Saturday, September 8, 2012

Á fjórum jafnfljótum

Kvöldið áður en Nökkvi fór til Japan ákvað Iðunn að byrja að skríða. Í fyrstu voru þetta alltaf stuttar vegalengdir og þegar við stelpurnar fórum upp í Borgarnes sýndi hún skriðinu samasem engann áhuga, reyndar var hún veik meiri hluta dvalarinnar og þegar hún hafði loksins náð sér vorum við mest á rúntinum með pabba og því lítið um tækifæri til að æfa sig. Núna aftur á móti er sú stutta eins og elding. Að þessu sinni hefur okkur Nökkva tekist að búa til barn sem skríður "venjulega" eða á öllum fjórum. Það getur hinsvegar reynst þrautinni þyngri því hér er dúkur á flest öllum gólfum sem eru óþarflega stamir þegar um sveitt ungabarn er að ræða. Þá hefur hún tekið upp á því að spangóla í hvert skipti sem henni hættir að lítast á blikuna, sest þá á rassinn og vælir "mam-amm-amm". Þetta hljóð er hingað til bara notað í neyð og þegar ég sagði Nökkva að hún væri farin að myndast við að segja mamma sagði hann að þetta væri bara óþjálfað hljóð fyrir "pabbi". Yeah right.
       Iðunn er líka ansi myndarlegt matargat. Mér finnst ég reyndar ekki alveg vera komin með yfirsýn á það hvað þær systurnar eru að borða mikið en það hlýtur að koma bráðum. Ylfa hefur reynt að vera með einhverja stæla og þykist vera gikkur en hún er byrjuð að gefa undan. Iðunn hinsvegar elskar ramen og hrísgrjón. Hún er reyndar svo kröfuhörð að ég er næstum farin að borða afgangana hennar þegar við eigum að deila einni skál. En maður getur varla verið að væla meðan barnið borðar. Svo er hún líka mjög dugleg að drekka vatn og þegar við gleymdum vatnsbrúsanum hennar heima um daginn varð hún alveg ómöguleg og hætti ekki fyrr en hún fékk vatn. Við keyptum bara hálfslítiers flösku og ég hélt að þetta yrði kannski eitthvað vandamál því við vorum ekki með neitt rör en nei, nei hún þambaði bara af stút eins og ekkert væri.
       Hvað kerruna varðar þá er hún á báðum áttum, stundum vill hún ekkert með hana hafa en oftast er henni sama. Held reyndar að hún sé ekki búin að fatta að Ylfa sé fyrir aftan hana. En hún er óneitanlega fyndin þegar hún situr búldurleit með sólhatt og horfir ákveðin á alla sem labba framhjá. Það er spurning hvort er horft meira á hana með sín grá-grænu augu og lubba eða Ylfu sem er eins og einnar konu sirkus aftan á prammanum.
       Enn sem komið er nenna þær systurnar alveg að leika sér saman. Ylfu finnst Iðunn stundum sýna dúkkunum sínum óþarflega mikinn áhuga og á það til að flýja upp í sófa ef henni finnst nóg komið. Ylfu finnst hún nefninlega eiga allt dótið alveg sama þó henni sé sagt á hverjum degi að þær eigi það "saman". Saman hvað?
      Eins og vanalega er Ylfa með allt á hreinu og er búin að tilkynna okkur það nokkrum sinnum að það sé sko pabbi sem svæfi hana en mamma sjái alfarið um Iðunni. Enda kannski ekki neitt skrítið þar sem Iðunn er en mikið brjóstabarn og finnst meira spennandi að hanga með mjólkinni en ekki. Hún hefur tekið upp á því að  koma sér bara að mjólkinni, m.ö.o. troða sér ofan í hálsmál hjá mér eins og ekkert sé og urrar reiðilega ef hún fær ekki sína þjónustu samstundis. Þegar við erum svo heima og hún hefur meira aðgengi að mjólkinni gerir hún tilraunir. Acrobatic nursing hljómar jafn mikið púl og þar er. Púlið er reyndar meira að minni hálfu heldur en hennar í árangurslausum tilraunum til þess að fá hana til að sitja kyrra í smá stund. Allar hennar æfingar í fanginu á mér hafa svo orðið til þess að núna getur hún staðið upp, við hluti að vísu en samt þroski (vúhú). Hún hefur hingað til afrekað að klifra inn á bað (hér er um eitt þrep að ræða) og fest sig hálf upp í sófa, þ.e. með annan fótinn upp í sófanum en hinn á gólfinu. Svo er líka hreint afbragð að standa undir borstofuborðinu en það er erfiðara að setjast niður aftur. Þetta hlýtur allt að koma.
      Hún virðist vera efni í hinn mesta fiktara og þráir að leika sér með öll raftæki hússins, en fær auðvitað ekki. því notar hún tímann frá því að hún vaknar og þangað til annað hvort okkar vaknar til að skríða um og skoða. Henni finnst afbragð að sofa á dýnum á gólfinu, þá er svo auðvelt að koma sér framúr. Við pössum auðvitað að það sé ekkert sem hún má ekki hafa á gólfinu en brátt verður það ekki nóg því í gærmorgun sá ég hana reyna að opna hurðina inn í svefnherbergi. Þegar það tekst held ég að sumir þurfi að fara að sofa í bandi.

- Jóhanna

Og nú MYNDIR!

"Ha hvað segiru?"


Ylfa og peningatöfrar


Iðunn í "litla baðinu" eins og Ylfa kallar það


Iðunn væri alveg til í að leika sér með myndavélina


Þessi mynd er eiginlega bara til sönnunar um að Nökkvi sé enn á lífi


Rugludallur undir dýnu

3 comments:

  1. Halló kæra fjölskylda.
    Skemmtilegar myndir !!!
    Já Iðunn er efnilegur fiktrass
    það er greinilegt.
    Kær kveðja
    Tolli & Ronja.

    ReplyDelete
  2. Haha næs, Iðunn er efni í góðan skæruliða eins og Fannar! Hlakka til að sjá hvernig þau verða saman ;)

    ReplyDelete
  3. Yndislegar systur !! Vá hvað ég sakna ykkar allt í einu gríðarlega...

    ReplyDelete