Friday, October 19, 2012

Жанна

Það telst til tíðinda, í mínum bókum, að ég skelli mér út án þess að hafa restina af fjölskyldunni með mér. Síðastliðin þriðjudag fékk ég samt útgönguleyfi með því skilyrði að ég myndi skemmta mér og koma seint heim. Moe, vinkona okkar Nökkva og fyrrum skiptinemi á Íslandi, hafði verið svo almennileg að bjóðast til að kíkja með mér út og ræða um möguleikann á japönskukennslu. Eins og sönnum dömum sæmir ákváðum við að ræða þetta yfir kaffibolla. Kaffibollinn (sem satt best að segja hefði aldrei verið kaffi) breyttist hinsvegar skyndilega í kvöldmat þegar í ljós kom að við gátum ekki hisst fyrr en eftir klukkan 18 á þriðjudeginum. Ég taldi mínúturnar allan þriðjudaginn þar til að ég kæmist út og þegar það var hálftími til stefnu og ég full óþreyju að komast aðeins út stakk Nökkvi upp á því að ég færi og borgaði reikningana okkar og kæmi svo við í 100 yena búðinni fyrir hann áður en ég hitti Moe. Ég knúsaði heimafólk og valhoppaði svo út í Lawson til að greiða reikninga.
            Þegar ég kom á bílastæðið sá ég að einhver hafði gleymt myndavél fyrir framan búðina. Náttúrulega tók ég hana upp og gekk inn í búðina, þar sem hún var í hættu á að verða undir bíl. Þegar ég komst á kassan blaðraði ég auðvitað beint á ensku að einhver hefði gleymt þessari myndavél á bílastæðinu og rétti stráknum sem var að vinna á kassanum vélina. Gefið að yngra fólkið þorir frekar að tala ensku frekar en eldra bjóst ég við því að hann skildi mig fyllilega en talaði samt aðeins hægar en venjulega. Íslenskur hreimur ofan á ensku ofaná vandræðilegt handapat virkaði ekki betur en svo að hann horfði á mig, svo á myndavélina og sagði svo "I understand, ariga... I mean SPASIBA". Ég stóð þarna með hálf frosið bros og störu. Eitt að halda að ég væri rússi en rólegur á að þakka mér á rússnesku. Mig langaði helst til þess að segja honum að ég væri nú ekki rússi en var hreinlega of hissa til þess að koma því út úr mér. Þegar ég svo benti honum á að ég væri þarna til að borga reikninga fór hann að tala ensku aftur og japönsku, með álíka miklu vandræða-handapati og ég þegar ég rétti honum vélina. Ég borgaði og hann rétti mér kvittanirnar, hneigði sig aðeins og sagði "Arigatou gozaimasu! Oh and SPASIBA". Ég brosti bara til hans og hrökklaðist út. Eftir á að hyggja hefði ég sennilega drepið hann með því að segja að ég væri ekki rússi. Hann hefur haldið að hann væri að vera suddalega svalur með því að geta svarað mér á "mínu" tungumáli. Ekta góðvilja-rasismi, ekki minnsta arða af illum ásetningi en samt svo rangt.
              Ég fór í 100 yena búðina og keypti krúttlegasta matarprjónasett sem sögur fara af handa Nökkva (það er gult og bleikt með jarðaberjum) og hitti svo Moe upp á lestarstöð. Við fórum á mjög huggulegan lítinn ítölskublásinn veitingastað og komum okkur fyrir. Meðan við vorum að borða og kjafta um allt annað en japönskunám spurði ég hana hvort að það væri eitthvað orð í japönsku sem hljómaði eins og spasiba. Hún starði á mig álíka hissa á svip og ég hafði verið fyrr um kvöldið og neitaði. Svo spurði hún hvað í veröldinni þetta þýddi og ég sagði henni frá ævintýri mínu í búðinni. Henni fannst þetta mjög skondið, að sjálfsögðu.
              Kvöldið varð bara skemmtilegra eftir þetta, við fengum rosalega gott pasta og pöntuðum okkur meira að segja eftirrétt. Það var að vísu óumflýjanlegt því að við fórum að tala um sælgæti og eftir það var ekki aftur snúið. Mig grunar að fólkið í eldhúsinu hafi heyrt í okkur því það var óvænt ískúla með kökusneiðunum okkar. Óvæntur ís er alltaf gleðilegur.
              Þar sem við stóðum við kassann og biðum eftir að fá að borga heyrði ég í fólki hvíslast á og sá það stara á mig. Ég er vanari því að fólk sé að stara á stelpurnar en þær voru heima með Nökkva svo ég beitti minni bestu flóttaleið og horfði á loftið í smá stund þangað til það var komið að mér á kassanum. Þegar við trítluðum svo út skildist mér að "ég væri voða sæt", takk ókunnuga fólk! Við kvöddumst á lestarstöðinni og ég skottaðist heim með magann fullan af gómsætum "næstum" ítölskum mat og hausinn fullan af hóli. Ó hvað það er gott að vera einföld stundum.
             Heima biðu mín sofandi Ylfa og næstum því sofandi Iðunn. Nökkva tókst þetta nú bara nokkuð vel (enda hans eigin börn) og íbúðin var ekki einu sinni í rúst, ólíkt því sem ég hefði búist við. Iðunn fékk að drekka og sofnaði skömmu síðar. Nökkvi sofnaði reyndar líka því ég fór á skype, þar sem ég átti tíma pantaðann í eðal spjall við Bryndísi frænku. Kvöldið var því bara nokkuð gott. Ég fékk reyndar að gjalda fyrir átið morguninn eftir þegar Iðunn vakti mig eld snemma, með fulla bleyju og bros á vör. Ég get fullyrt það að ég hafi verið með matarþynnku og svefnleysið eftir allt og stuttann nætursvefn bætti ekki ástandið. En þetta var samt þess virði.

-Jóhanna

1 comment:

  1. Привет как дела

    Gaman að lesa þetta, allsstaðar hægt
    að finna sælgæti og ís :o)

    увидимся позже

    Kkv pabbi.

    ReplyDelete