Monday, September 3, 2012

Kerrudraumar að rætast

Eftir langar stundir á netinu að reyna að komast að því hvar í veröldinni við ættum að kaupa kerru fann ég loksins á netinu búð sem ætti að selja slíka gripi og vera í næsta nágrenni. Því var ákveðið að við Jón og Iðunn myndum fara og athuga hvort að við gætum ekki fengið eins og eina kerru fyrir stelpurnar. Afþví ég var búin að njósna um þetta á netinu var ég með kerru í huga sem gæti svarað þörfum Ylfu og Iðunnar. Græjan lítur svona út.



Áður en við fórum þurftu að vísu bæði Jón og Nökkvi að grandskoða kort af svæðinu svo við myndum ekki týnast en svo lögðum við af stað með það í huga að McDonalds væri í sama húsi og að það væri nú venjulega vel merkt. Þegar við fórum var skýjað og fínt og lestarferðin var mjög góð enda allar lestar loftkældar (thank god!).
Á lestarstöðinni fundum við svo réttan útgang, þökk sé McDonalds merkinu, og röltum af stað í átt að búðinni. Þetta er á svipuðum stað og maður fer í annað moll sem við erum búin að fara áður í (Nishinomiya Gardens). Barnabúðin sem við fórum í var ROSALEGA flott! Mamman í mér tapaði sér hreinlega. Þarf klárlega að fara aðra ferð þangað til þess að skoða. Við fundum kerrurnar og eftir örskamma stund birtist afgreiðslukona. Afþví að maður þarf alltaf að vera með eitthvað vesen bað ég að sjálfsögðu um kerru sem var ekki til inn á lager svo að við fengum að borga fyrir hana og verðum látin vita þegar gripurinn kemur. Aftur átti að fara að skrifa nafnið mitt með katakana en þegar hún sá eftirnafnið mitt sagði hún að það væri nóg fyrir þau að hafa bara fornafnið. Við versluðum smá meira, fórum og keyptum skurðarbretti og eitthvað smáræði í matinn en héldum svo heim.
Nú sitjum við heima og svitnum. Ég hlakka ótrúlega mikið til að fá nýju græjuna mína heim svo ég geti farið út að labba með stelpurnar, er orðin örlítið þreytt á burðarsjalinu því það er eins og að vera í úlpu, hvað þá í þessum hita! Svo er þetta líka svo töff kerra að Ylfa getur valið um að standa eða sitja. Iðunn verður aftur á móti að sætta sig við það að sitja... erfitt líf það. Fatta það reyndar núna þegar ég skrifa þetta að ég spáði ekki í regnplasti á kerruna áðan, e.t.v. er hægt að kaupa svoleiðis þegar fram líða stundir.
-Jóhanna 

1 comment: