Í dag erum við búnar að hanga inni, það er rigning úti og því ekki margt annað í boði en að hanga inni. Til þess að gera inniveruna enn skemmtilegri þá er maturinn um það bil að verða búinn og einhver (sennilega Nökkvi) neyðist til þess að fara út í búð og versla.
Í gær hinsvegar var ekki ringing. Við Ylfa skelltum okkur meira að segja út og skildum Nökkva og Iðunni eftir heima. Fyrst fórum við á róluvöll sem er hérna rétt hjá og Ylfa rólaði eins og enginn væri morgundagurinn. Við hittum mæðgur og Ylfa rólaði aðeins með stelpunni en nennti því svo ekki lengur og fór öfuga leið upp í rennibrautina, s.s. klifraði upp rennuna og labbaði niður stigann. Eftir að hafa leikið þetta eftir svona fjórum sinnum fórum við af rólónum og upp í 100 yena búðina sem er hjá lestarstöðinni. Keyptum okkur hitt og þetta, þar á meðal forláta kælitösku undir flöskur sem lítur út eins og Mikki mús. Við stoppuðum í lítilli búð á leiðinni því mig grunaði að þeir seldu steikarspaða eins og pabbi var nýbúinn að glata. Krúttlegasta búð en ég ætlaði að fá hjartaáfall þegar feitt og pattaralegt fiðrildi lenti á mér inn í búðinni. Ég skækti, inní mér, og ýtti Ylfu áfram út ganginn þar til við vorum öruggar fyrir vængjaða óvininum. Fiðrildi eru bara fjarskafalleg og ættu ekki að setjast á fólk! Sérstaklega þegar þau (fiðrildin) eru á stærð við ketti. Við gátum ekki farið tómhentar út úr búðinni, hvað þá eftir að ég hafði tekið stuðmanna-hopp út úr ganginum (yfirvegaður flótti undan fiðrildi verður aldrei jafn svalur). Ylfa fékk því að velja sér einn lítinn mola úr nammihillunni og heimtaði að fá að borga sjálf. Eigendur búðarinnar voru miðaldra hjón sem brostu sínu blíðasta þegar Ylfa (mjög ákveðin á svip) arkaði upp að borðinu með peninginn í annari og nammið í hinni. Maðurinn bauð okkur góðann daginn á ensku og fór svo að forvitnast hvaðan við værum, á japönsku að sjálfsögðu. Þegar ég loksins skildi hvað hann átti við var hann búinn að giska að við værum frakkar eða bandaríkjamenn. Ég sagði að við værum frá Íslandi og þeim fannst það voða merkilegt. Hann sagði að það væri ansi langt í burtu (svo mikið er víst). Konan hans var alveg að fara yfirum útaf Ylfu sem horfði brúnaþung á nammihilluna, hefði verið til í að fá meira en bara einn mola. Þegar hún var búin að segja í þriðja skiptið að Ylfa væri "kawaii" heyrðum við umgang fyrir innan búðarkassann. Fram kom eldri kona, sem ég gerði eiginlega bara ráð fyrir að væri mamma annarshvors þeirra. Heyrði að hún sagði "bíddu,bíddu mig langar að sjá". Þegar hún sá Ylfu, sem að þessu sinni var klædd í rauðan blómakjól með heklaðann hatt á hausnum, skríkti hún og upphófust miklar samræður milli kassadömunnar, gömlu konunnar og Ylfu, sem gerði mest lítið annað en að brosa og toga í kjólinn sinn. Mesta afrekið fannst mér þó að ég skildi hafa skilið hvað þau sögðu og útskírt fyrir þeim að við værum hérna því að maðurinn minn væri að læra japönsku en að ég skildi ekki svo mikið. Þau voru mjög kvetjandi og sögðu að mér væri nú bara alveg að takast að gera mig skiljanlega (vúhú!). Við þökkuðum fyrir okkur og Ylfa veifaði til þegar við loksins gátum slitið okkur lausar. Um leið og við gengum út hringdi Nökkvi og tjáði mér að yngra barnið væri mjólkurþurfi svo að við þyrftum að fara að koma okkur. Við stukkum inní matvöruverslun og keyptum kvöldmatinn og flýttum okkur heim. Iðunn fékk að drekka svo gekk kvöldið nokkuð venjulega fyrir sig. Heyrðum í Ásdísi á skype og systurnar léku á alls oddi fyrir ömmu sína og Bjarna sem rétt sást. Stelpunum var potað í bælið og við Nökkvi hengum í tölvunni þar til við þurfum að fara að sofa.
Einhverstaðar í öllu vídeóglápinu tókst mér að fá annaðhvort ofnæmi fyrir einhverju eða stinga mig á einhverju, who knows, og vörin á mér fór að vera eitthvað hálf skrítin. Þegar ég leit í spegilinn var efrivörin orðin bólgin og aum öðru megin. Nákvæmlega engin simmetría í svona löguðu, ég er ekki að fíla'ða. Nökkvi stakk upp á köldum bakstri og nægum svefni. Þegar ég vaknaði í morgun voru herlegheitin orðin miklu ljótari og ég fann fyrir þessu upp að auga. Ég varð auðvitað pirraðari en allt svo Nökkvi og stelpurnar þurftu að díla við úrillan skógarbjörn í morgunsárið. Nökkvi fór í skólann og ég hófst handa við að kæla bólguna og drekka vatn. Stelpurnar höguðu sér svosem en ég vissi ekki hvert ég ætti að fara þegar ég hafði rétt lokað augunum og það var pikkað í öxlina á mér. Ég opnaði augun og sá þar sigri hrósandi Iðunni sem hafði klifrað upp í sófann. Núna er hún búin að klifra upp í sófa að minnsta kosti fimm sinnum í dag, þetta lofar ekki góðu ég hef aldrei átt svona klifurbarn. Eftir marga kalda bakstra, bólgueyðandi og fullt af vatni er bólgan að fara. Þetta ruglaða lið sem er að fá sér fyllingu í varirnar er eitthvað ruglað, mér leið eins og ég væri með andagogg og hef hugsað mér að endurtaka þetta look ekki aftur.
-Jóhanna
Hæ hæ.
ReplyDeleteÞað hefur nú verið leikið áður af ungum snótum
að setja upp hvolpaaugu í búðum :)
Jebb enda er þetta aðferð sem hefur sýnt fram á góðan árangur :P
DeleteHaha velkomin í klifurbarnahópinn!
ReplyDelete