Hah, vantaði spennandi titil á færslu dagsins. Fyrir nokkrum vikum síðan kom hingað gömul kona og bankaði upp á. Hún setti upp skelfingar svip þegar mjög svo ó-japönsk og úfin Jóhanna kom til dyra. Ég náði því að hún væri votti þar sem hún gat sagt "Christian" á ensku og svo skildi ég að hún ætlaði að koma aftur seinna. Ég lokaði og passaði mig að vera ekki heima daginn eftir því að ég nennti ekki að díla við sömu vandræðilegheitin aftur. Í dag hinsvegar þegar við mæðgur vorum á leiðinni út var bankað upp á. Í þetta skipti var ung kona fram á gangi og sú talaði reifbrennandi ensku. Ég hélt/vonaði að þetta væri bara nágranni að koma að kynna sig (hef ekki hugmynd um hvernig meiri hluti fólksins lítur út sem býr hérna). Hún spurði hvort að það hefði ekki komið gömul kona til okkar fyrir nokkru síðan og að hún væri komin til þess að ræða við mig um biblíuna. "Óóókeeeeeyyyyy" sagði ég með frosið bros. Við eigum sem sagt ekki að komast hjá þessu á nokkurn máta. Mér til mikillar undrunar var þetta hin almennilegasta kona. Óvenju lítil pressa, ekki að ég sé alltaf að spjalla við votta jehóva ætli þetta hafi ekki verið fjórða skiptið. Hún spurði bara hvort að mér þætti ekki mikilvægt að fólk lifði með "hope in their hearts" og "positive thinking". Jú, jú gott að vera jákvæður. Ég fékk það pínu á tilfinninguna að hún væri að gera einhverjum greiða með því að vera þarna því hún hafði ekki svo mikinn áhuga á því sem hún var að tala um. Eða ok hún var ekki jafn mikið að nenna að spjalla um biblíuna eftir að ég upplýsti hana að ég væri kristintrúar. Kom svona augnaráð "Aha! Verki mínu er lokið" á hana og svo fór hún bara að spjalla og segja frá sjálfri sér. Virkaði bara ágæt greyið. Hún kvaddi okkur og sagðist ef til vill kíkja á okkur aftur seinna. Það verður að segjast að ég bjóst ekki við því að vera að fara að lenda í svona mörgum samtölum um Biblíuna þegar við komum hingað. Hingað til er ég búin að tala við tvo votta og við Nökkvi lentum í kristniboðunum á róluvellinum. Nökkvi reyndar hitti þau aftur og þá mundu þau ekki eftir því að vera búin að tala við hann, tvöföld gleði fyrir Nökkva sem reyndi eins og hann ætti lífið að leysa að segja þeim að hann væri kristinn svo þau myndu hætta að elta hann. Búdda múnkarnir eru alltaf bara sultu slakir og segja ekkert standa bara með skál og þakka þeim sem leggja þeim lið. Svo eiga þeir líka svo mega flott sjöl (ég veit að þetta eru ekki sjöl en vegna skorts á betra nafni...). Spurning hvar þetta endar.
Við stelpurnar röltum upp í verslunarmiðstöð til þess að kaupa barnamat handa Iðunni, hann færst svo miklu ódýrari þar heldur en út í búð. Hugurinn var samt ekki allur í barnamatnum því mig er búið að langa til að prófa að nota taubleyjur á krakkagríslingin í lengri tíma en aldrei lagt í það. Okkar heitt elskaða barnabúð Akachan selur fullt af þeim og að sjálfsögðu í öllum regnbogans litum. Eftir að hafa staðið í korter yfir úrvalinu sendi ég Nökkva skilaboð þess efnis hvort ég mætti prófa þetta og fékk leifi fyrir bleyjukaupunum (vúhú!). Við erum nú stolti eigendur tveggja buxna (einar bleik/gul doppóttar og aðrar grænar með stjörnum) en ákváðum að kaupa ekki fleirri strax þar sem þetta er allt á mjög svo miklu tilraunastigi. Held að Bryndís eigi heiðurinn á þessum innkaupum þar sem hún minntist eitthvað á bréfbleuyjuskort ... núna þegar ég er hinsvegar að reyna að finna téð málefni sé ég að ekki. Kannski bjó ég þetta allt til í hausnum á mér sem löggilda afsökun fyrir því að kaupa taubleyjur. Eins og stendur hanga bleyjurnar hér til þerris og verða því ekki nothæfar fyrr en í fyrramálið í fyrsta lagi. Það voru reyndar til óhugnarlega mikið af æfingabuxum (þ.e. hætta-með-bleyju-nærbuxur) og mig langaði miklu frekar að kaupa svoleiðis því þær eru svo töff. Það er Disney-eitthvað á svona 50% af öllu barnadóti sem ég hef séð hérna úti, æfingabuxurnar lúta sama lögmáli. Hver veit hvort maður splæsi ekki í par einn daginn.
