Það er svo mikið um það að gamalt fólk vilji spjalla við okkur stelpurnar. Það er líka gamalt fólk út um allt hérna. Það er ótrúlega duglegt að koma sér sjálft á milli staða, að því er virðist, eins og í lestinni. Kanski er ég bara að misskilja þetta allt saman, gæti verið að við búum bara nálægt dvalarheimili, en eins og er finnst mér allt morandi í gömlu fólki. Þegar við erum að koma af lestarstöðinni okkar þurfum við alltaf að taka lyftu niður á jarðhæð til þess að komst með kerruna út. Það er nánast bókað mál að við rekumst á a.m.k. eina gamla konu með tösku á hjólum. Þær eru reyndar rosalega fyndnar stundum. Fyrst taka þær ekki eftir börnunum en þegar þær líta á kerruna tapa þær sér alveg og sumar eru virkilega að halda aftur af sér að klípa ekki í kinnarnar á Iðunni og Ylfu sem taka þessu með stakri ró. Sem dæmi má nefna konu sem gleymdi sér algerlega og gleymdi að ýta á takkann, þar af leiðandi stóðum við í lyftunni í drjúga stund áður en við fórum niður. Það var ekki fyrr en að önnur kona kom að lyftunni og spurði hvort það væri ekki allt í lagi. Þá afsakaði sú gamla sig og ég skildi að hún sagðist hafa gleymt sér því að börnin væru svo sæt. Við flissuðum allar af þessu og komumst heilar á húfi niður með lyftunni.
Þegar við fórum á bæjarskrifstofuna (sem er við hliðiná lestarstöðinni) um daginn, til að fá umsóknarblað fyrir leikskóla, kom til mín eldri maður sem spjallaði út í eitt. Þegar ég var búin að segja "Afsakið, ég skil ekki" um það bil tíu sinnum spurði hann hvort ég skildi ensku og ég játti því. Hann splæsti í mjög bandaríska ensku, með hreim og allt, og gat gert sig skiljanlegan. "Where are you from? How old are you (Ylfa)? Yes. Good. Both girls? (stelpurnar) Well, goodbye". Ég svaraði honum á japönsku (og ensku líka) "Aisurando. Sansai. Hai. Hai. Ok, bye" Svo sat ég eftir og glóði af svita og vandræðalegheitum. Samt sigursæl að hafa lifað þetta. Ég var svo borubrött eftir þetta að ég skelli mér meira að segja í klippingu án þess að skilja meira en helminginn af því sem hárgreiðslumennirnir sögðu við mig. Side note: Ég veit ekki hvort ég mun nokkurtíman njóta þeirra réttinda að láta tvo karlmenn þurrka á mér hárið með hárblásara. Lúxus-Jóhanna.
Í gær hinsvegar lentum við í hálf kjánalegum kringumstæðum. Það var gömul kona í lyftunni sem heilsaði okkur, og í þetta skipti, ýtti á takkann. Hún byrjaði að spjalla á fullu og ég stóð þarna með frosið bros og kinkaði kolli, hummaði og þóttist skilja eitthvað. Hún lét sér ekki nægja lyftuferðina heldur ætlaði að spjalla við okkur á labbinu líka ... og hún var að fara í sömu átt og við. Ég fann svitan spretta fram og endaði á því að kveðja hana mjög kurteisislega og labba miklu lengri leið heim. Ylfa horfði furðulega á mig alla leiðina heim, ekki alveg að skilja afhverju við værum að breyta út af vananum.
Þetta varð til þess að ég leitaði uppi japönsku-kennslu sem er í boði í gegnum bæjarskrifstofuna. Ég þarf að kynna mér þetta nánar en sem stendur skilst mér að þetta kosti 2000 yen fyrir hálft ár (oh yeah!) og sé einu sinni í viku maður á mann í 6 mánuði. Ég þarf að skrá mig, get ábyggilega gert það í næstu viku þegar við sækjum um leikskóla fyrir Ylfu. Get ekki beðið.
-Jóhanna
Ylfa (í dótakassa) til yndisauka
Þetta eru náttúrulega alveg gullfallegar stúlkur sem þú hefur ungað út;D Gaman að lesa bloggið þitt, þú ert dugleg að skrifa og mér líkar það vel;D Við þurfum að fara að skypa/google hangout(hét það ekki það?) eitthvað skemmtilegt;D
ReplyDeleteJá skipjuleggjum deit, hvað er mikill tímamismunur á Helgu og ykkur Sigrúnu?
ReplyDelete