Friday, September 21, 2012

Friend, I come visit you?

Nú er föstudagskvöld hjá okkur. Ylfa er komin inn í rúm en ekki alveg sofnuð enn. Nökkvi var að stökkva inn í herbergi til hennar því eins og hún orðaði það "þá ætlar pabbi að svæfa mig - EKKI þú!" Hún er hress. Fínt fyrir mig, þá fæ ég ró og næði til að blogga.
    Nökkvi er búinn að vera í "alvöru" skóla í tvo daga og líka það mjög vel. Hann er reyndar ekki búinn fyrr en 18:20 á fimmtudögum en við hljótum að lifa það af. Honum finnst frábært að skilja bara helminginn af því sem fólk er að segja því það þýðir að hann hefur tækifæri til þess að læra fullt af nýjum orðum. Greinilegt að sumir eru með Pollýönu-heilkennið. Hann kíkti við í svona manga-klúbb sem er í skólanum og spjallaði við nokkra. Svo teiknaði hann mynd og liðið varð alveg kjaftstopp (ég gæti verið að ýkja smá en ef hann getur ekki sagt frá því sjálfur...).
     Á sama tíma hinumegin í bænum: Við stelpurnar tóku massífan innkaupadag í gær. Kaupa afmælisgjafir, bleyjur, barnamat og annan mat. Til þess að geta keypt stóran/ódýran bleyjupakka fórum við upp í ACTA sem er gamla mollið hjá lestarstöðinni. Stelpurnar ákváðu að leggja sig ekki áður en við fórum sem endaði á þvi að Ylfa var ekki skemmtileg á leiðinni en Iðunn sofnaði um leið og kerran rúllaði af stað. Til að gera söguna sem stysta þá fékk ég allt sem ég ætlaði að kaupa + anstyggilegt moskítóbit + harðsperrur. Við komum inn um dyrnar heima algerlega örmagna og rétt náðum að taka upp úr pokunum áður en við hrundum allar upp í rúm í smá tíma. Sváfum samt ekki, lágum bara og Iðunn sofnaði aftur. Grey skottið er að taka svo margar tennur í einu að það má ekkert út af bera. Hún var sérstaklega slæm í gær svo að búðarferðin var hin mersta kvöð fyrir hana. Við elduðum og borðuðum. Nökkvi skilaði sér heim og svo svæfðum við stelpurnar.
      Í nótt ákvað Iðunn að hún væri búin að sofa nóg. Guð má vita hvað klukkan var en það var enn dimmt úti þegar hún byrjaði að tralla. Pabbi hennar svaf þetta af sér blessaður og ákvað að þegar Ylfa byrjaði að rumska um sjö leitið að ég ætti að fara fram úr til þess að sinna henni og leifa honum að sofa aðeins lengur. Ég urraði á hann að ég hefði ekki fengið beint að sofa í nótt en skrönglaðist samt á fætur. Nökkvi fór og Iðunn fór að verða syfjuð aftur svo ég setti teiknimynd á fyrir Ylfu og skreið aftur upp í rúm. Ylfa sat eins og límd við skjáinn og þegar myndin hennar var búin vaknaði Iðunn og Ylfa lagði sig. Þegar ég var svo að vekja Ylfu til að fara út sofnaði Iðunn. Það mætti halda að við værum haldin drómasýki. Þegar litla barnið vaknaði svo dreif ég okkur út áður en einhver annar myndi sofna. Við sáum nefninlega róluvöll í gær sem átti alveg eftir að prófa. Þegar við komum þangað fréttist það að Nökkvi væri á heimleið svo við flýttum okkur að senda honum skilaboð um að koma til okkar. Ylfa skemmti sér vel, varð yfir sig ástfangin af ruggu-pöndu sem var á leikvellinum. Svo erum við bara búin að hafa það náðugt.
     Ég ætlaði að setja inn myndir en sökum þess að ég finn ekki snúruna í myndavélina verður það að bíða.
Ég er næstum því að gleyma að segja frá óhugnarlega vingjarnlega manninum sem stoppaði okkur á heimleiðinni. Vissum varla hvað var í gangi. Við vorum sem sagt að rölta heim þegar að skindilega vindur sér að okkur maður og byrjar að tala. Hann segir "I'm friend. My name is [Eitthvað nafn] and I live in that yellow, orange house. You come visit us. I am from Taiwan. My wife she also live there." Svo kom konan hans sem var fór líka að tala við okkur á svipuðum nótum "Friend. My name is [þetta var of absurd til að muna það] I am raised in japan. You come visit us for lunch or coffee. How much, how old (benti á Iðunni). 7 - 8 months? I'm midwife. She stand up yet? You come visit us or we can come visit you" Við stóðum þarna eins og skötur og Nökkvi svaraði hinu og þessu. "Where you from? You all so beautiful (why thank you stranger). Ok, you have my number. You call me. Ok, bye." Eftir stóðum við eins og álfar út úr hól. Nökkvi fór að rýna í textann á blaðinu sem maðurinn hafði rétt honum og ef hann skildi þetta rétt þá vorum við að tala við einhverja trúboða. Það var a.m.k. minnst á biblíu eða eitthvað í þá áttina. Höldum við. Vona þetta þýði að mér sé samt óhætt að nota róluvöllinn, hann er of awesome. Ég neyðist þá bara til að ræða trúarleg málefni á meðan barnið leikur sér.

-Jóhanna

p.s. Moskítóflugur ættu allar að vera með ofnæmi fyrir íslendingum, sérstaklega mér. Það er ekkert gaman að vera gómsæt.

3 comments:

  1. Hæhæ, var að búa til google+ account - knús á ykkur :) kv. Mútta

    ReplyDelete
  2. Haha, ruggu-panda, engir gamaldags rugguhestar. Gaman að heyra frá ykkur og sjá ykkur. Kv. Nanna og Gerður

    ReplyDelete
    Replies
    1. Ruggu-panda, ruggu-fíll og ruggu-kóala en það er fyrir lengra komna! Hann stendur í sólinni mest allan daginn og er sjúklega heitur (kóalabjörninn)

      Delete