Eftir bleyjukaup fórum við og versluðum í matinn og Ylfa keypti sér eina fingrabrúðu í safnið. Hún ætlaði helst ekki að borga heldur bara sýna stelpunni á kassanum að hún ætti pening og að hún ætlaði að eiga þennan kall. Hún borgaði á endanum, pínu foj yfir þessu "kjánalega" fyrirkomulagi en rosa sátt með nýja kallinn sem að þessu sinni er vondi kallinn úr Castle in the Sky sem heitir Múska! Við röltum aðeins um til þess að drepa smá tíma og fórum svo okkar vanalegu leið heim, s.s. í lestinni. Ylfa sofnaði í kerrunni á leiðinni heim svo ég varð að fara þrjár ferðir upp og niður stigann til að bera allt dótið inn og ná í hana úr kerrunni. Mikið er ég fegin að við búum bara á annari hæð.
Nökkvi kom ekki mikið seinna heim en við og kom að Ylfu sofandi upp í rúmi. Krakkinn var vakinn og borin fram. Hún var ekki alveg sjálfri sér lík og vildi bara kúra. Þegar við vorum svo að fara að borða var okkur orðið ljóst að úlfaskottið var bara bullandi lasin. Við erum búin að vera að slást við einhverja leiðinda flensu. Stelpurnar eru báðar búnar að vera að hósta og ræskja sig en útivistin í dag hefur sennilega ýtt Ylfu yfir þröskuldinn. Hún er nú samt ekki mikið lasin, bara þreytt og sama sem hitalaus. Það hjálpaði líka óneitanlega að fá að kúra bara í pabba-fangi og horfa á teiknimyndir. Iðunn hefur líka gott af því að slappa aðeins af innandyra svo ég býst við að ég fari ekki á neitt flandur næstu tvo daga. Það fer nú ekki svo illa um okkur hérna heima, hér er nóg af dóti til að leika sér af og í "versta" fallir verða þær bara að leika við hvora aðra. Hefði ég séð aðeins fram í tímann hefði ég ábyggilega keypt aðeins meira að borða í matarbúðinni en Nökkvi hlýtur að geta hleypt mér út í búð eftir skóla. Ef ekki sveltum við bara fram á föstudag. Klárum sennilegar fyrst úr skápunum EN svo sveltum við.
-Jóhanna
Vonandi batnar úlfaskottinu fljótt, sendi mína bestu batastrauma, kv. Ma.
ReplyDeleteHæ hæ
ReplyDeleteVaraðu þig á vottunum og haltu þig
við fríkirkjuna,,, allavega kem ég
ekki í heimsókn ef ég á von á
predikun þegar ég opna flösku af
sapporo bjór.
Ég sendi ykkur batakveðjur, það hlýtur
að vera að hægt að fá eitthvað undralyf
gegn þessu í Japan.
Tolli.
Eftir SKELFILEGA nótt (sem ég ræði ekki nánar) virðist Ylfa vera hin hressasta en Iðunn ekki.
ReplyDelete... og pabbi hafðu engar áhyggjur ég ætla ekki að verða votti. Fáðu þér bara bjór þegar þú/þið kemur/komið :D
ReplyDelete