Frente er ekki bara orðskrípi heldur líka nafn á húsi í Nishinomiya. Síðustu tvo daga hefur leið okkar legið þangað, með tvemur lestum og svo tvemur jafnfljótum. Til hvers að leggja þetta ferðalag á sig? Jú til þess að sækja um japönskukennslu fyrir mig.
Nökkvi var stutt í skólanum á þriðjudaginn og hafði lofað að fara með mér í Frente til þess að sækja um, ef vera skildi að þeir væru ekki enskumælandi. Því héldum við stelpurnar okkur nokkuð nálægt heimilinu með smá undantekningu. Það vildi nefninlega svo til að Ylfu var sendur pakki í síðustu viku en við vorum ekki heima. Ég er búin að eyða meira en hálfri vikunni í að reyna að komast að því hvert ég ætti að sækja hann, út frá miðanum sem var skilinn eftir í póstkassanum. Ég fór með hann á pósthúsið sem ég hélt að ég ætti að fara á. Það reyndist vera vitlaust en maðurinn sem afgreiddi mig hjálpaði mér að hringja og biðja um að fá pakkann aftur sendann heim um kvöldið. Einstaklega almennilegt af honum og svínvirkaði, pakkinn er a.m.k. kominn í okkar klær. Allavega! Nökkvi kom heim og við lögðum af stað nánast samstundis. Ég persónulega bjóst við langri lestarferð og flandri en við vorum merkilega fljót að koma okkur frá Kotoen (lestarstöðin okkar) og til Frente. Þegar við vorum svo komin upp á fjórðu hæð í byggingunni var hinsvegar allt lokað og læst. Á miða á hurðinni stóð svo að það væri lokað á þriðjudögum. Ansans vandræði. Við hefðum auðvitað getað sparað okkur ferðalagið ef ég hefði ekki, eins og vanalega, verið svona bráð á mér. Þegar við vorum að rölta til baka á lestarstöðina sá Nökkvi glitta í kunnuglegt skilti í fjarska. Við ákváðum því að rölta þangað og athuga hvort um rétt skilti væri að ræða. Það reyndist vera rétt og við vorum komin mjög nálægt verslunarmiðstöðinni. Ylfu áskotnaðist "Þyrnirós" á japönsku á leiðinni heim og enn ein fingrabrúðan. Iðunni áskotnaði kvef. Við ákváðum að ganga heim frá búðinni til að spara smá aur. Ekki mikið meira um það að segja. Við komum okkur heim í heilu lagi og pakkinn kom á réttum tíma með póstinum.
Í dag var miðvikudagur og Nökkvi lengi í skólanum. Ég hékk heima með stelpurnar fram að hádegi og Ylfa horfði tvisvar sinnum á Þyrnirós í röð. Um eitt leitið ákvað ég hinsvegar að reyna að sækja um japönsku kennslu af sjálfdáðum, ef þau gætu ekki talað ensku myndi ég bara nota leiklistarhæfileikana til að tjá mig. Ég pakkaði stelpunum ofaní kerru og hélt af stað. Það er ekki laust við að ég sé komin úr æfingu með lestirnar því við erum búnar að labba allt síðastliðna daga. Mér fannst ég vera svakalega klunnaleg með þessa stór kerru og óþarflega mikið fólk að nota lestina á sama tíma. Við lifðum þetta alveg af. Við vorum komnar upp í Frente með það sama og upp á fjórðu hæð. Ég held það hafi ekki farið á milli mála að ég hafi verið pínu stressuð þegar ég gekk inn á skrifstofuna. Í að minnsta var konan sem afgreiddi okkur einstaklega vingjarnleg. Hún spjallaði við okkur og kom með "Tomma togvagn" og litríka barnabók fyrir Ylfu. Iðunn sat og maulaði á kexi á meðan ég fyllti út umsóknina. Þetta gekk léttilega fyrir sig og ég er komin á biðlista eftir sjálfboðaliða sem leggur í að kenna mér.
Við notuðum auðvitað tækifærið til að skoða okkur um í húsinu, það er fullt af búðum þarna en samt mjög afslappað andrúmsloft. Mest gamalt fólk eða mömmur sem rölta um gangana. Við versluðum í matinn og Ylfa sofnaði. Iðunn var orðin óróleg svo ég varð að stýra kerruferlíkinu með Iðunni í annari. Ég rétt hafði það inn í lyftuna og upp á þriðju hæð þar sem ég vissi að væri brjóstagjafarherbergi. Ég rúllaði hrjótandi Ylfu inn í herbergið og gaf sársvangri Iðunni að drekka. Það var voða gott að geta sest niður og ég fór að glugga í blöðin sem ég hafði fengið með umsókninni. Þegar ég leit aftur upp var Iðunn sofnuð. Það þýddi auðvitað að Ylfa greyið varð að vakna. Hún var samt búin að sofa nógu lengi og ég gat gabbað hana úr kerrunni með því að hleypa henni í leikhorn sem var fyrir framan brjóstagjafaherbergið. Það voru risa frauð kubbar í leikhorninu sem hittu beint í mark hjá gorminum. Húnn byggði stærðarinnar hús og hafði ógurlega gaman af. Lítill strákur sem gekk framhjá snérist á punktinum og hoppaði inn í leikherbergið. Ógurlega sætur. Byrjaði að kubba brosandi við hliðná Ylfu sem fannst hann vera mjög kúl, því á sokkunum hans var mynd af Ponyo. Þau kubbuðu í dágóða stund, þar til Ylfa var farin að iða og ég hljóp með henni á klósettið. Eftir vænt hraðpiss og handþvott hljóp hún fram til að athuga hvort að vinur hennar væri þarna enn. Sem betur fer var hann ekki farinn en mamma hans var komin og sat hjá. Krakkarnir kubbuðu glöð hlið við hlið en undir lokin voru þau farin að reyna að byggja saman. Það var hryllilega krúttlegt að fylgjast með þeim. Ylfa fékkst varla til þess að fara en lét undan þegar ég benti henni á að pabbi hennar yrði kominn á undan okkur. Krakkarnir kvöddust (mega krúttlegt) og við rúlluðum heim.
Ylfa er ný farin inn að sofa enda merkis dagur á morgun og ég sit hér ein eftir með harðsperrur og óvaskaða diska. Við vitum ekki alveg hvað við gerum á morgun til að fagna afmælinu en ég býst við að það verði aðallega kökuát og pakkar sem heilli afmælisbarnið. Eitt er þó víst, ég mun taka myndir og þær enda líklega hér þegar afmælið er yfirstaðið.
-Jóhanna
Það verður vonandi skemmtilegur afmælisdagurinn hjá ykkur á morgun skilaðu kærri kveðju frá okkur.
ReplyDeleteTolli