 mínútur í burtu frá húsinu okkar. 
       Þegar miðvikudagurinn rann upp var ég að fara á límingunum, hvað ef þetta yrði svo mega vandræðalegt og hvað ef ég myndi ekki hvernig konan liti út. Ég fríkaði svo lengi út að ég var næstum orðin of sein líka. Ég tók kraftgöngu á þetta og var komin upp í búð fjórum mínútum áður en við ætluðum að hittast. Þá var hvorug þeirra komin svo ég sendi Megumi (róló vinkonunni) skilaboð að ég myndi bíða niðri. Samstundis sendi hún mér svo skilaboð um að henni seinkaði aðeins. Ég var mjög fegin enda auðveldara fyrir hana að finna mig heldur en öfugt. Okkur gafst því tími til að hlaupa með Ylfu á klósettið og slökkva á stressinu. Þar sem við stóðum og reyndum að toga Ylfu út úr bókabúð sem er á neðri hæðinni kom allt í einu kona og pikkaði í mig. Ég horfði á hana furðulostin í smá stund þar til ég fattaði að þetta væri vinkona Megumi. Hún heitir Fumiko og talar líka ljómandi fína ensku. Við kynntum okkur og spjölluðum smá. Hún var með strákinn sinn með sér sem er 2 ára og er kallaður Tep. Hann var mega sætur og rosa feiminn, stelpurnar heilsuðu honum líka og Ylfa horfði öfundar augum á Hello Kitty búðarkerruna sem hann sat í. Í því kom Megumi og baðst afsökunar á því að láta okkur bíða (alveg heilar fimm mínútur). Hún var svo almennileg að spyrja Ylfu hvort hún mætti ýta henni í Hello Kitty kerru líka. Ylfa tók því fagnandi og sat rígmontin í kerrunni alla búðarferðina. Þær sögðu mér frá hinum og þessum réttum sem væru auðveldir og fljótlegir. Við ákváðum að versla aðallega í nabe en ég keypti ansi margt annað sem þær bentu mér á, líka svo ég myndi muna eftir þessu öllu.
        Eftir búðarferðina ákváðum við að fá okkur hádegismat saman á núðlustað sem er rétt hjá. Maturinn var virkilega góður og Ylfa skemmti sér vel, sérstaklega eftir matinn þegar hún og Tep fóru að hlaupa út um allt og fíflast. Iðunn var hin hressasta líka en þegar ég var búin að slást við hana í smástund var hún bundin í kerruna aftur og látin dúsa þar meðan hún borðaði. Megumi og Fumiko gáfu mér báðar fulla poka af hinu og þessu dóti, ég aftur á móti var ekki vopnuð meira en nokkrum póstkortum og fannst skelfilegt að geta ekki gefið þeim meira. Við skemmtum okkur allar greinilega ágætlega og eigum stefnumót við þær næsta mánudag. Þá ætlum við að fara á einhvern voða skemmtilegan róló og stelpurnar þeirra, sem eru báðar 4 ára, koma með okkur.
       Við kvöddumst og ég labbaði heim með stelpurnar og þunga burðapoka. Stelpurnar voru báðar búnar á því eftir ferðalagið og sofnuðu skömmu eftir að við komum heim. Ég lagði mig að sjálfsögðu líka, því það er það sem ég geri þegar þær sofna báðar í einu. Nökkvi þurfti að vera lengur í skólanum en venjulega því það var auka tími sem hann mátti ekki missa af. Ég byrjaði að elda í rólegheitunum og verður að segjast að það er mjög ánægjulegt hvað nabe er auðvelt dæmi. Maður kaupir súpuna sér og svo allt dótið sem maður vill setja út í. Grænmeti - fisk eða kjöt - tófú og allskonar. Í búðinni mönuðu þær mig til þess að kaupa eitthvað sem heitir konyaku til að setja út í nabe súpuna. Ég tók þeirri áskorun auðvitað og keypti einn poka. Það leit sérkennilega út og áferðin á því var eins og að bíta í gúmmí eða kork. Ég efast um að ég kaupi þetta aftur en það var fyndið að prófa þetta að minnsta kosti.

 

Upprennandi nabe ... koniyaku til miðju fyrir ofan laukinn


Súpan sem Megumi og Fumiko völdu fyrir mig


Aðstoðarkokkur


Nabe! Í alltof litlum potti, ég hefði ekki getað troðið meiru ofan í þó ég vildi


Súkkulaði frá Nara, Megumi fór þangað með fjölskyldunni sinni og fannst þetta svo fyndið að hún keypti pakka. Þetta á að vera eins og hreindýraspörð, einfeldningurinn ég hló.
-Jóhanna

1 comment:

  1. Hæ hæ !
    Gott að ritstýflan er losnuð.
    Það hljómar spennandi að kaupa í matinn þarna.
    Aðstoðarkokkurinn er mjög (Færeyskt)matarlegur á svipinn.
    Með bestu kveðju frá Fróni.
    Tolli.

    P.S. Hérna eru myndirnar á nýja dagatalinu mínu:
    www.hvitatravel.is/dagatal

    ReplyDelete