Nökkvi fór í skólann í fyrsta skiptið í morgun. Það er að segja eftir að stelpurnar hótuðu að vakna klukkan hálf sex. Ylfa var hálf sofandi að væla í pabba sínum og vakti Iðunni sem var hin hressasta (enda orðið bjart úti) og vildi fara að leika. Mér var hent fyrir úlfana sökum þess að í dag væri fyrsti skóladagurinn og að Nökkvi þyrfti að fara á fætur bráðlega. Svefndrukkin og úfin skreið ég á fætur og á eftir litla barninu sem var að reynda að brjótast út úr svefnherberginu. Þegar fram var komið var Ylfa sofnuð aftur svo við Iðunn fórum bara inn í auka herbergið, þar sem Jón gisti, og dunduðum okkur þar í smá stund. Í miðjum bleyjuskiptunum fór stubburinn svo að geispa svo ég greip tækifærið og óð með hana inn í svefnherbergi og upp í rúm. Örlítill mjólkurdreitill og voilà barnið sofnað, mér til mikillar gleði.
Ekki löngu eftir að við skriðum aftur upp í rúm rúllaði Nökkvi á fætur. Tók dótið sitt til og lallaði út með ruslapoka í annari en skóladót í hinni. Vona hann hafi ekki farið með ruslið upp í skóla. Stelpurnar ákváðu að sjálfsögðu að nú væri þeirra tími til að skína og hoppuðu (aftur) framúr. Á meðan að ég gerði tilraun til þess að vakna horfði Ylfa á teiknimynd og talaði við sjálfa sig, hefur nægan félagskap af sjálfri sér. Eftir að hafa fóðrað börnin og baðað Iðunni var kominn tími til að fara að gera eitthvað. Ég náði að gera mig til og dróg svo stelpurnar með mér út. Við áttum nefninlega stefnumót við 100 yen-a búðina.
Okkur til mikillar armæðu vilja nánast engir hraðbankar kortin okkar, ófétin atarna, en það er einn upp í skóla sem er okkur hliðhollur. Ég hef auðvitað ekkert erindi upp í skóla svo þar af leiðandi er Nökkvi sá sem hefur peningavöld í augnablikinu. Ég var hinsvegar búin að næla mér í allt klink í íbúðinni og búin að skrifa niður hvað mig vantaði úr búðinni - clever girl. Búðarferðin var gekk eins og í sögu og við komumst fram og til baka án nokkura skakkafalla. Stelpurnar léku sér smá og löggðu sig svo, Iðunn vildi bara sína mjólk en Ylfa lá tuðandi við hliðiná okkur þar til hún sofnaði. Nú bíðum við eftir því að Nökkvi fari að koma heim.
Samkvæmt planinu átti Nökkvi að fara í stöðupróf í dag til þess að sjá á hvaða stigi hann væri í málnotkun og þessháttar. Hann átti líka að hitta japönsku-félaga sína, þ.e.a.s. tvo japanska krakka sem eiga að hjálpa honum að aðlagast. Hann ætlar að sjálfsögðu að gefa þeim lakkrís (því japanir þola yfirleitt ekki lakkrís og eru of kurteisir til þess að afþakka), pakka af póstkortum með ljósmydum eftir pabba og símaskraut með íslenskum brag (eitthvað frá Sólarfilmu). Vona að þetta gangi bara vel fyrir sig. Hver veit nema hann skrifi eitthvað sjálfur eftir daginn, það á alveg eftir að virkja hann í þessu bloggi.
-Jóhanna
Hæ hæ.
ReplyDeleteTakk fyrir, ekki slæmt að fá auglýsingu
í Japan.
Væruð þið til í að skipta á einhverju af
þessum hita og norðanhretinu okkar ?
Það er ss ekki að virka að senda sms til ykkar,
kemst greinilega ekki í gegn.
Hafið það sem best.
Kær kveðja
Tolli
www.hvitatravel.is/borgarnes-today