Oj það er aftur orðið alltof heitt. Sem íslendingur ætti að vera ólöglegt að væla yfir of miklum hita en ég geri það samt. Á föstudaginn var rigningalegt allan daginn svo við stelpurnar fórum ekkert út en höfðum í staðinn alla glugga opna og nutum þess að fá smá "ekki jafn heitann" gust inn í húsið. Svo komu þrumur og eldingar seinni partinn. Ylfu fannst það spennandi og var ekki vitund hrædd heldur lék hljóðin eftir, samkvæmt hennar hugmyndum segja þrumur "bomm". Nökkvi hinsvegar fór út úr húsi og í skólaferð með hinum skiptinemunum. Þar sem þetta var ekki venjulegur skóladagur tók hann ekki töskuna með sér hvað þá heldur regnhlífina sína sem hékk utan á töskunni. Ylfa ætlaði ekki að komast yfir það að aumingja pabbi væri úti í þrumuveðri með enga regnhlíf. Hún tuðaði um þetta í þó nokkra stund, nógu lengi a.m.k. til þess að sagan fór að breytast. Allt í einu var það ekki regnhlíf sem var í töskunni heldur regnbogi og eins og allir vita er ómögulegt að vera úti í rigningu regnbogalaus. Hún hafði hinsvegar gleymt þessu öllu þegar Nökkvi kom heim og hljóp, eins og vanalega, upp um hálsinn á honum um leið og hún sá hann. Viti menn, heill á húfi þrátt fyrir regnbogaleysið.
Nökkvi neitaði að vera túristalegur með stóru myndavélina okkar svo hann hafði lítið til að sýna okkur þegar hann kom heim en sagði okkur þess í stað hvað hefði drifið á dag(a) hans. Þeim var troðið í rútu, eins og vill vera í hópferðum, keyrð í hof í Nara sem heitir Houryuji sem hýsir elstu viðarstyttur í heimi. Eftir það fengu þau að borða. Nökkvi og Jón höfðu ekki mikið um matinn að segja, sögðu að það hefði verið helst til lítið af hverju en matur er matur. Nestið snæddu þau í garði sem er upp fullur af dádýrum. Jeij Bambi! Dádýr eru auðvitað sjúklega sæt og þarna var hægt að kaupa mat handa þeim svo Nökkvi splæsti í skammt. Þá breyttist litli ljúfi bambi í uppáþrengjandi freka dúfu sem hætti ekki fyrr en allt var búið. Sem sagt mjög aggressíf dýr í viðurvist matar. Eftir dádýraárásina fóru þau í annað hof, sem var líka fullt af dádýrum ... því þau eru svo sæt. Hofið heitir Todaiji og þar er að finna rosalega stóra Buddah styttu. Þar var risa súla með gati í gegnum og það er mikið heillatákn ef maður getur skriðið í gegnum gatið. Nökkvi og Jón tróðu sér í gegn. Eftir því sem Nökkvi segir var fullt af fólki að reyna að fara í gegn en gatið var bæði lítið og neðarlega svo þetta var of erfitt fyrir marga. Útlendingarnir voru að sjálfsögðu hvattir til dáða af heimafólki sem horfði spennt á eftir þeim í gegnum lukku-súluna. Ferðinni lauk svo með því að strákarnir sáu dádýr fá bóner (Nökkva finnst mikilvægt að þetta fylgi með, let it be known). Svo var liðinu smalað í rútuna og allir sendir heim. Nökkvi var hálfpartinn skammaður fyrir að vera að læra í skemmtiferðinni, hann er svo mikið rebel!
Í gær var laugardagur og Ylfa búin að klára spjaldið sitt (aka. klósettþjálfunarblaðið) svo við trítluðum upp í Nishinomiya Gardens til að ljúka málinu og kaupa fingrabrúðurnar. Það var alltof heitt og við vorum við það að bráðna þegar okkur var skyndilega bjargað af vindinum, svo kom svart rigningaský og bara með eina regnhlíf. Ylfu fannst svakalega gaman að fá að nota loksins regnhlífina jafnvel þó það kæmi ekki meira en tveir, þrír dropar úr loftinu. Við vorum snögg að koma okkur inn í verslunarmiðstöðina, það varð ekkert úr rigningunni en skýjin héldu áfram að ygla sig fram eftir degi. Við fórum í raftækjabúð þar sem Nökkvi demdi sér á kaf í tölvuhugleiðingar en við stelpurnar soguðumst inn í dótadeildina. Ég var búin að vera að spá í því afhverju ég sæji hvergi leikfangabúðir en þær virðast vera geymdar þarna. Og ó boy hvað það er mikill háfaði. Það er kveikt á bókstaflega öllu dóti sem er með batterýum í, auglýsinga skjáir fyrir allt annað sem ekki getur gefið frá sér hljóð af sjálfdáðum og organdi börn þar inn á milli að reyna að suða sér út eitthvað glingur. Ylfa fékk púsluspil og fyrirmæli um að halda fast í mömmu eða vagninn því það var ekki fræðilegur möguleiki á að heyra í henni fyrir háfaðanum. Nökkvi keypti sér líka dót, tölvuspil eins og gamla fólkið myndi segja. Svo voru klósett-verðlaunin keypt og að lokum smá nasl. Stelpurnar eru alveg búnar að uppgötva melónubrauð (s.s. sætabrauð) og splittuðu einu slíku á milli sín en við Nökkvi borðuðum eitthvað allt annað, mun dularfyllri djúpsteiktann fisk (höldum við) sem smakkaðist guðdómlega. Við kíktum í aðeins fleirri búðir og fórum svo heim.
Í dag hafði ég kvartað nógu mikið til þess að Nökkvi aumkaði sig yfir mig og leifði mér að kaupa sléttujárn, jibbý! Hárið á mér er búið að vera óviðráðanlegt með meiru út af öllum rakanum - á tímabili leit ég út fyrir að hafa orðið fyrir raflosti. Ég er ekki enn búin að prufa gripinn enda lítið annað búin að gera í dag en að koma okkur heim aftur úr mollinu og elda. Iðunn er að taka þriðju tönnina (framtönn neðri góm) og nennir engan veginn að sitja í kerrunni mjög lengi, vill líka eiginlega ekki borða en er samt rosa svöng sem leiðir af sér endalausa brjóstagjöf. Hún verður hin fúlasta ef hún vær ekki þjónustu samstundis og var því heldur fúl áðan þegar við vorum að reyna að borða kvöldmatinn. Við kunnum sem betur fer aðeins inn á hana og gátum blíðkað hana við með baðferð þar sem hún sat og malaði við sjálfa sig og nagaði kranann.
Núna eru stelpurnar hinsvegar sofnaðar og liggja í hrúgu inn á rúmi. Undursamlega hljótt, bara kribbur og blóðug slagsmál í tölvunni hans Nökkva. Lovely.
-Jóhanna
No comments:
Post a Comment