Í dag fórum við í smá túristaleik og skelltum okkur til Itami sem er staður sem Nökkvi fór á í gær og sá í leiðinni karíókí-stað sem honum langaði að prófa, því þó maður noti sömu keðjuna/fyrirtækið eru þeir misdýrir eftir staðsetningu. Svo við fórum og hoppuðum upp í lest, svo aðra og svo eina í viðbót. Þegar við komum inn í síðustu lestina vissum við ekki hvert við ættum að horfa því það snéru sér allir við í lestinni til að horfa á okkur. Svo byrjaði kórinn: "kawii - kawaii - kawaii". Fólk reyndi eins og það gat að sjá framan í Ylfu og svo breyttist kórinn: "you are cute - you are cute - you are cute" með svaðalegum japönskum hreim ( ju aru kjut ).
Það er sennilega ekki mikið um túrista á þessum stað þar sem hann er svolítið út úr leið. Við skoðuðum okkur aðeins um og fórum svo í karíókí. Það var svosem allt í lagi, við vorum auðvitað bara tvö með stelpurnar svo þetta var ekkert partý. En samt gaman að komast út og sjá sig um. Iðunn sofnaði og Ylfa var hin orkumesta. Við sungum lög með henni og fyrir hana úr teiknimyndum sem hún er búin að vera að horfa á. Þemalögin úr Ponyo / Ponyo on the cliff by the sea og Totoro / My neighbor Totoro. Hún var snögg að komast upp á lagið og vildi syngja lögin aftur og aftur. Þegar tíminn okkar var búinn var farið að rökkva úti. Ég fattaði að við værum búin að missa af skype stefnumótinu okkar við mömmu og pabba (dem) og fríkaði pínu út. Við róuðum taugarnar (mínar) yfir skyndibita frá McDonald's og héldum svo heim á leið.
Í síðustu lestinni stóð fólk við hliðiná okkur með lítið barn. Pabbinn var mikið að reyna að spjalla við Ylfu sem var að farast úr svefngalsa og feimni. Það er óhætt að segja að það sé spes blanda. Nökkvi spurði hvað barnið þeirra væri gamalt og fór aðeins að spjalla við parið. Það stóð þó bara stutt yfir því að við þurftum að fara út tvemur stoppum seinna.
Við komum heim og töluðum við fullt af fólki (Pétur, Signý, Fannar, Ásdísi og Bjarna) og svo fóru stelpurnar að sofa. Ekki halda þó að ævintýrið sé búið. Stuttu eftir að við kveiktum ljósið frammi, eftir að Ylfa sofnaði, komst ég í kynni við kakkalakka. Ég fríkaði út og Nökkvi bjargaði mér. Ég hefði tekið myndir en ég gat bara ómögulega hreyft mig. Mitt helsta sönnunargagn fyrir þessu er örið á sálinni og facebook statusinn sem fylgdi herlegheitunum.
Ég varð að stoppa í miðju bloggi því að Iðunn var að vakna. Núna er mánudagsmorgun og við erum að fara að reyna að ná sambandi við pabba og mömmu. Hér í lokin eru svo myndir frá því í gær.
-Jóhanna
Við hefðum tekið myndir en höfðum engan kubb - sönnunargagnið er astraltertugubb (lesist: kakkalakkagubb) hehehe kv Mútta
ReplyDeleteSvona eru útlönd,,,
ReplyDeletefiðrildi á stærð við ketti,
og ógnvekjandi kakkalakkar.
Betra að vera bara heima á Fróni.
Kkv
pabbi