Thursday, October 25, 2012

Ferðalangar á róluvelli

Í dag vorum við mjög virk. Nökkvi fór á bæjarskrifstofuna og sótti um leikskóla pláss fyrir Ylfu. Upphaflega bjuggumst við við því að hún færi í hoikusho sem er týpa af leikskóla. Hoikusho er opinn lengi, frá átta og jafnvel til sjö á kvöldin. Hann er mest fyrir foreldra sem eru báðir að vinna. Nökkva var hinsvega sagt að það væri eiginlega ekki hægt að komast inn á hoikusho núna í okkar nánasta umhverfi. Þess í stað eigum við að sækja um í youchien. Það er meiri skóli, pre-school. Það er fyrir þriggja, fjögurra og fimm ára krakka. Þau útskrifast þegar þau fara í grunnskóla, hljómar nokkuð eðlilega. Í framhaldi af því fékk hann nöfn á tvemur skólum sem væru ekki allt of langt í burtu frá okkur. Þar af leiðandi erum við að fara að vera formleg og fullkomin á morgun meðan við reynum að sækja um hjá þeim. Gallinn er sá að þeir geta neitað okkur, sem er alveg eins líklegt ef þau treysta sér ekki í útlendinga. Krossið fingur fyrir okkur og sendið Ylfu róandi strauma svo þetta gangi vel! Örvæntið þó ekki því við erum búin að fá Moe, vinkonu okkar, til þess að koma og sjá til þess að það misskiljist ekkert þegar við sækjum um. Annar leikskólinn sem er í boði er rétt hjá okkur, hann er mega sætur og ég er að vona að hún komist þangað inn. Sá heitir Koto og er frá 9 á morgnana til 14 á daginn. Auðvitað væri ágætt ef þetta væri frá átta til fjögur eins og heima en þetta gefur henni þó smá tíma með öðrum krökkum.
         Þegar Nökkvi kom til baka fórum við öll saman til leigusalans okkar til að borga leiguna. Leigusalinn okkar býr rétt hjá okkur og ég er nokkuð viss um að ég hafi séð hana áður út í búð jafnvel. Hún er hin huggulegasta kona, ábyggilega einhverstaðar í kringum sjötíu ára. Síðast þegar Nökkvi fór og borgaði henni færði hann henni sjal sem mamma (snillingur) prjónaði úr ekta íslenskum lopa. Hann gat hinsvegar ekki munað að hún hafði prjónað það svo þegar konan spurði hann hvort ég hafði prjónað það sagði hann nei og gleymdi að minnast á mömmu. Skamm Nökkvi. Í dag leiðrétti hann hinsvegar misskilninginn. Henni þótti ógurlega gaman að sjá Ylfu og Iðunni. Aðallega Ylfu samt, hún spjallaði mikið við hana og spurði hvort hún vildi koma að leika. Hún ætti barnabarn sem vildi ábyggilega leika við hana. Hljómar vel, þar til í ljós kom að barnabarnið er sex ára strákur. Ég leifi mér að efast um að hann hafi áhuga á að leika við þriggja ára íslenska stelpu sem skilur lítið sem ekkert í japönsku. Sjáum til.
         Við röltum heim aftur (öll tíu skrefin) og Nökkvi þurfti að fara upp í skóla. Ylfa lagði sig, eftir smá umstang, Iðunn fékk sér að drekka og sofnaði líka. Móðurhlutverkið hefur kennt mér eitt. Tvö sofandi börn = frítími. Þetta gerist hvort eð er bara einu sinni á bláu tungli svo ég lét hreingerningarnar bíða aðeins. Kveikti á þætti og hallaði mér aftur í stólnum. Eftir að fimm mínútur voru búnar af þættinum snérist mér hugur og ég endaði á því að kúra upp í rúmmi hjá stelpunum. Klukkutíma síðar bröltum við Ylfa fram og náðum okkur í smá hressingu. Iðunn vaknaði skömmu eftir okkur og skreið úfinn og brosandi fram til okkar.
           Lúrinn borgaði sig margfalt því við vorum allar í fanta formi eftir svefninn. Ég var svo góð með mig að ég ákvað að láta eftir okkur smá ævintýraferð. Ég var búin að sjá á kortinu okkar að það væri stór garður ekki svo fjarska langt í burtu. Ég vissi ekkert um hann nema það að stundum eru leiktæki í svona görðum. Stelpunum var mokað í föt og upp í kerru. Ég mundi meira að segja eftir myndavélinni. Tók samt ekki mjög margar myndir því við vorum fljótari í garðinn en ég bjóst við. Garðurinn var Æ-Ð-I! Þarna var urmull af börnum og mömmum. Bekkir og stólar, borð og leiktæki. Nokkur tré á stangli og smá gras en að mestu sand plan með nógu miklu plássi til að hlaupa og leika sér á og svo áður nefnd leiktæki. Svo var líka klósett fyrir smáfólkið, sem er snilld því sumir eru með minni blöðru en aðrir. Við ætlum pott þétt að fara þarna aftur, sérstaklega eftir að við sögðum Nökkva frá þessu með stjörnur í augunum. Ylfa ætlaði að ærast úr hamingju og henti sér á fyrsta rugguhestinn (rugguönd) sem hún sá. Skríkjandi af kæti "Look mommy, look!", við erum í japan en barnið er farið að tala ensku. Dóra landkönnuður er nú meiri dólgurinn. Iðunn fékk líka að fara úr kerrunni og kunni því vel, teygði úr sér og sat í mestu makindum ofan á leðurjakkanum mínum. Eftir smá rugg og veltur á rugguöndinni kom Ylfa auga á rólur. Systurnar fengu sitt hvort sætið og svo var rólað. Taumlaus gleði. Iðunn var mjög fyndin að sjá, brosti út í eitt með galopin augun. Eftir rólurnar var haldið í klifurkastala með rennibrautum, stigum, klifurvegg, brú og öllur mögulegu. Iðunn fékk ekki að fara í það. Þess í stað var þaggað niðrí henni með nasli og vatnsbrúsa. Við vorum þarna hátt í klukkutíma og mig var farið að lengja eftir því að komast í búðina. Ylfa harðneitaði, ætlaði sko ekki að glopra þessum stað úr höndunum á sér. Rétt í því að ég var að keyra Iðunni af stað í kerrunni, vorum að elta Ylfu, missti hún vatnsbrúsann sinn. Nokkrar konur sem stóðu hjá kölluðu til okkar að við hefðum misst brúsann og ein þeirra kom til okkar. Þá var ég búin að ná í brúsann. Iðunn hinsvegar veiddi konuna alveg og þær fóru að spjalla (ok Iðunn hjalaði og skríkti). Við fórum svo að tala saman og var þetta hin almennilegasta kona. Ég er s.s. búin að eignast fyrsta kunningjann án utanaðkomandi aðstoðar. Jeij fyrir því! (Æji vinalegi vottinn ætti samt að teljast með líka, hún er nú ekki svo slæm greyið) Ég náði í Ylfu og hélt af stað heim. Við rákumst á búð þar sem við gátum keypt ávexti og grænmeti fyrir töluvert lægra verð en í matvörubúðinni okkar og fjárfestum í gulrótum og eplum. Svo var bara þetta klassíska matarbúð - heim - elda - svæfa. Harla fréttnæmt efni.
            Hér koma svo nokkrar myndir, þær eru ekki allar alveg jafn splunku nýjar en mér fyrirgefst það ábyggilega

