Thursday, September 13, 2012

Tímabelti húsmóðurinnar

Nú er fimmti dagurinn sem Nökkvi fer í skólann og við stelpurnar verðum eftir heima. Á þessum dögum höfum við brallað hitt og þetta en aðallega heimilisstörf. Því þau eru svo "skemmtileg" (lesist: nauðsynleg). Hér eru rusladagar á þriðjudögum og föstudögum, fyrir brennanlegt rusl og á mánudögum eru flöskurnar teknar. Þessu fylgir að maður verður að vera búinn að koma pokunum út fyrir klukkan átta á réttum dögum. Mér finnst mjög handy að Nökkvi skuli vera kominn á fætur á þessum tíma því eins og er hefur hann alltaf kippt þessu með sér í leiðinni. Yay Nökkvi. Ég reyni að vera búin með húsverkin (hengja út fútonana/rúmin, þvo 1 - 2 vélar, sópa/skúra, vaska upp o.s.fv.) fyrir hádegi því þá getum við notað eftirmiðdaginn í eitthvað skemmtilegra eins og matarinnkaup eða almennt bráðn.
           Það er ennþá "alltof" heitt fyrir okkur selina. Mér var litið í spegil um daginn þegar ég var nýbúin að vera úti og varð skelfingu lostin því ég var rauðari en rauðasti tómatur (takk föla húð). Það skánaði þó snarlega þar sem loftkælingin í búðunum er frekar næs og kældi mig aftur niður í rétt hitastig. Engin furða að fólk horfi á mann.
         Það tók mig ekki langan tíma að komast að því að fólkið sem maður hittir út á götu skiptist í nokkra hópa. Um 9 leitið er gamalt fólk úti á götu, hjólandi ömmur eru snilld og alveg mega fyndnar þar sem þær hittast í skugganum og chilla með hinum hjólandi ömmunum. Geggjuð klíka. Um og upp úr hádegi birtast mömmurnar. Annað hvort hjólandi með börn framan og aftanáhjólunum (mega jafnvægisæfing) eða þá röltandi með einn krakka í kerru og annan í burðarpoka. Þær reka oftast upp stór augu þegar við löbbum framhjá á limmósínu kerrunni okkar. "Eeeh! Sugoi bebikaa!" = "Eeh! Amazing stroller". Ef við hefðum keypt okkur einfalda kerru hefðum við lookað miklu meira eins og innfæddir. Maður getur ekki alltaf unnið.
      Upp úr klukkan fjögur kemur svo allt skólafólkið. Verslunarmiðstöðin ( Nishinomiya Gardens) var troðfullt í gær af nemum þegar við fengum okkur kvöldmat. Svo hef ég litla vitneskju um kvöldmenninguna en mér finnst alltaf einhver vera á stjá.
      Við stelpurnar féllum beint í tímabelti húsmæðranna (hence nafnið á færslu dagsins) sem er ágætt en á sama tíma mjög fyndið því það var svo sem enginn búinn að plana þetta neitt sérstaklega. Við eigum því mikla möguleika á því að hitta mæður með börnin sín út á róló, sem er gott. Það er auðvitað alveg suddalega mikið af fólki hérna og því eins og það sé alltaf einhver úti. Mér finnst ég persónulega sjá mjög mikið af heimavinnandi húsmæðrum en það er e.t.v. afþví að ég er enn stíluð inn á íslenskan standard þar sem heimavinnandi húsmæður þurfa ekki endilega að vera með börnin sín með sér allan daginn, hér telst leikskóli vera munaður (say what?!). Ég er persónulega á móti því, ekki bara útaf eigin þægindum, vegna þess að börn hafa svo gott af því að vera í kringum önnur börn. Við stefnum enn að því að reyna að koma Ylfu inn einhverstaðar. Annars semur okkur mæðgum vel eins og stendur. Fyrstu dagarnir voru erfiðir, fyrir alla, því tímamunurinn var svo mikill, ferðalagið langt og umhverfið ókunnugt og framandi. Dagarnir fóru í það að skipta um föt á Ylfu og moppa eftir "slys". Hún er núna búin að taka sig á og er dugleg að fara á klósettið. Auðvitað gerðist það ekki alveg af sjálfum sér, við mútuðum henni. Þegar hún er búið með blaðið sitt (merkt í hvert skipti sem hún fer á klósettið) má hún fara og kaupa sér tvær fingrabrúður (kosta 200 yen). Hún var búin að eignast 6 stk. áður en samningaviðræður fóru fram og er staðráðin í að safna öllum sem eru í boði. Það er reyndar mjög gaman að versla í búðinni sem selur brúðurnar svo þetta er mikið tilhlökkunarefni fyrir alla. Næst ætlar Ylfa að kaupa Totoro og Pazu, s.s. persónur úr Ghibli myndum.
      Annars er það búið að taka mig tvo daga að klára þessa færslu, hún er sennilega frekar sundur slitin. Ég verð bara að lifa með því.

-Jóhanna

2 comments:

  1. Halló kæra fjölskylda..
    Fær maður meiri bollukinnar af að borða ramen og hrísgrjón :)
    Eru þetta: http://www.cartoonbrew.com/wp-content/uploads/184470.jpg
    teiknimyndahetjurnar hennar Ylfu ?
    Kkv
    Tolli.

    ReplyDelete
  2. Já það passar. Totoro er reynar sérstaklega við hæfi þar sem hún fjallar um systur sem minna stundum óneitanlega á Ylfu og Iðunni. Mæli með Ghibli myndunum, fást allar í Nexus á Hverfisgötunni.

    ReplyDelete