Krúttlegt skriðdýr

Apaköttur


Babyzilla, það verður stuð þegar sumir ákveð að byrja að labba


Það er óneitanlega kózý að kúra hjá svona krúttum. Myndin er sviðsett, Ylfa var ekki sofnuð.

Ætlaði að gera egg í brauði en þegar ég opnaði eitt eggið var það frosið 

Á leið okkar rákumst við á meðal stóran læk sem iðaði allur af lífi. Sjáiði ferlíkin! Þeir voru á stærð við meðal stóra ýsu!

Ylfa hitti Kormák á förnum vegi

Ruggandi á ruggönd!


Allt í fullu swingi

Gaman


Meira gaman

Krúttlegt skilti með "má og má ekki" reglum fyrir gesti leikvallarins

Mandarínur á trjám, þetta er á leiðinni heim.

Iðunn og lækurinn með fiskunum
-Jóhanna


2 comments:

  1. Vá osom! Það lítur út fyrir að vera svo gott veður hjá ykkur, eitthvað annað en hérna :/ og Iðunn orðin svo stór svona standandi :D haha

    ReplyDelete
    Replies
    1. Láttu ekki sólina blekkja þig, það verður mjög kalt þegar það fer að kvölda. Það eru víst mjög margir skiptinemar búnir að vera veikir afþví þeir eru ekki að passa sig á hitaskiptunum.
      En jú það var ágætt veðrið í dag :)

      Delete